40 ár í sóttkví

40 ár í sóttkví

Heil þjóð… sem margir telja að hafi talið yfir 5 millj manna lagði af stað út í eyðimörkina… og var þar… eins og þeir væru í sjálfskipaðri sóttkví… í 40 ár…

Fyrsta Guðsþjónustan "live" eftir Covid-19                      Jer 29.11-14a,  1.Tím 2.1-6a, Jóh 16.23b-30

Biðjum... Eilífi Guð, við þökkum fyrir eilífa varðveislu þína, umhyggju og kærleika til okkar. Þökkum, að við getum lagt allt okkar traust á þig því þú hefur sagt að þú munir vel fyrir sjá, styrkja þá veikbyggðu, lækna sjúka, leiða þá villtu og hugga þá sem syrgja. Vertu með okkur öllum. Amen

Náð sé með yður og friður frá Guði vorum og Drottni Jesú Kristi

Því að ég þekki sjálfur þær fyrirætlanir sem ég hef í hyggju með yður, segir Drottinn, fyrirætlanir til heilla en ekki til óhamingju, að veita yður vonarríka framtíð… þannig hljómaði texti dagsins… Guð leiðir okkur í gegnum allt, Guð vill okkur ekkert illt… en á jörðinni þrífst samt bæði gott og illt… en hin vonarríka framtíð sem Guð lofar okkur í textanum… er ekki af þessum heimi… heldur þeim næsta…

Það eina sem við vitum að er öruggt í þessu lífi… er að það endar á einhverjum tímapunkti… Eftir því sem við lifum lengur höfum við háð fleiri baráttur, safnað meiri reynslu, lifað fleiri hamingju-og sorgarstundir… og Guð hefur gefið okkur þann styrk sem þurfti hverju sinni… Hann fór líka í gegnum samkomubannið með okkur… Samkomubannið var mörgum erfitt, en breytti litlu fyrir aðra… en eitt lærðum við öll… nú kunnum við betur að meta “frelsið”

Það er gleðiefni að við getum loksins séð fram á auðveldari samskipti vegna þessarar veiru… nú þegar samkomubannið er rýmkað í 50 manns og á að auka fjöldann á næstunni… lyftir það upp sálinni… að sigla um leið inn í sumar og sól… við erum loksins saman hérna á ný… eftir 2ja mán bið.

Á meðan á samkomubanninu stóð reyndi ég að vera dugleg að setja efni á netið og fylgdist því með ritningartextum hvers sunnudags og oft töluðu textar Biblíunnar beint inn í ástandið… Fyrsta sunnudaginn (22.mars) í banninu sagði textinn í GT frá brottförinni frá Egyptalandi… Heil þjóð… sem margir telja að hafi talið yfir 5 millj manna lagði af stað út í eyðimörkina… og var þar… eins og þeir væru í sjálfskipaðri sóttkví… í 40 ár…

Þar varð Móse að hafa daglega fundi, til að upplýsa fólkið um gang mála, útkljá missætti og til að stjórna… það varð honum fljótlega ofviða að vera einn svo hann fékk aðstoð nokkurra manna… Það sama gerðist hjá okkur, við fórum flest í sjálfskipaða sóttkví og sáum þríeykið, Þórólf, Ölmu og Víði auk ýmissa stjórnmálamanna… á daglegum upplýsinga fundum á skjánum…

Í eyðimörkinni fékk þjóð Guðs, REGLUR, boðorðin 10 og önnur lög, m.a. hreinsunar-reglur… þ.e. reglur um hreinlæti og lög um einangrun sem skyldi beitt gegn ýmsum sjúkdómum sem höfðu smithættu… Væri einhver með smitsjúkdóm mátti ekki snerta neitt sem hann hafði snert… Allt var þetta gert til að bjarga þjóðinni… það sama gerðist hér, við fengum líka reglur… forðast snertingar og margmenni, þvo og spritta, grímur og tvo metra á milli manna...  og það sama gerðist um allan heim… milljónir manna voru settir í eða fóru í sjálfskipaða sóttkví… Allt gekk vel í fyrstu en nú er farið að bera á óþolinmæði… Fólk er að krefjast þess að landamæri verði opnuð og “lífið” og hagvöxturinn færist í fyrra horf…

það sama gerðist hjá fólkinu úti í eyðimörkinni… Það hætti að sjá tilganginn með þessari einangrun, var að missa trúna og farið að óhlýðnast… Að vísu mátti fólkið umgangast hvort annað svo fremi sem það var ekki veikt… en það var einangrað frá umheiminum, statt úti í miðri eyðimörkinni… í 40 ár.

