Múrinn

Múrinn

Úti í heimi er voldugur maður, Donald Trump, sem vill byggja múr. Hann komst til valda meðal annars með því að lofa að byggja þennan múr. Múrinn er svo mikilvægur að 800.000 þúsund manns í heimalandi hans fengu ekki launin sín á föstudaginn var. 400.000 þúsund hafa unnið launalaust í þrjár vikur.

Úti í heimi er voldugur maður, Donald Trump, sem vill byggja múr. Hann komst til valda meðal annars með því að lofa að byggja þennan múr. Múrinn er svo mikilvægur að 800.000 þúsund manns í heimalandi hans fengu ekki launin sín á föstudaginn var. 400.000 þúsund hafa unnið launalaust í þrjár vikur.

Í kosningabaráttu þessa volduga manns var talað um að byggja “stórann og fallegan múr” úr steypu á tæplega 3.000 km svæði við landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó til að hindra för ólöglegra innflytjenda yfir landamærin.

Núna heldur maðurinn því fram að hann hafi aldrei ætlað að byggja múr úr steypu, heldur einfaldlega girðingu. Honum er orðið svo margsaga í þessu máli að flestir sem á hlýða eiga erfitt með að henda reiður á hvað hann sagði síðast.

Núna er þessi múr næstum orðinn að neyðarástandi, líkt og um yfirvofandi stríðsógnir eða náttúruhamfarir væri að ræða, svo að valdamaðurinn komist í neyðarsjóði hersins sem meðal annars á að nýta til bygginga flóðvarna víða í landinu sem og til endurbóta og viðgerða, til dæmis eftir náttúruhamfarir eins og fellibylji.

Allt er þetta vegna þess að maðurinn með völdin óttast fólk, manneskjur af holdi og blóði sem hann vill meina að flæði óhindrað yfir landamærin og sé rót alls ills í heimalandi sínu. Hann hefur meira segja gengið svo langt að aðskilja börn frá fjölskyldum sínum og koma þeim fyrir í sérstökum búðum, þannig að erfitt hefur verið að sameina foreldra og börn á nýjan leik, aðgerð sem á sér fá fordæmi í vestrænum heimi nútímans.

Á meðan hann heldur þessu fram, hafa sérfræðingar dregið þetta í efa, þá með sérstöku tilliti til þess að flæði fólks yfir landamærin hafi ekki verið minna í næstum 50 ár og sannleikurinn hefur verið teygður og tosaður af stuðningsmönnum valdsins til að koma þessum vegg á framkvæmdastig.

Múr á milli fólks, hugmynd sem er sprottin vegna ótta og knúin áfram með óttastjórnun til að hafa þau áhrif að almennir borgarar fara að óttast hvert annað með tilliti til uppruna og litarháttar.

Hin sterku ala á ótta gagnvart hinum veiku sem eru ekki að þeirra dómi voldug eða ættstór, hið veika í heiminum. Og heimurinn fylgist með.
Staða hins sterka manns er byggð á þessari hugmynd aðgreiningar og ótta. Hann komst þangað sem hann er með því að boða boðskap aðskilnaðarhyggju og ógnar.

Hvar höfum við séð þetta áður gerast í mannkynssögunni með svo skelfilegum afleiðingum að heimsmynd okkar breyttist í einu vetfangi og við urðum aldrei söm eftir?

Viktor E. Frankl sem skrifar bókina “Leitin að tilgangi lífsins” þar sem hann lýsir reynslu sinni af því að lifa af veru í útrýmingarbúðum nasista í Auschwitz segir þetta í lok bókar sinnar:

“ Í fangabúðunum, þessari lifandi rannsóknarstofu, og í prófraununum urðum við t.d. vitni að því að sumir félaganna höguðu sér eins og svín, aðrir eins og dýrlingar. Maðurinn býr yfir tilhneigingu til hvors tveggja. Það er háð ákvörðun en ekki aðstæðum, hvor hliðin verður ofan á.”

“Samtímamenn okkar eru raunsæir því að við höfum kynnst manninum eins og hann raunverulega er. Þegar öllu er á botninn hvolft er maðurinn veran sem fann upp gasklefana í Auschwitz. En hann er líka veran sem gekk upprétt inn í þessa gasklefa með Faðir vor eða Shema Ísrael á vörunum”.

Voldugi maðurinn sem fann upp gasklefana eða voldugi maðurinn sem vill byggja múr? Er einhver munur hér á í grundvallaratriðum?
Báðir með sama markmið því þeir ala á ótta og hræðslu í garð fólks af ákveðnum þjóðfélagsstigum eða trúarbrögðum. Það er óttinn sem sameinar þá og það er óttinn sem sundrar öllum öðrum.

Hin veiku eru eftir sem áður þau sem þjást vegna ógnarstjórnarinnar sem á sér engin takmörk eða endi enda er takmarkið ekkert annað en að valdið viðhaldi sjálfu sér og safni sér saman. Þar má manneskjan sín lítils.

Í Betlehem forðum fæddist barn. Það veikasta og bjargarlausasta í þessari veröld. Með komu þess í heiminn varð heimurinn einn og óskiptur og öll aðgreining var afnumin í eitt skipti fyrir öll. Það eru góðu tíðindin, í því felst fagnaðarerindið.

