Ó skapari hvað skulda ég?

Ó skapari hvað skulda ég?

Guðspjall: Matt. 21. 28-32 Lexia: Rut. 2. 8-12 Pistill: Fil. 2. 12-18

Prinsinn af Grenada og ríkisarfi Spánar hafði verið dæmdur í lífstíðarfangelsi. Hann átti að vera í einangrun í gömlu fangelsi í Madrid sem hét „Hauskúpan“. Nafnið hafði fangelsið fengið vegna þess hve hræðilegt, skítugt og lífshættulegt það var. Allir vissu að þaðan slyppi enginn lifandi. Prinsinum var afhent ein bók sem hann átti að lesa í afplánuninni. Bókin var Biblían. Þar sem hann hafði aðeins eina bók þá las hann hana mörg hundruð sinnum.

Prinsinn dó eftir þrjátíu og þrjú ár í fangelsinu. Þegar starfsmenn fangelsisins mættu til að þrífa klefann hans sáu þeir að prinsinn hafði letrað eitthvað með nöglunum í mjúkan steinvegginn. Meðal þess sem prinsinn hafði letrað var: “Sálmur 118:8 er miðjuvers Biblíunnar. Í Esra 7:21 má finna alla stafi stafrófsins nema j. Níunda vers í áttunda kafla Esterarbókar er lengsta vers Biblíunnar. Í Biblíunni er ekkert orð eða nafn sem er meira en sex atkvæði”.

Um þetta skrifaði Scot Udell í sálfræðitímaritið „Psychology Today“. Hann benti á þá sérvisku prinsins að eyða þrjátíu og þremur árum í að rannsaka það sem sumir kjósa að kalla mestu bók allra tíma, og leggja svo áhersluna á einskisnýtar staðreyndir. Eftir því sem best er vitað gaf prinsinn Kristi aldrei líf sitt en honum tókst þó að verða sérfróður um einskisnýtar staðreyndir ritningarinnar.

Hvernig er þinni trú háttað? Er hún eins og trú prinsins af Grenada? Eitt er að þekkja staðreyndir um Guð, Jesú Krist og Biblíuna. Að leyfa Guði að breyta lífi sínu er annað. Sumir kunna ýmislegt fyrir sér í kristnum fræðum en hafa aldrei treyst Guði fyrir lífi sínu. Hvað með þig?

Ég hef heyrt að að baki flestra orða Biblíunnar standi með ósýnilegu letri. “Þú ert maðurinn”.

Í Biblíunni ávarpar Guð okkur. Hann leiðbeinir okkur, huggar, hvetur og áminnir. Í dag heyrum við áminningarorð sem okkur ber öllum að taka til okkar og hugleiða hversu gott og gegnt kristið fólk við erum þegar öllu er á botninn hvolft.

Jesús er staddur í helgidóminum og ræðir við æðstu prestana og öldunga safnaðarins. Hann segir þeim sögu af manni sem átti tvo syni. Hann bað þann fyrri að fara að vinna í víngarði sínum. Sonurinn sagðist ekki vilja það en sá sig síðan um hönd og fór að vinna í víngarðinum. Þá talaði faðirinn við hinn soninn og mælti á sömu leið. Hann sagði, já, herra, en fór hvergi. Síðan spyr Jesús mennina sem hann var að tala við hvor þeirra hafi gert vilja föðurins. Þeir svara: Sá fyrri, þ.e.a.s. sá vildi í fyrstu ekki vinna í víngarðinum en sá sig um hönd og fór síðar.

Jesús felldi áfellisdóm yfir mönnunum sem hann var að tala við og sagði þeim að tollheimtumenn og skækjur yrðu á undan þeim inn í Guðs ríki vegna þess að þeir hafi ekki trúað því að hann væri sá sem koma skyldi samkvæmt vitnisburði ritningarinnar. Jesús sá engin merki iðrunar hjá þeim. Því felldi hann þennan þunga áfellisdóm yfir þeim.

Við skulum horfast í augu við þessa sögu og athuga hvort við sjáum okkur ekki sjálf í henni. Þessi saga er nefnilega spegill þar sem við sjáum okkur sjálf sem kristið fólk í því umhverfi sem við lifum og hrærumst í.Við sem erum skírð og fermd, helguð lífinu með Jesú Kristi og þjónustunni við hann. Erum við ekki eins og þessi sonur sem sagði: Já, herra, en fór hvergi? Er það ekki satt að við höfum flest goldið föðurnum himneska jáyrði skírnarinnar, fermingarinnar, hjónavígslunnar og segjum já, já, en meinum ekkert með því, leiðum aldrei hugann að því hvað þetta jáyrði merkir í raun og veru? Biðjum aldrei til Guðs né iðjum sem ber að dæmi Krists. Prófum okkur sjálf og samviskan mun dæma okkur.

