Dýrmætustu frásögurnar

Dýrmætustu frásögurnar

Að segja frá, segja sögur, það er eitt af því sem við gerum og markmið okkar er kannski það að miðla áfram okkar bestu frásögum til komandi kynslóða.
fullname - andlitsmynd Þorvaldur Víðisson
24. desember 2021
Flokkar

Aðfangadagur jóla í Bústaðakirkju 

24. desember 2021 kl. 18 

Lk. 2:1-14 


Biðjum: 

 

Heilagi Guð á himni og jörð 

hljómi þér lof og þakkargjörð! 

Blessað sé vald og viska þín! 

Vegsemd þér kveði tunga mín. Amen. 

 

Kæri söfnuður, kæru vinir, Gleðileg jól. 


Stundin er runnin upp, jólin eru kominkirkjuklukkurnar hafa hringt inn jólinHeilög stund. 

 

Læknirinn Lúkas, sem guðspjall aðfangadags er kennt við, var geysilega snjall að koma saman svo ríkri lýsingu í ekki lengri texta.  

En það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara … 


En þannig hefst jólaguðspjall Lúkasar, sem við heyrðum hér áðan, og við rifjum upp á hverjum jólum, endurtökum textann um fæðingu Jesúbarnsins í Betlehem, Maríu og Jósef, englana og hirðana.  


Hversu fögur frásaga 


Með orðunum gefur textinn okkur myndir, sem við eigum auðvelt með að sjá fyrir okkur, sem við notum til dæmis hér í kór Bústaðakirkju, þar sem við setjum upp þessa sviðsmynd, María, Jósef og Jesúbarnið í jötunni. 

Guðspjöllin eru fjögur í Biblíunni, hin eru Jóhannesarguðspjall, Mattheusarguðspjall og Markúsarguðspjall.  


Fyrstu versin í Jóhannesarguðspjalli eru fallegt ljóð: 

Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð. Hann var í upphafi hjá Guði. Allt varð til fyrir hann, án hans varð ekki neitt sem til er. Í honum var líf og lífið var ljós mannanna.  

Þarna er Jóhannes að fjalla um Jesú. 


Matteusarguðspjall segir frá fæðingu Jesú í tengslum við uppruna Jesú og ættir, hvaðan hann kom, hvaðan foreldrar hans voru. Sá sem skrifar það vill sýna fram á að Jesú var af sömu ætt og Davíð konungur, sem Davíðssálmar eru kenndir við: Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta, segir í sálmi 23. Mattheus skrifar s.s. fyrir gyðingana, þá sem þekkja Gamla testamentið, það er samhengi Mattheusarguðspjalls 


Síðan er það Markúsarguðspjall sem hefst bara á orðunum: 

Upphaf fagnaðarerindisins um Jesú Krist, Guðs son. 

Líkt og segir í norsku þýðingunni: 

Her begynner evangeliet om Jesus KristusGuds Sønn. 


Ekkert fagurt ljóð, ekki samhengi kynslóðanna, né rík myndræn lýsing. Þegar ég las þetta fyrst fannst mér þetta heldur tómleg lýsing hjá Markúsi  


En síðan sá ég og lærði hina dýpri merkingu Markúsarguðspjalls.  


Fyrir lesandann eða þann sem heyrir þessi upphafsorð, þá hljóma þau einfaldlega: 

„Upphaf fagnaðarerindisins...“ segir Markús.  


Sem þýðir að fagnaðarerindið er ekki bara eitthvað sem gerðist fyrir árþúsundum síðan, í fyrndinni, í fjarlægu landi. Þegar við lesum fyrstu orðin heyrum við að þau eru ætluð þeim sem lesa textann, og þeim sem heyrir, á öllum tímum, og okkur, einmitt í dag. 


„Hér hefst fagnaðarerindið...“ ef við þýðum norska textann samkvæmt orðanna hljóðan. Fagnaðarerindið hefst einmitt hér og nú, í lífi þínu og lífi mínu. Hvenær sem textinn er lesinn.  


Hvenær sem við heyrum jólaguðspjallið og meðtökum það inn í líf okkar.  


Hvatning Markúsar er að við einmitt meðtökum fagnaðarerindið inn í líf okkar hér og nú, og lifum okkar lífi á þann máta að það sé vitnisburður um kærleika Guðs til mannanna.  


Textarnir veita okkur myndir af Guði sem er ríkur af náð og kærleika, og sem fæðist einnig inn í heiminn sem ósjálfbjarga lítið barn, og veitir okkur þannig tækifæri til að þjóna honum og hvert öðru af kærleika, náð og miskunn.  


