Lífi okkar má líka við útúrdúr

Lífi okkar má líka við útúrdúr

Guðspjallið Mk 7. 31-37 Síðan hélt hann úr Týrusarbyggðum, um Sídon og yfir Dekapólisbyggðir miðjar til Galíleuvatns.Þá færa þeir til hans mann, daufan og málhaltan, og biðja hann að leggja hönd sína yfir hann.Jesús leiddi hann afsíðis frá fólkinu, stakk fingrum sínum í eyru honum og vætti tungu hans með munnvatni sínu.Þá leit hann upp til himins, andvarpaði og sagði við hann: Effaþa, það er: Opnist þú. Og eyru hans opnuðust, og haft tungu hans losnaði, og hann talaði skýrt.Jesús bannaði þeim að segja þetta neinum, en svo mjög sem hann bannaði þeim, því frekar sögðu þeir frá því.Menn undruðust næsta mjög og sögðu: Allt gjörir hann vel, daufa lætur hann heyra og mállausa mæla.

-predíkun 3. september 2006 Stóra-Núpskirkja- Markúsarguðspjall 7.31-37 Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. - Amen

Dauf og málhölt Í dag er 3. september (2006). Fyrir 67 árum árið 1939, klukkan 10 að Lundúnartíma var komin á styrjöld í Evrópu. Mannkynið er æði fljótt að gleyma aðdraganda og afleiðingum þess hildarleiks og margt skýtur upp kollinum löngu síðar um baksvið atburða. Baksvið sem gat orðið vegna þess að menn létu blindast af annarlegum hvötum, voru daufir og málhaltir. Það er um margt líkt þeim tíma og samtíma okkar. Það hefur löngum verið háttur manna að hafa aðra menn undir sér, sjálfum sér til hagsbóta. Eiginhagsmunir manna ráða miklu um hvað gert er og hvað gerist. Skammsýni og ráðabrugg, lygar og ósannsögli gleypir margan manninn. Það er mikil lygi í gangi og við virðumst stefna dauf og málhölt eitthvert sem við gerum okkur ekki grein fyrir.

Furðulegt ferðalag Við áttum okkur hins vegar á því, ef að er gáð að frásaga guðspjallsins segir frá furðulegu ferðalagi. Svona rétt eins og að við skytumst til Reykjavíkur með viðkomu á Höfn í Hornafirði eða Grímsey. En það sem meira er um vert að taka eftir að íbúar þessara svæða voru heiðingar að mati gyðinga þess tíma. Það voru þeir sem höfðu ekki heyrt af Guðs orði og þekktu hann því ekki.

Á þessu ferðalagi Jesú verður nefndur daufi og málhalti maður á vegi hans og þessir ÞEIR. Veitum athygli hverjar eru persónur sögunnar áður en lengra er haldið. Jesús, þeir, maðurinn og síðan en ekki síst fólkið.

Eftirtektar vert er í sögunn, að Jesús lætur sig varða þennan einstakling og hann leiddi manninn afsíðis frá fólkinu. Hann veitir honum þar persónulega þjónustu, sem sýnir að Jesús gefur sig að þessum manni, daufum og málhöltum sem einstakling en ekki sem hópi. Maðurinn hefur ekkert fram að færa, getur fátt eitt sagt, og heyrir ekkert. Jesús dró hann afsíðis og breytti honum með því að gera hann heilann. Með öðrum orðum: Það er frammi fyrir Jesú sem maðurinn verður heill, verður það sem honum er ætlað að vera. Ris eða hápunktur þessarar frásögu guðspjallsins er reyndar ekki í því að því eyrun mannsins opnuðust og haft tungunnar hans losnaði, heldur það að að Jesús leit upp til himins. Þangað bendir hann með augunum sínum. Þar er hjálpina að finna. Þaðan kom hún og að þaðan kemur hún. Síðan, andvarpaði hann og sagði máttarorðið; „Effaþa!“ Þetta orð Effaþa- Opnist þú, er tekið úr helgihaldi Ísraelsmanna á þessum tíma og var notað þar fyrir gjöf anda Guðs sem var einkenni um nýja sköpun hans.

