Kærleiksþjónustan og kirkjan

Kærleiksþjónustan og kirkjan

Í kærleiksþjónustunni fylgir kristinn einstaklingur fordæmi Krists þegar hann gerðist þjónn lærisveina sinna og þvoði fætur þeirra. Þar sýndi Kristur ekki aðeins í verki hvað hann átti við þegar hann sagði að ,,allt sem þér gerið einum minna minnstu bræðra hafið þér gjört mér” heldur veitti hann boðskap sínum um leið dýpri og fyllri merkingu með eftirminnilegum hætti. Skilin milli gerandans og þiggjandans voru afmáð.
fullname - andlitsmynd Pétur Björgvin Þorsteinsson
01. september 2006

Föstudaginn 15. september næstkomandi stendur Djáknafélag Íslands fyrir ráðstefnu undir yfirskriftinni Kærleiksþjónustan og kirkjan í dag. Tilgangurinn með henni er að stuðla að almennri umfjöllun um hlutverk, ímynd og framtíð kærleiksþjónustunnar. Eða með öðrum orðum að ná hugtakinu niður úr skýjum stofnanavæðingar og spyrja hvað það þýði fyrir mig og þig! Kirkja sem vill stíga skref fram á við og láta að sér kveða í þágu náungans verður að vera sjálfsgagnrýnin og ófeimin við að bera fram hagnýtar spurningar.   Orðið kærleiksþjónusta hefur orðið æ algengara innan þjóðkirkjunnar á síðari árum í stað orðsins díakonía (e. diaconia). En eins og gefur að skilja hefur orðið kærleiksþjónusta verið túlkað með mismunandi hætti og ekki allir verið á eitt sáttir um ágæti þess eða merkingu. Slík viðbrögð eru skiljanleg, sérstaklega í ljósi þess að á síðari árum hefur sú tilhneiging orðið sterkari í þjóðkirkjunni að greina hana niður í starfssvið sem hvert og eitt hefur sitt afmarkaða heiti. Það er því ekki síst þess vegna sem það er nauðsynlegt að spyrja hvað felist í kærleiksþjónustu kirkjunnar.

Í kærleiksþjónustunni fylgir kristinn einstaklingur fordæmi Krists þegar hann gerðist þjónn lærisveina sinna og þvoði fætur þeirra. Þar sýndi Kristur ekki aðeins í verki hvað hann átti við þegar hann sagði að ,,allt sem þér gerið einum minna minnstu bræðra hafið þér gjört mér” heldur veitti hann boðskap sínum um leið dýpri og fyllri merkingu með eftirminnilegum hætti. Skilin milli gerandans og þiggjandans voru afmáð.   Kærleiksþjónustan er að sama skapi gagnkvæm. Þar mætast tveir eða fleiri gerendur, því að við erum öll kölluð til að þjóna hvert öðru. Þannig er kærleiksþjónustan hugsuð sem hluti af virkri þátttöku einstaklinga í því samfélagi sem þeir búa í hverju sinni. Tilvist sína sækir kærleiksþjónustan meðal annars í frásögn Jesú um miskunnsama Samverjann þar sem hinn kristni einstaklingur er minntur á vægi verkanna. Þess vegna á kærleiksþjónustan að endurspeglast í viðmóti og gjörðum kristinna manna, hluttekningu þeirra og hlýhug til ólíkra hópa þjóðfélagsins, óháð lífsskoðun þeirra eða aðstæðum.

Með ráðstefnunni vill Djáknafélagið velta birtingarmyndum hugtaksins kærleiksþjónusta fyrir sér og því starfi sem fellt er undir hatt þess. Þar er þó ekki aðeins mikilvægt að líta í eigin barm heldur einnig út fyrir landamærin. Þess vegna hefur félagið fengið Heide Paakjaer Martinussen frá evrópsku kærleiksþjónustusamtökunum Eurodiaconia til liðs við sig. Í fyrirlestri sínum mun hún tengja umræðuna um stöðu kærleiksþjónustu kirkjunnar í Evrópu í dag við frásagnir af kærleiksþjónustu af vettvangi aðildarfélaga samtaka hennar sem starfa í um 20 löndum.   Innlit í starf kærleiksþjónustustofnanna í Evrópu og frásagnir af því hvernig hin ýmsu félög og kirkjur sjá hlutverk sitt og haga vinnu sinni ætti að vera vatn á myllu okkar í þjóðkirkjunni nú þegar átaksár hennar um kærleiksþjónustu og hjálparstarf er að hefjast. Ráðstefnan er því kjörið tækifæri fyrir alla sem vilja láta sig kærleiksþjónustu kirkjunnar varða. Nánari upplýsingar um ráðstefnuna má finna á www.kirkjan.is/di