Loforð um samfylgd

Loforð um samfylgd

Það var ekki fyrr en rúmu ári síðar sem ég gafst upp. Ég hafði harkað það af mér að lokum að ganga af stað út í laugardagskvöldið og ég held það hafi verið rétt áður en ég gekk framhjá 10-11 á Hjarðarhaga sem ég gafst upp.
fullname - andlitsmynd Hjalti Jón Sverrisson
27. október 2013
Flokkar

„Ég veit ekki hvar ég verð, en ég verð með þér.”

Það leikur þoka um minningu mína af því að hafa samið sálminn sem ég flutti fyrir ykkur hér áðan. Þessi þoka gerir minninguna óræða, gerir hana að ljósbrotum sem leika um í huganum. En leiðarvísir minn í landi minninganna eru tilfinningarnar og ég man vel hvaða tilfinningar börðust um í brjósti mínu. Það var eftirmiðdegi og gítarinn speglaði sólargeislum vorsins, nóttin á undan hafði verið löng, ég var þreyttur en gat ekki sofið og ég þráði uppgjöf. Þessi þrá eftir uppgjöf er sú tilfinning sem birtist mér sterkast þegar ég hugsa til baka. Að teygja sig eftir henni, með orðum, hugsunum og hljómum, að vilja allt gera en grípa í tómt. Misskilningur minn á þessum tíma var einmitt fólginn í þessu; að grípa í tómt í stað þess að einfaldlega sleppa.

Þennan dag var ég ekki tilbúinn að gefast upp, ekki að fullu.

Það var ekki fyrr en rúmu ári síðar sem ég gafst upp. Ég hafði harkað það af mér að lokum að ganga af stað út í laugardagskvöldið og ég held það hafi verið rétt áður en ég gekk framhjá 10-11 á Hjarðarhaga sem ég gafst upp. Stærstu augnablik lífs okkar eru sum hver svo fullkomlega hversdagsleg og laus við alla umgjörð flugeldasýningar. Þetta kvöld lærði ég að það er ekkert dramatískara í þessu lífi en að rölta framhjá hávöruverslun sem er opin allan sólarhringinn. Og ég gafst upp. Ég gafst upp því það var ekkert annað eftir. Ég hafði prufað allar aðrar leiðir sem voru mögulegar, allar þær leiðir sem ég taldi mér trú um að ég gæti farið og verið við stjórnina. Í raun var þetta kannski alltaf sami stígurinn sem ég gekk, aftur og aftur, og bjóst við nýrri niðurstöðu. Ég hafði ekki stjórn á neinu, mér leið eins og fanga. Og á sama tíma; leið mér eins og ræningja.

Í 23. Kafla Lúkasarguðspjalls segir frá ræningjum. Þeir hanga tveir á krossum við hlið manns sem heitir Jesús. Allt umhverfis þessa þrjá menn, á þeirra síðustu stundum, er fólk sem hæðist að þessum Jesú, sem var vissulega margt en enginn ræningi. Fólkið hæðist að Jesú og annar ræningjanna sem hangir við hlið hans tekur undir með þeim. „Ert þú ekki Kristur? Bjargaðu sjálfum þér og okkur!“ Við þetta ávítar hinn ræninginn kollega sinn og í framhaldinu biður hann þennan merkilega mann, Jesú, að gera eitt. Bón hans er öllu hógværari en sú sem kollegi hans hafði borið upp. Hann segir: „Jesús, minnst þú mín þegar þú kemur í ríki þitt!“ Og Jesús sagði við hann: „Sannlega segi ég þér: Í dag skaltu vera með mér í Paradís.“ Í dag.

