Slakaðu á, engar áhyggjur

Slakaðu á, engar áhyggjur

Þegar að þér er kreppt og þú nærð að svamla upp úr sálarfeninu og krafla þig upp á bakkann með Guði öðlastu lífssýn sem er góð og lífvænleg. Talaðu við þau, sem hafa reynt mikið, gengið í gegnum áföll og sjúkdóma og náð að vinna sig í gegnum vandann. Sama sagan: Verið ekki áhyggjufull, viðurkennið þann mátt sem getur hjálpað.

Mattheusarguðspjall 6:24-34 24. Enginn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammón. 25. Því segi ég yður: Verið ekki áhyggjufullir um líf yðar, hvað þér eigið að eta eða drekka, né heldur um líkama yðar, hverju þér eigið að klæðast. Er lífið ekki meira en fæðan og líkaminn meira en klæðin? 26. Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim? 27. Og hver yðar getur með áhyggjum aukið einni spönn við aldur sinn? 28. Og hví eruð þér áhyggjufullir um klæði? Hyggið að liljum vallarins, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna. 29. En ég segi yður: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búinn sem ein þeirra. 30. Fyrst Guð skrýðir svo gras vallarins, sem í dag stendur, en á morgun verður í ofn kastað, skyldi hann þá ekki miklu fremur klæða yður, þér trúlitlir! 31. Segið því ekki áhyggjufullir: Hvað eigum vér að eta? Hvað eigum vér að drekka? Hverju eigum vér að klæðast? 32. Allt þetta stunda heiðingjarnir, og yðar himneski faðir veit, að þér þarfnist alls þessa. 33. En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki. 34. Hafið því ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur. Hverjum degi nægir sín þjáning.

Áhyggjuefnin

Slakaðu á, engar áhyggjur. Af hverju skyldu Íslendingar hafa mestar áhyggjur? Undanfarna daga hef ég spurt þeirrar spurningar og fengið margvísleg svör. Boðskapur guðspjallstexta dagsins eru orð Jesú: “Verið ekki áhyggjufull... Hverjum degi nægir sín þjáning.” Er þetta ekki hálf einfeldningslegt? Bíddu nú við, prestur góður, dugar þetta? Er ekki samfélagið á barmi verkfalls? Engar áhyggjur! Eru það skilaboð kristninnar og kirkjunnar á alvörutíma, þegar foreldrar skólabarna vita ekki hvernig eigi að skipuleggja lífið, þegar krakkarnir fara ekki lengur í skólana? Þegar skólamál eru í upplausn eru vinnumálin líka í uppnámi. Gagnvart þeim málum hvetur Jesús til áhyggjuleysis!

Umferðin verður hættulegri með meiri hraða, fleiri bílum og meiri streitu. Og foreldrarnir hafa áhyggjur yfir hvort kútarnir komist heilu og höldnu yfir göturnar á leið í skóla og tómstundir. Slakaðu á, þetta reddast eða hvað? Svo höldum við Evrópska umferðarviku þessa daga. Er það óþarfi?

Vinur þinn eða vinkona fékk skelfileg heilsufarstíðindi. Þú fyllist af samkennd og angist yfir hvernig honum eða henni og fjölskyldunni reiði af. Fréttin verður jafnvel svo ágeng að hún gengur þér nærri. Spurningin kraumar í huganum: Er ég kannski næstur? Stingurinn í kviðarholinu er að aukast, eða hvað? Verkurinn í fætinum er að versna. Ætli þetta sé kannski alvarlegt? Er boðskapurinn um að slaka á alveg það, sem þú vilt heyra í slíkum aðstæðum?

Fjallræðan

Texti dagsins er úr frægustu ræðu Jesú, Fjallræðunni. Sú ræða er í fyrsta guðspjalli Nýja testamentisins og er heilir þrír kaflar, 5 – 7 kafli. Mattheus, guðspjallamaður, var góður ritstjóri, flokkaði efni sitt og setti það sem átti saman í bálka. Fjallræðan er einn af fimm efnisbálkum guðspjallsins. Í ræðunni er margt af því, sem alþekkt er úr boðskap Jesú. Þar eru hinar frægu sæluboðanir. Þar er ræða Jesú um að við séum salt jarðar, ljós heimsins, að við eigum að elska óvini okkar. Þar talar hann líka um mismunandi fjársjóði, þennan sem mölur og ryð eyðir og hins vegar hinn himneska fjársjóð. Í Fjallræðunni er frægasta bæn veraldar: Faðir vorið. Í þessari ræðu segir Jesús einnig hið kunnuglega: Biðjið og yður mun gefast. Þar talar hann um þrönga hliðið og himinveginn. Þar er líka Silla og Valda-setningin: “Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá.” Í Fjallræðunni er einnig texti dagsins; um Guð og mammón, liljur vallarins og hið róttæka áhyggjuleysi.

