Mold á vegg

Mold á vegg

Munu komandi kynslóðir spyrja sig sömu spurninga og vakna í hugum okkar þegar við lesum af hinu ógnvekjandi verkefni Abrahams?

Líf og dauði eru okkur jafnan hugleikin í kirkjunni sem víðar. Á það ekki síst við á föstunni þegar við horfum inn á við. Líf og dauði eru yrkisefni í sálmum og predikunum og einnig í myndlistinni sem skipar stóran sess hér í hinni bráðum sextugu Neskirkju.

Vist og tilvist Sýning Kristínar Gunnlaugsdóttur, sem sett var upp í byrjun aðventu hefur nú verið tekin niður. Myndir hennar eru sterkar og áleitnar, þær lýsa í senn, ofrausn og skorti. Verkin bera svip barokksins, ríkulega flúruð, hárið ævintýralega uppsett, litir dimmir og safaríkir, en þar er dauðinn ekki langt undan. Rétt eins og barokkmeistarnir laumuðu höfuðkúpu inn á verk sín, létu hverfular lofbólur svífa um í kringum sjálfsmyndir, settu tímaglas í bakgrunn mynda, þá bar ríkidæmið í verkum Kristínar með sér svipmót hrörnunar.

Sýninguna kallaði hún ,,Siðbót” og sem slík fólst í henni áleitin áminning sem áhorfandinn gat tekið til sín. Ofhlæðið átti sér ekki aðeins skuggahliðar. Spurningar sem hún varpaði fram sneru ekki aðeins að tilvist, heldur líka vist. Já, vistkerfi sem við erum hluti af og getum ekki verið án. Er ofgnógt sú sem fylgir okkar tímum mögulega ástæða þess að þar ríkir skortur og við horfum óttaslegin fram til ókominna tíma?

Ákvarðanir okkar varða allt lífríkið. Gjörðir okkar fela í sér fórnir. Við færum fram gjafir jarðar á blótstall hömlulausrar neyslu svo að móðirin sjálf, moldin sem allt líf vex upp haf, lætur stórlega á sjá og við vitum hreinlega ekki hvernig henni mun vegna.

20 40 60

Og nú er komin upp önnur sýning sem verður um leið afmælissýning kirkjunnar sem fagnar 60 ára vígsluafmæli næsta sunnudag. Sjálf moldin er í forgrunni verkanna. Moldin, sem birtir okkur á sama hátt mót lífs og dauða. Upp úr henni vex allt sem lifir með einum eða öðrum hætti en hún er líka vettvangur hrörnunar og dauða: ,,Mold ert þú, til moldar skaltu aftur hverfa.” Þessi orð standa undir ljósmyndum sem teknar eru með fjögurra áratuga millibili og birta hönd listamannsins sem þrýst hefur verið í moldina. Sú sem tekin var nú í vetur, á sextugasta afmælisári listamannsins sýnir okkur hvernig tíminn hefur leikið höndina, með sárum á handarbaki.

Nafn Gretars Reynissonar er þekkt í listaheiminum. Hann er sviðsmyndahönnuður, vinnur verk fyrir leikhús og hefur hlotið lof fyrir sköpun sína á þeim vettvangi. Sem listamaður yrkir hann sinn óð til sjálfs lífsins og hann býr því stað, nánast á leiksviði. Hversdagslegir munir sem við notum hugsunarlaust frá degi til dags, klæði, glös, pappírsþurrkur, rissblöð og handklæði fá einhvern óvæntan sess þar sem þau eru höfð til sýnis og mynda einhvers konar tímatal eða minningarsafn. Það kann jafnvel að virðast kómískt að horfa á stafla af pappírsblöðum sem raðað er upp eftir nákvæmu kerfi nú eða veglegu borði með alls kyns glösum.

Moldin og tíminn

En allt er þetta óður til tímans, þessa dularfulla fyrirbæris sem við erum auðvitað flækt í og samofin. Tíminn á það sameiginlegt með moldinni að hann er umgjörð lífs og dauða. Lífið okkar samanstendur af öllum þessum andartökum, sem eru jú svo örstutt að við getum vart talað um þau sem annað en snertiflöt fortíðar og framtíðar. Og þar sem þau fæðast og deyja, hverja andrá þá grípum við ýmsa hluti sem er að sama skapi ekki ætlað neitt merkilegt hlutverk.

Glösin sem við drekkum vatnið úr, skyrtur sem við klæðumst, pappírinn sem við notum þegar við þurrkum svita og tár í dagsins önn. Gretar er að því leyti ekki frábrugðinn okkur hinum, nema að hann safnar þessu saman. Úr verður eitthvert registur sem varpar fram spurningum til þess sem á horfir. Þessir munir sem eru svo helgaðir hverfulleikanum fá sess á sýningum hans. Svona líta andartökin okkar út – segir listamaðurinn. Er þetta ekki það næsta sem við komumst með að fyrsta þau og varðveita? Ekki á uppstilltum ljósmyndum heldur í uppstillingu hversdagsins. Og svo þegar betur er að gáð kann að vera að handan hins skipulagða forms og reglu búi sárar kenndir sem hlutirnir tengjast. Allt býr það í hinni líðandi andrá, sem er eins og þrengingin á milli hólfa stundarglassins eins og barokkmeistararnir tjáðu í list sinni.