Við heyrðum hins vegar að hinn sonurinn sagði ákveðið nei við beiðni föður sins. Síðan sá hann eftir því að hafa sagt nei. Hann horfðist sem sagt í augu við sjálfan sig og sá þá að ákvörðun sín var röng og því ákvað hann að gera eins og faðir sinn hafði beðið hann um að gera. Sonurinn fór til föður sins og bað hann að fyrirgefa sér. Þannig eigum við einnig að breyta gagnvart hvert öðru þegar við gerum á hlut hvers annars því að vald fyrrigefningarinnar er mikið.

Páll postuli hvetur kristna menn til að vinna að sáluhjálp sinni með ugg og ótta. Hvað þýðir það? Jú, að við grannskoðum hugi okkar og hjörtu frá degi til dags og biðjum Guð að fyrirgefa okkur syndirnar. Fagnaðarerindið er boðskapur til okkar um það að Guð tilreikni okkur réttlæti sitt. Hvað merkir þetta’ Lítum á 32. Davíðssálm en þar segir:

“Sæll er sá er afbrotin eru fyrirgefin Synd hans hulin. Sæll er sá maður sem Drottinn tilreiknar ekki misgjörð…. Meðan ég þagði tærðust bein mín, Allan daginn stundi ég Því að dag og nótt lá hönd þín þungt á mér, Lífsþróttur minn þvarr sem í sumarbreiskju Þá játaði ég synd mina fyrir þér Og duldi ekki sekt mina En sagði: “Ég vil játa afbrot mín fyrir Drottni” Og þú afmáðir syndasekt mina”

Þegar sálmurinn talar um að Drottinn tilreikni ekki misgjörð er átt við það að Guð hafi ákveðið að gefa hinum seka upp sökina. Guð lýsir þann mann sem brot hefur framið sýknan saka, fyrirgefur yfirsjón hans, hylur synd hans. Undanfari þeirrar fyrirgefningar er syndajátning hins brotlega. Sá sem þegir, tærist og kveinar. Sá sem játar synd sína fær fyrirgefningu. Slíkum manni tilreiknar Guð réttlæti sitt. Það merkir að sá maður er í trúnni jafn réttlátur og Guð sjálfur.

Þessi boðskapur opinberast okkur fyrir trú til trúar. Engin leið er að veita boðskapnum viðtöku nema í trú eða fyrir trú. Þeim sem tekið hefur á móti gleðitíðindunum í trú verður fagnaðarerindið síðan enn frekar til trúar. Trú hans glæðist og vex, verður ríkulegri en nokkru sinni fyrr.

Guðspjall dagsins er þungt ámæli Jesú yfir sjálfumgleði og sjálfbirgingsskap andlegra leiðtoga þjóðar hans. En um leið heyrum við áfellisdóminn yfir okkur sjálfum af því að þetta er ekki heimild um liðna harmsögu þriggja feðga. Þetta er að gerast hér og nú vegna þess að Kristur kemur til okkar. Hann kallar okkur til fylgdar við sig til að lifa sigrandi lífi með sér. Við höfum játast þeirri köllun, við sem viljum vera kristin. En hvar erum við? Hvað er langt síðan við flettum og lásum kafla í Biblíunni heima hjá okkur? Hvað er langt síðan við báðum bænirnar okkar? Hvernig vinnum við í víngarði Drottins. Erum við verkfæri kærleika hans, verkfæri fyrirgefningar hans, friðar, gleði, lífs og blessunar meðal meðbræðra okkar og systra í lífi og starfi, í skólanum? Hvernig komum við fram við útlendinga af öllum kynþáttum? Vinnum við störf okkar með réttu hugarfari í þágu heildarinnar eða í okkar eigin þágu?Og hvar ert þú þegar hringt er til helgra tíða í sóknarkirkju þinni og hvar ert þú þegar boðið er til Guðs borðs? Er þetta ef til vill yfirskrift trúarlífs okkar: En hann svaraði og sagði: “Já, herra”, en fór hvergi?

Í fjallræðunni segir Jesús: "Þannig lýs ljós yðar meðal mannanna að þér sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar sem er á himnum". Þetta er sístætt viðfangsefni okkar: Okkur ber að leitast við að endurspegla Guðs dýrð með breytni okkar.Guð gefi okkur náð til þess að biðja og iðja sem okkur ber, kristnu fólki í þessum heimi. Amen.