Hellingur af peningum

Hellingur af peningum

Að eignast „helling af pening“ eða tapa „helling af pening“ – er það ekki mælikvarðinn?

Í kirkjunni er fermingarfræðslan einn af hinum föstu og góðu haustboðum. Safnaðarheimilið iðar af lífi þegar unglingafjöldinn fyllir gangana og salina. Frasarnir eru kunnuglegir sem þá taka að hljóma: „taktu niður húfuna vinur – hér hefur ekki snjóað frá því þakið var sett á bygginguna. „Ekki lappir upp á stólum“ Slík tilmæli heyrast tíðum um þetta leyti árs, gjarnan í formi boða og banna. Þau gefa þó ein og sér, alranga mynd af því úrvalsfólki sem skipar þennan fermingarbarnahóp. Já, aldrei fá predikarar annan eins efnivið eins og í samræðum við þessa unglinga – þótt sumar séu vissulega þær dæmar til þess að sigla í strand – eins og „Spilarðu C.O.D (framb: „Kot“)?“ – „hvað er það?“ spyr sá miðaldra, „er það lítið hús, eða einhver klæðnaður?“ Spyrjandinn hristir höfuðið og vonbrigðin leyna sér ekki.

Hellingur af peningum!

En þetta er undantekningin. Tækifærin á skemmtilegum og gefandi samræðum – ekki síst fyrir hinn miðaldra, eru miklu fleiri. Þar ber jafnvel sjálfan tilgang lífsins á góm:

Hvað er mikilvægast í lífinu?

Eðlilega hikar hópurinn þar til einn fjörkálfurinn réttir upp hönd – horfir hróðugur í kringum sig og segir: „Að eignast helling af pening!“ Ekki stendur á viðbrögðunum. Það er eins og mörgum létti við að fá þessi skýru og afdráttarlausu svör, sem eiga sér svo ríka samsvörun í breytni fólks og lífsstefnu. Og blasir ekki við okkur hvert sem við lítum að þetta er einmitt svarið við spurningunni góðu? Þó Rúnni Júll hafi á sínum tíma sungið: „Þó að peningana skorti, getur hamingjan gert menn æði ríka,“ er augljóst að þetta er einmitt drifkrafturinn sem knýr marga áfram. Já, heilu samfélögin. Við fyllumst vonbrigðum og jafnvel ótta þegar hagvöxturinn lætur á sér standa, hvað þá að samdráttur er í samfélaginu, eins og nú er. Að eignast „helling af pening“ eða tapa „helling af pening“ – er það ekki mælikvarðinn?

Það var ekki nema von þótt fimmurnar hafi farið á loft þegar kappinn hafði þarna ráðið lífsgátuna á svo afdráttarlausan hátt.

Hamingjan

En presturinn á slatta af sögum í pokahorninu og ein þeirra var látin flakka í framhaldi af þessum samræðum. Þar var rifjaður upp fyrirlestur sem ég sat eitt sinn. Geðlæknir fjallaði þar um hamingjuna og greindi frá rannsóknum sem gerðar voru á hamingju fólks sem fengið hefur að kynnast ýmsum hliðum tilverunnar. Í þeim hópi voru einmitt vinningshafar í stærstu peningahappdrættunum – fólk sem eignast hafði hundruð milljóna á einu augabragði. Hamingja þeirra sem orðið höfðu fyrir alvarlegu slysi var einnig könnuð. Jú, vitaskuld gáfu þessir hópar mjög ólík svör þegar þeir voru inntir eftir því hversu ánægðir þeir væru með tilveruna skömmu eftir þessa atburði sem breyttu lífi þeirra. Viðbrögðin voru nú heldur betur andstæð, eins og við má búast.

En það segir ekki alla söguna því rannsókn þessi hélt svo áfram, ári síðar, þegar sömu spurningar voru bornar undir þessa einstaklinga. Og þá koma þverstæður tilverunnar vel í ljós því skyndilega var munurinn sáralítill ef nokkur. Þeir sem höfðu aðeins ári áður eignast „helling af peningum“ reyndust stundum niðurbrotnir á sálinni – einmana og yfirgefnir. Lífsgæðunum hafði hrakað ört, tortryggni hafði fælt gömlu vinina frá og eftir að menn hættu í vinnu varð hversdagsleikinn fábrotnari en fyrr. Viðleitnin til þess að kaupa hamingjuna leiddi ekki til annars en að hinn skjótfengni gróði glataðist nánst jafnfljótt og hann féll þeim í skaut. Þeir sem á hinn bóginn höfðu borið skaða eftir alvarleg slys höfðu ári síðar gerólíka sögu að segja. Líf þeirra hafði þrátt fyrir allt þokast aðeins í rétta átt. Framfarir í hreyfigetu, stuðningur vina og fjölskyldna – jú margt hafði batnað í lífi þeirra og þessi árangur gaf þeim sjálfstraut og gleði sem vó á móti þessari þungbæru reynslu.

Spurningin endurtekin

Þessi saga skilaði tilætluðum árangri og nú biðu unglingarnir spenntir eftir að heyra mína útgáfu af svarinu við spurningunni stóru: „Hvað er mikilvægast í lífinu?“

Og nú höfum við fengið að hlýða á textana sem tilheyra þessum haustdegi. Margir þekkja innihald þeirra. Kristur predikar yfir fólkinu og boðskapurinn gæti vart verið skýrari – eða hvað? Enginn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammón.

Hvað segir þetta okkur – sem finnum oft sömu svörin við lífsgátunni og þessi hressi fermingarstrákur?

