Drambsemin og auðmýktin, eggið og hjartað

Drambsemin og auðmýktin, eggið og hjartað

Þó skulum við varast að fella nokkra dóma yfir jakkafata höfðingjum þessa heimsfræga lands sem eru sneisafullir af sjálfum sér því að dómurinn getur hitt okkur sjálf fyrir fyrr en varir. Það þarf engan landsdóm til í þessu sambandi eða Hæstarétt.

Jesús segir: ,,Enginn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammón. Því segi ég yður: Verið ekki áhyggjufull um líf yðar, hvað þér eigið að eta eða drekka né heldur um líkama yðar, hverju þér eigið að klæðast. Er lífið ekki meira en fæðan og líkaminn meira en klæðin? Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim? Og hver yðar getur með áhyggjum aukið einni spönn við aldur sinn?

Og hví eruð þér áhyggjufull um klæðnað? Hyggið að liljum vallarins, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna. En ég segi yður: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búinn sem ein þeirra. Fyrst Guð skrýðir svo gras vallarins sem í dag stendur en á morgun verður í ofn kastað, skyldi hann þá ekki miklu fremur klæða yður, þér trúlítil! Segið því ekki áhyggjufull: Hvað eigum vér að eta? Hvað eigum vér að drekka? Hverju eigum vér að klæðast? Allt þetta stunda heiðingjarnir og yðar himneski faðir veit að þér þarfnist alls þessa. En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki. Hafið því ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur. Hverjum degi nægir sín þjáning". (Matt.6.24-34)

Drottinn Guð, verndari allra sem á þig vona, við biðjum þig: Léttu af okkur áhyggjunum um framtíð okkar og kenndu okkur að horfa til þín og treysta gæsku þinni allar stundir fyrir son þinn Jesú Krist. Amen.  

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.  

Ríkur óðalsbóndi réð vegavinnumenn til starfa. Einn þeirra var trúaður kristinn maður. Óðalsbóndinn horfði á hann með fyrirlitningu og hroka og mælti: ,,Allt þetta er mín eign, svo langt sem augað eygir, allur dalurinn, akrarnir, engin og skógarnir fyrir handan”. Vegavinnumaðurinn benti upp og spurði hæversklega: ,,Á óðalsbóndinn líka himinninn?” Nóttina eftir dreymdi bóndann draum og varð mjög hræddur. Í draumnum var honum sagt að ríkasti maðurinn í sveitinni væri dáinn. Þetta gat aðeins átt við um hann sjálfan. En þessa nótt hafði fátæki vegavinnumaðurinn verið kallaður heim til Drottins.  

Ríkidæmið í Guði

Þegar öllu var á botninn hvolft þá var vegavinnumaðurinn ríkari en óðalsbóndinn af því að hann átti fjársjóð á himnum sem mölur og ryð fær ekki eytt, eilíft líf með Guði sem hófst þegar hann var borinn til skírnar sem ómálga barn. Þá varð hann jafnframt barn Guðs og borgari í ríki hans sem hefur engin landamæri. Eins og nærri má geta hafði þessi fjársjóður áhrif á allt hans líf. Gildismat hans í lífinu mótaðist af þeirri staðreynd að hann leitaðist við að feta í fótspor frelsarans með lífi sínu og starfi. Auður hans varð ekki mældur í efnislegum gæðum heldur andlegum, samfélaginu við Guð og margvíslegum gjöfum sem hann þáði frá Guði, fæði, klæðum, móður - og föðurást,  fjölskyldu og húsaskjóli.  

Grunnþarfir líkamans, sálarinnar og andans

Hvar liggur fjársjóður okkar? Er hann fólginn í efnislegum gæðum þessa heims eða tilheyrir hann himninum?  

Við erum líkami, sál og andi.  

