Auðmýkt og æðruleysi

Auðmýkt og æðruleysi

Engar tvær manneskjur eru eins. Hvað einni manneskju þykir gott getur annarri manneskju þótt síðra. Það sem hentar einni manneskju þarf ekki að henta annarri.
fullname - andlitsmynd Arnór Bjarki Blomsterberg
15. apríl 2020

Engar tvær manneskjur eru eins. Hvað einni manneskju þykir gott getur annarri manneskju þótt síðra. Það sem hentar einni manneskju þarf ekki að henta annarri. Sumir lifa í umhverfi sem veitir andlega næringu á meðan aðrir upplifa sig í aðstæðum sem koma í veg fyrir að þau blómstri. Aðstæður eins og uppi eru í heiminum um þessar mundir geta svo auðveldlega komið í veg fyrir að við blómstrum. Því er svo mikilvægt að hver dagur fyrir sig færi okkur einhverskonar andlega næringu. Þá næringu getum við fundið víða; úti í náttúrunni, í kærleiksríkum samskiptum við annað fólk í gegnum síma eða netspjall – eða jafnvel með því að gefa trúarrótinni gaum; að lesa Biblíuna og íhuga boðskap Jesú Krists. Margar eru leiðirnar en hvert og eitt finnum við okkar leið.

Við getum stundum dvalið í þeirri trú að einhver önnur manneskja verði að gera eitthvað til að við sjálf finnum hamingju. Að einhver önnur manneskja verði að breytast. Sumt fólk finnur sér aðra maka, sumt fólk flytur úr landi og kemur sér fyrir í öðru landi en oft og tíðum gerist það síðar að sömu vandamál banka á dyrnar. Sömu vandamál og í fyrri hjúskap, sömu vandamál og á fyrri bústað. Eftir allt þá eiga vandamálið okkar það stundum til að liggja okkur örlítið nærri en í öðru fólki.

Margt hefur tilhneigingu til að færast til betri vegar þegar við áttum okkur á því að það sem við raunverulega þurfum að breyta erum við sjálf. Þegar við breytum afstöðu okkar, endurskoðum hugarfarið og ræktum með okkur jákvætt hugarfar; bæði gagnvart okkur sjálfum og eins gagnvart öðru fólki. Að breyta því sem við getum breytt og er raunverulega í okkar valdi en jafnframt að sætta okkur við það sem við fáum ekki breytt.

Skilvirkasta og besta lausnin þegar við leitum hamingjunnar liggur oftast hjá okkur sjálfum; að rækta með okkur náungakærleika, auðmýkt gagnvart okkur sjálfum og öðru fólki og ekki síst að rækta með okkur auðmýkt gagnvart lífinu eins og það birtist okkur í allskyns mismunandi aðstæðum.

Ef við hlúum vel að okkur sjálfum þá leggjum við þung lóð á vogarskálarnar þegar við metum okkar eigin lífshamingju. Það eitt og sér er að lifa lífinu til fulls. Þegar við stöndum andspænis aðstæðum sem eru krefjandi getur verið gott að hugsa til og jafnvel að fara með Æðruleysisbænina sem hefur hjálpað fjölmörgu fólki um áratugaskeið. Þegar við hugum að okkur sjálfum og viljum bæta okkar eigin líf, staðhæfi ég að Æðruleysisbænin sé einn besti upphafspunkturinn:

„Guð, gefðu mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt og visku til að greina þar á milli. Að lifa einn dag í einu, njóta hvers andartaks fyrir sig, viðurkenna mótlæti sem friðarveg, með því að taka syndugum heimi eins og hann er, eins og Jesús gerði en ekki eins og ég vil hafa hann. Og treysta því að þú munir færa allt á betri veg ef ég gef mig undir vilja þinn, svo að ég megi vera hæfilega hamingjusamur í þessu lífi og yfirmáta hamingjusamur með þér þegar að eilífðinni kemur.

Amen“

Með Guðsblessun.