Kristín og Gretar skilja okkur eftir með þá sömu áminningu sem var þeim svo nærtæk: Memento mori: ,,Mundu dauðann” – sögðu þeir. Lífið og dauðinn, þessar andstæður kalla fram margvísleg viðbrögð mannsins í gegnum aldirnar. Varnarleysi okkar gagnvart því sem ekki verður breytt brýst fram með ýmsum hætti.

Sagan sem við hlýddum á hér í lexíu dagsins talar inn í þær aðstæður. Hvað eru fórnarathafnir annað en veikburða tilraun dauðlegra manna til að ná stjórn á því sem ekki verður stjórnað? Sagan af því þegar Abraham fékk þau boð að fórna syni sínum, Ísak, þessum langþráða afkomanda, byggir á þeirri hefð að fórna til að þóknast hinum æðri máttarvöldum. Hún geymir hins vegar hyldýpi angistar. Blessunin Abraham og Sara eignuðust Ísak breytist í nístandi harmleik.

Þetta er ein af erfiðustu frásögnum í Biblíunni. Abraham heldur af stað með barnið og sannleikann geymir hann einn í huga sínum. Guð einn veit og hann sjálfur hvert erindi ferðarinnar er. Hvað er hér á ferðinni? svo hafa menn spurt í gegnum aldirnar.

Riddarinn og hetjan

Danski hugsuðurinn Sören Kierkegaard gerði þessa sögu að yrkisefni sínu í bók sinni Uggur og ótti. Þar staldrar hann við spurninguna hvernig hin trúarlega köllun getur vikið ölluð siðferði til hliðar. Hann bendir á að atburður þessi eigi sér einnig hliðstæðu í þeim fórnum sem samfélagið færir í nafni einhverra markmiða og hugsjóna. Já, fórnir. Þegar við sjáum fyrir okkur unga menn marsera út á vígvellina, hylltir af lýðnum þá skiljum við hvað við er átt. Hvað þá, þegar myndir berast okkur af barnungum fórnarlömbum hörmunga víðsvegar um heim, hörmunga sem eiga rætur að rekja til yfirvegarða ákvarðana og byggja á úthugsaðri tækni.

Kierkegaard talar um í því sambandi hina harmrænu hetju og svo riddara trúarinnar, sem fórna í nafni æðri hugsjóna.

Fórnir eru allt í kringum okkur. Stærsta tilvistarmál samtímans og stærsta siðferðispurning okkar lýtur að lífinu sjálfu og moldinni. Vist og tilvist brenna á okkur og þar eru fórnir færðar. Munu komandi kynslóðir spyrja sig sömu spurninga og vakna í hugum okkar þegar við lesum af hinu ógnvekjandi verkefni Abrahams? Hvað gekk þeim til? Var hugsjónin um líf í allsnægtum virkilega svo fyrirferðarmikil í hugum okkar að þar mátti fórna því sem dýrmætast er? Erum við harmrænu hetjurnar sem fyrr er lýst?

Saga af Abraham og Ísak hlýtur farsælan endi. Þær lyktir hafa fengið fræðimenn til að spyrja hvort frásögn þessi sé í raun lykilsaga sem markaði tímamót hvað varðaði fórnir. Svo óhugnarlegt sem það kann að vera, þá stundaði fólk barnfórnir í því umhverfi sem sagan er sögð. Tilgátan er sú að hún annað hvort lýsi endalokum slíkra hefða eða sé sem slík áminning í þeim efnum og fólk hafi upp frá því fórnað höfrum og sauðum í staðinn. Sagan kallar okkur svo inn í atburði dymbilviku þar sem við hugleiðum fórn og þjáningu Krists. Þeir atburðir eiga sér um margt fyrirmynd í þessari sögu. Lúther talaði líka um að í þessari sögu birtist von mannsins um upprisuna. Abraham hafi innst inni treyst því að Guð muni láta atburði leiða til farsælla lykta.

Mold á vegg

Og nú þegar við göngum héðan út þá tökum við þátt í óð Gretars Reynissonar til moldarinnar, lífsins, dauðans, allra þessara ósýnilegu og óskiljanlegu andartaka. Við setjum fingur okkar í moldina og hefjum hana upp á við ef svo má segja, með því að þrýsta þar moldugum fingraförum okkar á vegginn á Torginu. Svo þurrkum við moldugar hendur okkar í handklæði og hengjum upp á vegginn þar á móti. ,,Allt hold er mold” orti Hallgrímur og í því birtist í seinn veikleiki þess og tign. Fingraförin verða 500 eins og árin sem liðin eru frá upphafi siðaskiptanna og þar sem þau hefja sig upp á vegginn og minna á orðin sem sögð eru yfir moldu þeirra sem við kveðjum: Af jörðu skaltu upp rísa. Í kirkjunni verður engin áminning borin fram án þeirrar trúar að í hverju okkar búi afl til að breyta til hins betra. Að lokinni föstutíð kemur upprisuhátíðin sem birtir okkur þá sístæðu von að Guð muni vel fyrir sjá.