1918

1918

Ætli enginn hafi velt þeirri spurningu fyrir sér hvort landið væri ekki bara fyrir norðan mörk hins byggilega heims? Var ekki tímabært að endurvekja þá spurningu sem vaknaði í lok 18. aldar eftir Móðuharðindin, hvort ekki ætti að flytja þjóðina eins og hún lagði sig á jósku heiðarnar?

Gleðilegt ár! Já, gleðilegt tímamótaár. Nú höfum við lokið afmælisári siðaskiptanna og auðvitað 60 ára vígsluafmæli Neskirkju.

Kuldi, eldgos og fár

Í ár verður aldarafmæli merkra atburða. Við minnumst örlagaársins 1918 sem er við gætum líklega útnefnt ár seiglunnar, já þrjóskunnar. Þá ávann lítil þjóð sér fullveldi og axlaði aukna ábyrgð mitt í hamförum sem voru slík að enn rifjum við upp þá tíma. Kynslóðirnar sem voru uppi árið 1918 eru lýsandi dæmi um hvernig mótlæti varð til að herða fólk og færa það frá einum stað til annars.

1918 verður okkur vafalítið oft hugstætt á þessu ári. Það heilsaði með óskaplegri kuldatíð. Þá var hægt að ganga yfir ísilagðan Breiðafjörðinn frá Snæfellsnesi yfir á Barðaströnd. Er ég þjónaði sem prestur á Ísafirði heyrði ég sögur frá fólkinu í Aðalvík og Hornströndum sem fannst sem sér væru allar bjargir bannaðar í helkuldanum sem þá ríkti á þeim slóðum. Það sagði mér að vísast hefði það soltið heilu hungri ef ísinn hefði ekki rutt á undan sér ókjörum af bláskel sem fólkið hitaði á hlóðum og fékk dýrmæta næringu. Tún og heiðar voru í klakaböndum fram á haust og var þó fólk ýmsu vant í þeim efnum.

Og þegar haustið kom, tók ekki betra við. Ég held það hafi verið Sigurbjörn heitinn Einarsson biskup sem sagði frá konu einni í Meðallandinu í Vestur Skaftafellssýslu. Hún leit út að morgni 12. október á því herrans ári 1918 og sá að himinninn var svartur af reyk. Hún mun hafa lýst því svo síðar í frásögn að hún hefði haldið að þarna væri dómsdagur runninn upp – „en svo komst ég að því mér til skelfingar að þetta var skömmin hún Katla!” Já, „skömmin hún Katla” vakti með henni meiri ugg en sjálfur dómsdagur. Þá var farið að líða á árið og þvílíkar hamfarir sem gengu yfir Suðurlandið og reyndar landið allt með eimyrju sem úr fjallinu kom.

Viku eftir að Katla brýndi raustina, barst spænska veikin til landsins líklega með tveimur skipum, öðru frá Danmörku og hinu frá Bandaríkjunum. Þá var heimsstríðið mikla nýafstaðið, eða öllu heldur komið vopnahlé á vígstöðvunum. Óhætt er að segja að neyðarástand hafi ríkt á Íslandi. Samfélag okkar í dag myndi líklega riða til falls ef sambærilegar hamfarir yrðu. Slíkur var mannfellirinn að kirkjugarðurinn hér við Suðurgötu var stækkaður umtalsvert. Þar eru ekki allar grafir merktar, svo skæð var sóttin að stundum vannst ekki tími til að bera kennsl á hina látnu.

Hvernig ætli það hafi verið að vera Íslendingur um þetta leyti?

Ætli enginn hafi velt þeirri spurningu fyrir sér hvort landið væri ekki bara fyrir norðan mörk hins byggilega heims? Var ekki tímabært að endurvekja þá spurningu sem vaknaði í lok 18. aldar eftir Móðuharðindin, hvort ekki ætti að flytja þjóðina eins og hún lagði sig á jósku heiðarnar? Aldrei varð neitt úr þeim áformum – en þau vöknuðu til lífsins fyrir tíu árum þegar efnahagurinn hrundi. Þá töldu margir að rétt væri að þjóðin afsalaði sér sjálfstæðinu og var Noregskonungur oftast nefndur sem vænlegur þjóðhöfðingi!

Sé litið til baka 100 ár kynnumst við gerólíkri hugsun. Þarna, eftir frostavetur, Kötlugos og drepsótt – þá lýstu landsmenn því yfir að þeir ætluðu að verða fullvalda þjóð. Takk fyrir!

Textar um sjálfsmynd

Textar nýársdags er fjalla um sjálfsmynd fólks og samfélags. Þetta örstutta guðspjall er í raun útlegging á því hvað felst í nafni. Rétt eins og Júlía spurði í Verónuborg forðum. Þarna var Jesú gefið nafn og það er þetta nafn sem kristnir menn kenna sig við. Í stað þess að lúta reglum lögmálsins um hegðun í stóru og smáu er það persónan Jesús Kristur sem er leiðtogi okkar í lífinu.

