Jesúbúðir - stríð menningarheima?

Jesúbúðir - stríð menningarheima?

Í gærkvöld sýndi RÚV heimildarmynd sem segir frá starfi kristins trúfélags í BNA og þá sérstaklega þeim starfsþætti trúfélagsins sem snýr að börnum, bæði í formi námskeiða sem og í formi sumarbúða. Myndin er á margan hátt opinská en um leið vantar umfjöllun um atburðina sem myndin sýnir og útskýringar viðmælenda látnar standa án þess að skoða fleiri hliðar málsins.
fullname - andlitsmynd Pétur Björgvin Þorsteinsson
11. október 2007

Í gærkvöld sýndi RÚV heimildarmynd sem segir frá starfi kristins trúfélags í BNA og þá sérstaklega þeim starfsþætti trúfélagsins sem snýr að börnum, bæði í formi námskeiða sem og í formi sumarbúða. Myndin er á margan hátt opinská en um leið vantar umfjöllun um atburðina sem myndin sýnir og útskýringar viðmælenda látnar standa án þess að skoða fleiri hliðar málsins. Rammi myndarinnar þar sem vakin er athygli á málinu í útvarpi skilar sér ekki og verður frekar óskiljanlegur þáttur myndarinnar.

Höfundar myndarinnar velja að draga upp mynd af meðlimum þessa kristna trúfélags (trúfélaga) á þann hátt að þær raddir innan trúfélagsins sem eru sterklega litaðar af þjóðernisisma fá að heyrast sem og þær raddir sem sjá íbúa jarðar í tveimur flokkum: ,,þá sem trúa á Jesú” og ,,þá sem ekki trúa á Jesú”, auk þess sem gefið er til kynna að það menningarheimastríð sem viðmælendur höfunda telja íbúa jarðarinnar standa í snúist gegn Íslam annars vegar og boðberum frjálslyndis hins vegar (sem standa m.a. fyrir fóstureyðingum).

Um leið og ég fagna mynd sem þessari sem vekur til umhugsunar verð ég að segja að mér þykir miður að höfundar skuli ekki hafa valið þá leið að koma inn með fagleg sjónarhorn á það sem þarna er að gerast. En auðvitað er það þeirra val og ekki þeirra hlutverk að koma slíkri umræðu á framfæri í mynd sinni heldur fyrst og fremst að koma umræðu af stað. Og í þeirri viðleitni sinni velja þeir að klippa myndina að hluta til þannig að tilfinningarþrungnar stundir barnanna hrópa út úr myndinni og sterkar setningar trúboðanna hljóma aftur og aftur: „Don’t be a promises’ breaker, be a history maker“.

Af myndinni skilst áhorfendanum að hópur viðmælenda höfunda hennar á það sameiginlegt að vera einörð, brennandi í trú sinni og tilbúin að fórna öllu fyrir Drottinn Jesús Krist. Þau tala án þess að skafa utan af hlutunum, í stað þess að reyna að týnast í diplómatískum setningum segja þau meiningu sína á einlægan og hreinskilin hátt, ófeimin við að játa að þau eru ekki ,,main stream”. Þetta á bæði við um fullorðna viðmælendur sem og þá viðmælendur sem eru enn á unga aldri.

Þessi mynd er til þess fallin að skerpa skilin á milli þeirra sem taka afstöðu með kristinni trú og þeirra sem stilla sér upp gegn henni. Hvort það var markmið þeirra sem stóðu að gerð myndarinnar veit ég ekki en ég fæ ekki betur séð en að hún styðji við þá tveggja heima sýn sem kynnt er í myndinni ,,hinir kristnu” og ,,hinir ókristnu”. Það er miður því allar slíkar alhæfingar eru til þess fallnar að árekstrum á milli hópa fjölgar, ósætti í þjóðfélaginu eykst. Nú þegar við stöndum við upphaf 21. aldarinnar sem sumir segja að verði öld samtalsins á milli menningarheimanna / hins þvertrúarlega samtals, nokkurs sem ætti að geta leitt til friðar milli þjóða, sáttar milli menningarheima ættum við að efla okkur í slíku samtali í stað þess að ýta undir árásir í formi orða og skoðanna.

Reyndar virðist þvertrúarlegt samtal vera á mörkum þess að ganga inn í einmitt þennan heim þar sem þverstæðurnar eru skerptar og okkur ætlað að ræða um það sem skilur að og læra að sætta okkur við andstæðurnar í stað þess að ræða um það sem sameinar og eflir samheldnina. Í þessu samhengi bendi ég t.d. á annálsfærslu mína frá því í september Hinn nýji tónn í samskiptum trúarbragða.

Umræðan sem fer af stað eftir áhorf þessarar myndar gæti átt það á hættu hér á landi eins og hefur gerst sumsstaðar erlendis að alhæft sé út frá myndinni. Hér þurfum við öll að íhuga okkar innlegg, innlegg sem geta verið uppbyggjandi og hjálpað okkur áfram sem samfélagi á litlu eyjunni okkar ættu að hafa forgang hjá okkur öllum.

Guð blessi ykkur.

Umræður um þennan pistil fara fram á annál Péturs Björgvins.