Forvitni um Guð

Forvitni um Guð

Ekki veit ég hvernig Ritningarlestrarnir virka á þig. Ekki er hægt að neita því að lesnir eru fornir textar, svona 2000 til 3000 ára gamlir. Því ætti engum að bregða þó ekki sé allt auðskilið. En mannkynið hefur svo sem ekki breyst mikið þó að við tölum um miklar framfarir og það er raunin, tæknilegar framfarir. En textarnir segja frá miklum breytingum sem urðu með komu Jesú Krists þessa sunnudaga eftir þrettándann.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Ekki veit ég hvernig Ritningarlestrarnir virka á þig. Ekki er hægt að neita því að lesnir eru fornir textar, svona 2000 til 3000 ára gamlir. Því ætti engum að bregða þó ekki sé allt auðskilið. En mannkynið hefur svo sem ekki breyst mikið þó að við tölum um miklar framfarir og það er raunin, tæknilegar framfarir. En textarnir segja frá miklum breytingum sem urðu með komu Jesú Krists þessa sunnudaga eftir þrettándann. Ég ætla í dag að reyna útskýra texta dagsins sem eru miklu nærtækari og ágengari en virðist í fyrstu. Við sem viljum vera kristin þurfum að lesa biblíuna með opnum huga. Það eru til ágæta leiðbeiningar um það sem eiga eftir að koma fram í máli mínu. Það er forvitnilegt viðfangsefni að læra um Guð.

1. Daginn eftir 
Hvað gerðist daginn áður? Það höfðu verið sendir menn, prestar og Levítar, til að spyrjast fyrir um Jóhannes skírara. Það var einhver hreyfing fólks við ána Jórdan. Það fór út í eyðimörkina að ánni til að hlusta á þennan sérkennilega prédikara og meinlætamann, Jóhannes skírara.

Reynum að sjá þetta fyrir okkur. Einhver prédikari handan við Eyjafjarðarána að prédika og hálfur bærinn fer þarna fram eftir við Möðruvelli fram. Þar skírir sérkennilegur prédikari fólkið iðrunarskírn og fólkið játar syndir sínar opinberlega. Við prestarnir í bænum stingum saman nefjum og veltum fyrir okkar hvað veldur þessum vinsældum furðufuglsins fram í firði. Héraðsnefndin kemur saman á fundi og hún sendir menn til að kanna málið. Þegar sendinefndin mætir á staðinn og spyrja prédikarann vísar hann frá sér, segist bara vera rödd, en það er annar að koma. Hann skírði með vatni en sá sem kemur er miklu meiri og skírir með heilögum anda. Sendinefndin gefur svo skýrslu. Ætli þeim hafi brugðið? Hvað var eiginlega að gerast? Við ráðum ekki neitt við neitt.

Það er ágætt að lesa svona með því að setja sig í spor persónanna og heimafæra orðin upp á sjálfan sig. Svo getum við líka reynt að lifa okkur inn í aðstæðurnar eins og þegar maður horfir á bíómynd. Annan daginn gerist svo þetta sem við lásum í guðspjallinu. Sögumaðurinn er að öllum líkindum höfundur guðspjallsins, yngsti lærisveinninn, Jóhannes er heimildamaðurinn, í það minnsta. Hann er annar af lærisveinunum sem fylgdu Jóhannesi skírara út í eyðimörkina og voru við Jórdan þegar Jesús var á meðal þeirra en þeir þekktu hann ekki þá.  

Þetta voru svo eftirminnilegir dagar að Jóhannes postuli telur dagana. Enda endar þessi frásagnaþáttur í brúðkaupi. Sumir halda því fram að það hafi verið brúðkaup Jóhannesar og Jesús og lærisveinarnir hans voru þar viðstaddir. Þá er það ekki að furða að hann muni þetta vel. Á undan, í upphafi guðspjallsins, er eitt stórkostlegasta ljóð eða sálmur Nýja testamentisins. Ég hef nefnt það fyrsta jólasálminn um að frumglæðir ljóssins er kominn í heiminn í mannsmynd: „Orðið varð hold.“ 

Jóhannes skírari bendir á hann og segir um hann: Sjá, Guðs lamb sem ber synd heimsins. Við í kirkjunni höfum svo sungið þessi orð um Jesú í um 20 aldir, 2000 ár, um hann sem Jóhannes skírari benti á. Minnisstæðir dagar!  

