Hvernig foreldri ert þú?

Hvernig foreldri ert þú?

Talað er um að til sé að minnsta kosti tvenns konar mikilvægur mismunur í samskiptum foreldra við börnin sín hvað varðar væntingar foreldranna og ábyrgð. Sumir foreldrar vænta mikils af börnum sínum og gera til þeirra kröfur.
fullname - andlitsmynd Gunnar Einar Steingrímsson
11. júlí 2008

Talað er um að til sé að minnsta kosti tvenns konar mikilvægur mismunur í samskiptum foreldra við börnin sín hvað varðar væntingar foreldranna og ábyrgð. Sumir foreldrar vænta mikils af börnum sínum og gera til þeirra kröfur á meðan aðrir vænta lítils eða jafnvel einskis af börnum sínum og reyna sjaldan að hafa áhrif á þau. Ábyrgðarfullir foreldrar viðurkenna þarfir barna sinna og eru í stöðugum samskiptum við þau meðan óábyrgir foreldrar hafa tilhneigingu til að hafna börnum sínum eða gera til þeirra óraunhæfar kröfur og eru neikvæðir. Ef foreldrar eru óábyrgir bregðast börn oft við í uppreisn þegar þau standa frammi fyrir miklum kröfum og finnast þær óréttlátar eða ágengar.             Fjórir hópar foreldra

Bandaríski sálfræðingurinn og fræðikonan Diana Baumrind hefur rannsakað mismunandi uppeldisaðferðir foreldra og skiptir foreldrum í fjóra flokka; skipandi foreldrar, leiðandi foreldrar, eftirlátir foreldrar og afskiptalausir foreldrar;

Skipandi foreldrar:

Þessir foreldrar stjórna börnum sínum með boðum og bönnum og refsa þeim fyrir misgjörðir. Reglur eru margar og skýrar og þeim skal hlýtt í einu og öllu. Þeir útskýra sjaldan ástæður fyrir reglunum sem þeir setja og reiða sig gjarnan á refsingar. Slíkir foreldrar nota sjaldan röksemdir og sýna börnum yfirleitt litla hlýju og uppörvun. Einkenni í þroska barna sem alast upp við þessi skilyrði eru miklar skapsveiflur, pirringur, óánægja, ósjálfstæði o.fl. Oft eru þessi börn stefnulaus og sýna meðal námsárangur og meðalgreind.

Eftirlátir foreldrar:

Þessir foreldrar bregðast vel við hugmyndum barna sinna og leyfa töluverða sjálfsstjórn. Þeir sýna börnunum gjarnan hlýju en setja hinsvegar ekki skýr mörk og reglur eru óljósar. Það vantar áhersluþætti í uppeldinu og ekki eru miklar kröfur gerðar til barnsins. Fáar reglur eru settar og þeim ekki fylgt eftir, þannig skapast oft mikið ósamræmi á milli reglna og viðurlaga. Aðhald er lítið sem ekkert og einkennist oft af lítilli örvun til sjálfstrausts og sjálfstæðis. Foreldrar fylgjast lítið með athöfnum barna sinna og gera ekki tilraunir til þess að stjórna hegðun þeirra. Ást og hlýja er til staðar og börnin geta leitað til foreldra sinna þegar á reynir. Þessir foreldrar eru undanlátssamir og forðast beina árekstra. Börnin eiga oft erfitt með að fóta sig og sýna gjarnan árásarhegðun og eru óróleg. Þau skortir oft á tíðum sjálfsaga, sjálfstraust og metnað til að ná árangri.

Afskiptalausir foreldrar:

Þeir ala börnin sín upp í algeru stjórnleysi og afstiptaleysi. Þeir gera litlar sem engar kröfur til barnanna og setja þeim engin skýr mörk. Segja má að þessi uppeldisaðferð einkennist af vanrækslu. Foreldrarnir veita börnunum sínum engan veginn nægjanlegan stuðning og bregðast ekki við hugmyndum þeirra. Börn sem vaxa upp við slíkar aðstæður geta orðið félagslega vanhæf.

