Líf í fangi

Líf í fangi

Við erum í elskufangi í öllum lífsaðstæðum. Allt í heimi er ljósbrot Guðsljóssins. Í skírn færum við börn í fang Guðs. Ef ég - við - getum upplifað hamingju þegar nýburi er í fangi hlýtur sú kvika, ofurnæmi, sem við köllum Guð, að geta upplifað ótrúlega hamingju þegar við færum Guði börnin okkar. Nýársprédikun í Neskirkju.

Þegar átta dagar voru liðnir, skyldi umskera hann, og var hann látinn heita Jesús, eins og engillinn nefndi hann, áður en hann var getinn í móðurlífi. Lúk 2:21

Tvær álfkonur voru á ferð, laumuðu sér í bæ og komu að vöggu þar sem hvítvoðungur var. Þær ætluðu að stela barninu og fara með það í eigin heima. Önnur álfkonan varaði við og sagði:

Ekki má, ekki, má. Kross er undir og ofaná.

Tvævetlingur situr hjá og segir frá.

Þær hættu við. Nýja árið er hvítvoðungur. Hvítvoðungur er sem nýtt ár. Hvort tveggja þarf að krossa til að enginn steli og trylli, heldur nái þroska og verði það sem verða má.

Nýtt líf í fangi

Texti nýársdags er hnitmiðaður. Jesús fékk nafn og svo var hann, eins og allir Gyðingadrengir líka umskorinn á áttunda degi frá fæðingu. Drengir hafa í þúsundir ára velt vöngum yfir hversu þjáningarfull umskurnin hafi verið. Tveir strákar voru eitt sinn að ræða málin. Annar, sem var óumskorinn, spurði umskorinn gyðingastrák hvort honum hefði ekki fundist það vont að vera umskorinn. Jú hann hélt það nú. “Það var svo sárt, að ég gat ekki gengið í heilt ár eftir!”

Viðburður ársins

Hvað var það merkilegasta sem þú upplifðir á árinu, sem er liðið? Á hverju ári geysast inn í þig tilfinningaskot og springa stundum með látum og jafnvel ljósagangi. Þú verður fyrir reynslu í djúpum sjálfsins, af fólki, atburðum, náttúru og hlutum. Kannski hefur þú heimsótt stað eða fólk, sem hafði áhrif. Varðstu fyrir óvæntri reynslu, sem vakti nýjar kenndir eða reif ofan af gömlum sárum. Kannski náðir þú árangri í einhverju, sem þú hefur sýslað við.

Ef þú varðst fyrir missi var rifið í sál þína. Er eitthvað á árinu, sem hefur gildi, eitthvað sem hefur snortið þig í djúpum persónu þinnar, náð að strjúka strengina hið innra, magna lífssönginn og leyft þér þetta sem heitir svo fallega að upplifa, lifa upp. Með allt reynsluhafið mætum við áramótum og megum gjarnan leyfa okkur að gera upp til að við verðum fær að opna og mæta viðburðum og tækifærum hins nýja árs möguleikanna. Leyfum okkur að verða hvítvoðungar, fæðast til nýs tíma.

Barn í fangi

Liðið ár var í lífi mínu og minna þrungið tilfinningum. Sterkasta reynslan var á skurðstofu fæðingardeildar Landspítalans. Kona mín var skorin og inn í kvið hennar seildist læknir og dró upp lítinn dreng og síðan annan mínútu síðar. Þeir hrinu báðir og gleðióp gullu frá öllum á skurðstofunni. Sýn lifandi drengja magnaði straum í öllum taugum. Svo var komið með annan guttann til að leggja í fang móðurinnar, en þá kom að hinu óvænta. Vegna handadofa treysti mamman sér ekki til taka við strák og hún bað um að hann yrði settur í fangið á pabbanum óviðbúna. Það var ólýsanleg reynsla að fá hið unga líf í fangið svo óvænt. Tárin streymdu, varnarlaust líf smádrengsins kallaði fram elsku. Í bland við hraðrannsókn á hvort sköpulagið væri eðlilegt flugu lífsóskirnar: “Guð minn góður gefi þér líf - allt sem þú þarft til að lifa.” Þetta var ofurreynsla, dýptarlifun mennskunnar.

Í fanginu lítill kroppur og með alla þrá heimsins og lífsvon í augum. Ekkert er hreinna, meira seiðandi og ögrandi í lífinu. Ekkert rífur betur í vanann og hvetur til dáða en nýburi sem á allt undir elskunni í foreldrum og frændgarði, á aðeins lífið og hamingju í vændum ef ég, við bregðumst vel við. Skyldi vera í svona reynslu eitthvað guðlegt, einhver krossaður hvítvoðungur?

