Biblíudagurinn

Biblíudagurinn

Þegar móðuharðindin gengu yfir Ísland ólst lítil stúlka, María Jones að nafni, upp á fátæku heimili í Wales í Bretlandi. Um leið og hún lærði að lesa vaknaði hjá henni löngun til að lesa Biblíuna.

Nú var mikill fjöldi saman kominn og menn komu til Jesú úr hverri borg af annarri. Þá sagði hann þessa dæmisögu: „Sáðmaður gekk út að sá sæði sínu. Og þá er hann sáði féll sumt hjá götunni og varð fótum troðið og fuglar himins átu það upp. Sumt féll á klöpp. Það spratt en skrælnaði af því að það hafði ekki raka. Og sumt féll meðal þyrna og þyrnarnir spruttu einnig og kæfðu það. En sumt féll í góða jörð, óx upp og bar hundraðfaldan ávöxt.“ Að svo mæltu hrópaði Jesús: „Hver sem eyru hefur að heyra hann heyri.“ En lærisveinar hans spurðu Jesú hvað þessi dæmisaga þýddi. Hann sagði: „Ykkur er gefið að þekkja leynda dóma Guðs ríkis, hinir fá þá í dæmisögum að sjáandi sjái þeir ekki og heyrandi skilji þeir ekki. En dæmisagan þýðir þetta: Sæðið er Guðs orð. Það er féll hjá götunni merkir þá sem heyra orðið en síðan kemur djöfullinn og tekur það burt úr hjarta þeirra til þess að þeir trúi ekki og verði hólpnir. Það er féll á klöppina merkir þá sem taka orðinu með fögnuði er þeir heyra það en hafa enga rótfestu. Þeir trúa um stund en falla frá á reynslutíma. Það er féll meðal þyrna merkir þá er heyra en kafna síðan undir áhyggjum, auðæfum og nautnum lífsins og bera ekki þroskaðan ávöxt. En það er féll í góða jörð merkir þá sem heyra orðið og geyma það í göfugu, góðu hjarta og bera ávöxt með stöðuglyndi. Guðspjall: Lúk 8.4-15

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Þegar móðuharðindin gengu yfir Ísland ólst lítil stúlka, María Jones að nafni, upp á fátæku heimili í Wales í Bretlandi. Um leið og hún lærði að lesa vaknaði hjá henni löngun til að lesa Biblíuna. Foreldrar hennar höfðu ekki fjármuni til að kaupa handa henni Biblíu en María litla vann sér inn aura með ýmsum snúningum og þrátt fyrir margar hindranir kom að því að hún taldi sig eiga það gildan sjóð að hann nægði fyrir Biblíu. Enginn í þorpinu átti Biblíu svo að María litla þurfti að ferðast langa leið, í annað hérað, til að hitta fyrir prest sem átti Biblíu. En presturinn var búinn að lofa öðrum eintaki af Biblíunni og auk þess hrökk það gjald sem María hafði safnað alls ekki fyrir andvirði Biblíunnar. Þegar presturinn sá hvað María varð niðurbrotin við þessar fregnir, þá gaf hann henni þrátt fyrir allt Biblíuna, og mikið var hún glöð þegar hún gekk heim með nýfengnu Biblíuna sína undir hendinni.

En sögunni lýkur ekki hér, presturinn hafði orðið fyrir miklum áhrifum af þessu litla atviki og hann fór á fund í nýlega stofnuðu Smáritafélagi í London og sagði fundarfólki frá þessari stúlku í Wales og velti því upp, hvort ekki væri hægt að finna einhver úrræði fyrir fátækt fólk, svo að það gæti eignast Biblíu. Fundarmenn brugðust vel við og sögðu; "Hvers vegna stuðlum við ekki að útbreiðslu Biblíunnar handa öllum í Wales? Eða handa allri þjóðinni, eða bara handa öllum heiminum?"

Með stofnun Hins breska og erlenda Biblíufélags árið 1804 urðu straumhvörf í útbreiðslu Biblíunnar, þau mestu sem orðið höfðu síðan Biblíuvakning siðbótarinnar hófst með þýðingu og útgáfum Marteins Lúthers. Hið íslenska Biblíufélag var stofnað einungis 11 árum síðar, þann 10. júlí 1815 að frumkvæði Skotans Ebenezers Henderson. Það er í dag ekki bara elsta félag landsins heldur eitt af elstu Biblíufélögum í heiminum. Hið íslenska Biblíufélag hefur haft það markmið að vinna að útgáfu og útbreiðslu Biblíunnar á Íslandi, sjá til þess að Biblían sé ætíð fáanleg á aðgengilegri íslensku og stuðla að lestri hennar. Íslendingar voru á meðal 20 fyrstu þjóða heims sem fengu Biblíuna alla á eigin þjóðtungu. Það var menningarlegt afrek Odds Gottskálkssonar og Guðbrands Þorlákssonar og hafði ómetanlegt gildi fyrir okkur sem þjóð. Fræinu var sáð og á næsta ári verður Biblíufélagið 200 ára.

Í guðspjallstexta dagsins heyrum við Jesú tala um sáðmanninn sem gekk út að sá. Og Jesús lýsti því hvað varð um sæðið sem sáðmaðurinn sáði; sumt féll hjá götunni og varð fótum troðið, fuglar himins átu það upp, sumt féll á klöpp eða meðal þyrna og þyrnarnir kæfðu það, osfrv.

