Einum og sönnum Guði til sæmdar

Einum og sönnum Guði til sæmdar

þegar sagt er að guðstrú eigi ekki að vera sýnileg í samfélagi okkar þá er einfaldlega verið að segja við trúað fólk: Ef þið ætlið að taka þátt í samfélaginu þá verðið þið, ólíkt öllum öðrum, að skilja við ykkur þann hluta lífs ykkar sem þið teljið skipta mestu máli og hefur mest áhrif á það hver þið eruð.

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi.

Biðjum saman:

Vertu Guð faðir, faðir minn í frelsarans Jesú nafni. Hönd þín leiði mig út og inn svo allri synd ég hafni.

Megi Guð blessa okkur og varðveita okkur á þessari stundu hér í helgri kirkju hans.

Ég hef heyrt að Ísland muni vera með yngstu löndum jarðsögunnar og eitt það síðasta til að rísa úr sæ, ef ekki það allra síðasta. Hvort það sé að öllu leyti rétt get ég ekki fullyrt um, en það er engu að síður yndislegt að sjá almættið fyrir sér kóróna sköpunarverk sitt hér norður í hafi fyrir 14-15 milljónum árum síðan.

En burtséð frá því hefur Guð sannarlega ekki kastað til höndunum hér í þessari yndisfögru sveit sem heitir Stífla, þar sem við erum nú venju samkvæmt komin saman til sumarmessu, hér í elstu timburkirkju Íslands að Knappsstöðum.

Hér reisti Þórður bóndi hús „einum og sönnum Guði til sæmdar“ og allt upp frá því hefur kirkja staðið hér, í yfir þúsund ár. Og allt fram til þessa hafa kynslóðirnar hér lofað og tilbeðið þríeinan Guð, föður, son og helgan anda; skapara, endurlausnara og huggara; þann sem leiddi fram allt hið sýnilega og ósýnilega, þann sem geymir uppruna alls í sér, alls lífs, merkingu þess og tilgang, upphaf og endi. Saga Knappsstaðakirkju endurspeglar með sínum hætti íslenska sögu allt frá upphafi og stendur hér enn fyrir þær rætur sem íslensk þjóðmenning hefur vaxið uppaf – og megi svo verða um ókomna tíð.

Í ritningarlestrum dagsins er talað um spámenn. Reyndar erum við beðin um að gæta okkar á tilteknum spámönnum, þeim sem kallaðir eru falsspámenn. „Hlustið ekki á orð spámannanna,“ er okkur sagt. „Þeir flytja ykkur boðskap en þeir blekkja ykkur.“

Biblían geymir mörg spámannarit og teljast sum þeirra til stórkostlegustu rita Gamla testamentisins, m.a. spádómsbækur Jesaja og Jeremía – sem við heyrðum lesið úr hér áðan. Það kemur þeim sem ekki eru handgengnir þessum ritum e.t.v. á óvart að spámenn Gamla testamentisins voru alls engir sjáendur. Þeir reyndu ekki að segja fyrir um óorðna hluti í þeim skilningi. Þeir horfðu ekki inn í framtíðina heldur á samtíð sína, á núlíðandi stund. Spámenn Gamla testamentisins voru þjóðfélagsgagnrýnendur síns tíma og litu á það sem hlutverk sitt að benda á mein samfélagsins og vekja athygli á því sem aflaga fór. Það gerðu þeir ávallt með orð Guðs að leiðarljósi og boðskap þess. Þeir voru m.ö.o. sendiboðar sem miðluðu orði Drottins til líðandi stundar til að vekja fólk til meðvitundar og andsvara, gagnvart Guði, gagnavart sjálfu sér, náunga sínum og umhverfi sínu öllu. En oft voru þeir misskildir og þurftu sumir að gjalda starf sitt dýru verði. Það er ný og gömul saga.

