Rannsökum breytni vora!

Rannsökum breytni vora!

Vélar eru prófaðar, þar er hægt að gera kröfur og búa til reglur og staðla. Stjórnun fyrirtækja er prófuð og þar eru einnig settir fram gæðastaðlar, sem farið er eftir. En þegar kemur að breytninni, samskiftum okkar við annað fólk, tjáskiptum við okkar nánustu ástvini, við samstarfsfólk á vinnustað og almennt í þjóðfélaginu, - hvaða staðla höfum við þar? - Á hverju byggir siðferðið?
fullname - andlitsmynd Jón D Hróbjartsson
31. desember 2005
Flokkar

“Rannsökum breytni vora og prófum hana og snúum oss til Drottins”.

Þannig segir í lexíu gamlárskvölds, - áhugaverð ábending, sem vel er við hæfi að staldra við og hugsa um við áramót.

Við höfum flest heyrt fréttayfirlit ársins, heyrt og skoðað hvað valdhafar og stjórnendur þjóðanna hafa verið að fást við síðustu mánuði, hvernig hagstjórnin hefur þróast, hvernig umhverfismálin standa, hvernig stríðsreksturinn gengur, - hverjir eru bestir, ríkastir, fallegastir, - hverjir skara fram úr á hinum stóra “keppnisvelli” lífsins.

Allt þetta er mælt, - skoðanakannanir sýna ýmsa athyglisvera hluti og fátt virðist ekki vera hægt að mæla nú á dögum.

Árið sem nú hverfur í aldanna skaut hefur verið gjöfullt og gott í mörgu tilliti og fyrir það getum við verið afar þakklát, ekki síst við sem lifum á þessu góða landi, sem Guð hefur gefið okkur. En erfiðleikarnir og sorgin hafa einnig snert marga, í því sambandi þarf engar skoðanakannanir eða útreikninga, staðreyndirnar blasa við. Gífurlegar náttúruhamfarir hafa átt sér stað, hundruð þúsunda hafa farist og enn fleiri hafa misst húsnæði og allar eigur sínar, austanhafs og vestan. Auk þessara skelfilegu atburða, þá hafa hryðjuverk verið framin, borgarastyrjaldir geysað, já mikill ófriður ríkt víða, svo ekki sé minnst á umferðaslysin, sem verða æ fleiri, dýrar fórnir á altari velmegunarinnar -

Þegar við rannsökum þetta og prófum, þá trúi ég að okkur flest hrylli við, - verkefnin eru svo stór, það eru svo margir sem ekki fá næga hjálp, svo margir sem þjást.

- Og hér á landi hafa einnig orðið áföll, stór og smá, sem margir líða undan. Íslenska Þjóðin hefur enn á ný brugðist vel við og tekið á í söfnunum Hjálparstarfs kirkjunnar, Rauða krossins og fleiri, sem vissulega hafa hvatt okkur til dáða Þó alltaf megi gera betur í þessum efnum, ekki síst með tilliti til góðærisins sem hér ríkir, er ástæða til að gleðjast yfir gjafmildinni. Þakka öllum þeim mörgu sem hafa lagt bágstöddum lið með einum eða öðrum hætti.

Vissulega er verið að gera góða hluti, gleymum því ekki, Sameinuðu þjóðirnar eru að vinna vel á mjög mörgum stöðum, þúsundir manna eru við hjálpar- og líknarstörf á vegum hjálparstofnana, - áætlanir eru gerðar til margar ára til hjálpar fátækum þjóðum. En það er sorglegt hvað allt þetta þarf að taka langan tíma, og að svona stór hluti af fjármagni ríku þjóðanna, eins og rauna ber vitni, skuli þurfa að renna í stríðsrekstur, hergögn, endalausa eyðileggingu og þref, þar sem stundum þröng eiginhagsmunamál virðast vera látin ráða. Gleðileg frétt kom þó í vikunni um athugn sem sýnir að nú séu mun færri stríð en voru fyrir 15 árum, árangur sem vert er að fagna

“Rannsökum breytni vora”, - það er mjög hollt á horfa til baka, nauðsynlegt að doka við, gera árið upp, draga saman söguna, svo okkur verði betur ljóst hvar við stöndum. En hvernig prófum við þetta, við hvaða mælikvarða ætlum við að prófa breytnina, út frá hverju göngum við? Hver eru viðmið okkar?

Vélar eru prófaðar, þar er hægt að gera kröfur og búa til reglur og staðla. Stjórnun fyrirtækja er prófuð og þar eru einnig settir fram gæðastaðlar, sem farið er eftir. En þegar kemur að breytninni, samskiftum okkar við annað fólk, tjáskiptum við okkar nánustu ástvini, við samstarfsfólk á vinnustað og almennt í þjóðfélaginu, - hvaða staðla höfum við þar? - Á hverju byggir siðferðið?

