Gifting í staðfesta samvist?

Gifting í staðfesta samvist?

Heimildin sem í tillögu Guðrúnar Ögmundsdóttur ætti því ekki snerta hjúskaparlögin, eða hjónaband í þeim skilningi, heldur miðast eingöngu við lögin um staðfesta samvist og verða ákvæði í þeim lögum.

Guðrún Ögmundsdóttir hefur  boðað að á Alþingi í haust  verði lögð fram tillaga sem veiti trúfélögum lagaheimild til að framkvæma (eða vígja) pör í staðfesta samvist. Þetta merkir að trúfélög sem þess óska fái heimild til að ganga frá pappírum sem gera samvistina löglega. Þar með þyrftu samkynhneigðir ekki að fara fyrst til sýslumannsins, heldur bara í kirkjuna. Með þessu móti væri um algerlega eins athöfn að ræða og í tilfellum  gagnkynhneigðra:  Stóra já-ið yrði sagt í kirkjunni í báðum tilfellum, þar sem lagalegu hliðarnar yrðu framkvæmdar þar. Já-ið snýr sem sagt einkum að hinni lagalegu skuldbindingu aðilanna, en að gera það frammi fyrir Guði hefur mikla þýðingu fyrir suma. Þar með yrðu til tvenns konar (vígslu)athafnir á svið hjúskapar. Önnur athöfnin heitir staðfesting samvistar. Hin heitir hjónavígsla.

Í báðum tilfellum tala viðkomandi aðilar um  „giftingu“ sína. Alveg burtséð frá því hvort einhver guðfræðilegur skilningur liggi þar að baki, eða hrein og klár málvenja ( sem NB hefur tekið  þeim breytingum að einu sinni voru það bara konur sem „giftust“. Karlar „kvæntust“). Í vitund almennings er vígsluhugtakið fyrir löngu hætt að vera frátekið fyrir helgunarathafnir kirkjunnar.

Um þróunina á merkingarsviði „vígslu“ mætti skrifa langt mál. Svipað er að gerast með orðið „ferming“. Það á ekki lengur bara við um kirkjulega athöfn. Á sama hátt er vandséð að þjóðkirkjan geti staðið í vegi fyrir því að giftingarathöfn á vegum trúfélagsins X  í staðfesta samvist verði kölluð vígsla. Mörgum kann að þykja að hér sé ruglað saman inntaki orða, en það er málvitund fólks sem ræður hér öllu. Alveg burtséð frá því hvort einhver guðfræðilegur greinarmunur er á milli blessunar og vígslu para. Það er annað mál.

Það er merkingarsvið orðanna í vitund fólksins sem stýrir því hvað orðin raunverulega merkja. Á þá vitund hefur hin kristna túlkun ekki nema takmörkuð áhrif í dag!  Merkingarþættir orðanna spretta nú orðið upp úr öðrum jarðvegi og öðru samhengi en hinu kirkjulega.

Fjölmenningin hefur skapað málvitundarlegan fjölbreytileika. Svo mjög, að oft misskiljum við herfilega hvert annað. Slíkur mis-skilningur hefur verið áberandi í orðræðunni um giftingar samkynhneigðra og stundum hefur beinlínis verið spilað á hann með því að halda því fram að yrði vígt í staðfesta samvist þá þýddi það ‚ógildingu‘ hjónabandsins.

Með heimildarákvæðinu sem Guðrún boðar er skilgreiningin á sambandi aðilanna sem giftast óbreytt frá því sem nú er: Annars vegar  er gift á grundvelli staðfestrar samvistar, en þar er (vígslu)skilyrði staðfestingarinnar m.a. það að "tveir einstaklingar af sama kyni geta stofnað til staðfestrar samvistar". Hins vegar er gift á grundvelli hjúskaparlaga, þar sem eitt af vígsluskilyrðunum er að lögin "gilda um hjúskap karls og konu". Heimildin mun því ekki snerta hjúskaparlögin, eða hjónaband í þeim skilningi, heldur miðast eingöngu við lögin um staðfesta samvist og verða ákvæði í þeim lögum. Það liggur fyrir að ekkert trúfélag yrði  þvingað til að taka þennan löggerning að sér, því löggjafinn myndi ekki blanda sér með slíkum hætti í innri mál þeirra sem lúta að trúagrundvellinum.