Áhyggjuleysi og hið trúarlega

“Verið ekki áhyggjufull,” segir Jesús. Hvað á hann við? Við erum mannleg. Auðvitað hríslast um okkur áhyggjur í skugga þeirra vandkvæða, sem henda í einkalífinu og líka gagnvart stóru málum, sem við fáum litlu um ráðið, pólitík heima og heiman, umhverfismálum, stríðum og hamförum alls konar. Við glímum öll við afkomuspurningar rétt eins og samtíð Jesú.

Verið ekki áhyggjufull um mat og föt. Jesús hnykkir á, bendir á liljur vallarins, sem skarta slíkri fegurð að jafnvel kóngurinn Salómon í allri sinni dýrð stóðst ekki samanburðinn. “Segið ekki áhyggjufull: Hvað eigum vér að eta? Hvað eigum vér að drekka. Hverju eigum vér að klæðast. ....himneski faðir veit, að þér þarfnist alls þessa. Hafið ekki áhyggjur af morgundeginum, Hverjum degi nægir sín þjáning.” Og svo kemur kjarninn: “...leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki.”

Er þetta hinn kristni slökunarboðskapur Jesú? Hver er merking hans?

Krónika hins nýja lífs

Eins og allt starfsfólk Neskirkju er ég þessa dagana að koma mér fyrir í gerbreyttum aðstæðum í hinu nýja safnaðarheimili. Það er nýtt líf. Í vikunni var ég sortera bækur í bókaskápinn á skrifstofunni minni og var að skoða í bókakassa sem ég hef ekki farið í lengi. Allt í einu kom í hendur mínar gömul, rykfallin dagbók, sem ég hafði skrifað. Á forsíðunni stóð skýrum stöfum. “Krónika hins nýja lífs.” Hugurinn leitaði aftur til haustdaga, septemberdaga árið 1973. Þá varð ég fyrir djúptækri reynslu sem breytti trúarafstöðu minni og lífi.

Sumarið eftir stúdentspróf fór ég ásamt góðum félaga og vann eitt sumar á kirkjugarði í Oslo. Sumarið var undursamlegt. Þegar komið var fram í ágúst fór ég að finna fyrir bólgum í hálsi, sem ágerðust. Hið innra vaknaði kvíði og ég mannaði mig upp og fór til læknis. “Við verðum að skera þetta burtu,” sagði hann. “Komdu á miðvikudaginn upp á spítala.” Engar frekari skýringar. Hann rétti mér miða með nafni spítalans og heimilisfangi. Ég mætti á staðinn á tilsettum tíma og man enn eftir þeirri stund þegar tilveran hrundi frammi fyrir kynningarskilti spítalans. Þar stóð skýrum stöfum: Radiumhospitalet – krabbameinssjúkrahús.

Ég var í sjokki þegar ég gaf mig fram í móttökunni. Gat það verið að bólguboltinn á hálsinum væri æxli? Svo var ég drifinn í rannsókn, skurð og bið. Allir félagar mínir á sex manna stofu voru með rosaleg mein. Mér fannst þeir allir vera með dauðann í augum. Þetta var fyrir tíma áfallahjálpar og ég sannfærðist um á næstu dögum að ég væri deyjandi.

Ég las mína Biblíu: Verið ekki áhyggjufull! Mér fannst lítil hjálp í þeirri hvatningu. Áhyggjutilefni mitt var ærið og ég hafði leitað Guðsríkisins. Var þetta ekki heldur bratt hjá hinum himneska föður? Var þetta þá lífið og skapadómurinn? Ég reiddist og æpti upp í himininn. Var minn lífskveikur að slokkna? Svo varð uppgjörsferlið allt, angistin og síðan uppnámið, þetta sem menn ganga í gegnum við hin skelfilegustu tíðindi. Hvaða réttlæti var það að klippa á mitt líf, ég sem var rétt að byrja. “Verið ekki áhyggjufull.” Gamli maðurinn hinum megin við ganginn dó. Háskólakennaranum frá Þrándheimi hrakaði. “Verið ekki áhyggjufull.” Svo setti að mér kyrru og síðan kom einhver útgáfa æðruleysis.

