Ég skil þig ekki Guð

Ég skil þig ekki Guð

Ég skil ekki Guð. Hversu oft höfum við ekki heyrt þessi orð. Ég skil ekki Guð, segir sá sem orðið hefur fyrir sárum missi og sér ekki út úr augunum fyrir tárum. Ég skil ekki Guð er oft sagt þegar tíðindi berast af válegum atburðum, hvort heldur er af manna völdum eða völdum náttúruhamfara.

Þess vegna sendi ég til yðar spámenn, spekinga og fræðimenn. Suma þeirra munuð þér lífláta og krossfesta, aðra húðstrýkja í samkundum yðar og ofsækja borg úr borg.Þannig kemur yfir yður allt saklaust blóð, sem úthellt hefur verið á jörðinni, frá blóði Abels hins réttláta til blóðs Sakaría Barakíasonar, sem þér drápuð milli musterisins og altarisins.Sannlega segi ég yður: Allt mun þetta koma yfir þessa kynslóð.

Jerúsalem, Jerúsalem! Þú sem líflætur spámennina og grýtir þá, sem sendir eru til þín! Hversu oft vildi ég safna börnum þínum, eins og hænan safnar ungum sínum undir vængi sér, og þér vilduð eigi.Hús yðar verður í eyði látið. Ég segi yður: Héðan af munuð þér eigi sjá mig, fyrr en þér segið: Blessaður sé sá sem kemur, í nafni Drottins. Matt. 23. 34-39

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Guð gefi ykkur öllum gleðileg jól.

Ég skil ekki Guð. Hversu oft höfum við ekki heyrt þessi orð. Ég skil ekki Guð, segir sá sem orðið hefur fyrir sárum missi og sér ekki út úr augunum fyrir tárum. Ég skil ekki Guð er oft sagt þegar tíðindi berast af válegum atburðum, hvort heldur er af manna völdum eða völdum náttúruhamfara. Ég skil ekki Guð, segir sá sem lengi hefur beðið heitt án þess að heyra svar.

Ég skil ekki hversu vanmegnugur Guð er. Samt var mér kennt að játa trú á hann, Guð föður almáttugan, skapara himins og jarðar.

Í jólalesbókinni var athyglidverð grein um Jóhannes úr Kötlum og kveðskap hans um jólin. Hann spyr í skugga frétta af barnahópi sem sprengdur hafði verið í loft upp.

Og enn vér höldum heilög jól, - ég horfi í spurn á barnið mitt: Nær rekst þá vísdóms vilji Guðs á veslings glaða brjóstið þitt og tætir sundur ögn fyrir ögn? En enginn svarar: Myrkur, þögn.

Tuttugu árum síðar þegar hann minnist bernskujólanna að móður sinni látinni yrkir hann:

Manstu á jólunum þegar við fórum til kirkju og þú hvíslaðir við dyrnar: hér er guð.

Manstu undrandi kertaljósin sem blöktu á hjálminum: gjafir hinna fátæku hinna þreyttu.

Manstu spurula tónana sem flögruðu um hvelfinguna: bænir hinna syndugu hinna auðmjúku.

Og manstu þegar maður með kross á baki sneri sér að okkur og söng drottinn sé með yður hvernig ég skimaði titrandi um allt hið mikla hús greip í skúfinn þinn og stundi: hvar er guð?

Barnið sá ekki Guð í jólamessunni. Hinn fullorðni spurði um Guð í hörmungum samtímans.

Hver skilur Guð?

Hún skildi heldur ekki Guð, unga stúlkan í Nasaret, sem var sagt að hún myndi fæða son sem yrði kallaður sonur hins hæsta. En hún gekkst undir hlutverkið.

Hún skildi heldur ekki Guð, þegar hún gerði frumburði sínum til góða í fjárhúsi í fjarlægum bæ og inn ruddust fjárhirðar í uppnámi sem höfðu heyrt engla syngja og vísa þeim á þetta barn. „... yður er í dag frelsari fæddur ... - ... þér munuð finna ungbarn... En það söng enginn fyrir hana þessa nótt.

Þaðan af síður skildi hún Guð þegar hún tók reifastrangann sinn úr jötunni og lagði á flótta undan morðóðum konungi sem taldi sér ógnað.

Yður er í dag frelsari fæddur.

Hann kom og þeir þekktu hann ekki. Hann var trésmiður. Hann var jafnan í slæmum félagsskap. Þeir þekktu hann ekki aftur.

Þeir sendu háðsglósu að krossinum þar sem hann hékk. En hann kemur aftur, síðar.

Við þekkjum hann ekki enn. Vitum ekki hver hann er. Hann ber ekki kórónu. Hann stýrir ekki her. Við skynjum aðeins kyrrðina: Nú er hann nærri.

