Undrun og efi

Undrun og efi

Undrunin og efinn eru allt um kring í því sem kristnir menn kalla síðstæða siðbót kirkjunnar. Hún starfar í heimi sem ber í senn vott um fegurð og tign skaparans er sýnir að sama skapi merki þess að vera fallinn. Á þeim grunni hefur sannleiksleit kristinna manna hvílt og áfram heldur hún inn í nýja tíma þar sem við horfum upp á nýjar aðstæður sem eiga sér þó rætur í sömu mannlegu þáttum og við lesum um í hinni helgu bók.

Sagt er að tvær af stærstu byltingum innan vestrænnar menningar megi rekja til tvenns konar tilfinninga sem eiga að hafa einkennt þau samfélög fóstruðu þau umbrot öll.

 

Undrun og efi

 

Forn-Grikkir mótuðu hugmyndir sem enn eru kenndar í háskólum heimsins. Sá drifkraftur sem knúði þá áfram var samkvæmt þessu hæfileikinn að verða undrandi. Já, heimspekin hefst með undruninni sögðu þeir Platon og Aristóteles. Þeim þóttu náttúra og mannlíf svo mögnuð fyrirbæri, voru furðu lostnir yfir því sem skilningarvit þeirra námu. Þetta er eiginleiki sem börn búa yfir en vill svo dofna svo eftir því sem á ævina líður. Hversu gaman er annars að fara með ungviði á nýjar slóðir og upplifa fegurð, dásemdir og framandleika í gegnum skynhrif þeirra? Þetta varðveittu heimspekingarnir grísku og rituðu, innblásnir af krafti furðunnar, samræður og fræðitexta um nánast allt það sem viðkemur mannlegri tilveru.

 

Svo voru það vestur-evrópsku heimspekingarnir á 17. og 18. öld. Þeir rýndu gegnum forsendur og skipulag samtíma síns, sem hafði þótt gott og gilt og einhverjir töldu jafnvel eiga sér guðlegar rætur. Sú kennd sem bjó að baki þeirri sannleiksleit var sjálfur efinn. Já, hvernig get ég vitað að þetta sé rétt? hver getur fullvissað mig um að viðtekin sannindi standist próf gagnrýninnar hugsunar? Einn af frumkvöðlum þeirrar leitar, sá franski Descartes plægði sig í gegnum það sem hann þóttist vita og skilja og tókst að draga það í efa. Allt þar til hann staðnæmdist við þá staðreynd að sjálfur hlyti hann að vera til – öðruvísi gæti hann jú ekki efast og hugsað. Þaðan kom yfirlýsingin stóra: „Ég hugsa, þá er ég“.

 

En það má auðvitað bæði furða sig á svona yfirlýsingum og efast um þær. Nefnilega það að undrunin sé grísk og efinn vesturevrópskur. Samtímamaður Descartes sagði víst að hver einasti apótekari í París þekkti þá aðferðafræði sem hann boðaði sem einhverja nýlundu. Ekkert væri samkvæmt því nýtt undir sólinni.

 

Litróf tilfinninga

 

Og án þess að tilefni sé til að metast um svona lagað þá birtist okkur í Bók bókanna ríkulegt litróf mannlegra tilfinninga, allt frá undun til efasemda. Ritningin er á sinn hátt vitnisburður um lotningu dauðlegra manna yfir lífinu, heiminum, tilraun hins tímanlega til að greina hið tímalausa, hvernig hið takmarkaða finnur sér stað í eilífðinni. „Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna, tunglið og stjörnurnar, er þú hefir skapað, hvað er þá maðurinn þess, að þú minnist hans, og mannsins barn, að þú vitjir þess?“ segir í Davíðssálmum.

 

Við mættum líka hugleiða það hversu sterk gagnrýni birtist þar á ríkjandi trúarkerfi og menningu. Persónur bóka Biblíunnar gagnrýndu samfélag sitt og trúarmenningu. Þeir töluðu fyrir munn Drottins sem kallaði eftir umhyggju og réttlæti og bentu á hræsnina þegar yfirstéttin færði fórnir í musterinu í von um enn meiri auð og velsæld. Sú hugsun hefur verið gegnumgangandi í sögu gyðing-kristinnar trúar og þarf ekki að koma á óvart. Jú þar býr að baki sú afstaða að handan alls hins tímanlega og takmarkaða, ofar þeim valdapíramídum sem verða til í samfélagi fólks trónir hið æðsta vald. Þeir mælikvarðar sem það setur eru mikilvægari en þau heimskra manna ráð sem miða að skammtíma gróða og völdum.

 

Biblían ræðir um Guð í gátum. Hún skilur margt eftir fyrir ímyndunina og hið óræða. Trúarjátningin hefst á því að Guð faðir sé, skapari himins og jarðar. Það er í raun rammpólitísk yfirlýsing. Hún bendir á moldina, jarðveginn sem plönturnar okkar vaxa úr og af þeim allt lífríkið. Hið jarðneska er í grunninn gott. Þar andmæltu höfundar játningarinnar þeim sem töldu það hlutverk mannsins að greina sig frá því sem er af þessum heimi.

