Ég ber enga virðingu fyrir buskanum

Ég ber enga virðingu fyrir buskanum

Við fáum sífellt ný tækifæri til að bera ávöxt. Það er okkar að hlúa að því sem Guð hefur látið okkur í té að rækta, styrkja og bæta góðar gjafir hans í gegnum hina sístæðu göngu kynslóðanna. Tónlistin lifir og á meðan hverf ég ekki.
fullname - andlitsmynd Skúli Sigurður Ólafsson
31. desember 2017
Flokkar

Hljómsveitin spilar tónlist

Sem er bara til nú og nú
Og aftur nú

Og meðan tónlistin lifir
Hverf ég ekki

Meðan tónlistin lifir
Óttast ég ekki

Ber enga virðingu
Fyrir svonefndum buska

- Sigurður Pálsson

Á hringferð um sólina

Sonur minn færði mér þá fregn nú á dögunum að hann hefði ferðast sex hringi í kringum sólina og væri kominn langt með þann sjöunda. „Vá,” sagði ég, „þú ert aldeilis víðförull.” Og bætti við dæmigerðri foreldraspurningu: „og hvað hefurðu séð merkilegt á þessari leið?” „Pabbi,” sagði hann, „ég er alltaf á sama staðnum. Jörðin bara fer einn hring í kringum sólina á hverju ári og ég er sex ára.” Við vorum sammála um að þetta væri náttúrulega bara stórmerkilegt og þegar við ræddum þessa heimskulegu spurningu mína aðeins betur þá kom það auðvitað á daginn að allt sem hann hefur séð og notið og skynjað á sinni lífslöngu ævi hefur átt sér stað á þessu sífellda ferðalagi.

„Kynslóðir kom, kynslóðir fara.” Við sungum hér í upphafi þessar ljóðlínur Matthíasar. Sífellt er jörðin á sinni sólarferð og tímarnir líða áfram. Við berum þá saman og finnum sitthvað sem leitt hefur til framfara og annað þar sem hallar undan fæti. Á hverju ári heilsum við nýjum íbúum á hótel jörð og fylgjum öðrum til hinstu hvílu. Einn þeirra sem kvaddi á árinu er skáldið Sigurður Pálsson.

Hann á ljóðið sem flutt var hér í upphafi sem er úr síðustu bók hans: Ljóð muna rödd. Sigurður orti nýjum tímum sinn óð. Hann fléttaði saman hið þjóðlega og hið alþjóðlega. Hann átti sínar rætur íslenskri menningu, frá prestsetrinu á Skinnastað þar sem hann sleit barnskónum og svo héðan í Vesturbænum sem var umhverfi næstu mótunarára. En Parísarborg var hans annað heimili og eins og hann leiddi saman þessa heima.

Í kjölfar þess að Sigurður ræðir tónana sem fæðast og deyja í sömu andrá rétt eins og andartökin, kveðst hann enga virðingu bera fyrir svonefndum buska. Allt kann að virðast vera á hverfanda hveli, við endasendumst í kringum sólina eins og sonur minn benti mér á. Þeytumst um í buskanum og frá því sjónarhorni séð verður allt eitthvað svo fánýtt og hverfult. Já, kynslóðirnar koma og fara. Sá sem þetta orti vissi líka hvað beið hans. Orðin eru yfirlýsing tilvistarinnar. Vel má vera að buskinn eignist okkur öll en við ætlum samt að fylla lífið tilgangi, inntaki og merkingu.

Framfaratrú á fallanda fæti

Kynslóð okkar er óvenjuleg um margt því okkur hefur verið innprentað að þessi hringferð okkar leiði jafnt og þétt til meiri framfara. Það er ólíkt þeim hugmyndum sem ríktu hér forðum daga. Í Ísrael hinu forna mændu menn til gullaldaráranna þegar Davíð konungur réði ríkjum að ógleymdum Salómon syni hans hinum vitra. Endurreisnarmenn Evrópu upphófu hina klassísku fornöld. Rómantíkerar á Íslandi rifjuðu með trega upp víkingaöldina þegar hetjur riðu um héruð. „Hvar er þín fornaldarfrægð, frelsið og manndáðin best?” spurði Jónas.

Sonur minn, sem velti fyrir sér snúningi himintunglanna, og samferðafólk hans eru líkleg til að endurskoða þessa framfarahyggju. Við hljótum að taka framförum með æ meiri fyrirvara. Þekkingin verður alltaf meiri og meiri, möguleikarnir ótrúlegir, það er eins og allt lúti stjórn mannsins – og bilið á milli þeirra sem völdin hafa og allra hinna verður alltaf meira og meira.

Vandi er auðvitað að spá um nokkra hluti. Þótt upplýsingarnar séu óskaplegar og tæknin algjört undur – hefur verið miklu auðveldara að segja til um ókomna tíma hér forðum daga þegar allt var í fastari skorðum. Samfélagsrýnir á 17. öld hefði svo sem getað sagt fyrir um það að eftir 50 ár væru líklega langflestir íbúar landsins smábændur og alls kyns náttúruöfl og hörmungar ættu eftir að höggva stór skörð í hópinn. Þjóðfélagið yrði enn undir stjórn danakonungs og stjórnsýslan vafalítið keimlík því sem fólk hafði vanist.

