Árdegið kallar

Árdegið kallar

Nú er dagrenning – nýjársmorgunn. Nýr morgunn, nýtt ár, nýjar vonir og nýir draumar. Dagrenning – það er fagurt orð og fullt af fyrirheitum, gefur vonir um birtu og bjarma og verkefni nýs dags. Sérhver dagur ber með sér ný viðfangsefni, nýja draumsýn og nýjan veruleika. Það gera árin líka. Þau koma og fara, rísa og hníga.
fullname - andlitsmynd Pétur Kristján Hafstein
01. janúar 2010

Þríhyrningur

Nú er dagrenning – nýjársmorgunn. Nýr morgunn, nýtt ár, nýjar vonir og nýir draumar. Dagrenning – það er fagurt orð og fullt af fyrirheitum, gefur vonir um birtu og bjarma og verkefni nýs dags. Sérhver dagur ber með sér ný viðfangsefni, nýja draumsýn og nýjan veruleika. Það gera árin líka. Þau koma og fara, rísa og hníga. Færa með sér vongleði og vonbrigði.

Svo rís um aldir árið hvurt um sig, eilífðar lítið blóm í skini hreinu. Mér er það svo sem ekki neitt í neinu, því tíminn vill ei tengja sig við mig.

Þannig orti Jónas Hallgrímsson í Kaupmannahöfn í ársbyrjun 1845 og á öndverðu sumri var hann allur. Það er eins og einhver dauðabeygur sé í þessum orðum þótt ekki verði fullyrt að skáldið hafi fundið feigðina fara að. Hann er einn og finnur til einangrunar eins og fram kemur í fleiri kvæðum hans þennan síðasta vetur. Hann skeytir ekki lengur um framrás tímans og lætur sér það raunar í léttu rúmi liggja, „því tíminn vill ei tengja sig við mig.“ Jónas hefur þó ekki misst fótanna. Hann lætur það koma fram síðar í kvæðinu að hann vilji heldur „kenna til og lifa“ en vera magnvana og viljalaus:

Ég man þeir segja: hart á móti hörðu, en heldur vil eg kenna til og lifa, og þótt að nokkurt andstreymi ég bíði,

en liggja eins og leggur upp í vörðu, sem lestastrákar taka þar og skrifa og fylla, svo hann finnur ei – af níði.

Jónas er hér að vísa til þeirrar venju fyrri tíma að ferðamenn skildu eftir vísur í sauðarlegg, sem stungið var inn í vörður, eða fyrriparta sem ætlaðir voru síðari vegfarendum að botna. Þessar vísur voru kallaðar beinakerlingavísur og mátti þar oftar en ekki finna bæði klám og níð. Slíku hugarfari vildi Jónas ekki una og ennþá síður vera jafn viljalaus og sauðarleggur, sem varpað væri inn í vörðu. Hann er að vara við hálfvelgju og hvetja til þess að menn sýni andlegan styrk eins og í kvæðinu Alsnjóa, sem hann orti ári fyrr. Rök hafa verið leidd að því að skáldið hafi í þessum tveimur kvæðum sótt innblástur sinn í þriðja kapítula Opinberunarbókar Jóhannesar þar sem segir: „Þetta segir hann sem er amen, votturinn trúi og sanni, upphaf sköpunar Guðs. Ég þekki verkin þín, þú ert hvorki kaldur né heitur. Betur að þú værir annaðhvort kaldur eða heitur. En af því að þú ert hálfvolgur og hvorki heitur né kaldur mun ég skyrpa þér út af munni mínum.“

Rúmum tveimur áratugum síðar orti sóknarpresturinn í Kjalarnesþingi, séra Matthías Jochumsson í Móum á Kjalarnesi, þá tæplega hálffertugur, hinn víðkunna og innblásna sálm Hvað boðar nýárs blessuð sól?

Hvað boðar nýárs blessuð sól? Hún boðar náttúrunnar jól, hún flytur líf og líknarráð, hún ljómar heit af Drottins náð.

Sálmaskáldið spyr hvers vænta megi á nýju ári og notar sólina sem líkingu Krists, sólin fer árið um kring um festingar himinsins, líknar og læknar „sem Guðs son forðum gekk um kring.“ Guð er nálægur í náttúrunni. Hvar sem sólin skín er Guð sjálfur að leita okkar. Hann hefur í hendi sér allt okkar ráð, mannsins barna og hag landsins.

