Í fararbroddi

Í fararbroddi

Hjálparstarf kirkjunnar byggist á hinum félagslega grunni þar sem baklandið þarf, að mínu mati að vera sterkt, grasrótin virk, bæði til að styðja starfið fjárhagslega en ekki síður til að styðja starfið með ráðum, orðum og dáð.
fullname - andlitsmynd Þorvaldur Víðisson
24. september 2022

Hugleiðing og helgistund við upphaf aðalfundar Hjálparstarfs kirkjunnar

Grensáskirkju, laugardaginn 24. september kl. 10:30

 

 

Góðan daginn öll sömul.

 

Ég þakka fyrir boðið að fá að leiða þessa stuttu helgistund hér í upphafi.

 

Við signum okkur, í nafni Guðs föður og sonar og heilags anda. Amen.

 

Syngjum saman sálm nr. 367, eftir Sigurbjörn Einarsson, biskup, Eigi stjörnum ofar.

 

Biblíuvers

 

Í Matteusarguðspjalli segir Kristur: „Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér.“

 

Kjarnastarfsemi

 

Hjálparstarf kirkjunnar er vettvangur fyrir einmitt þá þjónustu, sem undirstrikar hvað kirkjan er. Þjónustu við þurfandi, hérlendis og erlendis.

 

Hjálparstarf kirkjunnar er í mínum huga mikilvægt félag fyrir kirkjuna í landinu. Hjálparstarfið er ekki bara stofnun, heldur félag fólks, sem vill stuðla að einmitt slíkri þjónustu sem Kristur vísar til í þessu litla versi úr Matteusarguðspjalli.

 

Á sama tíma og fjármunir eru auðvitað nauðsynlegir til starfanna þá er félagslegt bakland Hjálparstarfsins ekki síður mikilvægt, þar sem við verðum í sameiningu að standa vörð um þá grasrótarstarfsemi sem Hjálparstarfið sinnir um land allt. Og við verðum í sameiningu að kalla fleiri til, alltaf má bæta í þann góða hóp.

 

Þótt Hjálparstarf kirkjunnar hafi höfuðstöðvar sínar hér í Grensáskirkju, þá fer starfsemin ekki einungis fram hér, heldur út um land allt. Þetta þarf ég auðvitað ekki að segja ykkur, en ég þekki það af eigin raun, frá þeim tíma er ég starfaði sem prestur í Vestmannaeyjum hve mikilvægt bakland Hjálparstarf kirkjunnar er, til dæmis í kringum aðventu og jól, og reyndar og öllum tímum. Þá er ég ekki aðeins að tala um þann fjárhagslega stuðning sem skjólstæðingar kirkjunnar í Eyjum nutu í gegnum Hjálparstarfið, heldur einnig þann faglega stuðning sem starfsfólk Hjálparstarfsins veitir þjónum kirkjunnar, eins og til dæmis mér, sem þarna fyrir 20 árum var ungur prestur í Vestmannaeyjum.

 

Hér á þessum vettvangi hefur verið byggt upp vinnulag og þekking á þessari grunnþjónustu, sem nýtist kirkjunni allri, og aðilar utan kirkju, sveitarfélög og önnur félög horfa til, þegar aðrir vilja draga lærdóm af og bæta sína þjónustu.  

 

Einnig veit ég að Hjálparstarf kirkjunnar er hinu opinbera, ríki og sveitarfélögum, hvatning í þeim efnum að gera samfélagið mennskara, gera samfélagið réttlátara, að hið opinbera sinni skyldum sínum gagnvart hinum þurfandi. Þar hefur oft skort ýmislegt á.

 

Hjálparstarf kirkjunnar er síðan sá vettvangur sem veitir kröftum okkar og fjármunum farveg til þeirra sem þarfnast.

 

Ég hef fylgst með því í gegnum undanfarna áratugi hvernig Hjálparstarf kirkjunnar hefur með faglegu starfi, elju og dugnaði allra starfsmanna sinna, og öflugri forystu, verið treyst fyrir stærri og fleiri verkefnum. Hið opinbera nýtir Hjálparstarfið í auknum mæli, ef ég þekki rétt, til að koma aðstoð á framfæri erlendis, því tengslanet hinnar kirkjulegu starfsemi er víða gríðarlega öflugt. Það tengslanet hefur reynst farsæll farvegur til að koma aðstoð og hjálp til þeirra sem raunverulega þurfa.

 

Hjálparstarfið hefur síðan engar grensur á því hverjum á að hjálpa, ekki er spurt um trúfélagsaðild eða trúarafstöðu. Ef uppi er þörf, þá vill Hjálparstarfið mæta þörfinni, því starfið byggir á kristnum grunni. Við hjálpum af því við erum kristin, en ekki af því þau sem þiggja hjálpina eru kristin, þau geta verið af öllum þjóðernum og trúarskoðunum.

 

Hjálpin er síðan í flestum tilfellum, hjálp til sjálfshjálpar, þar sem virðingin fyrir einstaklingnum og frumkvæði hans og þekkingu, er í fyrirrúmi.

 

Pétur og Páll

 

Allt frá upphafi kristni hafa lærisveinar Jesú tekist á um hin guðfræðilegu málefni. Hverra er fagnaðarerindið, hinna útvöldu þjóðar, eða allra manna? Frásagnir um þetta lesum við á spjöldum Biblíunnar, í Postulasögunni og víðar. Svo sjáum við þessu eins farið er við lítum til allra þeirra kirkjudeilda sem til eru í heiminum í dag. Við tölum um Austurkirkjuna og Vesturkirkjuna, við tölum um kaþólsku kirkjuna og rétttrúnaðarkirkjuna, við tölum um mótmælendakirkjur og þar á meðal okkar lúthersku kirkju, við tölum um ýmsa frjálsa kristna söfnuði og þannig mætti áfram telja.  

