Kristniboð

Kristniboð

Í guðspjallinu lásum við hvernig Jesús ferðaðist um Galileu og boðaði fagnaðarerindið um Guðs ríki. Hann kenndi með því að segja sögur og hann er eflaust besti sögumaður sem til hefur verið. Enda hlustaði fólk af athygli á hvað hann hafði að segja. Dæmisögurnar sem hann sagði voru oft mjög einfaldar en þrátt fyrir einfaldleikann leynist í þeim djúpur boðskapur um hver Guð er. Lærisveinarnir voru oft undrandi og gátu ekki stilt sig um að spyrja Jesú hvað þessar sögur þýddu.
fullname - andlitsmynd Leifur Sigurðsson
09. nóvember 2003
Flokkar

Dagurinn í dag er helgaður kristniboði - kristniboðsdagurinn. Við viljum á þessum degi vekja athygli fólks á kristniboðsstarfi Íslendinga.

Hann flutti fagnaðarerindið um ríkið

Í guðspjallinu lásum við hvernig Jesús ferðaðist um Galileu og boðaði fagnaðarerindið um Guðs ríki. Hann kenndi með því að segja sögur og hann er eflaust besti sögumaður sem til hefur verið. Enda hlustaði fólk af athygli á hvað hann hafði að segja. Dæmisögurnar sem hann sagði voru oft mjög einfaldar en þrátt fyrir einfaldleikann leynist í þeim djúpur boðskapur um hver Guð er. Lærisveinarnir voru oft undrandi og gátu ekki stilt sig um að spyrja Jesú hvað þessar sögur þýddu.

Koma Jesú inn í þennan heim boðaði nýja tíma. Jóhannes skírari hrópaði á undan Jesú: Gjörið iðrun því himnaríki er í nánd. Koma hans boðaði komu Guðs ríkis til okkar. Þegar að við förum með Faðirvorið segjum við: til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni. Við erum að biðja þess að vilji Guðs verði eins ráðandi á jörðinni eins og hann er á himnum, við erum að biðja þess að ríki Guðs breiðist út um allan heim.

Samfara þessum boðskap um ríkið sá fólkið að Guð hafði vald yfir sjúkdómum og dauðanum. Jesú læknaði þá sem voru veikir og vakti upp dauða. Í Opinberunarbókin (21:4) lesum við: Og Guð mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Þau kraftaverk sem fylgdu Jesú báru vott um að Guðs ríki var komið mitt á meðal okkar.

Uppskeran er mikil

Þegar að Jesús leit yfir mannfjöldann þá kenndi hann í brjóst um þá og hann sagði við lærisveinana: Uppskeran er mikil. Þetta fólk var dýrmætt í hans augum. Við erum dýrmæt í augum Guðs. Við erum sköpun hans og hann vill kaupa okkur frjáls úr þeim aðstæðu sem við erum í og eiga lifandi samfélag við okkur.

Í Pokot héraði, sem er í norð-vestur hluta Kenýu býr Pokotþjóðflokkurinn. Þetta er duglegt og gestrisið fólk og þau eru dýrmæt í augum Guðs. Íslenskir kristniboðar hafa í rúm 25 ár starfað á meðal þeirra. Fyrir þann tíma voru mjög fáir sem þekktu Jesú.

Peter, ungur Pokot maður, sem býr upp í fjöllunum í norður hluti Pokots, á stað sem heitir Kasei, var fyrir tveim árum ekki kristinn. Hann átti AK47 riffil og var einn af þeim sem fór í ránsferðir inn á svæði annara þjóðflokka til að drepa og stela. Fyrir um tveimur árum síðan sendu kristnu söfnuðir í suðurhlutanum innlenda kristniboða norður á þetta svæði. Sem ungur kristniboði fékk ég að njóta þeirra forréttinda að starfa með þeim í rúm tvö ár. Peter fékk að heyra um Jesú og það hafði djúp áhrif á líf hans. Samviskan fór að segja til sín, hann hafði drepið og stolið. Hann er núna einn af predikurum Lútersku kirkjunnar í Pokot og hefur skipt á byssunni og Biblíunni.

Annað dæmi: Eitt sinn frétti ég af þremur kristnum konum sem höfðu ætlað að koma í guðþjónustu. Eiginmaður einnar konunnar var ekki ánægður með að hún væri farin að sækja kirkju og sat fyrir þeim á leiðinni. Þegar þær fóru hjá þar sem hann lá í leynum spratt hann upp, barði hana og neyddi síðan til snúa við og fara heim. Vinkonur hennar komu í örvæntingu sinni á staðinn þar sem hinir kristnu voru saman komnir og sögðu okkur frá því sem hafði gerst. Allir hlustuðu á frásögu þeirra og síðan var beðið fyrir vinkonu þeirra sem ekki hafði komist alla leið. Margir mæta þannig miklu mótlæti og andstöðu frá vinum og ættingjum og það er togstreita á milli þeirra sem trúa á Jesú og þeirra sem ekki trúa. En þrátt fyrir þetta hafa margir tekið trú á Jesú.