Höfundur þessa ljóðs var norskt skáld, yfirlýstur andstæðingur kristinnar trúar og hafði notað mikinn tíma og krafta til að vinna gegn kristinni trú í ræðu og riti. Þetta ljóð, sem hann orti í fangabúðum nasista, hefur vakið margvíslegar spurningar um skáldið og kveikjuna að ljóðinu, sem vísast verður eldrei svarað. Skildi hann, mitt í glamrinu frá harkmiklum hermannastígvélum og gjamminu í byssukjöftunum og öllum þeim hörmungum sem valdið í líki lýðskrumara hafði komið til leiðar? skildi hann þá, hver Kristur var.

Við þekkjum hann ekki enn. Vitum ekki hver hann er. Hann ber ekki kórónu. Hann stýrir ekki her. Við skynjum aðeins kyrrðina: Nú er hann nærri.

Immanúel. Guð með oss.

Ég skil ekki Guð. En hérna liggur hann í líkingu manns, bjargarlaust mannsbarn, berskjaldað, háð umhyggju ungrar móður sem leggur hann á brjóst og skilur tæpast sjálf hver hann er sem henni hefur verið trúað fyrir. Hinn berskjaldaði Guð.

Hvaða leið önnur var honum fær að hjarta mannsins, hjarta mínu og þínu. Enginn óttast hvítvoðung. Enginn hrekkur undan barni í reifum. Ekkert afvopnar fremur en tær svipur og blítt bros í augum hvítvoðungs. Hér er hann, Guð þinn, kominn að vitja þín. Þetta sama bros hins umkomulausa mætti þeim sem urðu á vegi hans sem fulltíða manns. Það mætti hinum vanheilu og þeim sem aðrir höfðu útskúfað og þau töldu sér óhætt í fylgd hans, - brosið mætti þeim sem grétu og návist hans huggaði, umhyggja hans reisti við.

Hinn umkomulausi Guð ógnaði engum nema valdinu, því að valdið hefur engin tök á umkomuleysinu. Hinn kærleiksríki Guð ógnar engum öðrum en þeim sem ganga erinda illskunnar. Illskan hefur engin tök á berskjölduðum kærleikanum.

Ég skil ekki Guð. - En hann gerir sig skiljanlegan í barni í jötu. Þegar ég horfi í augu þess, kemst ég næst því að skilja Guð. Er það kannski þess vegna sem jólin eru sú kristin hátíð sem við tökum hvað fyrirvaralausastan þátt í. Er það í barninu í jötunni sem fingur Guðs snertir svo við hjörtum okkar að þau opnast fyrir öðrum og við kappkostum að gleðja og gleðjast, endurnýja rofin tengsl, skapa sátt og fyrirgefa og leyfum okkur að verða börn í annað sinn og komumst næst því að skilja orðin hans: Nema þér verðið eins og börnin komist þér alls ekki inn í Guðsríki. Er það sem börn frammi fyrir barninu að við njótum geislanna frá dýrð guðsríkisins.

Von Jóhannesar úr Kötlum kviknaði og birtist í tveimur erindum sem hann bætti íslenska þjóðvísu. Ljóðið er nr. 722 í sálmabókinni.

Gerast mun nú brautin bein, bjart í geiminum víðum. Ljómandi kerti á lágri grein, líður að tíðum, líður að helgum tíðum.

Heimsins þagna harmakvein hörðum er linnir stríðum. Læknast og þá hin leyndu mein, líður að tíðum, líður að helgum tíðum.

Af hverju fæðist þessi von?

Immanúel, Guð með oss.

Við mætum fæðingu barnsins, Immanúels um hver jól með orðum skáldsins frá Heydölum:

Þér gjöri eg ei rúm með grjót né tré, gjarnan læt ég hitt í té, vil ég mitt hjartað vaggan sé, vertu nú hér minn kæri. Með vísnasöng ég vögguna þína hræri.

Immanúel, Guð með oss. Ég bið að þú megir lifa þessa fæðingu barnsins í hjarta þínu á þessum jólum, að hann sé þér nærri sem átt velgengni og hamingju að fagna, að hann verði hluttakandi í hamingju þinni, og að þú, sem ert gráti nær á þessum jólum vegna þess sem þú hefur misst eða þess sem þú getur ekki notið, megir einnig á þessum jólum lifa fæðingu hans í hjarta þínu svo hann verði þátttakandi í hryggð þinni, þerri tárin, sefi sorgina, færi þér nýja von og trú.

Ég skil þig ekki Guð, hvorki vald þitt né umkomuleysi, en þegar ég horfist í augu við þig þar sem þú liggur reifabarn í jötu veit ég að þú ert kominn til mín til að vera mér samferða á lífsgöngunni og kenna mér að syngja:

Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu með þeim mönnum sem hann hefur velþóknun á. Amen.