Hefði fólkið lagt af stað ef það hefði vitað að ferðin tæki 40 ár… Ferðalagið átti ekki að taka svona langan tíma… en, já, ég held það hefði farið af stað… það er bara þannig að við horfum fram á við… tökum því sem að höndum ber og vonum hið besta…

Við upplifðum framlengingu á samkomubanninu. Það átti fyrst að vera einn mán en er orðið tveir… og við fengum nýlega fréttir um að veiran sé enn á lífi einhversstaðar í samfélaginu… svo ferðalagið okkar… eins og ferðalag fólksins í eyðimörkinni… er sem sagt að lengjast og tveggja metra reglan á eftir að lifa lengi…

Ég held að æðruleysisbænin eigi mjög vel við þessa dagana… Guð gefi mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt og vit til að greina þar á milli... Við þurfum að sætta okkur við að við ráðum ekki við þessa veiru, hafa kjark til að gera það besta úr ástandinu og vit til að greina á milli viturlegra og óviturlegra ákvarðana… þegar öllu er á botninn hvolft… þá er það öllu samfélaginu fyrir bestu að hver og einn hugsi um að vernda sem best sitt eigið líf…

Það eiginleiki mannsins að reyna að gera það besta úr þeim aðstæðum sem hann lendir í hverju sinni og reyna að finna leið til að bæta sinn hag eða umhverfið sem hann býr í.

Fyrir 2 vikum sagði texti GT að Guð ætlaði að gera veg um eyðimörkina… og við fylgjum þessum vegi… hvað getum við annað en haldið áfram, við fetum slóðina, förum eftir leiðbeiningunum sem ráðamenn gáfu okkur. Ef við hefðum ekki sterka leiðtoga væri fum og fát í þjóðfélaginu og eitt er víst að Guð velur okkur leiðtoga sem ráða við verkið…

Síðasta sunnudag fjallaði textinn um nýtt hjarta og nýjan anda sem Guð ætlar að gefa okkur…

Þessi veira hefur gefið flestum ef ekki öllum jarðarbúum nýja sýn á tilveruna, hún hefur neytt okkur til að endurmeta og forgangsraða á nýjan hátt. Enginn mun taka ferðafrelsi og samveru með öðrum, aftur sem sjálfsögðum hlut. Þegar við horfum á heimsfréttirnar, finna hjörtu okkar til með fólki sem við þekkjum ekkert, við höfum horft með tárin í augunum á bílfarma af líkkistum, orðið vitni að hinu gífurlega álagi á heilbrigðisstéttum í öllum löndum heims og við vitum… betur en nokkru sinni fyrr, hvað líf okkar og heilsa er viðkvæm… við þökkum fyrir að hafa ekki verið í miðri þessari hringiðu… og við finnum hvað það er gott að eiga Guð sem er alltaf til staðar, Guð sem maður getur leitað til með allar áhyggjur eða ótta og hann veitir styrk og frið í hjarta…

Í dag er hinn almenni bænadagur og … Texti dagsins segir: Þegar þér ákallið mig og komið og biðjið til mín mun ég bænheyra yður. Ef þér leitið mín munuð þér finna mig. Þegar þér leitið mín af öllu hjarta læt ég yður finna mig, segir Drottinn.  

Þetta er loforð frá Guði… Treystum honum og hann mun leiða okkur í gegnum þetta ástand og biðjum að heimurinn þurfi ekki að ganga í gegnum svona hörmungar aftur.

Biðjum að Guð verji okkur, setji okkur undir sinn verndarvæng, veri okkar skjól og skjöldur, okkar virkisveggur… og bægi öllu illu frá. Textinn sagði: ef við leitum Guðs af ÖLLU hjarta þá lætur hann okkur finna sig… þá getum við ekki farið á mis við blessanir hans.

Við sækjum kirkju vegna þess við trúum á Guð, vegna þess að viljum hlusta á Guðs orð, vegna þess að við viljum sækja styrk, fá huggun og fá hvatningu og vera fullviss um að við séum ekki ein að berjast… Nei, við erum ekki ein, Guð gleymir okkur ekki

Því að ég þekki sjálfur þær fyrirætlanir sem ég hef í hyggju með yður, segir Drottinn, fyrirætlanir til heilla en ekki til óhamingju, að veita yður vonarríka framtíð.

já, Guð er og verður alltaf með okkur.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen 

Þetta var fyrsta guðsþjónustan eftir að samkomubann var sett á 15.mars...
Nú var leyft að 50 manns væru í sama rými og 2 metrar milli manna... 
(Hefði átt að taka upp og setja á netið)