Þriðja daginn er þá Jóhannes síðar postuli og Andrés bróðir Péturs staddir þarna við ána. Jóhannes bendir á hann og segir um hann enn og aftur: Sjá, Guðs lamb. Þá gerist dálítið minnistætt. Jóhannes skírari beinir sínum eigin lærisveinum til Jesú. Þeir elta Jesú. Hann tekur eftir því að þeir eru á eftir honum. Þetta er lifandi frásögn, eins og hún hefði gerst í gær. Jesús snýr sér við og spyr þá: “Hvers leitið þig?” Dálítið vandræðalegt. Ég hef það á tilfinningunni að Jóhannes kímir þegar hann skrifar svar þeirra sem var dálítið skrýtið eins og þeirr vissu ekki alveg hvað þeir áttu að gera af sér. Þeir svara honum: „Hvar ertu til húsa?“ Og ef til vill hafa orð skírarans valdi því að þeir ávarpa Jesú: “Meistara”. Og höfundurinn notar orð á arameísku, móðurmáli þeirri „rabbí“.   

Þarna byrjaði sagan um eftirfylgd þessara lærisveina. Í framhaldi af þessu fer þeim að fjölga sem fór eftir vitnisburði Jóhannesar og fylgdu Jesú eins og guðspjöllin segja frá.

2. Guðs sonur 
Vitnisburður Jóhannesar skírara er ekkert smáræði. Annars staðar er sagt frá því að þegar Jesús var skírður að andinn steig yfir hann í líki dúfu. Það eru til ótal málverk af þeim atburði og ekki ólíklegt að fylgjendur Jóhannesar skírara hafi verið viðstaddir þegar Jóhannes fékk þessa sýn. Annað atriði er að Jóhannes skírari er í nánu sambandi við Guð. Það hljómar dálítið undarlega í okkar samfélagi þar sem æðri veruleiki er að miklu leyti afskrifaður sem óraunsætt hugmyndaflug, ef ekki sjúkleg vitleysa. En þarna höfum við vitnisburð um að þetta samband við Guð er mögulegt þó að hann sé 2000 ára gamall. Ég þykist hafa svona samband við Guð og þekki fólk sem heldur því fram að það hafi sambandi við Guð í bæn og með því að vera opið gagnvart tilverunni, sem það lítur á sem sköpun Guðs, að Guð er er verki í daglegu lífi. Maður þarf ekki að vera í AA og taka þátt í tólf spora starfi til að trúa á æðri veruleika sem getur hjálpað.  

Þetta er þó ekki það sem er mest sláandi í vitnisburði Jóhannesar skírara. Hann segir um Jesú sem þeir lærisveinarnir höfðu kynnst þennan dag sem þeir áttu með honum: „Hann er sonur Guðs.“ Hvað merkir það nú? Getur verið að þessi maður sem þeir Jóhannes lærisveinn og Andrés ræddu við þennan seinni part fyrir tvö þúsund árum var sonur Guðs. Horfðust þeir í augum við Guðs sjálfan? Hlustuðu þeir á Guð sjálfan tala? Nei, getur það verið?  

Af hverju ekki? Ætti það að vera ómögulegt fyrir Guði að gera það sem okkur mönnum finnst ómögulegt. En þó að við efumst, sem er mjög eðlilegt um svo stórkostlega hluti, þá skulum við reyna að álykta út frá þessari forsendu og þá er þetta kannski ekki eins vitlaust og sumir segja.  

Jesús er Guðs sonur. Það hefur verið útskýrt með margskonar kenningum og ótal heimspekikerfum. En einnig með listaverkum eins og þessu eftir Leonardo da Vinsi. Þarna eru Jóhannes og Jesús, María og engill. Öll athyglin er á Jesú til að undirstrika sérstöðu hans. Samsetning myndarinnar þannig að augun enda á Jesú sem blessar. 

Mar�a á klettinum eftir Leonardo da Vinci

Honum fannst ekki mikið til þess koma að vera Guðs sonur. Það kemur fram í því að hann umgekkst venjulegt fólk og lýsti það sælt. Við rifjum það upp í hverri messu að hann gerðist fátækur, hann varð einn af okkur. Og meira en það. Hann valdi sér fiskimenn og tollheimtumenn fyrir lærisveina en ekki háskólafólk og uppþanda presta og preláta. Hann beindi athyglinni að þeim sem voru neðst settir. Eigum við að segja að þessi boðskapur um Guðs son sem stillir sér upp í þeirra hópi sé að senda okkur augljós skilaboð að líta á aðra sem samferðafólk og jafningja. Við erum jú öll manneskjur.