Ég var kallaður á fund læknanna og dómur var felldur: Hjúkrunarfólkið brosti. “Þú ert heppinn,” sögðu þau. “Þitt mein reyndist góðkynja. Þú ert útskrifaður en við viljum fá að fylgjast með þér, en líklega verða engin eftirköst önnur en að þú hafir ljótt ör á hálsinum.”

Króníka hins nýja lífs. Í nýjum aðstæðum, á nýju torgi, nýrri skrifstofu datt ég niður í hugrenningar mínar þessa daga þegar dauðadæmdur og angistarfullur maður var að vinna úr þessari skelfilegu lífsreynslu. Undarlegar eru þessar blaðsíður dagbókarinnar frá september 1973. Undarlega seiðandi eru þær og kallast á við Jesúorð Fjallræðunnar.

Æðruleysi og kæruleysi

“Verið ekki áhyggjufull.” Hvetur þess ræða Jesú til kæruleysis? Þegar við tengjum þennan boðskap við samfélagsmál og líf fólks er eðlilegt að fólk spyrji hvort orð Jesú stuðli að veruleikaflótta. Hvetur Jesús til skeytingarleysis? Eigum við að sleppa því að fara út í Nóatún eða Bónus og bíða eftir að einhver himinsendill komi með kvöldmatinn? Eigum við að sleppa því að skipta okkur af verkföllum, samningum stjórnvalda við fatlaða eða umgengni við náttúru lands og heims. Nei, Jesús hefur ekki í huga að draga okkur út úr lífinu eða kenna okkur leti og skeytingarleysi. Við þurfum að gera okkur grein fyrir að áhyggjuleysi er ekki kæruleysi. Jesús vill ekki að við gerum búksorgir, mat og klæði að miðpunkti lífsbaráttunnar. Hin eiginlega lífssókn og lífsmál er að leita ríkis Guðs og réttlætis. Það er hin lífræna miðja alls sem er og einnig þíns lífs. Ef þú leitar í trúna og í skjól Guðs getur þú brugðist allt öðru vísi við lífsvandkvæðum en ef þú átt ekki trúna og kraft Guðs.

Þegar að þér er kreppt og þú nærð að svamla upp úr sálarfeninu og krafla þig upp á bakkann með Guði öðlastu lífssýn sem er góð og lífvænleg. Talaðu við alkana, sem hafa lært dýpt æðruleysisbænarinnar. Talaðu við þau, sem hafa reynt mikið, gengið í gegnum áföll og sjúkdóma og náð að vinna sig í gegnum vandann. Sama sagan: Verið ekki áhyggjufull um hið ytra, viðurkennið þann mátt sem er raunverulegur og getur hjálpað.

Guðselskan hríslast um allt

Hvað lærði ég í minni glímu? Djúp lífsreynsla feykti burt yfirboðsskynjun um lífið. Hver dagur varð dásamleg gjöf til að lifa vel, skynja djúpt, hvort sem það voru blómstrin á velli, fuglar eða lífsgæðin. En mikilvægast var að læra Guð er ekki viðlagaguð, ekki utan við lífið, heldur inntakið og kjarni alls sem er.

Mín lífsglíma skóp algerlega nýja sýn gagnvart Guði. Ég lærði að forgangsraða. Ég lærði að Guð er ekki fjarlægur heimssmiður, ekki löggjafi á himnum sem skipar þér þetta eða hitt, reynir að siða þig eins og krakka eða sendir út í heiminn einhverjar klisjur um að við eigum ekki að stressa okkur.

