Guð samkvæmt endurskoðuðu útgáfunni af Biblíunni

Guð samkvæmt endurskoðuðu útgáfunni af Biblíunni

Skopteiknarinn Halldór Baldursson hitti naglann á höfuðið í vikunni þegar hann teiknaði mynd af Guði sem félagsráðgjafa með bros á vör sem bíður fram aðstoð sína. Eins og góðum skopteikningum sæmir er teikningin margræð og er líklega ætlað að vera skot á frjálslynda presta sem nútímavæða guðsmynd kristindómsins.

Skopteiknarinn Halldór Baldursson hitti naglann á höfuðið í vikunni þegar hann teiknaði mynd af Guði ,,samkvæmt enduskoðuðu útgáfunni af Biblíunni”, sem félagsráðgjafa með bros á vör sem bíður fram aðstoð sína. Eins og góðum skopteikningum sæmir er teikningin margræð og er líklega ætlað að vera skot á frjálslynda presta kirkjunnar sem hafa í umræðunni legið undir ámæli fyrir að fegra og nútímavæða guðsmynd kristindómsins.

Guðsmynd Halldórs er hinsvegar bráðsnjöll og gæti ekki verið meira viðeigandi í boðun kirkjunnar í samtímanum. Í fyrsta lagi er það mikilvægt mótvægi við karllægar guðsmyndir að tefla fram kvenmynd af Guði en í skopteikningu Halldórs er Guð rauðhærð kona, smekklega klædd með fallegt hálsmen og gleraugu, brosmild og með blóm á borðinu. Þá er hún félagsráðgjafi en starfssvið kirkjunnar og félagsráðgjafar hafa marga snertifleti. Líkt og prestar leiðbeina félagsráðgjafar fólki á tímamótum lífsins og veita faglega ráðgjöf á þeim forsendum að efla skjólstæðinga til sjálfshjálpar. Nærvera konunnar á myndinni er opin og bjóðandi og miðlar þeim mikilvægu sannindum að Guð er ávallt til staðar þegar við viljum leita leiðsagnar hans eða hennar í bæn.

Í samhengi Biblíunnar er það sannarlega í hennar anda að leita fanga í nærumhverfi samtímans til að miðla trúarlegum sannindum um reynsluna af Guði. Biblían öll er full af fjölbreyttu myndmáli sem miðlar ólíkum þáttum guðdómsins og reynslunni af Guði með líkingum sínum. Þannig er Guð hirðir sauða og lamb í samfélagi sem átti lífsviðurværi sitt af sauðfjárrækt, brauð, vatnslind og vín lífsins á tíma þegar það var megin uppistaðan í fæðu og drykk fólks og þannig mætti lengi telja.

Hið ríka myndmál Biblíunnar er ein ástæða þess að útbreiðsla hennar nær langt útfyrir það samfélag og þann tíma sem hún er upprunnin í og hún stendur sannarlega undir því heiti að vera klettur aldanna, þar sem ekkert rit kemst nálægt útbreiðslu Biblíunnar í mannkynssögunni. Uppruni þessa ríka myndmáls má rekja til upphafs eingyðisátrúnaðar hinna fornu Hebrea en biblíufræðingar hafa sýnt fram á að Gamla testamentið sker sig frá öðrum trúarbókmenntum frjósama hálfmánans til forna. Gyði fornaldar eru án undantekningar undirorpin einhverskonar frumlögmálum sjálf sem birtist í því að guðirnir eru varðsmenn náttúruafla eða lífslögmála sem þau eru undirsett . Guðir fornaldar tóku á sig myndir sem skírskota til hinna ólíku afla og nágrannaþjóðir Ísraelsmanna skildu eftir sig gnótt helgimynda og líkneskja af hinum ýmsu goðmögnum.

Hebrear til forna höfnuðu því að Guð þeirra gæti verið settur undir lögmál á borð við örlög eða frumefni, heldur stæði fyrir utan lögmál sköpunnarinnar sem hann grundvallaði, og jafnframt þeirri hugmynd að hægt væri að helga eða höndla Guð í skurðgoðum eða helgimyndum. Þannig kom til myndbann, sem m.a. annars er áréttað í boðorðunum 10, er leiddi til þess að í stað listsköpunar í gerð helgimynda og skurðgoða varð í trúarbókmenntum þeirra ríkulegt myndmál sem auðgað hefur trúarhefðina.

Þannig er Guði í ritsafni Gamla testamentisins líkt við ungamömmu, móðurlíf, örn, ljón, leirkerasmið, víngarðyrkjumann, hirði, dómara og konung. Allar þessar myndir miðla afmörkuðum eiginleikum Guðs og er frá hendi höfunda ekki ætlað að vera lesnar bókstaflega. Nýja Testamentið heldur tryggð við þessa hefð og Jesús notar ríkulegt myndmál í boðun sinni; sumar myndir hans eru sláandi og ætlað að ögra áheyrendum en aðrar mildar og miðla kærleika Guðs. Allt myndmál Biblíunnar á það sameiginlegt að skírskota til þess menningarheims sem það sprettur úr og oft eru hversdagslegar myndir notaðar til að miðla flóknustu trúarhugmyndunum.