Við þekkjum þarfir líkamans betur en þarfir sálarinnar og andans vegna þess að við erum betur meðvituð um þarfir líkamans en sálarinnar og andans. Líkaminn þarf fæðu, klæði og húsaskjól.  Þetta eru grunnþarfir líkamans. Sálin nærist af samfélaginu sem við eigum hvert við annað hér og nú og af samfélaginu sem við eigum við fjölskyldu og vini nær og fjær.  Við finnum jafnframt oft hvað það er yndislegt að hlýða á fallega tónlist sem vekur hughrif og gleði. Falleg tónlist er góð næring fyrir sálina. Þess vegna er kirkjutónlistin svo mikilvæg, hún hefur okkur upp til skýja, hressir, bætir og kætir sálina. Orgelið er drottning hljóðfæranna er stundum sagt og kórraddirnar taka undir raddir englanna á Betlehemsvöllum sem forðum sungu ,,Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu og velþóknun yfir mönnum”.  Ekkert er jafn nærandi fyrir andann en að lesa eða hlýða á Guðs orð, hugleiða hvað Guð vill segja við okkur og biðja og þakka honum fyrir allar góðar gjafir hans. Þá erum við með hjartað á réttum stað. Móðir sem biður með og fyrir barni sínu finnur þetta ekki síst á eigin skinni hversu yndislegt það er að eiga slíka stund með barni sínu á hverjum degi. Þá hljómar lofsöngur í hjarta hennar.  

Við höfum hlýtt á orð Guðs í dag og það vill svo til að þar er skilyrðislaus kærleiki móður í garð barns sins áréttaður fyrir orð Jesaja spámanns í lexíu dagsins  ( Jes 49.13-16a ) sem spyr: ,,Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu?”. ( Jes.49.15) Móðurástin er að sönnu sterk og sönn. Móður sem auðnast að hafa hjartað á réttum stað á vegferð sinni í gegnum lífið miðlar þeim fjársjóði sem mölur og ryð fær ekki eytt. Hún miðlar eilífum kærleika Guðs sem er hreyfiafl til góðs og gæfu í þessum heimi.  Og ekki skulum við gleyma að minnast á hlut feðra í þessu sambandi sem hafa veitt börnum sínum óskilyrta föðurást, hlýju og umhyggju og öryggi. Þetta eru allt mikilsverðir þættir í uppeldi barna sem ekki má vanrækja, ekki má gleyma.  

Pistillinn í fyrra Pétursbréfi  ( 1Pét 5.5c-11 ) varar okkur við drambseminni sem er andstæða óskilyrtrar móður og föðurástar. Þar segir postulinn Pétur að Guð standi gegn dramblátum en auðmjúkum veiti hann náð. Það er haft eftir manni nokkrum að drambsamur maður líkist eggi. ,,Það er svo sneisafullt af sjálfu sér að ekkert rúmast þar annað".  Hér er vel að orði komist og við íslendingar þurfum ekki að leita langt yfir skammt til að finna slíka einstaklinga. Þó skulum við varast að fella nokkra dóma yfir jakkafata höfðingjum þessa heimsfræga lands sem eru sneisafullir af sjálfum sér því að dómurinn getur hitt okkur sjálf fyrir fyrr en varir. Það þarf engan landsdóm til í þessu sambandi eða Hæstarétt. Mér þykir samt einkennilegt að fyrirfinna einstaklinga í þjóðfélaginu sem ég get hvorki gefið nokkuð né heldur svipt neinu þrátt fyrir allt sem á undan er gengið. Það er líkt og þeir séu í blárri grásleppu tunnu sem er búið að loka.  

Auðmýktin og fyrirgefningin

 

Lífið er löng kennslustund í auðmýkt. Hvað er óbuganlegt nema auðmýktin? Hvað er sigurvisst nema þolgæðið?, spurði Lagerlöf. Sá sem er auðmjúkur veit það ekki sjálfur, sagði siðbótarfrömuðurinn Marteinn Lúter.  Það skyldi þó ekki vera að við þurfum að brjóta odd af oflæti okkar til að komast nær Guði?  Einlæg og sönn iðrun er undanfari fyrirgefningar.

 

Við ættum að venja okkar á það að horfa  á tómar hendur okkar á hverjum degi minnug þess að Guð vill gefa okkur allt sem við þörfnumst. Því að þegar við leggjum þær svo saman og biðjum í einlægni til hans þá lýkst upp fyrir okkur að við erum ríkari en við hugðum. Gjafir hans blasa við okkur frá degi til dags, fæði, klæði og húsaskjól en við höfum svo oft vanrækt að þakka honum fyrir þær. Við þurfum jafnframt að læra að strá jafnmörgum blómum á veg hinna lifandi og kistur hinna látnu því að þakkarskuldin er eina skuldin sem auðgar manninn.  