 3. Skírn í heilögum anda
 Jóhannes segir að hann skíri með vatni en Jesús með heilögum anda. Hvað ætli það merki? Aðal atriðið í þessum texta er að Guð er gerandinn. Það er líka forsenda þess að við getum átt samfélagi við Guð. Það er hann sem hefur frumkvæði að samskiptum við mennina með því að senda Jesú. Það er Jesús sem kemur sambandi okkar við Guð í lag. Og það er ótrúlega nærgöngult og djúpt. Þannig getum við hvílt í Guði. Þegar maður biður til Guðs byrjar maður á því að minna sig á, að það er Guð sem kemur til mín. Það er ekki ég sem þarf að ná í Guð. Enda þekkjum við ekki símanúmerið hjá honum. En hann þekkir okkur með nafni, út í gegn. Þarna hefst bænin að hvíla í Guði. 

Þegar við erum skírð í nafni Guðs föður og sonar og heilags anda þá gerir Guð samning við okkur um þetta. Hann lofar að vinna sitt verk í okkur með heilögum anda. En eitt atriði sem þarf að útskýra. Heilagur andi er ein af persónum guðdómsins. Lítum aftur á mynd Leonardo da Vinci. Sjáið þið heilagan anda á myndinni? Það má sjá hann á myndinni. Þetta vil ég að þú takir með þér héðan í dag. Heilagur andi er í samskiptunum. Engillinn bendir á Jóhannes. María heldur utan um Jóhannes og blessar Guðs son. Jóhannes tilbiður Jesú. Og Jesús blessar hann. Augntillit persónanna beinast að Jesú. Það er heilagur andi í samskiptunum sem beinast að Jesú.
 
Ég hef verið að lesa Bókina um gleðina, sem er samtalsbók Dalai Lama og Destmond Tutu. Svo las ég grein á föstudaginn eftir Tutu. Það er dásamlegt að lesa um samskipti þessara andlegu leiðtoga sem annar er flóttamaður og hinn mannréttindafrömuður, báðir oft í lífshættu. Auðmýkt þeirra, kátína og gleði er eftirbreytniverð. Þar er heilagur andi að verki. Í baráttu Tutu hefur hann talað fyrir frelsunarguðfræði. Hann segir hana biblíulega. Guðfræði er breytileg en fagnaðarerindið um Jesú Krists er eilíft. Og hvað á hann við? Jú, að Guð birtist okkur í Jesú með einhverjum hætti þannig að við öðlumst samband við Guð. Hann hefur farið leið frelsunarguðfræðinnar, þar sem gengið er inn í raunverulegar aðstæður, tekin staða með þeim ofsóttu og undirokuðu, og fullyrt að Guð stendur með þeim. Guð er á móti öllu ofbeldi í hvaða mynd sem það birtist. Guð segir okkur að elska eins og Jesús kenndi með lífi sínu og starfi. Tutu endar grein sína á því að segja að það getur kostað mann lífið að berjast fyrir réttindum meðbræðra sinna og systra, en ef Guð er með manni hver er þá á móti manni?  

Hugleiddu það? Hvað gerum við sem kirkja? Við tókum þátt í því að safna peningum fyrir þau sem lifa við lökustu kjörin. Það voru 300 fjölskyldur hér á Eyjafjarðarsvæðinu sem sóttu um aðstoð hjá Jóla-aðstoðinni. Það eru allt of margir. En hvað gerir kirkjan til að leiðrétta þessa misskiptingu að sum börn fá ekki nægilega að borða né geta notið tómstundaiðju. Í næstu viku byrjar alþjóðleg samkirkjuleg bænavika. Þá safnast kristið fólk saman til fyrirbæna. Athyglinni að þessu sinni er beint að Indónesíu. Þar hefur samfélagið stefnt að einingu í fjölbreytileika. En þar eins og hér er spilling og misrétti sem vinnur gegn mannúðlegu samfélagi. Ég vil hvetja ykkur að taka þátt í bænavikunni og taka ykkur stund til íhugunar og bænar fyrir bættum kjörum annarra og betra samfélagi. Heilagur andi skapar samskipti sem breytir samfélagi okkar til góðs. Láttu skírast í heilögum anda þar sem þú ert skírð/ur í nafni Guðs föður og sonar og heilags anda.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda.

Um höfundinn