Eitthvað sem manneskjan hefur átt erfitt með að fanga og skilja frá komu barnsins í heiminn. Við höfum gert barnið að því sem það er ekki, notað boðskapinn, skrumskælt hann og tekið úr samhengi til að styðja við aðgreiningarhyggju og fordóma. Nýtt boðskapinn til að kúga fólk og styðja við yfirráð þeirra stekur og voldugu. Og heimurinn þjáist með.

Páll postuli segir í pistil þessa sunnudags:

“En Guð hefur útvalið það sem heimurinn telur heimsku til að gera hinum vitru kinnroða og hið veika í heiminum til þess að gera hinu volduga kinnroða. Og hið lítilmótlega í heiminum, það sem heimurinn telur einskis virði, hefur Guð útvalið til þess að gera að engu það sem er í metum”

Koma barnsins í heiminn er kjarnaður í þessum orðum Páls. Auðvitað hlýtur það að vera vitfyrra að barn hafi komið í heiminn fyrir 2000 árum síðan til að frelsa heiminn. Og af því að það er svo mikil vitfyrra höfum við tekið boðskapinn og gert hann að okkar, heimfært og staðfært til að viðhalda áfram gömlu valdakerfi sem heimurinn er hræddur við að skilja við.“

Við þekkjum jú ekkert annað og Guð forði okkur frá því að hleypa hinum veiku, valdalausu og ættlausu að. Nei við útbúum okkur frekar gasklefa og byggjum fleiri múra. Þá líður okkur vel, innilokuð og sátt. Og voldugi maðurinn hlær, því honum hefur tekist ætlunarverk sitt.

Málið er það að í grunninn líður okkur ekki vel, innst inni erum við hrædd því það er það sem óttastjórnun gerir, hún kemur inn hjá okkur undirliggjandi ótta og eitt ráð við því er t.d. þetta að í Bandaríkjunum hafi hver og ein manneskja í aðgang að skotvopni, eitt á hvert heimili og rúmlega það. Gildir einu, hvort einhver gangi af göflunum endrum og eins og hefji skotárás í skólum eða annars staðar í almannarýminu. Rétturinn er mín megin og ég þarf að verja mig. Valdið segir mér að ég hafi eitthvað að óttast, þrátt fyrir alla múra og klefa sem búnir hafa verið til og verða búnir til.

Við hljótum að sjá að það er svo ótalmargt rangt við þessa mynd og kannski er tækifærið nú, að taka stökkið og velta fyrir okkur hvort að viska Guðs sé svo mikil heimska þegar upp er staðið. Ég alla vega fyrir mitt leyti er til í að trúa þeirri visku umfram þeim viskukornum sem valdið boðar en sundrar um leið öllu í kringum sig á hverjum degi og ósk mín væri sú að heimurinn gæti saman tekið það trúarstökk. Við alla vega höfum engu að tapa miðað við þá stöðu sem við horfum upp á í dag og í raun á hverjum degi. Hér er engin að græða!

Hið veika sem Guð hefur útvalið fyrir okkur, færir okkur vonina, von sem við þurfum öll svo mikið á að halda og er orðuð svo fallega í þessum hluta úr “Trúarjátningu vonarinnar” eftir Gerardo Oberman í þýðingu sr. Kristjáns Vals Ingólfssonar. Megi hún vera játning okkar allra á nýju ári:

„Ég trúi á Guð sem er af holdi og blóði, Jesús Krist,
Guð sem varð manneskja eins og ég og gekk í skónum mínum
Guð sem fór sömu leið og ég og þekkir ljós og skugga.
Guð sem neytti matar og leið hungur,
átti heimili og var einmana,
var fagnað og bölvað,
var kysstur og hræktur,
var elskaður og hataður.

Guð sem tók þátt í gleðskap og sorgarstundum.
Guð sem hló og grét.

Ég trúi á Guð sem horfir með athygli á heiminn,
sér hatrið sem breiðist út,
og aðskilur,
hrekur til hliðar,
særir og deyðir:
sér kúlurnar sem smjúga gegn um húð og hold
sér saklaust blóð sem úthellt er yfir jörðina,
sér höndina sem grípur ofan í ókunna vasa,
og rænir því sem aðrir þurfa til matar,
sér dómarann sem dæmir þeim í hag sem borga best
og setur hræsnina á æðra sess en sannleika og réttlæti.

Guð sem sér menguðu fljótin og dauðu fiskana,
sér eiturefnin sem eyðileggja jörðina og setja göt á himininn.
Guð sem sér hvernig framtíðin er fjötruð í veðböndum
og skuld mannanna vex.

Ég trúi á Guð sem sér þetta allt,
og heldur áfram að gráta.

En ég trúi líka á Guð
sem sér móðurina sem fæðir,
sér hvernig lífið fæðist með þraut,
sér tvö börn að leik,
sér útsæði samstöðunnar vaxa,
sér runna blómstra í rústunum,
sér nýtt upphaf.

Sér þrjár ruglaðar konur sem hrópa um réttlæti
og eiga sér óskadraum sem aldrei deyr.

Sér sólina koma upp hvern morgunn
því að núna er tími tækifæranna.
Ég trúi á Guð sem sér þetta allt
og brosir breitt
því að þátt fyrir allt

er von.

Amen!