Stórir helgir dagar og fíflalegt bingó

Stórir helgir dagar og fíflalegt bingó

Það er enn svo að kristinn siður mótar samfélagið, helgidaga, siðgæði og mótar framferði eftir hinum kristilega náunga kærleika. Það er ekki bara vegna þess að við viljum endilega vera gott fólk almennt talað til að fullnægja einhverju almennu réttlæti. Við erum mótuð af kristnum sið sem á sér hverfipunkt í einum stórum atburði mannkynssögunnar og úrslitaatriði í lífi og trú kristins manns.
fullname - andlitsmynd Kristján Björnsson
08. apríl 2007
Flokkar

Þá er hvíldardagurinn var liðinn, keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann. Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni. Þær sögðu sín á milli: Hver mun velta fyrir oss steininum frá grafarmunnanum? En þegar þær líta upp, sjá þær, að steininum hafði verið velt frá, en hann var mjög stór. Þær stíga inn í gröfina og sjá ungan mann sitja hægra megin, klæddan hvítri skikkju og þær skelfdust. En hann sagði við þær: Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér. Sjá, þarna er staðurinn, þar sem þeir lögðu hann. En farið og segið lærisveinum hans og Pétri: Hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann, eins og hann sagði yður. Markús 16.1-7

Kæri söfnuður, gleðilega páska!

Það eru margir stórir dagar í kirkjunni þessar vikurnar og rekur hver viðburðurinn annan. Varla að nokkur hafi undan að fylgjast með því öllu og svo líka fermingarnar fyrir og eftir páska. Nú er enda stærsta og mesta hátíð kristinna manna, sjálfir páskarnir, en messuhaldið er í anda þess; hver dagur með sínu móti að minnast alls þess er gerðist hjá Jesú dag fyrir dag. Skírdagurinn, föstudagurinn langi, aðfangadagurinn og svo sjálf stórhátíðin í dag, páskadagur, svo stór að ekki tjáir að hafa aðeins einn dag, heldur tvo daga páskanna. Í aðdraganda dymbildaganna var pálmasunnudagurinn fullur gleði og fagnaðar yfir innreið Jesú í Jerúsalem. Í raun eru þetta miklar sviptingar í lífi hins trúaða. Fastan með aðeins tveimur dögum til að fagna, á boðunardegi Maríu og svo pálmasunnudagurinn hávaðasami, þá kyrravika og allt í einu hin fagnaðarríka hátíð páskanna. Var engin furða að stundum var talað um páskahlátur því þá mátti söfnuðrinn hlæja og hafa hátt og njóta lífsins í lystisemdum og matseld. Er ég þó ekki að tala um hinn litúrgíska páskahlátur sem var formlegt fyrirbæri í páskamessunni.

Ég hló til dæmis í gær að fíflalegum rökstuðningi þeirrar vantrúarmanna sem voru með málatilbúnað á föstudaginn langa við Austurvöll eða hvar sem það annars var í 101. Þá klæjaði svo undan því að hin fátæklega rest af helgidagalöggjöf Alþings Íslendinga skuli enn minnast á að enn er eitthvað sem ekki má gera á föstudaginn langa. Og kjánar á fréttavef Vísis.is töluðu um það eins og sjálfsagðan hlut að eitthvað væri réttlætanlegt í þessari ádeilu á “helgidagalöggjöf Þjóðkirkjunnar”, eða það var það látið heita þar. Þetta vakti hlátur vegna þess hvað þetta er vitlaust. Er heimsku manna engin takmörk sett, spyr ég bara? Vitaskuld er ekki neitt til sem heitir helgidagalöggjöf Þjóðkirkjunnar. Það er Alþingi sem setur lögin í landinu. Og vitaskuld hlýtur það að vera þannig, að ef ekkert stendur eftir af helgi tiltekins helgidags, sem þó hefur verið helgidagur heillar þjóðar með lagastoð í löggjöf hins háa Alþings um langan aldur, fæ ég ekki séð að þjóðin í heild sinni geti áfram haldið í helgidaginn sem frídag eða dag með sérstökum helgidagablæ. Ef þjóðin lætur það endurspeglast með æ fleiri helgidaga í löggjöf Alþings að þessir dagar séu ef til vill ekki svo miklir helgidagar, er engin ástæða til að taka þá frá. Hjá þeim sem ekki sér helgi föstudagsins langa eða sér hana og er ráðinn í hafa hana að engu er auðvitað að lifa bara einn föstudaginn enn í ársins hring. Hjá honum eru allir dagar jafnir. Honum er þá heldur engin vorkunn að vinna þennan föstudag ef hann er orðinn að virkum degi í huga hans eins og hér væri engin kristni.