Í hendi Guðs er hver ein tíð, Í hendi Guðs er allt vort stríð, hið minnsta happ, hið mesta fár, hið mikla djúp, hið litla tár.

Skáldbróðir prestssonarins frá Hrauni í Öxnadal, sá sem tók við línunum „þar sem háir hólar hálfan dalinn fylla“ og gerði úr minningarljóð um Jónas sjálfan, hafði eins og hann hvassa sýn á viljann þótt ekki hafi hann haft trúarhita séra Matthíasar. Hannes Hafstein var sýslumaður á Ísafirði um næstsíðustu aldamót og orti þá ljóðið Aldamótin, sem ef til vill mun halda nafni hans lengst á lofti og varð nokkurs konar pólitísk stefnumörkun inn í heimastjórnina, sem honum var síðar falið að veita forystu.

Dagur er risinn, öld af öld er borin, aldarsól ný er send að skapa vorin. Árdegið kallar, áfram liggja sporin. Enn er ei vorri framtíð stakkur skorinn.

Við verðum að horfast í augu við þann veruleika um þessar mundir að samtíð okkar er þröngur stakkur skorinn. Ótrúlegt ábyrgðarleysi og misnotkun á frelsinu, öflugasta aflvaka allra framfara, hefur gert það að verkum að illilega hefur slegið í bakseglin í siglingu þjóðarskútunnar íslensku til framfara og bættra lífskjara. Það jafngildir þó ekki strandi. Orð eru dýr og orðið kreppa er ekki endilega réttnefni þótt bankar og útrásarfyrirtæki hafi hrunið. Þótt margir hafi nú vindinn í fangið er enn langt frá því að Ísland sé á vonarvöl. Það er meira að segja vel aflögufært gagnvart þeim þjóðum, sem neyð og skortur þjakar í biturri mynd hversdagsins. Það er Guðs gjöf að eiga til hnífs og skeiðar, gleymum því ekki. Þess vegna eigum við að taka nýju ári fagnandi og treysta Guði. Við eigum að treysta því að nýja árið beri í skauti sínu bjarta framtíð og betra samfélag en brotið hefur á skeri. Við megum ekki láta vonbrigði og vonleysi ná yfirtökum. Vonin verður að vera leiðarstjarna undir stefnumarki trúarinnar. Aðeins þannig tekst okkur að vera heillynd og vísa á bug þeirri hálfvelgju, sem Jónas Hallgrímsson varaði við. Við verðum að trúa því og treysta að framtíðin sé björt.

Árdegið kallar, áfram liggja sporin. Enn er ei vorri framtíð stakkur skorinn.

Í áföllum eru alltaf fyrirheit um endurreisn og átök til bjartari framtíðar. Á mestu ríður að standa saman, samstilla krafta hugar og handa í vongleði og bjartsýni – og trúa á landið. Holl er sú hvatning Hannesar Hafstein til aldamótakynslóðarinnar, sem lagði grunn að framförum og farsæld á 20. öldinni. Hún má enn vera okkur til hugbótar:

Starfið er margt, en eitt er bræðra bandið, boðorðið, hvar sem þér í fylking standið, hvernig sem stríðið þá og þá er blandið, það er: Að elska, byggja og treysta á landið.

Hringnum um lendur þriggja skálda verður lokað með því að kalla Jónas Hallgrímsson aftur fram á sviðið. Hann orti fögur eftirmæli um séra Þorstein Helgason í Reykholti, sem drukknaði í Reykjadalsá árið 1839, aðeins 33 ára gamall. Þetta ljóð varð þó öðru fremur ættjarðarkvæði þar sem Jónas minnir á glæsta fortíð andspænis böli samtímans og ákallar þá trú á landið og guðdóminn, sem er forsenda betri tíðar, forsenda þess að framtíðinni sé ekki stakkur skorinn:

Veit þá engi að eyjan hvíta á sér enn vor, ef fólkið þorir Guði að treysta, hlekki hrista, hlýða réttu, góðs að bíða.

Ég óska öllum árs og friðar.