Að miðla góðum sögum er eitthvað sem hefur fylgt mannlífinu alla tíð. Þetta er það sem við gerum öll, löðumst að sögum og frásögum, segjum sögur, segjum frá, tölum saman, deilum reynslu hvert með öðru.  

 

Við erum alltaf að vinna með sögur, í skólum er stöðugt unnið með frásögur, stjórnmálin byggja á frásögum, heilbrigðiskerfið á sínar frásögur, menningarlífið, tónlistin og íþróttirnar og þannig mætti áfram telja.  

 

Það hefur verið venja á heimili okkar hjóna að lesa fyrir börnin fyrir svefninn. Þessi stund eftir eril dagsins, þið kannist við þetta, að setjast við rúmstokkinn og lesa Astrid Lindgren eða Gunnar Helgason, Gerði Kristnýju eða Andra Snæ, sögur um Harry Potter eða Harry og hrukkudýrin eða hvað annað sem glæðir málþroska og sköpunargleði, og síðast en ekki síst glæðir samfélagið á heimilinu og vináttuna í fjölskyldunni. 

 

Lífið snýst svo oft um það að miðla áfram góðum frásögum sem við höfum lært og einnig góðum reynslusögum úr okkar eigin lífi. 

 

Sagt hefur verið að góð skáldsaga geti verið sannari heldur en reynsla okkar hvers og eins. Þ.e.a.s. þegar mannleg reynsla okkar margra er dregin saman í frásögu, þá geta færir rithöfundar komið á framfæri einhverju sem rúmar stærri reynslu og þekkingu en hver og einn einstaklingur getur eignast á heilli ævi.  

 

Frásögurnar sem Biblían geymir eru einmitt þannig, þær varðveita mannlega reynslu kynslóðanna og aldanna, miðla þekkingu á mannlegu eðli og glímu okkar hér í heimi. Séu þær lesnar í bæn og af þekkingu á þeim bakgrunni sem þær spretta úr vekja þær trú, glæða von og miðla kærleika.   

 

Þetta er eitt af sameiginlegum verkefnum okkar, það er að miðla áfram góðu frásögunum af mildi og kærleika Guðs og einnig því sem lífið hefur kennt okkur, miðla áfram góðri og uppbyggilegri reynslu.  

 

Að segja frá, segja sögur, það er eitt af því sem við gerum og markmið okkar er kannski það að miðla áfram okkar bestu frásögum til komandi kynslóða.  

 

Ritningarnar fjallar um það hvað það er að vera manneskja. 

Hvað það er að vera manneskja í heiminum og í samfélagi við aðra. 

Hvað það er að vera barn, unglingur, fullorðinn og aldraður í dag, í gær og alla daga. Þessi þekking er óháð tíma, hún á alltaf við.  

 

Þekkingu Biblíunnar er gjarnan miðlað í formi frásagnar, í formi líkinga, ljóða eða spakmæla. Frásögurnar, smásögurnar, eru notaðar til að varpa ljósi á eðli Guðs.  

 

Hér er um annars konar þekkingu að ræða heldur en stærðfræði, líffræði eða eðlisfræði miðla okkur. Þekking hins trúarlega er annars konar og svo virðist sem aldirnar hafi kennt okkur að miðlun þeirra sé farsælust á þessu formi.  

 

Textar Biblíunnar miðla þekkingu til okkar um hvað það er að vera manneskja. Þar má finna ákveðinn rythma lífsins, þar sem endurtekning kemur fyrir, árleg endurtekning, er við höldum upp á fæðingu, fæðingu Guðs í heiminn, í Jesú Kristi.  

 

Að afmarka tímabil, líkt og daga vinnuvikunnar og svo er helgi, skiptir manninn miklu. Helgi, þetta orð vísar til hvíldar og þess að við stöldrum við. Líkt og rythminn sem árstíðirnar veita okkur, haust og upphaf vetrarins, svo koma jól, hápunktur þess er við viljum hafa í forgrunni í lífinu 


Í sálmi 851 segir hr. Sigurbjörn Einarsson, biskup: 

 

Nú er bjart í hug og hjarta, 

húsið fullt af söng og yl, 

Jesús, lífsins lindin sanna, 

lífgar allt sem best er til. 

Jesús er hjá oss hér, 

hann er lífið mér og þér. 


Megi heimili þitt vera hýbýli hans, sem vill veita þér af náð sinni: Samfélag, vináttu, frið og kærleika manna á meðal. Ekki bara í dag, heldur alla daga.  

 

Gleðileg jól, kæri söfnuður, kæru vinir. Gleðileg jól. 

 

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen. 

 

Takið postullegri kveðju: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda, sé og veri með yður öllum. Amen.