Í þjóðfélagi sem ekki tekur svo mikið tillit til trúarskilnings kristinna manna umfram trúarskilning fólks af annarri trú eða trúleysingja er föstudagurinn að sjálfsögðu ekki helgidagur með tilheyrandi helgi og frið og fríi. Hann er virkur dagur um öll Bandaríkin, svo dæmi sé tekið af einni tæplega 300 milljóna þjóð. Og það sama gildir um skírdaginn og annan í páskum. Ekki veit ég um nokkra þjóð, þótt slík dæmi megi eflaust finna, sem heldur annan í páskum helgan dag. Fíflaleg uppákoma vantrúarmanna vekur mér því bara hlátur og þó væri ef til vill nær að tala um aðhlátursefni, fyrst fólk getur verið svo lokað í eigin heimi eða blint í þröngsýnni lífsskoðun sinni, þeir sem vildu sjálfsagt segja eitthvað voða merkilegt með því athæfi að halda bingó á gömlum messutíma föstudagsins langa.

Ég vil aðeins skýra það nánar með dæmi frá Ísraelsríki nútímans. Þar er auðvitað ekki þriggja daga helgi í hverri viku og aðeins fjórir virkir dagar þótt múslímir haldi föstudaginn helgan, gyðingar laugardaginn, sabbatinn, og kristnir menn sunnudaginn helgan hvíldardag. Helgi og virki daganna ræðst auðvitað af trúarskilningi, því án trúarskilnings er engin helgi. Og rétt er að minna á að helgi hvíldardagins er vitaskuld fengin með sköpun Guðs, sem skapaði himinn og jörð og allt sem þar hrærist í sköpunarverkinu á sex dögum en skapaði þá að lokum hinn sjöunda dag til að hinn skapaði mætti hvílast. Og það sem meira er, er að hann skapaði þennan dag og hvíldist sjálfur af öllu verki sínu. Þannig að hvíld Guðs verður til að gefa þessum degi helgi sína og fyrir hvíld skaparans er hvíld mannsins heilög. Það er innbyggt í trú okkar á hinn skapandi mátt Guðs, sem sést og heyrist í orði hans og þá einnig í þriðja boðorðinu af hinum tíu. Páskadagurinn er helgastur dagur því þá varð hin nýja sköpun.

Gallinn við okkar kynslóð, fólk sem er uppi núna og ber uppi þjóðfélagið með vinnusemi og útsjónasemi og elju og gáfum og margvíslegri getu til ótrúlegustu afreka er ekki að sinna þeirri heilögu köllun sem felst í því að helga sig Guði. Ef ég tek dæmi hér af okkur í Vestmannaeyjum verður að segjast að okkur fer aftur í einu efni. Áður fyrr voru páskastoppin tilefni til mannfagnaða og gleði yfir því að hittast og skemmta sér, því sjaldan voru jafn margir inni á sama tíma. Það hefur verið mikið um páskahlátur í Eyjum kynslóð eftir kynslóð og enn er það svo að ef stórir hópar vilja hittast er ekki úr vegi að velja þessa daga, þótt kristilegir helgidagar séu, til að ná saman og hafa jafnvel bara nokkuð hátt á köflum. Það er bara gott og blessað og ég hef tekið þátt í því á stundum af sérstöku tilefni. En ég sagði að okkur hafi farið aftur hér í Eyjum. Það er vegna þess að þrátt fyrir þennan gleðskap og söng og vín létu hinir hraustu það ekki um sig spyrjast að missa úr messu. Helgi daganna skyldi virða með kirkjugöngu þótt nota mætti aukagetuna eða umframkraftinn til að eiga líka góða stund með vinum. Hér er bleik brugðið og það fer að verða vel réttlætanlegt að spyrja hversu kristin sú kristna þjóð er sem tekur sér alla þessa helgidaga en heldur ekki helgi þeirra. Ekki einu sinni í einn og einn klukkutíma sem messan tekur. Hún lætur sér nægja að taka fríið og fjörið. Ef til vill á þetta eftir að breytast rétt eins og helgidagalöggjöf Alþingis hefur breyst hin síðari ár með vaxandi veraldarhyggju og verslunarhyggju og afhelgun daganna með því að gera þá virka. Ég get ekki annað en hvatt til þess að helgi daganna verði virt hjá þeim sem eiga þá helga. Löggjöf á vitaskuld að hjálpa fólki að verja helgi helgidaga sinna í samræmi við þá trú og sannfæringu sem það fylgir. Hér einsog víðar óttast ég mest það sem kallað hefur verið tómlæti samtíðarmanna minna, tómlæti sem segir að það hljóti að vera í lagi að hver maður geri bara það sem honum sýnist. Ég óttast að tómlæti en ekki árásir á kristna trú sem muni valda henni mestum skaða gagnvart því sem heilagt er.