Já, hvers vegna koma peningarnir svo oft upp í hugann þegar við hugleiðum sjálfan tilgang lífsins – eða hreinlega þykjumst ramba á svarið án umhugsunar? Peningarnir tengjast sannarlega trúnni og leitinni að markmiðum í lífinu . Sumir myndu jafnvel segja að þeir hafi eitthvert „guðlegt“ eðli. Þeir gefa svo mörg tækifæri og mikil völd. Peningar eiga meira að segja rætur að rekja til trúarbragðanna. Gjaldmiðlarnir urðu til í tengslum við fórnargjafir í musterum. Þær höfðu ólíkt vægi og í framhaldi af því þróuðust mælikvarðar um þau verðmæti sem fórnað var. Síðar fóru menn að nýta gjaldmiðlana í vöruviðskiptum.

Og peningar eru nauðsynlegir okkur öllum – ill nauðsyn segja sumir en flestir taka þeim líklega opnum örmum. Já, stundum er sagt að peningar séu rót alls ills, en að margra mati er það nú frekar skorturinn á peningum!

„Enginn getur þjónað tveimur herrum“ segir Jesús, „annað hvort hatar hann annan en elskar hinn, eða þýðist annan og afrækir hinn.“

Þarna er sannarlega talað um hinn guðlega sess Mammóns. Mammón er úr hebresku og merkir ríkidómur eða tímanlegur auður, eða það sem við eigum afangs og getum miðlað til annarra. Notkun okkar á þessum afgangi hefur sannarlega siðferðilegt gildi. Áhyggjurnar

Jesús talar ekki gegn því að eiga peninga og nota peninga í þessu guðspjalli. Orð hans má alls ekki túlka á þá leið að þeim sé beint gegn því að geta tekið þátt í samfélagi á hverjum tíma þar sem gert er ráð fyrir því að greitt sé fyrir vörur og þjónustu. Nei, hann talar inn í þær aðstæður þar sem menn hætta að láta peningana þjóna sér og verða sjálfir þjónar – eða þrælar – Mammóns.

Leggjum svo eyrun við framhaldinu af guðspjallinu. Hvað er það að vera þræll hins heimtufreka guðs sem Mammón nefnist? Jesús gefur okkur þar skýran mælikvarða. Hann talar þar um hið óeðlilega ástand mannsins, þar sem áhyggjurnar af peningum, fæðu og klæðum, hafa borið lífsgleðina ofurliði og rænt okkur þeirri hamingju sem því fylgir að eiga sér sanna trú í hjartanu. Kristur minnir okkur á það að sífelldar áhyggjur eru ekki hið náttúrlega ástand okkar. Þetta ástand rænir okkur þeim sanna tilgangi sem líf okkar býr yfir. Já, hvernig svara ég þeirri spurningu sem fermingarbarnið hélt í fyrstu að lægi svo í augum uppi? Til þess þurfum við ekki annað en að lesa okkur áfram í gegnum guðspjallið. Jú, þar er horft til hins náttúrulega ástands þar sem áhyggjurnar skyggja ekki á sólina, litina og fegurðina:

Hyggið að liljum vallarins, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna. En ég segi yður: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búinn sem ein þeirra.

Slappaðu af elsku vinur og njóttu þess sem lífið hefur upp á að bjóða sem er svo margfalt ríkara að innihaldi en allt það sem kaupa má og selja. Varpaðu áhyggjum þínum á Guð því hann ber umhyggju fyrir þér. En svarið stóra kemur þó ekki fram í þessum orðum. Tilgangur okkar er ekki sá sami og fuglanna eða blómanna sem vaxa, nærast, fjölga sér og deyja. Enginn skyldi túlka orð Krists um hið náttúrulega og eðlilega ástand á þá lund að við ættum að kæra okkur kollótt um það sem lífið krefst af okkur.

Hananú: svarið!

Svarið kemur hins vegar fram í niðurlaginu:

En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki.

Hananú. Þarna kom það. Markmið okkar orðað með almennum hætti sem svo er útfært nánar víðsvegar í ritningunni. Fermingarbörnin kynnast því þegar í fyrsta boðorðinu, sem hljómar svo: „Ég er Drottinn Guð þinn, þú skalt ekki aðra guði hafa“. Þar kemur vel fram, að ekkert má drottna yfir okkur annað en hinn algóði Guð sem vill okkur allt hið besta, svo að jafnvel þótt móðir gæti gleymt brjóstabarni sínu, gleymir Guð okkur ekki, heldur ristir nafn okkar í lófa sér. Þetta kemur einnig fram í tvöfalda kærleiksboðorðinu og frásögninni af samverjanum miskunnsama sem rétti bágstöddum manni hjálparhönd og gerði hvað hann gat til þess að bæta líf hans.

Sá maður átti jú aura í vasanum sem hann nýtti til góðra verka. Við skulum ekki mistúlka orð Krists á þá leið að tilgangur kristinna manna sé að rjúfa tengslin við það samfélag sem þeir eru hluti af. Og hér á eftir býður einvalalið sjálfboðaliða sem starfa við Keflavíkurkirkju upp á súpu handa okkur. Þið skulið gefa ykkur tíma til að setjast niður og kynnast. Þið megið gjarnan koma að máli við okkur ef þið viljið líka láta gott af ykkur leiða. Loks biðjum við ykkur um að leggja fé til þessa samfélags sem gerir sitt til þess að leita ríkis Guðs og réttlætis.

Við sinnum margvíslegum verkefnum í lífinu, erum stundum með marga bolta á lofti og þeir eru margir sem reiða sig á okkur í blíðu og stríðu. Við eigum hins vegar ekki að gerast þjónar þess sem er forgengilegt og verðskuldar á engan hátt þjónustu okkar. Við eigum að vera stoltir þjónar Guðs og með því móti uppskerum við það ríkulega sem við höfum sáð til.