Druslur allra landa sameinist

Druslur allra landa sameinist

Druslugangan vekur vonir um að við séum sem samfélag að vakna af værum blundi, ekki bara hér á landi heldur í borgum um allan heim. Kynferðisofbeldi einskorðast ekki við einstök mál, heldur varðar menningu okkar, þar sem það er látið óáreitt að ofbeldi gegn konum sé skemmtun og að gerendur séu upphafnir á kostnað þolenda.

Í gær var gengin Drusluganga í Reykjavík en gangan í ár er sú fjórða sem haldin er hér á landi. Að baki göngunni er alþjóðleg grasrótarhreyfing, sem á uppruna sinn í Kanada en í apríl 2011 risu upp mótmæli á götum Torontoborgar í kjölfar viðbragða lögregluyfirvalda við nauðgunarmálum. Í fræðsluerindi sem haldið var við lagaskóla þar í borg, lét lögreglumaður það út úr sér að ‘þó það megi ekki segja það upphátt ... ættu konur að sleppa því að klæða sig eins og druslur ef þær vilja losna við kynferðisofbeldi”. Á meðal áheyrenda, sem voru einungis tíu, voru hugrakkir einstaklingar sem sögðu frá málinu opinberlega og það varð kveikjan að alþjóðahreyfingu á svo til einni nóttu.

Viðhorf lögreglumannsins, sem hann síðar baðst afsökunar á, er dæmigert fyrir þá tilhneigingu að færa sökina í kynferðisafbrotamálum frá gerendum til þolenda, og gera þar með lítið úr þeim kynferðisafbrotum sem framin eru. Í fyrstu göngunni héldu mótmælendur á skiltum sem á stóð, “still not asking for it” og voru í eggjandi fötum eða berbrjósta til að undirstrika þann boðskap að ábyrgðin á kynferðisofbeldi liggur aldrei hjá þolandanum, hvernig sem hann eða hún kýs að klæðast.

Þessi grasrótarhreyfingin hefur breiðst um heiminn eins og eldur í sinu og strax fyrsta árið voru haldnar göngur í 60 borgum í Bandaríkjunum, Evrópu og Suður-Ameríku. Hér á landi var í ár vakin athygli á hversu fá mál eru kláruð í dómskerfinu en mikill minnihluti nauðgunartilkynninga leiðir til dóms á hendur gerendum. Framtakið hefur sannarlega vakið verðskuldaða athygli og snert við þeirri kvenfyrirlitningu og klámvæðingu sem er undirliggjandi í samfélagi okkar.

Kynferðisofbeldi er ekki nútímafyrirbæri heldur hefur fylgt mannlegu samfélagi frá því sögur hófust og erótískt efni, þar sem myndir, frásagnir eða ljóð eru notuð til að kynörva, er heldur ekki nýtt. Í Ljóðaljóðum Biblíunnar eru t.d. að finna erótísk ástarljóð og svo mikil erótík var á veggjum húsa í Pompeii að fornleifafræðingar héldu þeim frá almenningi langt fram á 20. öld. En sú markaðsvæðing kynferðisofbeldis sem við verðum vitni að í nútímanum er án fordæmis í sögunni, sem og það aðgengi sem börn og unglingar hafa af iðnaðarframleiddu klámi.

Kynlífsbylting 20. aldarinnar, sem færði kynlíf og kynhneigð undan oki trúarlegs rétttrúnaðar og gagnkynhneigðarhyggju, leiddi jafnframt af sér iðnað sem gerir út á að hlutgera kynlíf og upphefja ofbeldi gegn konum. Erótísk listsköpun er af hinu góða, en sá eðlismunur er á erótík og klámi að hið síðarnefnda sýnir ,,kynlíf í tengslum við misnotkun og niðurlægingu þannig að slík hegðun sé studd, látin óátalin eða jafnvel hvatt til hennar.” (Diana E. H. Russell)

Ég starfa með börnum og unglingum og hef gert um árabil og á þeim fáu árum sem liðin eru frá því að ég var sjálfur unglingur á 9. áratugnum þykist ég greina grundvallarbreytingu á viðhorfum ungra karlmanna til kvenna. Klám var að sjálfsögðu aðgengilegt á mínum unglingsárum, en ekki í því mæli og með sama hætti og í dag. Ungir karlmenn fá hugmyndir sínar og fræðslu um kynlíf af klámsíðum internetsins og þær upplýsingar gefa sannarlega ranga mynd af raunverulegu kynlífi.