Og fólkið það undraðist næsta mjög og mæli: „Allt gjörir hann vel. “ Kannski þetta sé í raun kjarni boðskaparins, Það að taka eftir því að þar sem Jesús fær að komast að, þar verður breyting og meira en það, þar verður sköpun, hin spilta og skemmda sköpun sem nóg er af, er færð til síns sanna lags. Þetta, að Jesús skapar, umskapar og gjörir nýtt, er það sem þessi frásaga geymir í sér. Og fólkið, sem á horfði, vissi að það var enginn sem skapar nema Guð. Hér var því eitthvað stórkostlegt á ferðinni. Þess vegna undraðist það! En, lét þar við sitja væntanlega, og gerði ekkert í sínum málum.

Opnist þú Mannkynið allt er hér í sporum hins daufa og málhalta. Hann er fulltúi fyrir karla, konur og börn sem breytast við það að heyra orðin af munni Jesú, orðin sem virka og breyta. Þá verður sú breyting sem felur í sér annan veruleika, og er ný sköpun. Við erum því í sporum þessa manns, og Jesús kemur til okkar hér í kirkjunni í dag og segir við okkur hvert og eitt. EFFAÞA. Eða stöndum við í sporum fólksins sem aðeins undraðist?

Þessi saga geymir því ekki aðeins frásögu af löngu gleymdum manni sem enginn veit nafn eða deila á lengur, heldur geymir hún hin sígildu og eilífu sannindi sem er fagnaðarerindið og á erindi inn í hvern tíma. Hún fjallar um breytingu, að verðA NÝR. Það þarf að opna eyrum fyrir ORÐ GUÐS og láta sig það varða. Leyfa því að hafa áfhrif á sig og breyta sér. Það gerist í þér er þú hlustar á Jesú og nemur af honum. Þú þarft sjálfur að fara þá leið, aðrir gera það ekki fyrir þig ellegar segja þér fyrir verkum í þeim efum. Þú þarft sjálfur að fara þá leið -ekki einu sinni, heldur sífellt og að lifa þessa opnun sem sífelda opnun, sem leiðir af því að heyra það sama og þessi maður fékk að upplifa það að fagnaðarerindið verður manni ljóst og breytt er eftir því. við verðum að láta af blindu okkar, heyrnarleysi og málleysi og opna fyrir skilningarvit okkar. Til þess eru mörg tækifæri á sérhverjum degi.

Guðspjallið hófst með frásögu um útúrdúr á ferðalagi. Lífi okkar má líka við útúrdúr, þar sem við lifum milli fæðingar og dauða í þessum heim, án þess að vita gjörla hvaðan við komum eða hvert við förum. En allt gerist hér í lífi okkar. Annars staðar lifum við ekki. Og sannast sagna þá er vert að fara afsíðis á þessu ferðalagi með Jesú og biðja hann að gefa sér nýtt hjarta og nýja stöðugan anda til að maður fylli ekki þann flokk manna ofbeldis og spottara er undir lok líða, og þann flokk manna sem upprættir verða og er ranglæti iðka, þeir er sakfella menn fyrir rétti og leggja snörur fyrir þá, er vanda um á þingum, og blekkja hina saklausu með hégóma!

Frásögur Nýja-testamentisnins bera það með sér, sem þær eiga það allar sameiginlegt: Að sýna hugarfar Guðs, vinarþel hans til manna í þessum heimi, skapandi kraft hans til að kalla fram nýjan mann, þann mann sem þú ert skapaður til að verða. Frásögurnar eru til að tjá veruleikann sem er á bak við þær. Allar eru þær til útskýringar á því, hver Jesús er.

Frásögurnar eru til að opna eyru manna fyrir sannleikanum og veitir þeim er af vita, að Jesús er hjá þeim. Og þess vegna mitt í samfélagi manna kallar hann manninn, eins og þig og mig og aðra sveitunga til verka, sem verkamenn í víngarði sínum. Þannig hefur það verðir frá upphafi. Það hefur líka sýnt sig á öllum tímum hvernig fer þegar ekki er leitaði inn í einrúmið með Jesú. Menn halda þá áfram að vera brotin sköpun, halda áfram að vera daufir og málhaltir. Það þarf að sönnu djörfun og hug til að sjá það sem þarf að sjá, og segja það sem segja þar, þegar til baka er komið.

Dýrð sé Guði, föður syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. -Amen

Takið postullegri blessun; Náð Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélags Heilags anda sé með yður öllum. -Amen.