Í guðspjalli dagsins varar Jesús okkur við falsspámönnum. „Þeir koma til ykkar í sauðaklæðum en innra eru þeir gráðugir vargar. Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá.“ Falsspámennirnir eru þeir sem „segja sífellt við þá sem fyrirlíta orð Drottins: ,Þér hljótið heill.‘“ Það eru þeir sem níða Guð og boðskap hans, kjafta niður trú og trúað fólks, til að gera það tortryggilegt, og reyna að telja fólki trú um að heill þeirra liggi utan Guðs og orðs hans. Þessir „spámenn“ hafa verið til á öllum öldum í einni eða annarri mynd og þeir eru sannarlega til í dag og hafa hátt, enda þótt þeir séu fáir.

Ákall þeirra og boðskapur er ekki síst sá að trú og öll trúariðkun beri að einskorða við einkasvið lífsins, þ.e. við persónulegt líf fólks. Trú og iðkun hennar eigi ekki að vera sýnileg á hinu opinbera sviði. Allt sem hefur að gera með trú eigi með öðrum orðum að vera ósýnilegt og hvorki að hafa bein né óbein áhrif á samfélagið. Þú getur verið trúaður heima hjá þér og í kirkjunni þinni en þess utan verður þú að skilja þennan þátt lífs þíns við þig, halda honum fjarri og fara í felur með hann. Hann á ekki heima annars staðar en í einrúmi einkalífsins.

En hvernig skilur maður slíkan þátt lífsins við sig?

Allir hafa sína trúarsannfæringu. Í gegnum trú okkar leitumst við við að svara grundvallarspurningum lífsins er varða uppruna þess og tilgang, hvernig okkur ber að breyta í lífinu, og hvers við megum vænta að því loknu. Þetta eru spurningar sem leita á allt fólk. Allir eiga sér einhverskonar heimsskoðun eða lífsskoðun sem veita svör við þessum grundvallarspurningum. Í eðli sínu er trú einmitt traust er beinist að því sem gerir líf okkar innihaldríkt og merkingarbært, því sem gefur lífinu tilgang, markar því stefnu og markmið.

Í kristnum skilningi er trú fólgin í traustinu til Guðs. Trú er sú vissa að öryggi mannsins liggur í og hjá Guði; að upphaf lífsins, tilgangur þess og takmark séu fólgin í Guði. Trú varðar m.ö.o. lífið allt og hefur gagnger áhrif á það hvernig við högum lífi okkar, orðum og athöfnum, hvaða viðhorf við höfum til okkar sjálfra, til fólksins í kringum okkur og til umhverfisins.

Og ég spyr aftur: Hvernig skilur maður slíkt við sig? Að ætlast til þess að kristinn maður – eða nokkur maður yfirleitt – skilji við sig þann hluta mennsku sinnar sem trú hans er og láti sem hún sé ekki til utan einkalífsins er fáránlegt. Það er eins og að banna honum að öðru leyti að horfa, hlusta, tala, og hugsa. Lífsskoðun fólks og innsta sannfæring þess, það sem gefur lífi þess merkingu og innihald og ljær því tilgang, er ekki einn aðskilinn þáttur af mörgum í lífi fólks heldur það sem rammar inn allt lífið og gerir það að einni heild.

Þótt einhver geri ekki ráð fyrir Guði og líti svo á að hinn efnislegi heimur sé upphaf og endir alls, að við eigum tilvist okkar að þakka eintómri tilviljun, og lifum því í deyjandi alheimi til þess eins að deyja, án tilgangs og markmiðs, þá er sá engu minna trúaðri en sá sem leggur traust sitt á Guð. Reyndar held ég að hann sé trúaðri ef eitthvað er því það krefst að mínu mati mun meiri trúar að gangast við hans skoðunum en þeirri að Guð sé til.

Eða hvernig útskýrum við annars uppruna veruleikans, alls þess sem er, þ.e.a.s. alheimsins? Við vitum að hann hefur ekki alltaf verið til. Hann er ekki eilífur. Hann á sér upphaf og þar af leiðandi orsök, eins og allt annað sem einu sinni verður til. Og af því að eitthvað er til hér og nú þá getur ekki verið að ekkert hafi einhvern tíma verið til – því að ekkert getur ekki leitt til einhvers. Eitthvað hlýtur því alltaf að hafa verið til. Og ef það er ekki alheimurinn hvað er það þá? Nú eitthvað utan hans, eitthvað sem er utan við hinn efnislega og náttúrulega veruleika, þ.e.a.s. eitthvað yfirnáttúrulegt og óefnislegt, einhver eilífur veruleiki sem leiddi til alls sem er. Og það er Guð.