Annar ræninginn hafði látið stýrast af hroka sínum og kallað eftir töfralausnum, án þess að vera tilbúinn til nokkurra viðhorfsbreytinga. Fastur í eigin fjötrum, negldur upp á krossi. Ég skil hann vel og oft hef ég verið þessi ræningi, með hnefana á lofti upp á móti grunnstoðum tilveru minnar, tilbúinn í slag en hrapallega búinn að misskilja eðli andstæðingsins. Um tíma leið mér eins og ég væri fangi og sá sem hafði rænt mér var ég sjálfur. Ég hafði tekið einhvern sjálfsneista, falið og læst af, fastur í munstri sjálfseyðandi hegðunar. Hinn ræninginn mætir þessu augnabliki, gagnvart hverju hann er fullkomlega undankomulaus, með því að gangast við eigin vanmætti. Hann biður aðeins um eitt. Að sín verði minnst. Ég skil hann einnig. Loksins kom að því að ég viðurkenndi eigin vanmátt. Við tók ferli sem sér ekki enn fyrir endann á. Það kallast lífið. Ég gekkst við vanmætti mínum og sjálfum mér að nýju og ég gafst upp. Í andvarpi mínu var í raun aðeins ein ósk: Minnstu mín. Og svarið sem Jesús gaf ræningjanum er ekki ósvipað því sem hefur mætt mér. „Í dag skaltu vera með mér í paradís.” Í dag. Í gegnum allt. Í gegnum sársaukann og í gegnum sæluna. Í gegnum það sem varla er í frásögu fært og í gegnum hvert einasta bíómyndaaugnablik. Í gegnum allt. Sama hvað. Þetta er loforð um samfylgd. Því þegar allt kemur til alls þá er það einungis hún sem maður þarf á að halda. Þegar maður hefur lært að treysta því loforði er manni mögulegt að gangast við deginum – í dag. Eins og hann er. Þessu fylgir að virkilega opna hjarta sitt fyrir möguleikanum á því máttur sjálfum manni æðri fylgi manni vegi og vegleysur lífsins. Fyrir marga kallar þetta eftir hugarfarsbreytingu. Hugarfarsbreytingu sem gerir það að verkum að maður veitir öðru fólki möguleikann á að ganga með manni. Það tekur að glitta í alla þessa litlu þræði samtenginga og allt í einu ertu ekki einn. Annað fólk er á sama vegi. Mæður, feður, systur, bræður,… og fljótlega sérðu að það er bankastarfsmaðurinn í næsta útibúi, óþolinmóður bílstjóri við hliðina á þér á rauðu ljósi, hlédrægur veðurfréttamaðurinn. Jafnvel grjótið, malbikið sem þú gengur á, eða með? Eða trén, sem eiga að heita kyrr en stundum getur maður ekki verið viss. Og meira, að segja, jafnvel, skuggar þeirra sem leika um í sólinni. Hér væri kannski gott að enda. En saga lífsins er ekki svo línulaga og eðli þess mun meira spennandi og margræðara. Vanmátturinn hverfur ekki þó eyrun hafi mögulega opnast fyrir nýrri laglínu. Einmitt þess vegna er þetta eitt erfiðasta verkefni lífisns: að viðurkenna vanmátt sinn. Því þetta er sístætt verkefni. Þú viðurkennir ekki vanmátt þinn einn daginn og svo aldrei meir. Á hverjum einasta degi, og oft, mætir maður vanmætti sínum. Á slíkum stundum er dýrmætt að geta andvarpað: „Minnstu mín.” Með tíð og tíma vex traustið. Samkvæmt þroskakenningum er mikilvægur hluti af þroskaferli hvers barns að gera sér grein fyrir því að nokkur varanleiki ríki í tilveru okkar. Þegar mamma og pabbi eru farin úr augsýn í nokkra stund verða viðbrögðin ekki lengur örvænting og grátur því þau séu horfin að eilífu. Barnið fer að skilja smám saman að mamma og pabbi hafi til þessa alltaf komið aftur og munu líklega gera það aftur í þetta sinn. Barnið lærir að treysta. Á síðastliðnum árum hef ég hægt og bítandi verið að læra nákvæmlega þessu sömu lexíu, í almennu tilvistarlegu samhengi. Það krefst stöðugrar ræktunar æðruleysis því allt þetta líf getur verið erfitt að höndla. Þegar hindranirnar mæta manni enn á ný, þegar það eina sem er þyngra en skrefin er hausinn, þegar maður hefur engan áhuga á að vera viðstaddur augnablikið, hverju getur maður þá treyst? Ég sakna stundum Guðs. En í dag trúi ég á loforðið um samfylgd. Ég trúi á loforðið um samfylgd og paradísina sem er okkur öllum til handa, hér og nú. Í dag.