Nýtt ár

Nýtt ártal sem við þurfum að læra að skrifa, æfa okkur í staðreyndinni að árið er liðið í tímasafnið, þetta sem kallað er aldanna skaut í sálminum, og kemur aldrei til baka. Það er vottur af hryllingi í þeim upplýsingum, aldrei til baka, ávallt og ævinlega farið, ekki hægt að bæta með beinum hætti það sem mistókst og fór aflaga. Beygur fer um huga, líka sorg vegna þeirra sem voru slitin frá okkur og vegna hins, sem við gátum ekki eða gerðum ekki.

Stundum erum við óviðbúin nýjung og viljum ekki opna. En nýtt ár er vonarbarn, sem skellt er í fang okkar. Það er ómótað og á sín spyrjandi barnsaugu. Hvað viltu gera með mig? Hvað viltu verða á árinu? Hvað viltu upplifa? Við erum flest seigt íhald, höldum fast í erfðir, viljum ógjarnan verða eitthvað nýtt og óvænt, alls ekki missa heilsu, vinnu, forréttindi, hárið eða lífsmynstrið. Bara kíló og sorgir mega fara. En svo kemur hið nýja ár, sem knippi hins mögulega.

Guðspjallstexti nýársdags

Áttidagur jóla heitir dagurinn í dag. Vika er liðin frá aðfangadegi og fellur saman við áramót. Guðspjallstexti nýársdags er stuttur og framhald á jólasögunni. Nýburinn í Betlehem er umskorinn í samræmi við hefðina. Blóð rann við upphafssögu hans og rímar við blóðfórn við lífslok. Endir er í upphafinu og öfugt, sem táknskynugir nema.

Svo er hann nefndur Jesús, sem þýðir að Guð frelsar. Hann bar þegar í nafninu skilgreiningu hlutverks síns. Kristsnafnið, hinn smurði, er síðari viðbót og tekur til vonarspádóma um lausnarkonunginn sem muni frelsa.

Gyðingar tengdu saman umskurn og nafngjöf. Það var ungbarnaritúal. Umskurnin var ekki síst iðkuð til að marka ungsveinana sem börn þjóðarinnar. Gyðingur gekk inn í sögu sem hafði tilgang og fjölbreytilegar skyldur. Nafnið skilgreinir síðan hlutverkið frekar. Jesús var umskorinn á áttunda degi. Vafalaust hefur hann ekki gengið mikið næsta árið, það var jú sárt.

Nafngjöfin virkar

Í forngermönskum samfélögum voru nöfn talin ávirk þ.e. skilgreinandi. T.d. fylgdu rándýrsnöfnum trú á eða ósk um að nafnberar yrðu öflugir. Svipað gilti meðal Gyðinga. Nafn var bæði lýsandi og leiðbeinandi um hver þú varst, áttir að vera eða hvernig ætti að lifa lífinu til að Guðsstefnan ríkti.

Í Biblíunni höfum við hina grísku umritun á hebreska nafninu Jósúa eða Jeshúa, eins og vel heyrist í Jesúmynd Mel Gibson. Margir höfðu hlotið þetta vonarnafn áður en hann fékk það, en hann einn uppfyllti erindið, frelsar undan því sem hamlar. Hlutverk hans var að ganga erinda frelsis, færa kúguðum rétt, stríðandi frið og bandingjum lausn. Hver er hemill í þínu lífi? Hver er hamur þinn?

Nafnaval

Val nafna í samtíð okkar er með ýmsu móti. Sumir foreldrar hafa gaman af nafnamúsík, hvernig nöfn hljóma saman. Aðrir skírskota til ættar og sögu og stundum eru nöfn gefin vegna þess að fólk vill heiðra einhvern. Sjaldnar vitjar fólk nafns en var fyrir hundrað árum og fjölbreytni í nafngjöfum á Íslandi vex með fleiri innflytjendum. Þótt www.mannanofn.com sé brunnur fróðleiks um merkingu nafna og erlendir nafnavefir séu aðgengilegir á netinu virðast íslenskir foreldrar oft meira hugsa um lúkk og hljóm en semantík og samhengi, þ.e. merkingu.

