„Nýtt“ örlæti?

„Nýtt“ örlæti?

Mörgum finnst óþægilegt að tala um trú og peninga í sömu andrá. Fólki finnst oft eins og þetta séu einhverjar andstæður, að peningar séu slæmir og ógni trúnni. Þannig finnst mörgum það ekki eiga heima að söfnunarbaukar séu látnir ganga í kirkjum.
fullname - andlitsmynd Gunnar Einar Steingrímsson
23. apríl 2009

Ég kann að búa við lítinn kost, ég kann einnig að hafa allsnægtir. Ég er fullreyndur orðinn í öllum hlutum, að vera mettur og hungraður, að hafa allsnægtir og líða skort. Allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrkan gerir. Fil. 4.12-13

Mörgum finnst óþægilegt að tala um trú og peninga í sömu andrá. Fólki finnst oft eins og þetta séu einhverjar andstæður, að peningar séu slæmir og ógni trúnni. Þannig finnst mörgum það ekki eiga heima að söfnunarbaukar séu látnir ganga í kirkjum. Auðvitað er það ekki svo að peningar eða auðæfi séu af hinu illa, en oft eru vissulega slæmir hlutir gerðir og framkvæmdir vegna peninga og peningagræðginnar. Við vitum það öll, að margt fæst keypt fyrir peninga og hafa margir íslendingar vissulega fengið að reyna slíkt síðustu misseri. En það er alls ekki allt sem er falt fyrir fé. Hina einu sönnu gleði, lífshamingju, og svölun er einungis að fá frá Guði:

Jesús svaraði: „Hvern sem drekkur af þessu vatni mun aftur þyrsta en hvern sem drekkur af vatninu er ég gef honum mun aldrei þyrsta að eilífu. Því vatnið, sem ég gef honum, verður í honum að lind sem streymir fram til eilífs lífs.“ Jóh. 4.13-14
Við getum ekki keypt hamingju, ást, gleði, frið eða góða samvisku. En við getum vissulega látið gott af okkur leiða með því að gefa af því sem við eigum. Við getum gefið öðrum af hamingju okkar, við getum gefið af ást okkar og svo sannarlega getum við gefið af gleði okkar og friði. Þetta er hið sanna örlæti.

Þannig getum við einmitt sýnt hvert öðru ómetanlegt örlæti með því einu að koma vel hvert fram við annað, brosa til fólks, sýna hlýju og taka þátt í tilfinningum annara; gráta með grátendum og hlægja með þeim sem eru glöð. Við getum treyst því að Guð veit nákvæmlega hve mikið við leggjum á okkur hans vegna, og það sem við leggjum á okkur gefur hann okkur margfalt til baka. Hinn sanni gróði er því ekki mælanlegur í krónum, heldur í kærleika, gleði, friði og ást. Hann er einmitt mælanlegur í hlutum sem ekki fást keyptir fyrir peninga.

Hvað er dýrmætast í þínu lífi? Hvar ert þú örlát/ur?