Verum undirbúin

Verum undirbúin

Guðspjall: Matt. 25.1-13 Lexia: Sef. 3. 14-17 Pistill: Heb. 3. 12-14

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Á ráðstefnu í New York fékk hver ræðumaður aðeins fimm mínútur til umráða. Einn ræðumaðurinn notaði fimm mínúturnar sínar vel. Hann sagði meðal annars: ,,Á fimm mínútum verður fátt sagt en margt gert. Heil borg getur staðið í björtu báli. Margt gott og margt illt getur byrjað. Sál getur unnist en einnig farist. Eitt andartak nægir til að koma óheiðarlega fram og segja ljót orð sem saurgar sálina svo að hafið nægir ekki til að hreinsa hana.

Á fimm mínútum getum við glatað mannorði okkar og ofurselt sál okkar samviskukvöl ævilangt. En á fimm mínútum getum við líka tekið ákvörðun sem felur í sér hamingju og gleði fyrir okkur og marga aðra.

Fimm mínútur að morgni og fimm mínútur að kvöldi sem við helgum Guði í bæn getur veitt straumum blessunar og styrks yfir allt líf okkar. Vökum. Verum viðbúin".

Á einu andartaki endar líf okkar. Enginn veit hvort þessar mínútur sem eru að líða verða hinar síðustu sem okkur eru gefnar. Þetta getur verið síðasta skiptið sem við sjáum foreldra okkar. Síðasta tækifærið til að segja vinsamlegt orð við samverkamann gæti veist okkur í dag. Hugsanlegt er að í dag gefist okkur síðasta tækifærið til að biðja hann fyrirgefningar á ósanngirni, á særandi orðum, á syndum sem við drýgðum gegn honum. Einhver stund verður hin síðasta sem okkur auðnast að tala við Guð. Sá dagur rennur upp þegar sagt verður: Tíminn er ekki lengur til. Þá byrjar eilífðin.

Verum undirbúin. Þessi orð gætu verið yfirskrift prédikunar minnar í dag er við hugleiðum guðspjall dagsins á þessum næst síðasta degi kirkjuársins. Dæmisagan í guðspjallinu er skrítin. Það er sjaldgæft í okkar tilveru að við þurfum að bíða eftir brúðgumanum. Við könnumst frekar við það að brúðurin láti bíða eftir sér. Í sögunni er brúðguminn mjög seinn. Hann kom ekki fyrr en um miðnættið. Hver heldur búðkaup um miðnætti? Brúðarinnar er alls ekki getið í frásögu guðspjallsins heldur brúðarmeyjanna, fávísu og hyggnu með lampa sína og olíu. Hvernig var mögulegt fyrir fávísu meyjarnar að fylgja ráði þeirra fyrirhyggjusömu og kaupa olíu á lampa sína þegar komið var miðnætti og allar verslanir lokaðar?

Þessi dæmisaga fjallar ekki um brúðkaup. Hún hefur venjulega verið notuð til þess að hvetja okkur til að vera undir það búin að deyja hvenær sem er. Það er hins vegar ekki punkturinn með sögunni því að Jesús kenndi að eilífa lífið hefst ekki þegar við deyjum heldur þegar guðs ríkið verður að veruleika innra með okkur hér og nú í þessu lífi þegar við eignumst lifandi trú sem starfar í kærleika, trú sem dafnar og þroskast með árunum.

Þessi saga fjallar um brúðgumann sem er tákngervingur fyrir Jesú Krist og það er hann sem er að koma. Koma hans skiptir miklu máli fyrir okkur. Þessi frásaga fjallar um komu Krists. Því eigum við að vera undirbúin komu hans með lampa og ljósmeti í höndum því að verkefnin eru næg á akri guðsríkisins, í brúðkaupi lífsins.

Við erum andlegar verur og höfum hæfileika til að lifa andlegu lífi. Ef við sækjum okkur ekki slíka næringu þá sofnum við og förum margs á mis.Við þörfnumst næringar fyrir andlegt líf okkar líkt og hungrað fólk þarfnast fæðu. Á sama hátt þráir þyrst fólk drykkjarvatn og heimilislaust fólk þráir heimili, blint þarfnast ljósglætu, heyrnarlaust þráir að heyra tónlist. Sá sem er einmana þarfnast samskipta. Allt skiptir þetta verulega miklu máli í lífi einstaklinga líkt og grunnþarfir okkar, fæða, klæði og húsaskjól. Við erum ábyrg fyrir því að mæta þörfum okkar nánustu og náungans sé það á okkar valdi að geta það. Vilji Guðs stendur til þess að hver og einn geti lifað lífinu til fulls, mannlega, líkamlega, andlega og sálarlega líkt og Jesús gerði. Hann er sannur maður og sannur Guð.