Guðspjall dagsins er dæmi um slíkt. Í dæmisögunni er þjónustu í ríki Guðs líkt við þjónustu ráðsmanns við húsbónda, myndmál sótt úr starfsumhverfi og samfélagsgerð þessa tíma. Sá ráðsmaður sem sinnir ekki ábyrgð sinni, heldur beitir undirmenn sína ofbeldi, drekkur á kostnað húsbónda síns og vanrækir reksturinn mun mæta refsingu en sá sem er trúr og hygginn mun uppskera ríkulega. ,,Hver sem mikið er gefið verður mikils krafinn og af þeim verður meira heimtað sem meira er léð.”

Með sama hætti og skopmyndateiknari Fréttablaðsins dregur upp guðsmynd sem byggir á þekktri atvinnugrein og þjónustu hennar, þá dregur Jesús upp boðskap sem byggir á fastmótuðum skyldum ráðsmanna í þjónustu við eignafólk í Rómarveldi fyrstu aldar. Vandinn við allt myndmál er hinsvegar að myndir eru iðulega flóknari en virðist við fyrstu sýn og túlkunin margræð. Það er í senn styrkur trúarlegs myndmáls og veikleiki sé það lesið með bókstaflegum hætti.

Þessu til skýringar má nefna einfaldara dæmi. Víða í Gamla testamentinu er Guði líkt við ljón, samanber spádómsbók Hósea þar sem segir: ,,Því að ég [Guð] reynist Efraím eins og ljón, Júdamönnum sem ungt ljón.” Ljón er táknmynd konunga og því vísar ljónsmyndin í aðra mynd, sem er ekki síður margræð, en ljónið tengist jafnframt hernaðarmætti og hugrekki. Það að Guð reyndist ríkjum gyðinga sem ljón merkir því að hann muni fara fyrir herjum þeirra, veita þeim hugrekki og konunglega visku. Væri slíkur texti lesinn bókstaflega yrði hann merkingarlaus því það vakir ekki fyrir höfundi að halda því fram að Guð sé loðinn eða að hinum trúuðu sé hætta á að verða étin af Guði.

Í guðspjallinu koma fyrir þrjár þjóðfélagsstéttir, sem hafa mismunandi skyldur og stöðu í samfélagsstiganum. Í efsta laginu eru landeigendur, húsbændur, sem annaðhvort voru af rómverskum aðalsættum eða nutu verndar Rómverja, neðst voru þrælar sem álitnir voru eign húsbænda líkt og búfénaður þeirra og í miðjunni frjálsbornir ráðsmenn (oikonomos) sem ráðnir voru til að annast daglegan rekstur eignarinnar.

Lykilinn að túlkun líkingarinnar í Lúkasarguðspjalli er samhengið en í aðdraganda hennar snýr Jesús valdastiganum á haus og segir faðirinn vera húsbónda sem þjónar þrælum sínum til borðs og lærisveina hans vera þræla sem eigi að þjónusta hina lægst settu í samfélaginu. Pétur spyr þá hvort það eigi einungis við um lærisveinana sjálfa eða alla og þá svarar Jesús með þessari líkingu og segir: ,,Hver er sá trúi og hyggni ráðsmaður sem húsbóndinn setur yfir hjú sín að gefa þeim skammtinn á réttum tíma?”

Jesús grípur því til líkinga eins og þörf krefur og miðlar með kennslu sinni kærleika Guðs og ábyrgð þeirra sem kenna sig við hann. Eins og ráðsmenn ganga fylgjendur Jesú af fúsum og frjálsum vilja til þjónustu við ríki Guðs en ef þeir bregðast skyldum sínum hefur það afleiðingar sem verður gert upp að loknu æviskeiði okkar. Ábyrgðin er í því fólgin að reynast þeim sem þess þurfa vel, fátækum, sjúkum, útlendingum og ekkjum.

Um aldir hefur það verið hlutverk kirkjunnar að lesa og miðla boðskap Jesú inn í nýjar aðstæður og ólíkar samfélagsgerðir en kjarninn er sígildur, að reynast Guði og náunga okkar vel. Hirðismyndir og lambamyndmál eiga sannarlega við í okkar samhengi en á Grænlandi væri kannski nær að segja Jesú kóp Guðs. Með nýjum starfstéttum og breyttri samfélagsgerð er það hlutverk kirkjunnar að útskýra það myndmál sem Biblían beitir og heimfæra það á okkar samfélagsgerð, til að miðla sannindum um Guð.

Skopmynd Halldórs er sannarlega í þeim anda. Guð er félagsráðgjafinn góði, sem er ætíð til staðar og leiðbeinir þeim sem þurfa þess við með móðurlegri umhyggju, og okkur ber að reynast þeim sem þurfa þess við sem félagsráðgjafar að guðlegri fyrirmynd. Unglinga hvetur hún til að haldast í námi, velja uppbyggilegan félagsskap, standast freistingar fíkniefni og óheilbrigðra lifnaðarhátta og sýna ábyrgð í kynhegðun. Fullorðna krefur hún til ábyrgðar um að láta af fordómum, að mæta fólki af virðingu og spyrja með bros á vör ,,Góðan daginn. Hvernig get ég aðstoðað?”.

Það er fyrirheiti okkar sem kennum okkur við félagsráðgjafann góða að hún er ætíð til staðar með sitt brosmilda viðhorf, tilbúin til að aðstoða okkur við að standa undir ábyrgð okkar í þessum heimi. Guði sé lof fyrir það.