Þannig hefur það alltaf verið. Sæðið merkir Guðs orð. Áhrif orðsins, Guðs orðs á fólk, boðskapur Biblínnar nær misjafnlega eyrum fólks og hefur ólík áhrif á fólk. Sumir vilja ekkert með þennan boðskap hafa, loka huga sínum og hjarta fyrir orðinu. En aðrir leyfa orðinu að hafa áhrif á líf sitt og aðhyllast og taka til sín boðskap Biblíunnar. Jesús sagði nefnilega líka:

,, En það sæði er féll í góða jörð merkir þá sem heyra orðið og geyma það í göfugu, góðu hjarta og bera ávöxt með stöðuglyndi“

Í dag er Biblíudagurinn.

Á Biblíudaginn minnumst við allra þeirra sem hafa á undan okkur unnið að útbreiðslu Biblíunnar. Við minnumst þeirra sem voru frumkvöðlar og þeirra sem tóku síðan við og héldu áfram af hugsjón og í trú að vinna að útgáfu og lestri Biblíunnar.

Með útgáfu Biblíunnar og útbreiðslu hennar stendur og fellur öll kristin boðun og áhrif kristindómsins. Við á Íslandi þurfum ekki að hafa áhyggjur af því að það reynist einhverjum erfitt að eignast Biblíu. Frá árinu 1954 hafa Gídeon félagar á Íslandi gefið öllum 12 ára börnum sem það vilja þiggja Nýja testamentið að gjöf. En á tímum samfélagslegra breytinga er full ástæða til að staldra við og íhuga stöðu Biblíunnar í samtímanum. Kannski er það þannig að það þykir svo sjálfsagt fyrir okkur á Íslandi að geta nálgast Biblíuna, okkur finnst við þekkja þetta allt, að við erum orðin værukær, sljó og höfum ekki orku í að sækja fram og keppa að því að allir Íslendingar geti kynnst Biblíunni og lært að meta boðskap hennar. Í mínum huga er það óendanlega dýrmætt fyrir íslenska þjóð að kristin gildi hafi fengið að hafa mótandi áhrif á uppbyggingu samfélagsins og siðferði. Sömuleiðis má sjá að kristin lífsviðhorf hafa haft gríðarleg áhrif á sögu og menningu okkar Íslendinga sem og annarra vestrænna þjóða. Bókmenntir, tónlist, myndlist; alls staðar í menningu okkar sjáum við sterkar skírskotanir í boðskap og frásögur Biblíunnar. Áhrifin eru augljós og sköpunarkrafturinn gríðarlegur.

Biblían er grundvöllur kristinnar trúar og okkar kristnu arfleifðar. Ef við viljum að hver ný kynslóð kynnist boðskap Biblíunnar, aðhyllist kristna trú og varðveitist í henni, mótist af kristnum lífsgildum og viðhorfum í daglegu lífi, þurfum við að taka höndum saman og stuðla að útbreiðslu Biblíunnar. Þetta getur allt kristið fólk sameinast um, að kristin gildi verði áfram í hávegum höfð, að ritlist, tónlist, myndlist og sérhver önnur listgrein haldi áfram að blómstra af undursamlegum trúartengdum verkum sem fái að hafa mótandi áhrif á menningu okkar til framtíðar.

Þekking á Biblíunni og efni hennar er einnig mikilvæg fyrir þau sem ekki telja sig kristin en vilja kynnast kristnum hugarheimi, þekkja sögu okkra og menningu og geta borið skyn á þau kristnu áhrif sem er að finna alls staðar í kringum okkur. Án þekkingar á Biblíunni og myndmáli hennar getur verið torveldara að skilja og vera læs á íslenska og vestræna menningu.

En umfram allt miðlar Biblían kærleika og umhyggju Guðs og því hve miklu máli samfylgd við Hann skiptir í daglegu lífi. Ef það er okkar trú að Biblían, orð Guðs, hið góða sæði eigi erindi við íslenskt samfélag í dag, þá ættum við öll sem eitt, að taka þátt í að útbreiða Biblíuna, stuðla að því að fólk kynnist og tileinki sér boðskap hennar og um leið að vaxandi kærleika í mannlífinu. Já, kæru vinir, hver kynslóð er kristniboðsakur og það er verkefni sérhvers kristins manns, sama hvaða kirkju eða trúarsamfélagi hann tilheyrir að vera sáðmenn og leggja rækt við þann akur sem sáð er í.

Sem fyrr segir verður Biblíufélagið 200 ára á næsta ári.

Á þeim tímamótum horfum við til framtíðar. Við þökkum fyrir allt það góða starf sem unnið hefur verið og um leið horfum við bjartsýn til framtíðar. Við, sem viljum að kristin trú hafi framgang, við, sem viljum sameinast um þau gildi sem kristin trú boðar ætlum að horfa fram á við í sókn, til framtíðar með Jesú Krist sem leiðtoga í lífi okkar. Við ætlum að horfa fram á veginn, standa saman og hvetja þau sem í kringum okkur eru til að vera með, til dæmis með því að ganga í Biblíufélagið og sýna þessu bráðum 200 ára gamla félagi virðingu og þökk með félagsaðild, með þátttöku í sjálfboðastarfi á vegum Biblíufélagsins og styðja starfið með fyrirbæn. Já, við ætlum að ganga fram í djörfung- til framtíðar.

Maríu litlu langaði og hún þráði að eignast Biblíu. Eigum við slíka þrá eftir Guðs orði? Guð gefi okkur slíka þrá og að við mættum stunda kristniboð með allri veru okkar og lífi. Það sæði sem fellur í góða jörð ber ávöxt og svo sannarlega skulum við reyna að hafa þannig áhrif á þau sem í kringum okkur eru. ,,Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður og sonar og heilags anda og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen Takið postullegri kveðju:

Náð Drottin vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé og veri með oss öllum. Amen.