Í landi þar sem skiptast á skin og skúrir

Í landi þar sem skiptast á skin og skúrir

Þá er gott að vera minntur á sólarstundirnar, björtu dagana þegar sól skín í heiði og mér þykir Ísland himnaríki næst. Um leið veit ég að sú áminning dugar skammt ef ekki kemur til samstaða fólksins, hjálparstarf og náungakærleikur.

Konan mín á það til að minna mig á að ég lét eitt sinn eftirfarandi setningu út úr mér: ,,Af hverju þurftu þessir kallar sem fundu þessa eyju hér langt norður undir heimskautsbaug að vera að segja einhverjum frá því - það væri miklu betra ef enginn þyrfti að búa hér." Sérstaka ánægju hefur hún af því að minna mig á þessa setningu þegar ég ligg í sólinni í Skíðadal á björtum sumardegi og þyki sem ég sé staddur í himnaríki í jörðu. 2011-intercultday (28)

Fyrir rúmri viku var ég himinsæll þegar ég fylgdist með skrúðgöngu í miðborg Reykjavíkur. Fjölmenningunni var fagnað og ég gladdist yfir því að sjá fólk frá öllum heimshornum sem áttu það sameiginlegt að hafa flust hingað til lands. Fairtrade fáninn vakti sérstaklega athygli mína og ég var stoltur af íslensku krökkunum úr æskulýðsstarfi kirkjunnar sem báru hann. Og ég hugsaði um bændurna í löndum fjarri Íslandi sem ættu skilið að fá réttlátt verð fyrir afurðir sínar. Þetta var bjartur dagur og þó svo að það væri ekki sérstaklega hlýtt upplifði ég sem allir nytu stundarinnar Ég var sáttur. Þetta var Ísland sem ég vildi búa á. Friðurinn, samstaðan, náungakærleikurinn, gleðin, engin úrkoma, hreint loft og fullt af börnum.

Í gær tók að gjósa í Grímsvötnum. Öskuský hafa nú lagst yfir stóran hluta landsins. Víðast á Suðurlandi keppist fólk við að bjarga dýrum, sinna fólki, aðstoða fólk, hjálpa dýrum, halda dýrum inni, hreinsa ösku, halda sönsum, muna sólarstundirnar. Sveitir lögreglu og björgunarfólks leggur sig fram, gerir sitt besta og betur en það, taka höndum saman. Ferðafólk dansar af gleði þegar það fær að yfirgefa öskusvæðið, börn á bóndabæjum hjálpa til við að sinna dýrunum og fréttamaður veit ekki hvað til bragðs á að taka þegar ær liggur fyrir framan hann, örmagna í öskunni. Og ég hugsa um bændurna sem ættu skilið að fá að sinna dýrunum sínum í friði fyrir ösku og náttúruhamförum. Mér þykir þetta svartur dagur og ég get ekki notið stundarinnar. Ég er ekki sáttur. Þetta er ekki Ísland sem ég vil búa á.

Þá er gott að vera minntur á sólarstundirnar, björtu dagana þegar sól skín í heiði og mér þykir Ísland himnaríki næst. Um leið veit ég að sú áminning dugar skammt ef ekki kemur til samstaða fólksins, hjálparstarf og  náungakærleikur sem lætur ekki öskufall aftra sig frá því að taka til hendinni þar sem þess er þörf.

Nú er tími samstöðu. Hvert og eitt okkar hefur möguleika á að hjálpa, sum með fyrirbæn, önnur með því að mæta á staðinn, til dæmis sem liðsfólk björgunarsveita eða með því að láta fé rakna til hjálparstarfsins.

Ég er sáttur. Því í hjarta mínu veit ég að þessi pistill minn er óþarfur. Á stundum sem þessum þurfum við ekki á orðaflaum að halda, við tökum höndum saman, tölum lítið, gerum meira. Því við ætlum okkur að halda áfram að búa á eyjunni sem hefur gefið okkur og forfeðrum okkar svo margar hamingjustundir.