Heimildin lyti fyrst og fremst að þeim ysta ramma sem löggjafinn/samfélagið væri ásátt um að setja sem viðmið/mörk fyrir vígðri (lögformlega viðurkenndri) sambúðarstöðu á grundvelli tiltekinna laga.  Slíkur rammi er nauðsynlegur, því samfélagið vill vissulega búa við ákveðnar mælisnúrur um skipan hjúskaparmála og slík fé-lög.  Ólíklegt er t.d. að fjölkvæni/fjölveri geti komið til álita sem eitt af skilyrðum fyrir vígðri sambúð. Það er hins vegar ekki víst að allir átti sig á því hvaðan sú eindregna afstaða er sprottin og heldur ekki gefið mál að sú sýn verði óbreytt um aldir. Sérstaklega ekki ef fjölmenningin skapar fyrst og fremst opinbert afstöðuleysi til siðvenja.    

Á meðan ekki er talað um það á Alþingi að sameina hjúskaparlögin og lögin um staðfesta samvist þá þarf þjóðkirkjan ekki að brjóta upp hjónabandsskilning sinn, þótt hún hún verði vissulega að ræða það mál og vanda sig við það! (Hún hefði þurft að byrja á því fyrir löngu.) Það er hins vegar ekki fyrr en þegar og ef löggjafinn/samfélagið vildi sameina lögin tvö sem það yrði knýjandi nauðsyn fyrir þjóðkirkjuna að hafa tilbúna vel grundaða guðfræðilega/siðfræðilega afstöðu til inntaks hjónabandsins. Og taka þá í því samhengi afstöðu til þess hvort hún vildi áfram þiggja þann boðunarakur af hálfu ríkisins, sem felst í því að hafa heimild til að koma að lögformlegri fjölskyldustofnun fólks yfirleitt. Með öðrum orðum þá gæti hún ‚hoppað af vagninum‘ ef  vel ígrundaður hjónabandsskilningur hennar samrýmdist ekki hinum ysta ramma löggjafans eins og hann myndi þá líta út, þ.e. ef hætt verður að gera greinarmun á því með lögum, hvort um er að ræða karl og konu eða tvo einstaklinga af sama kyni sem giftast og farið yrði t.d. að skilgreina vígsluskilyrðin út frá tveimur jafngildum einstaklingum.

Málið er ekki komið á þetta stig! Og það sem meira er: Ekkert er í sjónmáli sem bendir til þess að ein lög verði látin gilda um hjúskaparmál fólks. Sú tillaga sem fram kom á sl. þingi um að breyta vísgsluskilyrðum hjúsparlaganna og búa þannig í haginn fyrir ein hjúskaparlög, var dregin til baka. Án efa að hluta til vegna varnaðarorða biskups Íslands um það að þjóðin ætti ekki að fara svo geyst í að varpa fyrir róða viðteknum (kristnum) skilningi á inntaki hjónabandsins.

Framtíðin hefur þróunina í hendi sér og ef þjóðkirkjan stendur vel að sínum málum þá ætti hún að geta tekið þátt í samfélagsmótuninni. Hún  ætti að leita eftir tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við ríkið, þegar hún hefur sjálf komist að niðurstöðu um þessi mikilvægu mál og án þess að vera sett undir pressu einhverra skyndiákvarðana á Alþingi. Ég er nokkuð viss um að það hefur ekki verið ástundað hin síðari ár að þjóðkirkjan og ríkið ræði saman um siðferðisgrundvöll samfélagsins, þrátt fyrir stjórnarskrárákvæðið um kærleiksríkt samband þessara aðila. Í hjónasæng ríkis og kirkju hefur afskiftaleysi beggja ráðið ríkjum, rétt eins og í dauðadæmdu hjónabandi. Það er líkast því sem lögskilnaður sé þegar þar á milli. Ef þjóðkirkjan vill ekki þann lögskilnað, þá þarf hún að leggja eitthvað á sig til að halda sambandinu! Samband sem einkennist af  þögn og þvermóðsku og rifrildi um peninga á ekki framtíðina fyrir sér.  Að ræða inntak hjónabandsins í tvennum skilningi er því bæði vænlegt og nauðsynlegt af hálfu kirkjunnar!