Staðreyndin er sú að guðleysi er trúarsannfæring rétt eins og guðstrú.

Og þegar sagt er að guðstrú eigi ekki að vera sýnileg í samfélagi okkar þá er einfaldlega verið að segja við trúað fólk: Ef þið ætlið að taka þátt í samfélaginu ásamt öðrum þá verðið þið, ólíkt öllum öðrum, að skilja við ykkur þann hluta lífs ykkar sem þið teljið skipta mestu máli og hefur mest áhrif á það hver þið eruð.

Þeir sem gera slíkar kröfur telja sig jafnvel ganga erinda jafnréttis og umburðarlyndis. Staðreyndin er sú að það að útiloka trú frá hinu opinbera sviði er trúarleg krafa í sjálfu sér, lítið annað en skoðanakúgun sem hefur minnst með umburðarlyndi að gera.

En nú eru falsspámenn af þessum toga ekki eina ógnin sem steðjar að veruleika trúarinnar í samfélagi okkar. Þeir eru alls ekki heldur mesta og alvarlegasta ógnin. Þeir sem afneita Guði eru eitt, þeir eru þó samkvæmir sjálfum sér í afneitun sinni. Það fólk sem segist vera trúað og kristið en er það aðeins að nafninu til er hins vegar annað – og verra, vil ég segja. Í því er fólgin hin raunverulega hætta sem steðjar að trú og kirkju, þ.e.a.s. í tómlæti fjöldans sem segist vera trúaður, telur sig vera trúaðan. Jesaja spámaður talar um það fólk sem nálgast Guð með munni sínum og heiðrar hann með vörum sínum, en hjarta þess er honum fjarri og guðsótti þess er utanaðlærðar mannasetningar (sbr. Jes. 29.13). Hvað ætli stór hluti íslenskrar kristni sé „utanlaðlærðar mannasetningar“? Eða kristninnar þinnar? Ekki stór hluti vona ég. Það eina sem getur ógnað kristinni trú í raun er almennt ræktarleysi, afskiptaleysi og skeytingarleysi. Og á það hefur verið bent með réttu. Páll postuli minnir á þessa ógn. Trú getur aldrei þrifist án þess sem hún beinist að. Páll talar um þá sem lúta „eigin hyggju“, þá sem leggja traust sitt fyrst og fremst á það sem snýr að þeim sjálfum, þá sem ganga sinna eigin erinda í heiminum eins og Guð væri ekki til, gera skynsemi sína, eigið ágæti og eigin breytni að sáluhjálp sinni og miðpunkti lífsins. Það er mesta og versta skurðgoðadýrkunin og sú sem „hneppir okkur í þrældóm“ og heldur okkur frá Guði. Það er að segja, hvernig við höldum sífellt framhjá Guði með sjálfum okkur.

Nú vil ég samt ekki standa hér og berja sjálfum mér á brjóst. Ekkert okkar er fullkomið. Í raun gerir kristin trú ekki ráð fyrir því að við séum fullkomin, hvorki að þessu leyti né öðru. Öll gætum öll látið Guði eftir meira pláss í lífi okkar, í hjarta okkar og hugsun.