 

Vísindaafrek kristninnar

 

Afrakstur kristninnar er líka margvíslegur. Elstu háskólar Evrópu urðu vitaskuld til í klaustrum miðalda og þar fór fram vísindaleg greining á ritningunni. Fræðimenn báru saman handrit og rýndu í frumtexta. Það var á grundvelli slíkra rannsókna sem Lúther byggði á þegar hann gagnrýndi páfakirkjuna. Já, setti ekki aðeins fram efasemdir um réttmæti sölu aflátsbréfa og viðlíka villukenninga, heldur vildi umbylta því á grundvelli þess hvernig hann túlkaði ritninguna. Kynslóð síðar þegar hinn norðlenski Guðbrandur Þorláksson sneri heim eftir nám við í Kaupmannaháskóla gat hann reiknað út hnattstöðu Hóla og dró upp Íslandskort sem átti eftir að verða fyrirmynd slíkra korta allt fram á 19. öld.

 

„En það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ Þessi orð úr Jóhannesarguðspjalli (17:3) eru einkunnarorð Harvard háskólans sem nú er í umræðunni vegna hótana Bandaríkjaforseta um að fella niður styrki til skólans. Yale, Princeton og Brown, eiga sér að sama skapi rætur í starfi kristinna safnaða. Sjálfur sótti ég eitt sinn námskeið í hinum spænska IESE-háskóla sem er í fremstu röð í heiminum. Hann er rekinn af kaþólskum samtökum.

 

Þegar hugsuðir 19. aldar risu upp gegn kirkjunni og sögðu hana hafa staðið í veginum fyrir framgangi vísinda, þá byggði það á þeirri ranghugmynd að trú og skynsemi væru í einhverjum skilning andstæður. Einn afrakstur þessa andófs eru sagnfræðirit þar sem ýmsar mýtur voru settar fram. Þær eru enn í dag á vörum fólks sem hefur ekki lagt sig fram um að kynna sér málin til hlítar. Höfundarnir stóðu þó á herðinum kristinna heimspekinga og vísindamanna sem höfðu túlkað hlutverk sitt á þá leið að þeim bæri að skilja þær furður sem skapari himins og jarðar miðlaði til hugsandi fólks.

 

Saga kristninnar birtir okkur viðleitni til að efast um viðtekin gildi og endurmeta þau. Frans páfa, sem jarðsunginn var í gær, verður minnst fyrir það hvernig hann lagði sig fram um að rétta hlut kvenna innan kirkjunnar, samkynheigðra og transfólks. Hann opnaði á samtal við önnur trúarbrögð í nafni friðar og gagnkvæms skilnings. Sjálfur þekkti hann ódæðisverk herforingjanna í Argentínu og hvernig íhaldsöfl innan kirkjunnar á sínum tíma, kæfðu starf frelsunarguðfræðinganna. Eftir honum er haft að góðverkin sem við vinnum fyrir systkini okkar gætu verið eina predikunin sem þau heyra á þeim degi. Það er nýlegt og áhrifaríkt dæmi um mátt kristninnar til endurmats og breytinga. Mögulega kemur næsti páfi frá Afríku eða Asíu.

 

Fermingarbarnið Tómas

 

Tómas hefur verið nefndur lærisveinninn sem efaðist. Já, hér heyrðum við eina af þekktari frásögnum guðspjallanna. Einu sinni átti ég samtal við dreng úr hópi fermingarbarna (nú kominn á fullorðins ár). Hann kvaðst hafa efasemdir um að geta staðið frammi fyrir altarinu og játað trú sína. „Ég er svolítið eins og nafni minn“ sagði hann, „ég efast.“ Ég fagnaði þessum efasemdum og enn fremur því hversu mér fannst fermingarpilturinn Tómas heiðarlegur og sannur. Tjáði ég honum að í kirkjunni væri ekki sú hugsun ráðandi að trúa á bókstafinn. Að játa trú á Jesú Krist felur það einmitt í sér að tökum lífinu með þakklæti og höfum vakandi auga fyrir því sem betur má fara. Ég deildi þeirri skoðun minni, að bænin og umhyggjan væru þýðingarmestu játningarnar. Það væri að mínu mati lofsvert hlutskipti að ganga inn í heim kristninnar og lokaði engum dyrum fyrir gagnrýni og skarpa hugsun. Hvort sem það var fyrir orð mín eða ekki þá fermdist þessi Tómas en hann skildi mig eftir með dýrmæta minningu af þessu einlæga samtali okkar.

 

Svar Jesú við efasemdum postulans Tómasar var að bjóða fram líkama sinn. Hann fékk að þreifa á síðusárunum og svo myndræn er þessi frásögn að síðan hafa guðfræðingar og listamenn túlkað hana og dregið upp á margvíslegan hátt. Athöfn þessi er í sjálfri sér trúarjátning. Trúin er ekki hugsunarlaus staðfesting á tilteknum sannindum. Hún er þátttaka, líf og hlutdeild. Kirkjan er líkami Krists og líkami þessi var alsettur sárum. Það vísar til þess hvernig starf kirkjunnar átti eftir að mótast, þróast í höndum skammsýnna manna sem létu stjórnast af ótta og valdafýsn.

 

Undrunin og efinn eru allt um kring í því sem kristnir menn kalla síðstæða siðbót kirkjunnar. Hún starfar í heimi sem ber í senn vott um fegurð og tign skaparans er sýnir að sama skapi merki þess að vera fallinn. Á þeim grunni hefur sannleiksleit kristinna manna hvílt og áfram heldur hún inn í nýja tíma þar sem við horfum upp á nýjar aðstæður sem eiga sér þó rætur í sömu mannlegu þáttum og við lesum um í hinni helgu bók.