Þessi klámvæðing birtist í dægurmenningu, tónlist, auglýsingum og gamanmáli, þar sem niðurlæging kvenna er gert að skemmtiefni. Ég hef upplifað í mínu starfi að þurfa að bregðast við afleiðingum klámáhorfs í hópi 10 ára drengja, sem höfðu yfir grófar kynlífslýsingar og klámhugtök, án þess að hafa nokkra hugmynd um hvað þeir voru að tala. Aðgengið er óhindrað í gegnum internetið ef ekki eru settar upp netsíur á heimilum.

Drusla er ekki fallegt orð, en með því að taka upp orðið sem notað er til að yfirfæra kynferðisskömm yfir á konur, er verið að ögra því tvöfalda siðgæði sem felst í slíkri hugtakanotkun. Karlmaður sem stundar kynlíf með mörgum konum er afreksmaður en konan skammarverð og ,,drusla” sem verður fyrir kynferðisofbeldi, bauð upp á það með einhverjum hætti.

Reykjavíkurborg stóð í fyrsta sinn í ár að baki göngunni sem fjárhagslegur bakhjarl og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri orðaði það fallega þegar hann sagði það að ganga opinberlega gegn kynferðisofbeldi gerði borgina okkar ,,betri, opnari, sterkari, frjálsari, mannlegri og öruggari. Kynferðisofbeldi varðar okkur öll, er ekki einkamál gerenda og þolenda, heldur samfélagslegt mein sem krefst þess að allar stofnanir leggi sitt af mörkum til að uppræta. Kirkjan er þar engin undantekning.

Í Jóhannesarguðspjalli eru tvær sögur af druslum, af konum sem samfélagið hafði dæmt á grundvelli kynhegðunar sinnar. Hin fyrri var samversk kona sem samfélagið leit niður á fyrir að hafa átt fimm menn og hin síðari kona sem átti að grýta fyrir að hafa drýgt hór. Jesús stóð með þessum konum, þeirri fyrri veitti hann heiðurssess í hreyfingu sinni og þeirri seinni bjargaði hann með því að ögra ríkjandi viðhorfum ,,sá yðar sem syndlaus er kastið fyrsta steininum”. Karlmanninn átti ekki að grýta, skömmin lá hjá konunni.

Í guðspjalli dagsins lesum við hina þekktu skírnarskipun: ,,Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður og sonar og heilags anda og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“

Í hvert sinn sem barn er fært til skírnar er farið með þessi orð, sem í senn fela í sér mannhelgisyfirlýsingu, ákall til kærleika og fyrirheiti um náð Guðs. Klám og kynferðisofbeldi brjóta gegn helgi manneskjunnar og það er hluti af erindi kirkjunnar að berjast gegn ofbeldi í öllum þeim myndum sem það birtist.

Druslugangan er áminning um grundvallarmein í samfélagsgerð okkar, sem verður ekki lagað með þöggun eða með því að samþykkja klám sem uppeldistæki. Þeir einstaklingar sem hafa á undanförnum árum komið fram, sagt frá ofbeldi opinberlega og lagt fram kærur, eru spámenn í samfélagi okkar og okkur ber að leggja við hlustir.

Druslugangan vekur vonir um að við séum sem samfélag að vakna af værum blundi, ekki bara hér á landi heldur í borgum um allan heim. Kynferðisofbeldi einskorðast ekki við einstök mál, heldur varðar menningu okkar, þar sem það er látið óáreitt að ofbeldi gegn konum sé skemmtun og að gerendur séu upphafnir á kostnað þolenda.

Kristin kirkja hefur oft verið hluti vandans, fremur en rödd réttlætis í kynferðismálum, en grundvallarsjónarmið kristinnar kirkju eru vegvísir í átt að betri samfélagsgerð. ,,Skírið þá í nafni föður og sonar og heilags anda og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.”

Á grundvelli boðunar Jesú Krists heldur kirkjan því fram að allar manneskjur séu heilagar og að þær megi undir engum kringumstæðum misnota eða beita ofbeldi. Tvöfalda kærleiksboðorðið leggur grunninn að kristinni kynlífssiðfræði, sem boðar að umgangast aðra af sömu virðingu og nærgætni og þú myndir sjálf eða sjálfur vilja. Og við eigum það fyrirheiti að hvar sem óréttlæti er beitt eða manneskjur brotnar eftir ofbeldisverknað, þar er Guð nærri og þar ber okkur að ganga með.

Druslur allra landa sameinist.