„En nú, eftir að trúin er komin, erum vér ekki lengur undir tyftara,“ segir Páll postuli. Kristið siðferði er boðskapurinn um það að viljinn til þess að vinna góð verk komi að innan. Hann er afleiðing góðra hugsana, góðs vilja, góðra og uppbyggilegra hugmynda um það sem er eftirsóknarvert og göfugt. Hugsunin er sú að við látum ekki stjórnast af ótta heldur innri löngun. Þessi boðskapur mótað einstaklinga og samfélög hér á Íslandi. Krafan um frelsi einstaklingsins spratt upp úr þessum jarðvegi. Þaðan kom hugmynd heimspekingsins um skilyrðislausa skylduboðið að breyta einungis eftir þeirri lífsreglu sem við myndum vilja að verði að almennu lögmáli. Gullna reglan og tvöfalda kærleiksboðorðið lágu þar til grundvallar.

Og Davíðssálmurinn sem við lesum við messu á nýársdag hefur alveg sérstaka þýðingu: „Drottinn þú hefur verið vort athvarf frá kyni til kyns.” Þetta eru orðin sem Matthías hafði fyrir framan sig þegar hann orti Lofsönginn, sem síðar varð þjóðsöngur Íslendinga. Tilefnið var þúsund ára afmæli byggðar á Íslandi árið 1874 og upphafsorðin sem skáldið valdi segja kannske mikið um mat hans á kjörum þjóðarinnar. Árin á undan höfðu auðvitað verið ægileg. Þá fluttist fjöldi Íslendinga búferlum vestur um haf þar sem þeir hófu líf á nýjum slóðu. Ástæðan var auðvitað fátækt og hrikalegt náttúrufar.

Lofsöngur

Upphafsorðin eru í raun eins og andvarp: „Ó, Guð vors lands, ó lands vors Guð.” Hér ákallar skáldið hinn almáttuga vegna þess kraftaverks sem þúsund ára byggð á Íslandi er. Hann yrkir um vanmátt mannsins sem á allt sitt undir kærleika Guðs. Að baki býr ekki aðeins óður til þjóðar sem þraukað hefur í tíu aldir, heldur einnig persónulegur harmur skáldsins sem gekk um það leyti í gegnum sína erfiðustu tíma. Og yfir öll vakir sú hugsun sem er svo sterk í Biblíunni, að ofar öllu hinu hverfula og reikula í þessu lífi er hinn eilífi Guð. Sú hugsun dempar allan hroka og mildar allan harm. Hún veitir hverju yfirvaldi sín takmörk og smælinginn má vita að sjálfur Kristur tekur sér stöðu með honum í öllum sínum veikleika. Það er nafnið Jesús sem gefur kristnum mönnum von og hjálpræði.

Fyrir hundrað árum stóð þjóð frammi fyrir öllum þessum raunum. Þetta var kristin þjóð sem virðist hafa skynjað það að handan alls væri líknandi hönd Guðs sem myndi leiða okkur áfram „á Guðsríkis braut” eins og segir í lokaerindi lofsöngsins. Katrín Jakobsdóttir ávarpaði landsmenn í gær og talaði þar um þau verkefni sem bíða okkar, einkum á sviði jafnaðar, jafnréttis og náttúruverndar. Hún vegsamaði þau afrek sem unnin hafa verið hér á þessari eyju, þar sem fámenn þjóð reisti sér háskóla, landspítala og myndaðist við að koma á velferðarkerfi. Taka má undir þau orð og þau verða okkur sem höfum tekið við keflinum leiðarljós að því hvernig byggja á upp gott samfélag.

Og nú þar sem við stöndum á tímamótum í upphafi nýs árs skulum við hugleiða þjóðsönginn okkar. Þar fer saman vitundin um breyskleikann og hverfulleikann í lífinu og svo hin háleitu markmið og þessa sterku lifandi von sem skín í gegnum myrkið. Það er önnur vídd kristinnar trúar. Hin víddin er það lífstíðarverkefni hvers kristins manns að vera farvegur fyrir ljósið. Við höfnum því vekur ótta og tyftar til hlýðni, því sem dregur í dilka og mismunar. Við vinnum að því að skapa heim þar sem fólk ekki hrifsa til sín, heldur deilir með sér og leitast við að skilja hvert annað í bróðerni og sátt. Sú staðreynd á jafnt við árið 2018 sem 1918 og á öllum tímum.

Megi nýtt ár einkennast af þeirri einlægu viðleitni. Þá verður það sannarlega gleðilegt ár.