Leiðandi foreldrar:

Slíkir foreldrar krefjast þroskaðrar hegðunar af barninu og taka  vel á móti hugmyndum þess. Þeir eru hvorki uppáþrengjandi né setja barninu stólinn fyrir dyrnar. Engu að síður setja þeir skýrar reglur og mörk um hvað er tilhlýðilegt og hvað  ekki. Til þess nota þeir útskýringar og hvetja barnið til að tjá sín sjónarmið og skýra þau út. Þessi aðferð er stjórnsöm en um leið sveigjanleg þar sem foreldrar gera margvíslegar en sanngjarnar kröfur til barnsins. Þeir láta barnið taka þátt í ákvörðunum varðandi fjölskylduna og gefa þeim kost á að koma skoðunum sínum á framfæri. Þessir foreldrar nota stjórnun á lýðræðislegann hátt og bera virðingu fyrir sjónarmiðum barnsins. Reglur eru settar miðað við aldur og þroska barna og eru útskýrðar vel og vandlega. Leiðandi foreldrar sýna börnunum jafnframt mikla hlýju, hvatningu og uppörvun. Börn sem eru alin upp á þennan hátt hafa góða sjálfsmynd og eru athafnarsöm, félagslynd og sjálfsörugg. Þau eru dugmikil, eiga gott með að aðlagast og ná iðulega góðum námsárangri. Þetta er talin vænlegasta uppeldisleiðin þegar litið er til framtíðar barnanna.

            Mikilvægt er að gera sér grein fyrir að þessi flokkun er ekki endilega eingöngu bundin við foreldra og/eða forráðamenn. Þessi flokkun getur einnig átt við alla aðra aðila sem koma að uppeldi barna og unglinga; leikskólakennarar, kennarar, íþróttaþjálfarar, leiðtogar í félagsmiðstöðvum og æskulýðssamtökum, prestar, djáknar og æskulýðsfulltrúar. Þessir aðilar heyra allir undir þessa skiptingu og án efa fleiri til.             Samspil uppeldis og námsárangurs

Það þykir sýnt að uppeldisaðferðir foreldra ráða miklu til um hver tengslin eru á milli þátttöku foreldra í skólagöngu barnsins og námsárangurs þess. Þátttaka foreldra í skólagöngu unglinga ýtir undir betri námsárangur einungis hjá unglingum leiðandi foreldra. Það er því ekki aðeins hvað foreldrar gera í tengslum við skólastarfið og námið sem skiptir mestu máli heldur hvers konar uppeldisaðferðir foreldrar noti í samskiptum við börnin sín. Börn sem búa við leiðandi uppeldi eru móttækilegri fyrir leiðbeiningum foreldra heldur en börn sem búa við annarskonar uppeldi. Þannig verður félagsmótunin árangursríkari. Heimili sem einkennist af gagnkvæmu trausti og viðurkenningu þar sem málin eru rædd og áhersla er lögð á að laða fram sjónarmið bæði barnanna og foreldranna efla vitsmunalegan og félagslegan þroska barnanna og styrkir sjálfsmynd þeirra og ábyrgðarkennd.             Hvernig foreldri ert þú?

Ljóst þykir að vænlegast til árangurs í uppeldi er að skipa sér í hóp leiðandi foreldra. Þar sem barnið er virt sem sjálfstæður einstaklingur og það fær tækifæri til þess að tjá sig og því er mætt  með skilningi, hlýju, ást og aga. Reglurnar eru skýrar og þær eru vel útskýrðar fyrir barninu og barnið á sjálft þátt í því að móta reglurnar á lýðræðislegum grunni. Börnin okkar eru það dýrmætasta sem við eigum, gefum þeim aðeins það besta og stöndum okkur í uppeldinu!