Fræ í frosti sefur

Fræ í frosti sefur

Að skynja nálægð vorsins með því að finna fyrir rakri moldinni á höndunum þegar ég hreinsa beðin eða hlusta á jarmið í nýfæddum lömbunum, sem berast frá fjárhúsunum, lætur mér líða mér líða eins og eitthvað alveg sérstakt sé í uppsiglingu...
fullname - andlitsmynd Elínborg Sturludóttir
22. apríl 2009

Ég heyrði í hrossagauk í garðinum í Stafholti á mánudagskvöldið. Fyrst hélt ég að þetta væri skynvilla en svo heyrði ég hljóðið í honum aftur. Það var ekki um að villast. Hann var kominn. Ég fylltist mikilli gleði en ekki síður eftirvæntingu. Mikið er gott að vorið skuli vera að koma.

Núna er klukkan langt gengin í tíu um kvöld og fyrir utan gluggann blasir Borgarvogurinn við alveg spegilsléttur og það er ekki enn komið myrkur. Hvílíkur léttir. Birta, fuglasöngur og einstaka laukur farinn að þrýsta sér upp úr moldinni.

Ég fylgist með því á hverjum morgni, full eftirvæntingar hvað blómknöppunum í beðinu fyrir framan húsið fjölgar. Ég tel niður dagana þangað til kosningabaráttunni lýkur og litli sonur minn byrjar í leikskólanum. Þá loksins verður sumarið komið.

Stjórnmálamennirnir segja okkur að þjóðin standi á tímamótum. Mér finnst ég raunar alltaf standa á tímamótum þegar vetur konungur sleppir sínum ægilega hrammi af þessu landi. Því með vorinu öðlast ég svo mikið frelsi. Ég hætti að hafa áhyggjur af því hvort það sé hálka og ófærð og hvort undir Hafnarfjallinu séu 35 m/s eða meira.

Að skynja nálægð vorsins með því að finna fyrir rakri moldinni á höndunum þegar ég hreinsa beðin eða hlusta á jarmið í nýfæddum lömbunum, sem berast frá fjárhúsunum, lætur mér líða mér líða eins og eitthvað alveg sérstakt sé í uppsiglingu. Mér finnst það líka heilög stund að anda að mér ilmi vorsins um leið og ég sting upp kartöflugarðinn og pota útsæðinu í moldina.

Vorverkin fá mig til að upplifa það svo sterkt að ég er hluti af sköpun Guðs sem vaknar á hverju vori úr dvala. Ég er eins og fræið sem hefur sofið í frostinu og kviknar til lífsins þegar sólin nær að verma jörðina. Ég skynja það alltaf betur og betur hvað sigur lífsins yfir dauðanum er óendanlegt gleðiefni, svo mikið gleðiefni að það er full ástæða til að borða súkkulaði á hverjum degi a.m.k. alveg fram að hvítasunnu.