Hvað segir dæmisagan okkur um brúðgumann og meyjarnar tíu? Hún segir að við getum ekki fengið að láni það sem máli skiptir hjá öðrum, sama hversu bónin er heit eða viljinn til að miðla með sér er mikill. Það er ekki unnt að lána neinum það sem máli skiptir þegar hinsta stundin rennur upp, hvorki ástkæru barni sínu né besta vini. Hver og einn er t.a.m. ábyrgur fyrir sínu trúarlífi.

Ég minnist sögu af kristniboða sem starfaði meðal heiðingja sem áttu ekkert orð yfir trú á tungu sinni. Þegar hann hóf að þýða Bibliuna á mál þeirra varð honum ráðafátt er hann kom að orðinu trú. Hann baðst fyrir og hugleiddi málið og síðan kom lausnin á þennan hátt: Ungur heiðingi kom og spurði hvernig hann vissi að Jesús væri frelsari. ,,Það er hérna innra með mér”, svaraði kristniboðinn. ,,Nú, já”, sagði maðurinn, þú sérð hann með hjartanu”. Þá fann kristniboðinn orð yfir trú.

Hvernig eigum við þá að fara að svo að við sjáum Jesú með hjartanu? Í fjallræðunni hefur Jesús gefið einfalt svar: ,,Sælir eru hjartahreinir því að þeir munu Guð sjá”. (Matt 5. 8) Það er ekki erfitt að trúa þegar við höfum hreint hjarta. En þegar synd er milli okkar og Guðs sjáum við aðeins syndina og syndin skyggir á Guð. Þegar við lifum í fyrirgefningu syndanna vinnur Jesús hjálpræðisverk sitt í hjörtum okkar dag hvern. Þá trúum við ekki einungis að Jesús sé frelsari heimsins heldur trúum við Jesú sjálfum. Það er lifandi trú.

Vakandi vitund trúaðrar manneskju er eins og logandi lampi sem sækir næringu í olíuna sem er orð Guðs, bænin, kirkjuganga og máltíð Drottins. Þangað sækjum við styrk fyrir verkefni daganna sem eru fjölmörg, fjölþætt og flókin eins og nú ber við.

Að trúa er lífstíðarverkefni þar sem við leitumst við að vaka yfir sálarheill okkar frá morgni til kvölds með hjálp Guðs og biðjum hann að vaka yfir okkur á næturnar.

Trúarlífið sjálft er fólgið í því að við hættum okkur aftur og aftur út á hið óþekkta djúp fyrirheita og náðar Guðs í trausti þess að hann muni vel fyrir sjá. Í nafni Jesú Krists stendur hinn himneski banki okkur opinn. Þar er allt sem við þörfnumst til lífs og sáluhjálpar. Við skulum ekki halda að fyrirheit Guðs séu aðeins fagrar líkingar og heillandi frásagnir. Nei, þau eru raunveruleg loforð. Það er innistæða fyrir þeim öllum ef við viljum biðja þess í trúnni að við fáum þau til eignar. Faðir okkar á himnum er nógu ríkur fyrir alla þá sem ákalla hann.

Það er gott að hafa þetta í huga í fjármálakreppunni. Við kristið fólk erum börn vonarinnar. Við þurfum að láta ljós vonarinnar skína í þessari kreppu innra með okkur sérstaklega gagnvart fólki sem á um sárt að binda af hennar völdum. Við þurfum að nota tímann vel, staldra við, hlusta á hvert annað, ljá hvert öðru eyra. Sinna hvert öðru betur en nokkru sinni fyrr. Við þurfum að beina reiðinni í heilnæman farveg til þess að við eygjum ný tækifæri í fylgd með frelsaranum Jesú Kristi. Framundan eru erfiðir tímar en framtíðin er okkar, ekki síst ef okkur ber gæfa til þess að feta áfram í fótspor frelsarans.

Ef við höldum vöku okkar og notum tímann vel þá skiptir ekki máli hvenær Kristur kemur, að nóttu eða degi. Látum orð Guðs vera lampa fóta okkar og ljós á vegum okkar í lífsins öldudal. Lífið er óumræðilega stutt í samanburði við eilífðina. Við þurfum að læra að haga okkur í samræmi við þessa vitneskju. Látum þannig lífið verða okkur undirbúning að eilífðinni.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var frá upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.