Stöðutaka gegn kærleikanum

Stöðutaka gegn kærleikanum

Við skulum hafa í huga, að enda þótt Biblían boði okkur hjálpræði Guðs í Kristi, þá er ekki þar með sagt að þar sé okkur fengin í hendur einhvers konar kaskótrygging Guðsríkis sem firri okkur allri ábyrgð á sjálfum okkur, á orðum okkar og verkum og á því sem okkur er trúað fyrir hér í heimi.

Þess vegna segi ég yður: Hver synd og guðlöstun verður mönnum fyrirgefin en guðlast gegn andanum verður ekki fyrirgefið. Hverjum sem mælir gegn Mannssyninum verður það fyrirgefið en þeim sem mælir gegn heilögum anda verður ekki fyrirgefið, hvorki í þessum heimi né í hinum komanda.

Annaðhvort er tréð gott og ávöxturinn góður eða tréð vont og ávöxturinn vondur. Því af ávextinum þekkist tréð. Þér nöðrukyn, hvernig getið þér, sem eruð vond, talað gott? Af gnægð hjartans mælir munnurinn. Góður maður ber gott fram úr góðum sjóði en vondur maður ber vont fram úr vondum sjóði.

En ég segi yður: Á dómsdegi munu menn verða að svara fyrir hvert ónytjuorð sem þeir mæla. Því af orðum þínum muntu sýknaður og af orðum þínum muntu sakfelldur verða.“ Matt 12:31-37

Það hefur löngum verið talin mikilvæg kristileg dyggð að kunna að fyrirgefa. Það er heldur ekki að undra, því fyrirgefningin er mikilvæg staðfesting á sáttum þeirra sem hlut eiga að máli, og er í sjálfu sér mikið kærleiksverk, því kærleikurinn breiðir yfir allt og umber allt (sbr. I. Kor. 13:7). Það skiptir því ekki síður máli að kunna að leita fyrirgefningarinnar og sækjast eftir henni, stíga fram með vandræði sín gagnvart öðrum, viðurkenna þau og leita lags til að bæta skaðann. ‚Segðu fyrirgefðu!’ er sagt við barnið þegar því verður á að gera eitthvað á annars hlut, og því gefið til kynna að ekki sé rétt að láta mistök sín kyrr liggja, heldur taka á þeim og leitast við að laga það sem aflaga fór. Jesús sjálfur leggur okkur fyrirgefninguna á hjarta í bæninni sem hann sjálfur kenndi; Faðirvorinu, en nefnir þó fyrst að maður skuli sjálfur biðjast fyrirgefningar á skuldum sínum: ‚Fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.’ (Mt. 6:12). Frásagnir Nýja testamentisins sýna okkur að menn nálguðust fyrirgefninguna frá ýmsum hliðum í samræðum sínum við Frelsarann; spurðu hann jafnvel hversu oft hann teldi að hæfilegt væri að fyrirgefa. Því svaraði Jesús svo, að af orðum hans mátti skilja að fyrirgefningin ætti sér engin takmörk; hún ætti að flæða fram í tuga- og hundraðatali (sbr. Mt. 18:21-22).

Í guðspjalli dagsins í dag kveður við annan tón. Nú ræðir Jesús um það, hvaða syndir séu fyrirgefanlegar og hverjar ekki, og kveður fast að orði um þær síðarnefndu. Ef við höfum hingað til haldið að allar syndir yrðu okkur fyrirgefnar, þá ættum við líklega að fara að lesa upp og læra betur, ef marka má afdráttarlausan málflutning Jesú um þau efni. Viðmælendur hans og áheyrendur að þessu sinni voru farísear, sem litlu fyrr höfðu orðið vitni að því er Jesús læknaði blindan og mállausan mann, sem einnig var sagður haldinn illum anda. Þetta góðverk vakti þeim lítinn fögnuð og gleði í hjarta, heldur blés þeim þvert á móti í brjóst hatri í garð Jesú, og þeir létu fjúka í stórkarlalegum yfirlýsingum um að þessi maður ynni verk sín með fulltingi illra afla.

Í því ljósi skulum við því skyggnast eftir því hvað Drottinn á hér við, þegar hann segir að lastmæli gegn heilögum anda verði ekki fyrirgefið, jafnvel þótt aðrar syndir og guðlast verði það. Hér glímdi hann við menn sem sneru opinberun Guðs góða vilja, sem þeir þó höfðu fyrir augunum, upp á andskotann. Þeir lokuðu augunum viljandi fyrir kærleika Guðs, sem þó birtist þeim ljóslifandi, þeir höfnuðu í orði og verki hinni blíðu, bætandi hönd Drottins, sem þeir þó sáu vinna hið góða verk. Þessi afneitun, sagði Jesús, þessi stöðutaka gegn kærleikanum, ef ég má leyfa mér að orða það svo, stöðutaka með hatrinu og niðurrifsöflunum, er svo langt handan alls þess sem hægt er að umbera, að hún, þessi synd, hún verður ekki fyrirgefin.