Þjóðkirkjan hefur allt frá 1999 framkvæmt athöfnina „blessun  staðfestrar samvistar“ á sálgæslusviði. Í álit kenningarnefndar frá í vor kemur ekki fram að þeirri stöðu athafnarinnar verði breytt.  Það merkir því í reynd að athöfnin er ekki talin tjá kenningu kirkjunnar þar sem slíkt er forsenda fyrir því að athafnir fái litúrgískan ‚status‘. Enda er ljóst að ekki er útrætt um  ‚status‘ blessunarathafnar samkynhneigðra para.  Að þessu gefnu er því ekki hægt að segja að blessun/vígsla staðfestrar samvistar í kirkju jafngildi blessun/vígslu hjónabands sem er á hinu litúrgíska sviði, þó svo athafnirnar yrðu jafngildar að hinu ytra formi. Standi þetta áfram er kirkjan með athafnir sem samkvæmt stöðu sinni lúta vissu stigveldi og geta þ.a.l. birt sýn hennar  á ‚réttmæti‘ tiltekinna fjölskylduforma. Þetta er eitt af því sem þarf að ræða vel innan kirkjunnar, en hefur mjög lítið verið gert.

Fjölskyldustefnan og ályktun kenningarnefndarinnar þurfa að fá almenna umræðu.  Á að miða við jafngildi eða einhvers konar stigveldi fjölskylduforma? Nú, þegar búið að fella út úr upphaflegu ályktun kenningarnefndarinnar það atriði  að þjóðkirkjan álíti „enga eina skipan fjölskyldunnar réttari en aðra“, (sbr „Kölluð til frelsis“) hlýtur það engu að síður að  kalla á umræðu um ‚réttmæti‘ tiltekinna fjölskylduforma þar sem jafngildisákvæðið á sér beina stoð í fjölskyldustefnu þjóðkirkjunnar.  Núna þegar misræmi er komið upp á milli fjölskyldustefnunnar og ályktunar kenningarnefndarinnar er vandinn því síst minni en áður gagnvart ‚réttmæti‘ eða vægi tiltekinna fjölskylduforma. Hér hefðu því guðfræðileg rök fyrir breytingu ályktunarinnar þurft að fylgja því annars er eins og um geðþóttaákvörðun án útskýringar sé að ræða. 

Á næstu misserum mun megin viðfangsefni þjóðkirkjunnar að því er varðar giftingar samkynhneigðra væntanlega fyrst og fremst snúast um það hvort hún þiggi það ‚tilboð‘ ríkisins að framkvæma/vígja í staðfesta samvist. Sem sé að ganga lögformlega frá staðfestri samvist í kirkjunni.  Þjóðkirkjan hefur oftast borið það fyrir sig að hana skorti slíka lögformlega heimild og því hafi þetta ekki komið til greina.  Ef heimildin stendur til boða er því vandséð að kirkjan geti afþakkað hana, nema hún geti fært guðfræðileg og kenningarleg rök fyrir því að það sé munur á því að blessa og vígja samband, þar sem hún iðkar nú þegar blessunarathöfnina.   Ef guðfræðileg og kenningarleg rök sýna fram á að núgildandi blessunarathöfn hafi annað inntak en vígsluathöfn í hinni lúthersku giftingu, þá getur kirkjan væntanlega afþakkað heimildina. Annars er vandséð að hún geti það.  Það breytir hins vegar ekki því að kirkjan getur haldið í þann greinarmun sem hún nú gerir á hjúskap og staðfestri samvist þangað til þegar og ef til þess kemur lögin verði sameinuð. Um leið ætti þjóðkirkjan að leitast við að hafa áhrif inn í þá umræðu, eins og áður segir.  

Með þessum pistli vil ég einkum hvetja til andmæla þeirra sem telja að þjóðkirkjan eigi að hafna því að gifta/vígja í staðfesta samvist, að því gefnu að trúfélögum verði veitt slík lagaheimild. Og í ljósi þess að prestar þjóðkirkjunnar hafa nú þegar heimild til að framkvæma   blessunarathöfn staðfestrar samvistar. Þá vil ég hvetja til guðfræðilegrar umræðu um það hvort þjóðkirkjunni beri að beita sér fyrir jafngildi fjölskyldugerða eða  fyrir því að eitt fjölskylduform sé „réttara en annað“ .