Staða kvenna er ekki góð en þær eru seldar í hjónabönd á unga aldri í skiptum fyrir kýr. Þær þurfa einnig að gangast undir umskurn, en það hefur mjög neikvæðar afleiðingar í för með sér. Þær vinna líka flest þau verk sem þarf að vinna til að sjá fjölskyldunum farborða. Í hugum hyrðingja er forgangsröðun oft svona: 1. Kýr. 2. Börnin, þeir eru stoltir af strákunum sínum og vita að þeir eiga eftir að eignast fleiri kýr þegar að dætur þeirra giftast. 3. Kona og aðrar eignir og í 4. Guð. Karlarnir eru mjög uppteknir af kúnum sínum og það er jafnvel þannig að þeir yrkja ástarljóð til þeirra í stað kvennanna.

En á þessum 25 árum hafa átt sér stað ótrúlegar breytingar í Pokot. Þeir sem eru kristnir líta menningu sína öðrum augum og breyta út af gömlum venjum. Kristnir foreldrar umskera ekki dætur sínar og leyfa þeim að velja hverjum þær giftast. Ungir kristnir menn fara ekki í ránsferðir þótt að það sé sú leið sem margir velja til að verða ríkir. Það að ungur maður vilji giftast stúlku sem ekki er umskorinn verkur athygli. Guð verður ekki lengur í síðast sæti og mennirnir læra að elska og bera virðingu fyrir konunum sínum.

Biðjið því herra uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar

Íslendingar hafa í mörg ár sent kristniboða til fjarlægra landa til að boða fagnaðarerindið um Jesú. Þegar að Jesús leit á mannfjöldann sagði hann við lærisveinana: en verkamennirnir eru fáir.

Hvað getum við gert? Hvað get ég gert - annað en bara að kenna í brjóst um þá sem ekki þekkja Jesú? Hvað er það sem Jesús segir? Biðjið því herra uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar. Það er Guð sem kallar á verkamenn og það er hann sem sendir erindreka sína af stað með boðskapinn. Við getum beðið fyrir þessu starfi. Við getum einnig stutt kristniboðið með fjárframlögum og þannig tekið beinan þátt í að senda íslenska kristniboða til fjarlægra landa. Eða við getum farið sem kristniboðar og þannig þjónað Guði með lífi okkar.

Við sem kristin þjóð berum einnig ábyrgð. Við höfum þekkt boðskapinn í langan tíma og okkur ber skylda til að bera hann áfram. Ekki bara til næstu kynslóðar íslendinga heldur einnig til fjarlægra þjóða sem hafa ekki fengið tækifæri til að heyra. Eins og Páll postuli segir: Ég er í skuld bæði við Grikki og útlendinga, vitra og fávísa (Róm. 1:14). Jesú hefur borgað okkar skuld við Guð en við það eignast við skuld við þá bræður og systur okkar sem vita þetta ekki. Við eigum þessvegna að taka virkan þátt í kristniboði. Kristniboð er ekki fyrir fáa útvalda, en það er köllun sérhvers kristins einstaklings að vitna á um trú sína.

Niðurlag

Kristniboð er að segja þeim sem ekki þekkja Jesú, hver hann er og hvað hann hefur gert fyrir okkur. Og hvaða gildi hann hefur fyrir okkur. Guð kallar þannig á kirkju sína til að taka þátt í þessu stóra verkefni.

Við íslendingar höfum notið blessunar Guðs. Við gerum okkur ekki alltaf grein fyrir hversu gott við höfum það. En það fylgir líka blessun að taka þátt í kristniboði. Í haust hafa verið hér á landi gestir frá Eþíópíu og Kenýa í boði Hjálparstarfs Kirkjunnar. Þessir gestir eru árangur af starfi kristniboðs íslendinga í þessum löndum. Þau hafa borið okkur þakklæti sitt og sinna þjóðflokka fyrir að hafa sagt þeim frá Jesú. Við getum einnig lært margt af þeim. Þau eru full af þakklæti og gleði vegna þess að þau hafa eignast von um eilíft líf. Mín fyrstu kynni af guðsþjónustu í Pokot er gamall maður sem kom fram og vildi vitna um Jesú, hann byrjaði að syngja. Hann klappaði og dansaði af gleði yfir að hafa eignast Jesú. Við getum svo sannarlega glaðst yfir því að eiga samfélag við Jesú.