Hver treystir sér til að spá fyrir um það hvernig umhorfs verður hér á gamlárskvöld á því herrans ári 2067? Hvað í veröldinni verður í gangi þá? Jafnvel bara eftir fimm ár, hvernig lítur heimurinn út þá? Getum við mætt þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir á okkar dögum? Verður meiri jöfnuður, betri meðferð á móður jörð, lausn við djúpstæðum vanda sem að sækja? Stórar og smáar spurningar vakna. Verður mögulega búið að opna þetta bakarí þarna á Hofsvallagötunni?

Fíkjutréð

Á gamlárskvöldi syngjum við sálminn fallega eftir séra Valdimar Briem. Þar er að vonum litið til baka og horft fram á veginn: „En hvers er að minnast og hvað er það þá, sem helst skal í minningu geyma?” Já, hvað höfum við lært og hverju höfum við skilað af okkur á því herrans ári sem liðið er? Í stað þess að velta vöngum yfir ókomnum tímum ber skáldið fram einlæga bæn: „Ó, gef þú oss Drottinn enn gleðilegt ár og góðar og blessaðar tíðir.”

Hér eru ókomnir dagar lagðir í hendur þess sem öllu ræður í þeirri vitund að þrátt fyrir öll okkar úrræði erum við samt jafn bjargarlaus og blómið sem Matthías yrkir um í þjóðsöngnum. Hverfur það ekki út í buskann er það tilbiður Guð sinn og deyr? Guðspjall gamlársdags ávarpar þessa óvissu. Fíkjutréð ber engan ávöxt og örlög þess eru rædd í samtali á milli eiganda garðsins og garðyrkjumannsins. Sá fyrrnefndi vill höggva það upp með rótum og skapa skilyrði fyrir önnur tré. Hinn biður því griða og hvetur til þess að það fái staðið eitt ár í viðbót.

Fíkjutréð vísaði í Ísraelsþjóðina en í túlkun hins Nýja testamentis má ekki síður heimfæra það upp á allt mannkyn. Þarna erum við sjálf vegin og metin. Hvað er þá orðið okkar starf? Hver er ávöxtur starfa okkar? Eru framfarir blekkingin ein?

Við hlýðum á varnarræðu Krists sem hvetur til miskunnar. Gefum því lengri tíma til að blómstra og bera ávöxt! Er þetta ekki hið árvissa áramótauppgjör? Já, hvað er gott og hvað er til þess eins að varpa því á bálið? Þarna sjáum við þann rauða þráð gengur í gegnum fagnaðarerindið að örvæntingin er aldrei svarið, vonleysið á aldrei rétt á sér hversu margir sem váboðarnir kunna að vera: „Ef Guð er með okkur hver er þá á móti okkur?“

Þessi von er okkur ómetanleg. Og hún gerir okkur kleift að horfa á líf okkar og tilveru raunsæjum augum án þess þó að okkur fallist hendur. Gerum við ekki orð Sigurðar að okkar, sem kvaðst enga virðingu bera fyrir buskanum?

Jú, hvað höfum við lært og hvað bíður okkar? Gamlárskvöld er einkar heppilegur vettvangur fyrir slíkar spurningar. Fíkjutré er mögulega fyrsta plantan sem fólk fór að gróðursetja og rækta upp sér til fæðu og ánægju. Fyrstu árin er tréð nánast eins og íslenskt kjarr. Það er lágvaxið og breiðir úr sér og engra ávaxta er von fyrr en að nokkrum árum liðnum. Það er vafalítíð hugsun að baki þessum boðskap. Í fyllingu tímans er von á þeirri framför sem öllu máli skiptir í samhengi Biblíunnar. Þar sem maðurinn lærir að ala önn fyrir smælingjanum, leitar réttar þeirra sem eiga undir högg að sækja.

Hvað eru framfarir?

Framfarir? hvað er það? Það er ekkert siðferði að gjalda líku líkt, að koma vel fram við þá sem munu endugjalda greiða. Nei, kristið siðferði snýr að þeim sem munu líklega aldrei launa okkur velvildina. Það er eini kærleikurinn sem stendur undir nafni.

Sigurður Pálsson hugleiddi tímann, eilfíðina og hverfulleikan. Hann fangar í orð hina sístæðu hugsun sem á svo mikið erindi til okkar á tímamótum sem þessum. Hvað er það sem varir og hvað hverfur? Hugsun tungumálið og listin, kynslóðirnar sem koma og fara.

Við mætum nýjum tímum með þá bjartsýni sem er samofin boðskap Krists. Guð er með okkur, hvað er okkur þá mótdrægt? Við hlúum að þeim gróðri sem okkur er falið að sinna. Við fáum sífellt ný tækifæri til að bera ávöxt. Það er okkar að hlúa að því sem Guð hefur látið okkur í té að rækta, styrkja og bæta góðar gjafir hans í gegnum hina sístæðu göngu kynslóðanna. Tónlistin lifir og á meðan hverf ég ekki.