 

Við getum verið með ólíkar skoðanir á guðfræði og ýmsum siðum. En eitt virðast allar kirkjur geta sameinast um í nafni kristinnar kirkju og siðar, en það er kærleiksþjónustan.

 

Kærleiksþjónustan sem hefur það að marki að þjóna náunganum í verki. Náunganum sem eru allir menn, eins ólíkir og finnast í mannhafinu, allir menn og kannski helst þeir sem við myndum skilgreina sem utan okkar mengis, samhengis, fjölskyldu og menningar, þar eigum við ekki síst að vera með útrétta hjálparhönd.

 

Gamla testamentið

 

Þessi afstaða til náungans gengur sem rauður þráður í gegnum Biblíuna. Í einu leiðinlegasta riti Biblíunnar, þriðju Mósebók má einnig finna þessa áherslu. Þriðja Mósebók er eins og þið kannski þekkið, rit sem fjallar um það hvernig prestarnir eiga að bera sig að við hina helgu þjónustu frammi fyrir Guði. Þar eru langir listar af reglum, upptalningar um fyrirkomulag fórnarathafnanna og þannig mætti áfram telja. En innan um þann þurra texta og þær upptalningar sem eru okkur í dag mjög framandi má finna þetta viðkvæði:

 

„Er þið uppskerið jarðargróður ykkar þá skaltu ekki skera akur þinn út í hvert horn. Þú skalt ekki heldur tína afgang uppskeru þinnar en skilja hann eftir handa fátækum og útlendingum.“ (3. Mós. 23:22)

 

Í lögmáli Gyðinga, Mósebókunum, er iðulega talað um ekkjuna, útlendinginn og munaðarleysingjann. Samfélagið, söfnuðurinn á því að huga sérstaklega að þessum aðilum, sem skortir bakland, úrræði, kannski framfærslu, félagslegan stuðning og styrk.

 

Við sjáum það af þessum þrjú þúsund ára gamla texta að verkefnið er sístætt. Þetta eru verkefni sem kirkjan verður ávallt að hafa á oddinum.

 

Faglegt starf

 

Þegar ég hef fylgst með Hjálparstarfi kirkjunnar undanfarin ár hefur blasað við mér faglegt starf. Svo virðist sem Hjálparstarf kirkjunnar sé leiðandi í kærleiksþjónustu kirkjunnar í landinu, í fararbroddi hér á Íslandi í því að gera samfélagið mennskara.

 

Ég hef aðeins haft áhyggjur af því að grasrótin að baki Hjálparstarfinu sé að veikjast, þ.e.a.s. að við sem störfum innan kirkjunnar, við sem tilheyrum kirkjunni séum ekki nægilega dugleg að láta okkur starfið varða.

 

Þegar vel gengur og fjármagn fæst, til dæmis úr opinberum sjóðum, til að fjármagna mikilvæg verkefni, þá getur hættan verið sú að einstaklingarnir sem að baki standa, ég og við öll hin, finnum kannski minni þörf fyrir að styðja við starfið, láta okkur starfið varða.

 

Hjálparstarf kirkjunnar byggist á hinum félagslega grunni þar sem baklandið þarf, að mínu mati að vera sterkt, grasrótin virk, bæði til að styðja starfið fjárhagslega en ekki síður til að styðja starfið með ráðum, orðum og dáð.

 

Ég vil líta svo á að þegar vel gengur, þá ættum við öll að vilja eignast hlutdeild í því starfi, eins og starfinu hér.

 

Með faglegu starfi sínu fetar Hjálparstarf kirkjunnar í fótspor Jesú, er hann rýfur félagslega einangrun fólks, er hann mettar fjöldann, er hann svarar spurningum lögvitringsins og segir dæmisöguna um miskunnsama Samverjann. Einnig starfar Hjálparstarfið í anda þeirra orða sem birtast í lögmálinu, um þjónustu við munaðarleysingja, ekkjur og útlendinga.

 

Bæn

 

Ég bið kærleikans Guð að blessa starfsemi Hjálparstarfs kirkjunnar og hjálpa okkur öllum að leggja þar gott lóð á vogaskálarnar starfinu og þjónustunni til heilla.

 

Ég bið hér að lokum með orðum Páls Jónssonar, það er sálmur 36 í sálmabókinni, þriðja vers, sem hljómar svo:

 

Góði Guð!

Frá þér ljós og lífið streymir,

líkn og blessun hvert eitt sinn.

Mig þín föðurforsjón geymir,

frelsar, annast, Drottinn minn.

Þú mér vísar lífsins leið,

léttir kross og heftir neyð,

veitir mátt og megn að stríða,

mitt í freisting, hryggð og kvíða. (Sálmur 36:3 P. Jónsson)

Amen.

 

Faðir vor.

 

Bestu þakkir og megi blessun Guðs fylgja starfi, starfsfólki, sjálfboðaliðum og skjólstæðingum Hjálparstarfs kirkjunnar.

 

Ljúkum stundinni á því að syngja saman sálm nr. 374 eftir hr. Sigurbjörn Einarsson, biskup, Þú Drottinn átt það allt.

Takk og gangi ykkur vel.