Hvað vilt þú að ég geri fyrir þig?

Hvað vilt þú að ég geri fyrir þig?

Allt í einu fjallar þessi texti ekki lengur um að við getum fengið allt sem við viljum, heldur vill Jesús að við eigum frið. Frið sem felst ekki í því að skilja allt með skynseminni, heldur frið í hjarta. Frið sem snýst um allt sem við þráum dýpst og heitast, að vera elskuð, að tilheyra, að vera sátt við Guð og menn.

Eftirfarandi fullyrðing birtist í Fréttablaðinu í gær: ,,Það eru aðeins til þrír hópar fólks. Þeir sem kunna að telja og þeir sem kunna það ekki!" Fullyrðingin birtist reyndar í brandaradálki barnablaðsins, en hún hljómar samt í takti við ýmsa orðræðu í samfélaginu. Við erum alltaf að reyna að flokka fólk. Við drögum fólk í dilka eftir uppruna, hagsmunatengslum, áhugamálum, jafnvel eftir útliti og árangri í lífinu. Við sjálf skipum okkur í ákveðna hópa, teljum okkur standa nær manneskjum með svipaðan bakgrunn, menntun, skoðanir, þjóðfélagsstöðu og ýmislegt annað. Allt þetta gerum við til að auðvelda okkur lífið og samskipti við annað fólk. Við teljum okkur vita nokkuð að hverju við göngum þegar við hittum ókunnuga manneskju um leið og við erum komin með einhverja vitneskju um hana auk þess sem við viljum gjarnan koma ýmsum skilaboðum á framfæri um okkur sjálf til þess að viðkomandi hafi einhverja hugmynd um okkur. En við vitum líka að við erum öll ólík. Ekkert okkar er eins, ekkert okkar á sömu sögu eða bakgrunn. Enginn persónuleiki er eins, engin manneskja er annari lík, jafnvel ekki eineggja tvíburar með sama DNA eru eins. Fjölbreytileiki mannlífsins er slíkur að þótt við eyddum allri ævi okkar í að rannsaka og læra um aðrar manneskjur yrðum við aldrei fullnuma. En við eigum margt sameiginlegt. Öll þráum við að vera elskuð. Öll þráum við hamingju og velgengni í lífinu. Öll þráum við að tilheyra, finna okkur heima, vera á góðum stað í lífinu. Hvaða leiðir við förum að þessum markmiðum eru síðan ólíkar og einstaklingsbundnar.