Kristin trú er fólgin í því að lifa lífi sínum „einum og sönnum Guði til sæmdar“. Kristin trú er ekki skúffutrú sem snýst fyrst og fremst um siðferðilegt ágæti okkar sem fólks. Við förum ekki til himna fyrir það eitt að lifa tiltölulega góðu lífi og muna endrum og eins eftir Guði. Í raun er kristin trú fólgin í hinu gagnstæða. Jesús segir okkur ekki með beinum hætti hvernig við eigum að lifa svo við getum eignast hjálpræðið í honum. Hann kemur til þess að fyrirgefa okkur og veita okkur náð sína í gegnum orð sín og verk, líf sitt og dauða, upprisu og uppstigningu. Náð Guðs veitist ekki þeim sem breyta betur en aðrir heldur þeim sem viðurkenna vanmátt sinn gagnvart því sem þeir ættu að gera og þörf sína fyrir frelsara – og leggja allt sitt traust á hann og lofa honum að hafa áhrif inn í líf sitt og út fyrir það. Sá er vilji föðurins á himnum, og sá sem hlýtir honum mun eignast lífið í Kristi, fyrst hér og nú, en um síðir í eilífðinni, sem liggur utan við þann tímanlega veruleika sem við sjáum og upplifum og erum sjálf hluti af. En það er ekki fyrir það hvað hann verðskuldar heldur fyrir það sem Guð vill veita honum af sínum óskiljanlega kærleika og sinni ómælanlegu miskun.

„Allir sem leiðast af anda Guðs eru Guðs börn.“ Sú helga kirkja sem stendur hér að Knappsstöðum var reist í þeim tilgangi einum að lofa og ákalla einan Guð og sannan. Utan þess getur hún ekki staðið – né heldur kristin kirkja og samfélag yfirleitt; hvorki á Íslandi né annars staðar.

Gleymið því aldrei.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Í Jesú nafni. Amen. Lexían: Jeremía 23.16-18, 20-21.

Svo segir Drottinn hersveitanna: Hlustið ekki á orð spámannanna. Þeir flytja yður boðskap en þeir blekkja yður, þeir flytja uppspunnar sýnir og ekki af vörum Drottins. Þeir segja sífellt við þá sem fyrirlíta orð Drottins: „Þér hljótið heill.“ Og við hvern sem fylgir þverúð eigin hugar segja þeir: „Engin ógæfa kemur yfir yður.“ En hver hefur staðið í ráði Drottins, séð hann og heyrt orð hans? Hver hefur hlýtt á orð hans og boðað það?

Reiði Drottins slotar ekki fyrr en hann hefur framkvæmt og fullkomnað fyrirætlanir hjarta síns. Síðar meir munuð þér skilja það. Ég sendi ekki þessa spámenn, samt hlaupa þeir, ég talaði ekki til þeirra, samt spá þeir.

Pistillinn: Rómverjabréfið 8.12-17

Þannig erum við, systkin, í skuld, ekki við eigin hyggju að við skyldum lúta henni því að ef þið gerið það munuð þið deyja. En ef þið látið anda Guðs deyða gjörðir sjálfshyggjunnar munuð þið lifa. Allir sem leiðast af anda Guðs eru Guðs börn. Þið hafið ekki fengið anda sem hneppir í þrældóm og leiðir aftur til hræðslu. Þið hafið fengið þann anda sem gerir mann að barni Guðs. Í þeim anda áköllum við: „Abba, faðir.“ Sjálfur andinn vitnar með anda okkar að við erum Guðs börn. En ef við erum börn erum við líka erfingjar og það erfingjar Guðs en samarfar Krists því að við líðum með honum til þess að við verðum einnig vegsamleg með honum.

Guðspjallið: Matteusarguðspjall 7.15-23

Varist falsspámenn. Þeir koma til yðar í sauðaklæðum en innra eru þeir gráðugir vargar. Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá. Hvort lesa menn vínber af þyrnum eða fíkjur af þistlum? Þannig ber sérhvert gott tré góða ávöxtu en slæmt tré vonda. Gott tré getur ekki borið vonda ávöxtu, ekki heldur slæmt tré góða ávöxtu. Hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og því í eld kastað. Af ávöxtum þeirra skuluð þér því þekkja þá.

Ekki mun hver sá sem segir við mig: Drottinn, Drottinn, ganga inn í himnaríki heldur sá einn er gerir vilja föður míns sem er á himnum.

Margir munu segja við mig á þeim degi: Drottinn, Drottinn, höfum vér ekki í þínu nafni flutt orð Guðs, rekið út illa anda og gert mörg kraftaverk? Þá mun ég votta þetta: Aldrei þekkti ég yður. Farið frá mér, illgjörðamenn.