Við skulum hafa í huga, að enda þótt Biblían boði okkur hjálpræði Guðs í Kristi, þá er ekki þar með sagt að þar sé okkur fengin í hendur einhvers konar kaskótrygging Guðsríkis sem firri okkur allri ábyrgð á sjálfum okkur, á orðum okkar og verkum og á því sem okkur er trúað fyrir hér í heimi. Guð hvetur okkur í sífellu til ábyrgðar, leggur okkur þá skyldu á herðar að vanda líf okkar og breytni og leitast við að lifa því með sæmd og í kærleika til náungans. Síðari hluti guðspjallstextans minnir okkur einmitt á að orð okkar og verk draga dám af innræti okkar og hjartalagi, þau birta okkar innri mann og allt það sem við höfum fyrir satt og tökum gilt. ‚Af gnægð hjartans mælir munnurinn’, segir Drottinn. ‚Góður maður ber gott fram úr góðum sjóði en vondur maður ber vont fram úr vondum sjóði.’ Guð verður ekki blekktur, og þótt við mennirnir þykjumst kunna ráð til að blekkja aðra og fela það sem síst má sjást, þá sést okkur iðulega yfir þær athafnir okkar, sem blekkja okkur sjálf allra mest.

Samtíð okkar kallar eftir réttlæti í samfélaginu, hærra en nokkru sinni, og sú krafa er þrungin gremju og reiði yfir þeim blekkingum sem almenningur finnur sig hafa verið beittan. Nýju gildin sem hér voru hafin til vegs á umliðnum árum og báru svip framfara og sigursældar, reyndust ekki fela í sér annað takmark en að hámarka gróða hinna útvöldu. Þar örlaði ekkert óskaplega mikið á siðferðiskennd eða samhug í garð þess fámenna úthafseyjarsamfélags sem við Íslendingar erum, jafnvel þótt við eyjaskeggjarnir byggjum víkingunum vönduð skip, kostuðum ferðina með því að láta þeim í té bæði mjólkurkýrnar og ættarsilfrið. Gullið úr þeirri ferð, þ.e. það sem ekki var haft sem útákast, var notað til að steypa kálfinn sem svo var dansað í kringum, eins og meðal Hebreanna forðum. Forkólfar þess tilrauna-ævintýris töluðu sannarlega af gnægð hjarta síns, og báru ríkulega fram úr sjóði sínum allt það sem þeir virtust eiga þar fólgið; sérhyggju, hégóma og græðgi.

Í Sjálfstæðu fólki, því öndvegisverki Nóbelsskálds okkar Íslendinga, Halldórs Laxness, segir frá Nonna litla í Sumarhúsum, honum Jóni Guðbjartssyni, sem fór út í heim til að vinna mikla sigra og syngja fyrir heiminn. Þegar hann kvaddi fólkið sitt í torfbænum í heiðinni í síðasta sinn, þá bað Hallbera amma hans hann um að muna eftir tvennu þegar hann væri farinn. ‚Ég ætla að biðja þig að vera aldrei hortugur við þá sem eru litlir fyrir sér. Og að hrekkja aldrei nokkurt dýr.’ (Sjálfstætt fólk, 1961, bls. 396). Lífsreglan var einföld: Ávaxtaðu góðan sjóð hjarta þíns og berðu gott fram úr honum. Sýndu öðrum miskunn og stattu vörð um rétt þeirra sem geta ekki sjálfir varið sig. Taktu þér stöðu með kærleikanum, en afneitaðu honum ekki í hroka þínum og vissu um eigin yfirburði. Áhættusæknin, sem var ein dyggða góðærisins, sem kallað var, bauð veganesti ólíkt heilræðum Hallberu gömlu. Þar var skorað á mann og annan skeyta fyrst og fremst um sjálfan sig, sýna kjark, þora að sækja út og fram, því ef vel tækist til og áhættan reyndist virði sjálfrar sín og gott betur, kynni maður að standa uppi sem hin hugprúða hetja leiksins, verða útnefndur maður ársins og hreppa jafnvel fálkaorðuna! – En þrátt fyrir öll þau gæði sem dauðlegi heimurinn á, þá virðist þrek áhættusækninnar þó ekki duga til þegar á reynir, því þegar allt kemur til alls þurfum við meiri kjark en í flest annað til að ganga í okkur sjálf, sýna einlæga iðrun og þora að leita fyrirgefningar á því sem á okkur brennur og að okkur snýr. Svona getur nú verið erfitt að vera manneskja.

Já, - við erum nefnilega aðeins menn. Þótt góð efni færi okkur möguleika til betri lífskjara og fyrirferðar í heiminum og tíðindi af efnahagsmálum haldi okkur uppteknum og upplýstum dag og nótt, þá er lífið langtum meira en fæða (sbr. Mt. 6:25) og miklu auðugra að gæðum en nokkrar tölur geta mælt. Gleymum því ekki að við erum aðeins menn, breyskar og brothættar mannverur, en samt sem áður uppréttar og hugsandi. Göngum því í okkur sjálf, minnug þess að sjálfum okkur verður einnig á, sjálf stöndum við ekki alltaf réttlætis megin í hverri sök, og sjálf erum við ekki alltaf í fullum rétti. Verum ekki hortug við þá sem eru litlir fyrir sér. Hrekkjum aldrei nokkurt dýr. Segjum ‚fyrirgefðu’. Biðjum þess svo að Guð gefi okkur æðruleysi til þess að sætta okkur við það sem við getum ekki breytt, kjark til að breyta því sem við getum breytt og vit til að greina þar á milli.’ (Bænabók, 1992, bls. 18).