Guð er nálægur. Þegar þú horfir á skýin leika sér á himni er Guð hreyfiaflið. Þegar þú sérð blöðin á hausttrjám fölna er Guð næri. Þegar þú strýkur ástvin þinn er guðselskan að kalla þig til góðrar iðju. Þegar þú faðmar maka þinn og vini hríslast elska himins í þér. Ekkert er óguðlegt, alls staðar er Guð. Það er á grundvelli þessarar vitundar um að Guð er í öllu, sem Jesús hvetur manninn til að afstressast, hafa ekki áhyggjur að af smámálum heldur tengjast Guði á raunhæfari hátt. Þá ná menn betri sýn, meiri skerpu á lífið og sjálfa sig, ná betur að höndla mál fata og fæðu og geta betur mætt öllu því, sem dagarnir færa með æðruleysi.

Við þurfum að forgangsraða í lífinu. Okkur er kennt og lærist að forgangsraða tíma okkar. En Jesús gengur lengra og vill kenna okkur að forgangsraða öllu og áhyggjum einnig.

Guð virðir þig til frelsis og ábyrgðar

Ég upplifi ekki Guð, ég á í vandræðum með Guð” er eitthvað sem æ fleiri segja við mig í sálgæslusamtölum. Hvað þýða slíkar yrðingar? Ég túlka það svo, að æ fleiri finni fyrir vanmætti sínum í hinni flóknu og hörðu lífsbaráttu, finni fyrir hvað máttur einstaklingins megnar lítið gagnvart hinum stóru kröftum sem verka á okkur, æpa á okkur og stjórna okkur.

Hvað er þá til ráða? Af hverju kippir Guð ekki í okkur og lagar þetta allt? Í því er undur hins guðlega sambands við mann og heim fólgið. Guð virðir okkur til frelsis, til ábyrgðar og til samfélags. Samband Guðs við þig og veröldina er samband ástar. Ástalíf þolir ekki nauðung eða ofbeldi. Guð neyðir þig aldrei til sambands við sig heldur bíður eftir að þú bregðist við honum með elsku þinni og í frelsi þínu.

Það er mannlegt, að við höfum áhyggjur af unglingunum okkar. Það er fullkomlega normal að fólk óttist breytingar, þegar við missum vinnu, heilsan skaddast og þegar vinirnir fá hræðilegar heilsufréttir. En þá er mikilvægast að hafa þjálfast í að kasta sér afturábak í fang Guðs og geta grátið. Þar eru æðruleysisfangið, þar er krafturinn til að hjálpa okkur áfram, höndin sem heldur fast þegar mestu álögin ríða yfir. Þar er líka allt sem við þurfum til að bregðast við í samfélagi og einkalífi.

Þegar þú hefur áhyggjur er kallað til þín? Hvar er miðja þín? Þegar við erum gránduð í einhverri krísunni hvíslar elskuröddin til þín: Hvernig get ég hjálpað þér elskan?” Hafið ekki áhyggjur því Guð er ástmögur.

Dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Í Jesú nafni. Amen.

Textar 15. sunnudags eftir þrenningarhátíð. A röð:

Jesaja 49:13-16

13. Lofsyngið, þér himnar, og fagna þú, jörð! Hefjið gleðisöng, þér fjöll, því að Drottinn veitir huggun sínum lýð og auðsýnir miskunn sínum þjáðu. 14. Síon segir: Drottinn hefir yfirgefið mig, hinn alvaldi hefir gleymt mér! 15. Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu, að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu? Og þó að þær gætu gleymt, þá gleymi ég þér samt ekki. 16. Sjá, ég hefi rist þig á lófa mína, múrar þínir standa jafnan fyrir augum mér.

1. Pétursbréf 5:5-11

5. Og þér, yngri menn, verið öldungunum undirgefnir og skrýðist allir lítillætinu hver gagnvart öðrum, því að Guð stendur gegn dramblátum, en auðmjúkum veitir hann náð. 6. Auðmýkið yður því undir Guðs voldugu hönd, til þess að hann á sínum tíma upphefji yður. 7. Varpið allri áhyggju yðar á hann, því að hann ber umhyggju fyrir yður. 8. Verið algáðir, vakið. Óvinur yðar, djöfullinn, gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim, sem hann geti gleypt. 9. Standið gegn honum, stöðugir í trúnni, og vitið, að bræður yðar um allan heim verða fyrir sömu þjáningum. 10. En Guð allrar náðar, sem hefur kallað yður í Kristi til sinnar eilífu dýrðar, mun sjálfur, er þér hafið þjáðst um lítinn tíma, fullkomna yður, styrkja og öfluga gjöra. 11. Hans er mátturinn um aldir alda. Amen.