Jú, við höfum staðla, við höfum góðar reglur, sem allir hafa aðgang að. Við höfum fyrir það fyrsta almenna skynsemi, við höfum Boðorðin 10, lífsreglurnar góðu, sem fólk hefur haft í aldir og vissulega reynt að nota, - við höfum kærleiksboðskap Jesú Krists, sem er mjög skýr og afdráttarlaus.

“Rannsökum breytni vora og prófum hana og snúum oss til Drottins”.

Hvernig snúum við okkur til Drottins að þessu leyti? - Jú, það getum við gert með því að skoða breytni okkar í ljósi Guðs orðs, skoða breytni okkar í því ljósi sem við höfum aðgang að í hinum kristnu gildum.

Í jólatexunum segir m.a. Hið sanna ljós sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn. Þessi birta hefur svo sannarlega farið um heiminn síðustu daga í boðskap jólanna í óteljandi helgistundum, góðverkum og kærleiksverkum sem unnin eru í anda friðarhöfðingjans eina og sanna, þar sem hægri höndin veit ekki hvað sú vinstri gerir, - að við fáum náð til þess að gefa án þess að vænta endurgjaldsins, gefa án skilyrða og lifa í anda kenningar Krists, að það er sælla að gefa en þiggja.

Hið sanna ljós sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn, - Þetta undursamlega ljós, er handa öllum, nægilegt til að upplýsa hvern og einn einstakling, - orkuveita sem nægir til að breyta öllum manneskjum, hvorki meira né minna.

Öllum verður okkur á, hvarvetna er verið að takast á um menn og málefni, ekki síst inni í fjölskyldum, í einkalífi.

Það kemur betur og betur í ljós, að mjög víða er pottur brotinn í samkiftum á heimilum, að meira ofbeldi, andlegu og líkamlegu er beitt en haldið var. Þetta er mikil sorgarsaga, - hér er hið opinbera að reyna að gera það sem hægt er til úrbóta, en breytingin verður að koma innan frá, hugarfarsbreytingin þarf að koma frá okkur sjálfum og til þess höfum við ýmis ráð. Hægt er að fá meiri hjálp en nokkru sinni hjá þjálfuðu og hæfu fólki, maður getur lesið góðar bækur til að elfa sig í mannlegum samskiftum.

Bók Gunnars Hersveins, Gæfuspor, og reyndar fleiri svipaðar, sem komu út fyrir síðustu jól, - eru gott dæmi um aðgengilega lesningu, sem eflir okkur til sjálfshjálpar, bækur sem byggja á góðum gildum, kristnum gildum, þar sem hvatt er til að lifa í fyrirgefningu, sátt og samlyndi.

Það sýnir sig, að hægt er að æfa sig í góðum gildum, á sama hátt og maður æfir ákveðna vöðvar með því að fara í líkamsræktarstöðvar. þannig getur maður á hverjum degi gert andlegar æfingar, rannsakað breytni sína, prófað hana - og, eins og texti kvöldsins hvetur okkur til, - snúið sér til Drottins, íhugað orðið hans, iðkað bænina.

Við megum snúa okkur til hans sem gefur lífið, til hans sem vill ganga með okkur í velgengni og mótlæti, gefa okkur frið, innri gleði og sátt.

Dæmisaga Jesú í guðspjalli kvöldsins er enn eitt dæmið um náðina, fyrirgefninguna, umburðarlyndið, sem Jesús kenndi. Fíkjutréð hafði ekki borið ávexti í þrjú ár, - eigandinn var vonsvikinn, vildi helst höggva tréð upp, það var til einskis nýtt. En víngarðsmaðurinn sagði: Herra, lát það standa enn þetta árið, þar til er ég hefi grafið um það og borið að áburð, má vera að það beri ávöxt síðan, annars skaltu höggva það upp.

Náðarfaðmur Guðs stendur opinn, enn eitt ár fáum við til að gera betur, til að rannsaka breytni okkar og prófa hana, til að efla okkur sjálf, bæta mannlífið í kringum okkur, takast á við verkefni lífsins heima fyrir og í þjóðfélaginu almennt hér heima og úti í hinum stóra heimi, - verkefnin eru næg.

En það kemur að skuldadögunum. M.ö.o. við erum kölluð til ábyrgðar. Að vera manneskja er alvörumál, en við höfum góða vegvísa, frábær gildi til að feta okkur eftir í þessu lífi.

Kristur sagði: Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Þessi þrjú innihaldsríku orð eða hugtök eru dæmi um gott íhugunarefni fyrir allt næsta ár, rannsökum þau, prófum þau og snúum okkur til Drottins.