Það er ekki svo í mínum huga að helgi þess heilaga sé mjög hætt komin hér í Eyjum og bið ég ykkur að skilja ekki orð mín þannig þegar ég segi að okkur hafi farið aftur í vissum efnum sem snýr að kirkjurækni. Þið eruð þá hér allmörg. En við megum gæta okkar og það má líka segja að við getum ekki lengur ætlast til þess að fólk muni jafn vel og áður hvað það er sem mestu skiptir á helgum hátíðum. Kirkjusókn er fádæma góð á jólum og ætti að vera betri í kyrruviku og páskum út frá því að í dag er hæsta hátíð kristinna manna um allan heim. Það er hins vegar æði margt sem glepur og trúlega er mun meiri þörf á að auglýsa betur en gert er hvað til friðar kristins manns heyrir í kirkjulegum efnum. Það er eiginlega fáránlegt hversu auðvelt er að gleyma að fara til kirkju í hátíðarmessur og helgar guðsþjónustur. Það er næstum því aðhlátursefni ef ekki grátlega kaldhæðnislegt hvað það er létt að láta sér koma eitthvað allt annað til hugar en sækja kirkju á helgum degi eða nýta sér helgidagafriðinn til að næla bara í fríið.

Hvað sem því líður er ljóst að virðing okkar fyrir trúarlegri helgi er sennilega ekki á neinu undanhaldi, nema síður sé. Ég hallast að því að hún sé stöðugt að aukast. Trúhneigð er að aukast. Það held ég að sé alveg stórmerkileg staðreynd um okkur hér. Sjáið hvernig þetta er innbrennt í peyjana sem sátu hér uppi á lofti og fylgdust með því eitt sinn er presturinn gekk hér skrýddur inn. Annar sagði þá upphátt: “Sjáðu þarna er Guð.” “Nehei,” sagði þá hinn, “þetta er ekki Guð, þetta er Drottinn.”

Það vantar ekkert á virðinguna og það kemur oft fram að trú okkar er mikil og traust. Það vantar ekkert á bænarlífið sem slíkt. Og meðan það er svo hjá næstum því heilli þjóð, að hún trúir því að Jesús frá Nazaret, sem krossfestur var á hinni fornu páskahátíð Gyðinga, hafi á þriðja degi risið upp frá dauðum, og minnist þess með hinni nýju páskahátíð kristinna manna, er ekki nema eðlilegt að sú þjóð setji sér löggjöf sem ver þessa helgi að einhverju hæfilegu marki. Hitt væri annað hvort bilun eða grunnhyggni sem ógnað gæti því að þjóðin ætti áfram hald og traust í trúarlegri sannfæringu sinni og trúarsið. Það er ekki lengur einn siður í þessu landi eins og lögfest var á sínum tíma á Alþingi hinu forna. En það er enn svo að kristinn siður mótar samfélagið og mótar helgidaga og mótar siðgæði og mótar framferði eftir hinum kristilega náunga kærleika. En það er ekki bara vegna þess að við viljum endilega vera gott fólk og kærleiksríkt svona almennt talað til að fullnægja einhverju almennu réttlæti. Við erum mótuð af þeim sið sem á sér hverfipunkt í einum stórum atburði mannkynssögunnar og úrslitaatriði í lífi og trú kristins manns: Að Jesús frá Nazaret reyndist vera Kristur, Drottinn og frelsari heimsins, er hann reis upp frá dauðum á þriðja degi. Um það snýst þetta nú allt hjá okkur hversu heit eða innileg sem hin kristna trú annars er hjá hverjum og einum frá einum tíma til annars. Hin nýja sköpun Drottins skóp helgi hins nýja skilnings á páskadegi kristinna manna og hinn nýji sáttmáli tók ekki aðeins gildi, heldur var honum þrykkt á enni og á brjóst hverrar kristinnar sálar með krossmarki trúarinnar. Af því tákni krossins er maðurinn helgaður og undir það tákn krossins, tákn hins nýja sáttmála, helgum við okkur signt og heilagt, það er að segja á virkum dögum og helgum. Vegna sigurverksins sem Kristur vann er sigurhátíð sæl og blíð hjá okkur núna og gleymum því aldrei.