Rannsóknaprófessor og tungutak

Rannsóknaprófessor og tungutak

Við erum svo heppin í dag að fá að búa við fjölbreytni í samfélaginu hvað lífsskoðanir og menningu varðar. Sú fjölbreytni fær staðist svo lengi sem við gætum þess öll að draga ekki hvort annað í dilka.

avextir

Það er ástæða til að fagna grein dr. Magnúsar Magnússonar í Fréttablaðinu þann 10. ágúst á bls. 16 sem hann kallar ,,Trúmál og tungumál.“ Of sjaldan láta háskólaprófessorar utan guðfræði- og trúarbragðafræðideildar sig trúmál varða. Það er miður því öll opinber umræða ætti að geta leitt til aukins skilnings á viðfangsefninu. Í greininni lýsir hann áhyggjum sínum: Framsetning á trúarlegu efni á Íslandi sé of einhliða. Bendir hann réttilega á að ekki hefur farið mikið fyrir gagnrýninni umræðu um trúmál á Íslandi. Slíka umræðu þarf að efla og er ég honum sammála hvað það varðar.

En forsenda slíkrar umræðu hlýtur að vera að hún fari fram á jafningjagrundvelli. Prófessor sem skrifar um trúmál og tungumál verður að gæta að eigin tungutaki. Við erum svo heppin í dag að fá að búa við fjölbreytni í samfélaginu hvað lífsskoðanir og menningu varðar. Sú fjölbreytni fær staðist svo lengi sem við gætum þess öll að draga ekki hvort annað í dilka. Hér er ábyrgð háskólaprófessora mjög mikil.

Inntak greinarinnar verður ekki skilið öðruvísi en svo að Magnús Magnússon hafi verið sá eini sem staddur var á 1.000 manna samkomu í Háskólabíói sem ekki var hafður að fífli, enda hann einn fárra sem hafi haft menntun til að skilja það sem fram fór. Því miður var ég ekki staddur á umræddri samkomu, þá hefðum við að minnsta kosti verið tveir! Nei, í allri alvöru, ef gagnrýnin umræða á að skila sér sem rýni til gagns verðum við að taka hvort annað alvarlega og haga tungutaki okkar á þann veg að þeim sem er á annarri skoðun sé ljóst að hann er tekinn alvarlega í sínum veruleika.

Í greininni vitnar Magnús í samtal við ónafngreindan guðfræðing við HÍ. Ef rétt er haft eftir af hálfu Magnúsar er um alvarlegar aðdróttanir í garð guðfræði- og trúarbragðafræðideildar Háskóla Íslands að ræða. Hann heldur því fram að þau sem starfa á vettvangi þjóðkirkjunnar séu ekki fær um að setja fram gagnrýni í garð þess hvernig aðrar kristnar kirkjudeildir starfa. Eins og alþjóð veit hafa flestöll sem starfa fyrir þjóðkirkjuna numið við HÍ. Vont væri ef satt reyndist að gagnrýn hugsun væri ekki kennd við HÍ og þarf Magnús að færa nánari rök fyrir því! Hitt er rétt að lítið fer fyrir umræðu um trúmál almennt, kannski af því að okkur hættir til að halda að umburðalyndi felist í afskiptaleysi. Hér er úrbóta þörf og grein Magnúsar þörf áminning þar að lútandi.

---

[Þessi grein birtist einnig í Fréttablaðinu, 11.ágúst á bls. 18.]