58 biskupsatkvæði í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi

58 biskupsatkvæði í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi

Aldrei áður hafa jafn margir haft kosningarétt við biskupskjör. Áhugavert er að rýna í hvernig atkvæði skiptast milli prófastsdæma, þó landið sé vissulega eitt kjördæmi. Í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi er hlutfall atkvæðamagns mjög svipað og hlutfall þjóðkirkjufólks sem býr á svæðinu, eða um það bil 11% á landsvísu.
fullname - andlitsmynd Pétur Björgvin Þorsteinsson
15. febrúar 2012

PICT2194Framundan eru biskupskosningar. Tæplega 500 manns af landinu öllu munu ganga að kjörborðinu, eða réttara sagt koma kjörseðli sínum í póst. Áhugavert er að rýna í hvernig þau atkvæði skiptast milli prófastsdæma, þó landið sé vissulega eitt kjördæmi. Í hópi kjörmanna eru 58 einstaklingar sem búsettir eru í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi, 34 karlar og 24 konur. Rúm 11% atkvæðanna eru semsagt hér í prófastsdæminu, en 10,5% þeirra einstaklinga 16 ára og eldri á landinu sem skráðir eru í Þjóðkirkjuna búa á þessu svæði. Við ættum því að geta vel við þetta atkvæðamagn unað, þó vissulega heyrist margar raddir um að allt Þjóðkirkjufólk eigi að fá að kjósa.

Þegar hafa þó nokkrir einstaklingar tilkynnt að þeir gefi kost á sér til biskups, en rúmar tvær vikur eru enn eftir þar til framboðsfrestur rennur út og aldrei að vita hvað gerist á þeim tíma. Vel má vera að einhver hætti við, eða að nýir frambjóðendur bætist í hópinn. Spennan verður svo í hámarki fyrstu tvær vikurnar í mars, þ.e. frá því að ljóst er hve stór hópur frambjóðanda er þar til gengið er til kosninga um miðjan mars.

Við biskupsefnunum blasir nú nýr veruleiki. Aldrei áður hafa jafn margir haft kosningarétt við biskupskjör. Auk þess voru það hingað til einungis prestar sem fengu að kjósa. Einstaklingur sem bauð sig fram þurfti því fyrst og fremst að koma sér á framfæri meðal presta landsins og tryggja sér meirihluta atkvæða, eða í það minnsta nægilegt atkvæðamagn til þess að komast í gegnum fyrri umferðina, í þeirri von að verða svo hlutskarpari í þeirri seinni.

Formenn sóknarnefnda á svæðinu eru í lykilhlutverki í þessum kosningum í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi. Þeir eru 36 talsins. Þetta eru konur og karlar sem hafa valið að axla það ábyrgðarhlutverk að sjá um rekstur í sinni sókn, dugnaðarfólk sem leggur ómælda sjálfboðavinnu í að halda kirkjum og safnaðarheimilum við og sjá um fjármál sóknarnefndar og ýmsa þá umsýslu sem fylgir félagsstarfinu í söfnuðinum.  Það var löngu orðið tímabært að mikilvægt starf þeirra fengi þá virðingu sem því ber með því að atkvæðisréttur í biskupskjöri næði einnig til þeirra. Vonandi verður næsta skref að allt sóknarnefndarfólk fái að kjósa.