Fögur eru bænarorðin: ,,Kom þú Drottinn og dvel í hjarta mínu”. Allt felst í þessum orðum. Við höfum allt sem við þörfnumst  ef Drottinn kemur inn í hjartað til að eiga samfélag við okkur Til þess að svo megi verða þurfum við að lítillækka okkur svo að Drottinn komist inn. Við verðum að auðmýkja okkur, ganga inn í okkur sjálf, iðrast og biðjast fyrirgefningar, svo að okkur veitist allt sem við þörfnumst. 

 

Lykillinn að dyrunum 

Þetta er það sem við sjáum þegar við kíkjum í gegnum skráargatið. Jesús sjálfur er dyrnar. Lykillinn er orð frelsarans í guðspjalli dagsins þar sem hann segir: ,,En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki”. ( Matt. 6.33)  

Við þurfum að fela okkur algerlega á vald Guðs, standa andspænis staðreyndinni eins og lítið barn sveipuð skikkju auðmýktarinnar, vera reiðubúin að sleppa öllum fordómum, taka með auðmýkt öllu sem lífið kennir okkur minnug þess að enginn getur stolið minningum, heiðri eða sjálfsvirðingu.  Það er auðvelt að tala um þetta hér í prédikunarstólnum en mun erfiðara að láta af þessu verða vegna þess að við erum  áhyggjufull oft á tíðum og eigum erfitt með að treysta því að Guð muni vel fyrir sjá. Nú svo getur vel verið að við séum eins og sneisafullt egg, full af drambsemi?

 

Áhyggjurnar

 

Jesús notar orðið ,,áhyggjur”, í tengslum við fimm þætti í guðspjalli dagsins,  lífið, matinn, drykkjarföng, klæðnað og aldur.  Það er rökrétt að hafa samasem merki milli jarðneskra fjársjóða og áhyggna.  Rökfræðin er þá á þessa leið:  

Því meira sem við eigum því meira getum við tapað. Því meiru sem við töpum því meira þurfum við að verja og líta eftir. Því meira sem við þurfum að verja og lífa eftir því meiri skaða munum við verða fyrir með því að týna því sem við eigum. Því meiri skaða munum við verða fyrir með því að týna því áhyggjufullari verðum við um að týna því. Það sem við héldum að myndi færa okkur öryggi hefur þá snúist upp í andhverfu sína og við upplifum óöryggi.  

Traust og gleði í Guði

Þessa fimm áhyggjuþætti er hins vegar ekki að finna hjá þeim einstaklingum sem eiga fjársjóð á himni samkvæmt orðum Jesú í guðspjalli dagsins. Þeir treysta því að Guð muni sjá þeim fyrir því sem þá vanhagi um.   

Í fyrsta lagi hafa þeir ekki áhyggjur af fæðunni.  

Fæðan er okkur nauðsynleg og við erum skyldug til að vinna fyrir fæðu okkar. En kristið fólk lítur svo á að fæðan eigi að þjóna því en ekki ráða yfir því.  

,,Lítið til fugla himinsins”, segir Jesús..,,Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá”. ( Matt. 6.26 ) Hér segir Jesús að við séum ábyrg fyrir því að útvega fæði fyrir fjölskylduna.  Fuglar sitja ekki í hreiðrum sínum með munnana opna og bíða eftir því að Guð láti matinn rigna niður til þeirra. Fuglar vinna ötullega að því að safna fæðu fyrir sig og unga sína, en hlutverk hins himneska föður er að sjá til þess að fæða þeirra sé til staðar svo að þeir geti náð í hana sjálfir. Páll postuli minnist á þetta í bréfi sínu til Þessalonikumanna er hann segir: ,,Ef einhver vill ekki vinna þá á hann ekki heldur mat að fá”. (2. Þess. 3.10 b ) Tekið skal fram að hér á Páll ekki við þá sem geta ekki unnið af ýmsum ástæðum vegna veikinda eða fötlunar. En séum við fær um það þá ber okkur skylda til að vinna fyrir eigin fæðu. Í þessu samhengi ber samfélaginu, ríkisvaldinu, sveitarfélögum, ,,furstanum”,  skylda til þess að sjá til þess að næga atvinnu sé að fá fyrir þá sem geta unnið.  