Flestum þykir vænt um nafnið sitt. Nafnið skilgreinir að einhverju leyti mat á sjálfi og mótar hvort sem menn heita Sigurjón Bláfeld, Logi Eldon eða eitthvað annað. Og nöfn geta verið svo þungbær að eigandinn rís ekki undir þeim. Um allar aldir hafa menn vitað að nöfn skilgreina og hafa áhrif á líf einstaklinganna.

Gæska og Guðshlátur

Litlu karlarnir, sem eru skírðir í dag voru strax nefndir. Nöfnin þeirra eru Jón Kristján og Ísak. Jónsnafnið er ekki aðeins eitt algengasta nafn Íslendinga á síðustu öld heldur einnig á Vesturlöndum í ýmsum útgáfum af Jóhannesarnafninu og birtist í Jean, John o. s. frv. Það merkir að Guð er góður, náðugur. Kristján er sömuleiðis til í ótal myndum og vísar til kristinnar mennsku. Ísak er úr eldra testamentinu. Frægastur er Ísaka er sonur Söru og Abrahams og nafnið vísar til húmoristans Guðs og merkir hlátur Guðs. Himinhúmorinn á sér afleggjara í kátínu okkur aldraðra foreldra yfir undrinu.

Nöfnin þeirra eru af hinni kristnu hefð. Jesúnafnið gefur kross, sem er undir og ofan á. Þessi íklæðing hins trúarlega kemur meðal annars fram í atferli prestsins sem í skírnaratferlinu krossar á enni og brjóst, sem er þetta sama og á bak og brjóst, sem foreldrar gerðu við börn sín og var gert við mig ungan. Í signingunni er Jesúnafnið.

Eilífðarbörn

Eilífa lífið byrjar ekki í dauða, heldur í skírn. Við erum börn heimsins, heimsborgarar, en í skírninni verðum við fullveðja börn eilífðar. Við gefum ungviðinu allt það besta sem við getum og eigum. Trúmenn bera börnin að skírnarlaug til að líf þeirra verði helgað því besta. Nöfnin þeirra, veruleiki þeirra er þá í Jesú nafni.

01.01. 2006

Stundum hættir okkur við að smætta trúna og Guð, horfa á trú með augum fordóma eða með gleraugum þröngsýnna trúmanna. Hinn eiginlegi veruleiki kristninnar er Guð en ekki sögulegar birtingar trúarinnar. Nafn Guðstúlks kristninnar er Jesús og merking þess heitis er frelsi, boð um að fjötrar falla og þú, menning, þjóðir og veruleikinn fæði frið, réttlæti og lausn. Þetta er boðskapur, sem við þurfum að heyra við áramót.

Þá erum við komin í hring. Hvað hamlar í hinu íslenska samfélagi? Hvað getur orðið til bóta í alþjóðasamfélaginu? Hvað hemur þig? Hver er þinn fjötur? Hvernig getur þú losnað úr viðjunum og lifað vel og með hamingju? Allt lífið er spurn og ávallt berst svar, sem er guðlegt. Allt lífið er barátta sem eilífðin faðmar. Allur vandi heimsins er umlukinn þessu himneska að Guð frelsar. Þannig gefur Guð nafn. Þannig nefnir Guð heiminn, með von, og huggun.

Fangið fullt af lífi

Þegar barn var lagt í fang mitt varð ekki aðeins lífsreynsla fylgdi líka vitund um stöðu okkar manna. Við erum í elskufangi í öllum lífsaðstæðum. Allt sem mennskt er endurómur, endurkast, brot hins mesta sem í Guði er. Í skírn færum við börn í fang Guðs. Ef ég - við - getum upplifað mikla hamingju þegar nýburi er í fangi hlýtur sú kvika, ofurnæmi, sem við köllum Guð, að geta upplifað ótrúlega hamingju þegar við færum Guði börnin okkar.

Við áramót megum við kasta fortíðarham og öllu, sem letur okkur. Við getum gert þá lúxustilraun, að prufa að hvort treysta megi möguleikunum sem opnast. Sem sé, að við séum hvítvoðungar í stórum elskufaðmi sem heitir Guð. Þar eru engir ránsálfar sem ógna lífinu. Þar er ekkert sárt og þar þurfum við ekki að bíða í heilt ár til að ganga, já hlaupa. Þar megum við sprikla, getum lært að tala meira og séð tilveruna í róttæku ljósi hins góða og gjöfula. Þar búa nú Ísak og Jón Kristján, þar mátt þú líka hjala, vera þar í Jesú nafni. Kross undir og ofan á.

Amen