Hver ert þú?

Hver ert þú?

Þorláksmessa 2007.

Jóh. 1.19-28.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Hver ertu?  -   Þannig var Jóhannes skírari spurður og hann svarðai vel.  Hann hafði reyndar ekki persónuskilríki, enga kennitölu eins og við, sem getur sagt heilmikið um okkur.  En Jóhannes hafði önnur skilríki,  hann hafði lögmálið og spámennina.  Hann gat bent spyrjandanum á að hans væri getið í spámannsriti Jesaja 40 kafla.  M.ö.o.  hans var getið í hjálpræðissögu Guðs,  hann var í huga Guðs frá upphafi eins og Messías.   Hann var síðasti spámaður Gamla sáttmálans, hafði alveg sérstakt hlutverk því hann var svo nálægt undrinu.  Drottin var í nánd. Í Matteusarguðspjalli segir frá því að Jesús hafi komið til Jóhannesar og beðið um skírn.    Þá þekkti Jóhannes hann strax,  hann sá að Jesús frá Nazaret var sannarlega Messías,  að hinn fyrirheitni var kominn.  Enda opnuðust himnarnir og rödd af himni sagði:  Þessi er minn elskaði sonur sem ég hefi velþóknun á. Jóhannes benti á Krist,  hann ruddi brautina,  Sjá guðslambið sem burt ber heimsins syndir. Jóhannes þekkti frelsarann, þegar hann leit hann.

Þetta leiðir hugann að því þegar María kom til Elísabetar frænku sinnar, sem þá gekk með Jóhannes. Strax þegar Elísabet sá Maríu, þá vissu hún að María var barnshafandi og hvert barnið var.  “Blessuð sért þú meðal kvenna og blessaður ávöxtur lífs þíns”, sagði hún,  fyllt heilögum anda, eins og segir í guðspjallinu.

María treysti frænku sinni, valdi hana sem sálusorgara sinn og sagði henni örugglega allt um það hvernig henni leið,  hún var hjá henni nokkrar vikur.  María var að lifa ótrúlega mánuði,  hún skildi eflaust ekki til fullnustu, en samt nóg. En við þessa sterku staðfestingu og viðbrögð Elísabetar, þá verður Lofsöngurinn til,  Magnifikat:   Önd mín lofar Drottin,  -  magnaður söngur.  Söngur sem lifað hefur í bænahaldi kristninnar allt til okkar daga.  En það sem er svo stórkostlegt við þessa lofgjörð er að hún vitnar í lofsöng Hönnu móður Samúels í Gt,  þegar henni hafði auðnast að eingast sitt langþráða barn.  Og margar hendingar lofsöngsins eru sömuleiðis tilvitnanir í Sálma Davíðs, Saltarann. Hvað segir þetta okkur um Maríu? Jú, það segir okkur að María var alin upp í trú á Guð, þar sem sálmarnir voru sungnir kannski daglega á heimilinu í samkomuhúsinu og víðar.   Þá mátti biðja bænir og syngja sálma með börnum. Allt þetta sem hún lærðí sem barn og tileinkaði sér varð hluti af henni,  hún var gegnsýrð af þessari bænahefð,  þess vegna gat Guð notað hana sem farveg náðar sinnar til allra manna. Og svo þegar hún varð orðlaus af undrun, lotningu og þakklæti til Guðs,  þá kom lofgjörðin, sem var þegar hluti af lífi hennar.

Verið ávallt glöð í Drottni.  Ég segi aftur: Verið glöð.  Lúflyndi ykkar verði kunnugt öllum mönnum.  Drottinn er í nánd.

Elísabet var höndluð af Guði Jóhannes var alinn upp í þessari sömu trú og hann flutti fagnaðarerindið um hinn nálæga frelsara,  greiddi veg Drottins. María gekk inn í hlutverk sitt í trú, von og kærleika...

Þessir einstaklingar eru allir fyrirmyndir fyrir okkur í dag,  þeir undirstirka gildi trúarinnar, trúaruppeldisins. Enda er það reynsla kirkjunnar frá öndverðu, að uppeldið frá blautu barnsbeini skiftir óendanlega miklu máli fyrir allt lífið,  fyrir gæði lífsins.  Enda er það svo, að þegar á reynir,  þegar við verðum orðlaus,  þegar áföllin henda okkur,  þá kemur þetta fram, sem við kunnum og eigum innra með okkur. Ég á ógleymanlega reynslu úr heimahúsi hér í sókninni.  Gamall maður var bráðkvaddur heima,  -   það var kallað á prestinn,  ættingjar streymdu að úr öllum áttum,  stofan fylltist af fólki.  Ég tók fram sálmabókina og valdi að lesa sálminn:  Á hendur fel þú honum,  eins og oft annars við svipaðar aðstæður.  Ég var ekki búinn að lesa margar línur þegar allir voru farnir að lesa með mér,  -  þessi fjölskylda kunni sálminn utanbókar,  -  þarna var ávöxtur trúaruppeldisins áþreifanlegur.  Stundin var hlaðin virðingu, einlægni, þakklæti til Guðs fyrir allt sem Guð hafði gefið þeim í þessum góða manni.

Reyndar er þetta ekki eina tilfellið sem ég get nefnt í þessu sambandi,  og ég er ekki einn um það,  þið mörg eigið án efa sömu reynslu og ég,  -   það er stórkostlegt að finna hvað trúin á djúpar rætur og hvað þátttaka ekki síst í bænum er almenn, þegar fólki gefst kostur á því. Um daginn frétti ég af því, að Dómkirkjan nánast fylltist af fólki sem bað um bænastund fyrir veikum einstaklingi.  Fjölskyldan, vinnufélagarnirn þyrptust að, af því að boðin voru látin út ganga,  en boðskifti eru mjög hröð í dag eins og við vitum.  Trúin er hluti af okkur,  hluti af uppeldinu,  hluti af menningunni, dýrmætt lífsgildi.

Og nú eru að koma jól,   Drottinn er í nánd. Það er yndislegt að mega safnaðst saman á Þorláksmessu til að eiga kyrrláta stund, bænastund í helgidóminum til að undirbúa jólin.   Það hefur gengið mikið á í þjóðfélaginu síðustu vikurnar,  -   en það sem skiftir máli er Jesús.  Jóhannes benti á hann,  ruddi brautina fyrir hann.  Við erum hvött til að gera eins,  ryðja brautina fyrir komu jólabarnsins,  hreins hugann,  skapa tækifæri fyrir helgi, kyrrð, bæn.   Skapa tækifæri fyrir okkur og fólkið okkar að taka á móti jólabarninu í hug og hjarta,  gera hjarta okkar að vöggunni hans.