Í guðspjalli dagsins hvetur Jesús lærisveinana til að biðja. Hann segir: ,,Hvað sem þér biðjið föðurinn um í mínu nafni, mun hann veita yður". Þetta er býsna rausnarlegt loforð. Og ef við tökum það algjörlega bókstaflega gætum við upplifað að við hefðum verið svikin um eitthvað, því við vitum jú að við fáum ekki alltaf allt sem við biðjum um. En lærisveinarnir eru sáttir. ,,Nú talarðu loksins skýrt, maður. Nú skiljum við hvert þú ert að fara. Nú getum við trúað á þig! " Svona endar guðspjallstexti dagsins, en ef við lesum lengra, fáum við annan vinkil á samræður Jesú og lærisveinanna. Jesús segir: ,,Trúið þér nú? Sjá sú stund kemur og er komin að þér tvístrist hver til sín og skiljið mig einan eftir. Þó er ég ekki einn, því faðirinn er með mér. Þetta hef ég talað við yður, svo þér eigið frið í mér. Í heiminum hafið þér þrenging. En verið hughraustir, ég hef sigrað heiminn". Allt í einu fjallar þessi texti ekki lengur um að við getum fengið allt sem við viljum, heldur vill Jesús að við eigum frið. Frið sem felst ekki í því að skilja allt með skynseminni, heldur frið í hjarta. Frið sem snýst um allt sem við þráum dýpst og heitast, að vera elskuð, að tilheyra, að vera sátt við Guð og menn. ,,Ég þekki sjálfur þær fyrirætlanir sem ég hef í hyggju með þig, segir Drottinn. Fyrirætlanir til heilla en ekki til óhamingju". Guð þekkir þessa þrá okkar mannanna. Þrá eftir heillaríku lífi. Og hann deilir þessari þrá okkar með okkur. Sjálfur skapari okkar hefur þessa þrá fyrir okkar hönd, að við búum við hamingju, að við eigum vonarríka framtíð. Þess vegna mætir hann okkur í Jesú Kristi. Jesú sem hafði svo djúpan skilning á þessari þrá okkar, skilning sem endurspeglast í orðum hans: ,,Biðjið svo fögnuður yðar verði fullkominn". Jesús gerði sér grein fyrir margbreytileika okkar mannanna. Hann dró fólk ekki í dilka, heldur mætti hverjum og einum þar sem hann eða hún var. ,,Hvað viltu að ég geri fyrir þig?" segir hann oftar en einu sinni þegar hann mætir fólki. Og þannig er það enn þann dag í dag. Hvað vilt þú að Jesús geri fyrir þig? Hvernig verður fögnuður þinn fullkominn? Hver er þín heitasta þrá? Þessu getur þú ein svarað, kæra vinkona, eða þú einn, kæri vinur. En leiðin til árangurs liggur í gegnum samfélagið við Jesú Krist. Samfélagið í bæninni, þar sem við leggjum allt í hans hendur í trausti til þess að hann leiði okkur ,,skrefið hvert á lífsins braut", eins og við syngjum í lokasálminum. Í dag er bænadagurinn. Skv. ævafornri hefð var þessi dagur í kirkjuárinu nýttur til að biðja fyrir góðu árferði. Gengið var út um allar koppagrundir og tún og engi blessuð og beðið fyrir búfénaði og góðri uppskeru. Og enn er tími til að biðja fyrir góðu árferði. Enn þurfum við að leggja allt okkar ráð í Guðs hendur og fela honum öll okkar kjör og afkomu. Og í dag biðjum við sérstaklega fyrir kirkju og þjóð á krossgötum. Miklar breytingar hafa átt sér stað í samfélaginu og við sjáum enn ekki fyrir endann á því. Kirkjan er á krossgötum, þegar sumarið er úti verðum við búin að kjósa þrjá nýja biskupa og endurnýja þannig algjörlega í biskupahóp íslensku þjóðkirkjunnar. Við biðjum í dag sérstaklega fyrir nýkjörnum biskupi Íslands, sr. Agnesi M. Sigurðardóttur og óskum henni alls velfarnaðar og megi Guð leiða hana í öllum hennar störfum. Við biðjum fyrir biskupskjöri í Hólastifti og þeim sem þar hafa boðið sig fram til forystu. Við biðjum líka fyrir söfnuðum landsins og safnaðarstarfinu, víða er það í miklum kröggum og við biðjum Guð að leiða þau sem taka ákvarðanir um hag kirkjunnar, að þær megi verða kirkjunni til heilla. Hér að lokinni messu verður haldinn aðalsafnaðarfundur Lögmannshlíðarsóknar í safnaðarsalnum. Við biðjum fyrir þeim sem hafa tekið að sér trúnaðarstörf fyrir söfnuðinn og ég hvet alla sem láta sig starfið í söfnuðinum okkar varða til að taka þátt í því að móta það, t.d. með því að mæta á aðalsafnaðarfund og taka þátt í lýðræðislegu uppbyggingarstarfi í kirkjunni. Ég held að það séu margir sem ekki gera sér grein fyrir því að hægt er að hafa áhrif á kirkjustarfið, t.d. með því að taka þátt í sóknarnefndarstarfi, mæta á aðalsafnaðarfundi og láta rödd sína heyrast, nú eða hafa samband við kjörna fulltrúa sóknarinnar, og koma á framfæri hugmyndum og athugasemdum. Starfið í kirkjunni er byggt upp á lýðræðislegum grunni, þar sem hver og einn á að geta beitt áhrifum sínum. Við þurfum að efla enn betur þetta lýðræði með því að gera fólki auðvelt fyrir að hafa áhrif, og kirkjan þarf svo sannarlega að taka þátt í því að efla fólk í lýðræðislegri þátttöku í samfélaginu öllu. Þar liggur grunnurinn að réttlátu og góðu samfélagi þar sem hver rödd fær að hljóma. ,,Biðjið svo að fögnuður yðar verði fullkominn". Jesús hvetur okkur til að biðja. Bænin er ekki tæki til að uppfylla hverslags stundarduttlunga eða þarfir. En í bæninni mætum við Guði, og Guð mætir okkur. ,,Þegar þér leitið mín af öllu hjarta læt ég yður finna mig" segir Drottinn. Guð hefur gefið okkur fyrirheiti. Fyrirheiti um líf í fullri gnægð, þar sem hvert og eitt okkar á sér sinn samastað, þar sem hvert og eitt okkar á sér vonarríka framtíð.