Í öðru lagi hafa þeir sem eiga fjársjóð á himni ekki áhyggjur af klæðnaði.  

Í þjóðfélagi efnishyggjunnar þá skiptir fatnaður miklu máli. Þar er sagt með ýmsu móti að fötin skapi manninn. Ímyndarherferðir ganga allar í þessa veru. Ef þú ert ekki nógu vel klædd /ur þá er ekki mark á þér takandi. Ég tók eftir þessu í Héraðfréttablaðinu Skarpi um daginn þegar blaðamaður Skarps fór að taka viðtal og ljósmynd af þekktri persónu, frú Klingenberg, sem sótti húsvíkinga heim í tilefni af opnun verslunar.  Þá spurði hún blaðamanninn hvar sæti myndarlegi blaðamaðurinn frá Skarpi væri sem ætlaði að taka við sig viðtal?  

Jesús segir í þessu sambandi: ,,Hyggið að liljum vallarins, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna. En ég segi yður: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búinn sem ein þeirra. Fyrst Guð svo skrýðir svo gras vallarins sem í dag stendur en á morgun verður í ofn kastað, skyldi hann þá ekki miklu fremur klæða yður, þér trúlítil?”. (Matt. 6.28-30 ) Við skulum minnast þess að sanna fegurð er ekki að finna á yfirborðinu heldur er sanna fegurð að finna innra með hverjum og einum sem finnur frið og rósemd í Guði. Þessi fegurð brýst svo fram í sérhverju óeigingjörnu góðverki sem innt er af hendi og fer jafnan hljótt.  Nærtækt dæmi er verkamaðurinn sem heimsótti fötluðu konuna í Reykjavík í fyrradag og greiddi fyrir hana bílrúðuna í bílnum hennar sem brotin var þegar einhver henti bílastæðaskilti fyrir fatlaða í bílrúðuna hennar. Ekki vildi hann láta nafns sins getið eða sjást hver hann væri. Hér var ,,miskunnsami Samverjinn” á ferð í sannri auðmýkt.  

Í þriðja lagi þá má segja að kristið fók hafi ekki áhyggjur af aldri sínum.  

Þegar við höfum eilífðina fyrir sálarsjónum þá hefur dauðinn misst brodd sinn. Hann getur ekki ógnað okkur. Þeir sem eiga fjársjóð á himnum þurfa ekkert að óttast því að dauðinn getur ekki ógnað þeim dýrmæta fjársjóði sem við eigum á himnum.  

,,Dauðinn er uppsvelgdur í sigur”, segir Páll postuli. (1. Kor. 15.55) ,,Dauði, hvar er sigur þinn? Dauði, hvar er broddur þinn?”  

Það er meira virði að eiga nafn sitt skráð á himnum en í stórum banka hér á jörð. Hólpin sál er dýrmætari en allur heimurinn, segir Jesús.  

Hér á jörðu er margt yndislegt og fagurt, einnig fyrir börn Guðs, okkur sem hér erum saman komin í húsi Guðs. Við eigum margt sem við getum glaðst yfir. Við gleðjumst af því að njóta góðrar heilsu og eiga góð heimili. Starfsorka, vinnugleði og fjölmargt annað er líka okkar, auðlegð hafsins, fjalla, fljóta, dala, söngur fuglanna, fegurð blómanna.  Það er svo margt fallegt og gott sem er viðbót við hinn eiginlega auð. Ef við eigum fjársjóð okkar á himnum mun Guð gefa okkur allt þetta að auki.  

Kæri söfnuður, lykillinn að góðu, heiðvirðu lífi eru orð Jesú: ,,Leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki”. (Matt. 6.33) Þegar við höfum komist að þeirri niðurstöðu að hinn sanni fjársjóður okkar sé á himni þá höfum við rétta sýn á lífið og tilveruna og þá er Herra okkar Guð sjálfur. Þá mun allt annað veitast okkur að auki.

 

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var frá upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.  

Sr. Sighvatur Karlsson sóknarprestur á Húsavík flutti þessa prédikun í Húsavíkurkirkju sunnudaginn 12 september, 15 sunnudag eftir þrenningarhátíð.