Sumarfríin löngu og góðu

Sumarfríin löngu og góðu

Ég er mikið sumarbarn, enda eru íslensku sumrin dásamleg og næturnar langar. Flest okkar eru orðin langeyg eftir sumrinu þegar það loksins kemur og upp úr áramótum er ég yfirleitt farin að skipuleggja í huganum öll fjöllin sem ég ætla að klífa og tjaldferðalögin sem ég ætla að fara í.
fullname - andlitsmynd Elínborg Sturludóttir
03. júlí 2008

„Þakka þér, góði Guð fyrir sumardaga og sumarævintýri og sumarfríin löngu, góðu.“

Ég rakst á dögunum á þessa fallegu bæn í Bænabók barnanna eftir herra Karl Sigurbjörnsson.

TjaldÉg viðurkenni fúslega að ég er mikið sumarbarn, enda eru íslensku sumrin dásamleg og næturnar langar. Flest okkar eru orðin langeyg eftir sumrinu þegar það loksins kemur og upp úr áramótum er ég yfirleitt farin að skipuleggja í huganum öll fjöllin sem ég ætla að klífa og tjaldferðalögin sem ég ætla að fara í. Ég sé í anda okkur fjölskylduna í Ásbyrgi eða Skaftafelli leggjast til hvílu í fína Vangó-tjaldinu okkar eftir vel heppnaðan dag, búin að fara í langan göngutúr, grilla eitthvað góðgæti, hita kakó og expressó á prímusnum og svo sofum við öll vært og rótt til morguns.

Væntingar okkar til sumarsins eru oft miklar. Það er svo margt sem við ætlum að gera og við ímyndum okkar að við munum hvíla okkur svo mikið og koma þess vegna endurnærð aftur til starfa. Ég hef oft upplifað sumarfrí sem var ekki alveg eins og ég hafði hugsað mér það þegar ég var að leggja drög að því í hríðarbyljunum í janúar eða sunnanstormunum í febrúar.

Ég segi stundum söguna af því þegar ég var búinn að vera prestur í Grundarfirði einn vetur og þessi vetur hafði reynt mikið á okkur hjónin. Það var töluvert menningarsjokk að flytja frá háskólaborginni Freiburg í Suður Þýskalandi til Grundarfjarðar; ég var nýorðin prestur, en maðurinn minn ætlaði sér að skrifa doktorsritgerð en komst nú ekki yfir mikið meira en að hugsa um heimilið, börnin og að leika prestsmaddömu. Lífið hafði sem sé tekið töluverðum stakkaskiptum hjá okkur báðum og við vorum undir gríðarlegu álagi. Þegar komið var vor ákváðum við að fara í rosalega dýrt frí til útlanda. Þegar fjölskyldan var komin til Keflavíkur sauð upp úr og andrúmsloftið á milli okkar hjónanna var svo stíft að það mátti skera það með hníf og gaffli. Hvað skyldi nú hafa valdið þessu þvingaða andrúmslofti? Jú, mér var alveg nóg boðið þegar maðurinn minn keypti cappuchino í staðinn fyrir kaffi latte á Kaffitárinu í flughöfninni!

Og það er skemmst frá því að segja að við rifumst meira og minna alla fyrstu vikuna í fríinu þangað til við vorum orðin svo uppgefin að við sömdum um vopnahlé. Ákváðum í sameiningu að það væri bannað að rífast í heila í viku. Og það stórkostlega var að það sem gerðist meðan á þessu vopnahléi stóð var að við gátum farið að slappa af og okkur tókst að njóta þess að vera hvort með öðru og börnunum okkar og svo gátum við smám saman farið að tjá okkur á yfirvegaðan og eðlilegan hátt um hugsanir okkar og tilfinningar og þá reynslu sem við vorum að ganga í gegnum.

Núna er ég í sumarfríi. Ég er í sumarfríi með manninum mínum og þremur börnum okkar á aldrinum eins til tíu. Fimm ára gamall sonur okkar fékk 40 stiga hita í upphafi frísins þannig að við komumst ekki af stað á tilætluðum tíma. Núna erum við hjá vinum okkur á Akureyri og höfum lítið sofið á næturna af því að litlu strákarnir eru með vesen. Við ætluðum í Ásbyrgi, en erum hætt við, af því að það er rigning og kuldi. Nú erum við hins vegar búin að breyta áætlun og erum búin að leigja okkur sumarbústað í Fnjóskadal. Tíu ára gömul dóttir okkar er í fýlu af því að plönin breyttust. En Norðurland er fagurt í rigningu og ég er rosalega glöð yfir því að vera í sumarfríi með fjölskyldunni minni, þótt ekki sé allt eftir mínu höfði. Þess vegna tek ég undir bænina: Þakka þér, góði Guð fyrir sumardaga og sumarævintýri og sumarfríin löngu, góðu.