„Aldrei þekkta eg hann“

„Aldrei þekkta eg hann“

Hinn fremsti postuli og þjónn Drottins, Pétur, sem Kristur vildi síðan byggja kirkju sína á, er þannig eins settur og sú smáa, hrædda og kjarklitla manneskja, sem við þekkjum svo vel í okkur sjálfum. Þegar á reynir, bregðumst við. Við svíkjum jafnvel það sem skiptir okkur mestu og afneitum því sem við þiggjum líf okkar af.

Pétur var niðri í garðinum. Þar kom ein af þernum æðsta prestsins og sá, hvar Pétur var að orna sér. Hún horfir á hann og segir: Þú varst líka með manninum frá Nasaret, þessum Jesú. Því neitaði hann og sagði: Ekki veit ég né skil, hvað þú ert að fara. Og hann gekk út í forgarðinn, en þá gól hani. Þar sá þernan hann og fór enn að segja við þá, sem hjá stóðu: Þessi er einn af þeim. En hann neitaði sem áður. Litlu síðar sögðu þeir, er hjá stóðu enn við Pétur: Víst ertu einn af þeim, enda ertu Galíleumaður. En hann sór og sárt við lagði: Ég þekki ekki þennan mann, sem þér talið um. Um leið gól hani annað sinn, og Pétur minntist þess, er Jesús hafði mælt við hann: Áður en hani galar tvisvar muntu þrisvar afneita mér. Þá fór hann að gráta. Mk 14:66-72

Kannski er haninn sem getið er um í þessum texta frægasti hani sögunnar. Hanagalið hans er í huga okkar samofið þeirri stund þegar Pétur – sterki og stóri Pétur sem vildi vaða eld og brennistein fyrir Jesú og greip til sverðs síns til varnar þegar hermennirnir sóttu að honum í Getsemanegarðinum – afneitaði Drottni sínum og meistara.

Ólíkt mörgum frásögum Biblíunnar, sem krefjast nýjustu þekkingar á textafræði og túlkunarmöguleikum, þá hefur sagan um afneitun Péturs sammannlega skírskotun sem hittir okkur öll í hjartastað. Ef við vitum hvaða þýðingu Jesús hafði í lífi Péturs, hvað Pétur hafði þegið í sjálfsstyrkingu, lærdómi og kærleika frá honum þann tíma sem þeir höfðu lifað saman og hvaða drauma Pétur hafði alið í brjósti um framtíðina með frelsara sínum – ef við vitum þetta, upplifum við líka með honum áfallið og skömmina sem hellist yfir þegar það rennur upp fyrir honum hvað hann hefur gert.

Í Passíusálmunum tekur skáldið, sem þessi helgidómur er kenndur við, sér einmitt stöðu með sankti Pétri í þessum ömurlegu sporum og hugleiðir í því sambandi eigin brest og trúleysi þegar á reynir:

Krossferli’ að fylgja þínum fýsir mig, Jesú kær, væg þú veikleika mínum, þó verði’eg álengdar fjær. Þá trú og þol vill þrotna, þrengir að neyðin vönd, reis þú við reyrinn brotna og rétt mér þína hönd.

Hinn fremsti postuli og þjónn Drottins, Pétur, sem Kristur vildi síðan byggja kirkju sína á, er þannig eins settur og sú smáa, hrædda og kjarklitla manneskja, sem við þekkjum svo vel í okkur sjálfum. Þegar á reynir, bregðumst við. Við svíkjum jafnvel það sem skiptir okkur mestu og afneitum því sem við þiggjum líf okkar af.

Þerna æðsta prestsins sem þráspurði Pétur hvort hann væri ekki örugglega einn af þeim sem fylgdu Jesú, verður í túlkun sálmaskáldsins tákngervingur þess sem afvegaleiðir okkur í eftirfylgdinni við Jesú. Það var jú hún sem lagði þessa meinsnöru lastmælisins fyrir Pétur. Og Hallgrímur spyr þá réttilega hvort nokkur fái staðist vonzkusoll veraldarinnar, fyrst hinn heilagi Drottins þjón hrasaði svo hryggilega.

En um leið og við horfumst í augu við eigin vanmátt og ótrúmennsku, sjáum við að dómurinn yfir ófullkomleika okkar kemur ekki frá Guði heldur okkur sjálfum. Grátur Péturs spratt af skömm og sorg þegar í minningin um samtalið við Jesú, þar sem allt þetta hafði komið fram, rann upp í huga hans. Það var ekki Jesús sem áfelldist hann, það var hann sjálfur.

Þetta skilur líka Hallgrímur sem sér ljós og anda Krists standa opinn þeim sem er óstöðugur og megnar ekki að standa undir því sem hann vildi svo gjarnan gera og hefur einsett sér. Þegar það eina sem við getum gert er að gráta, þá er höndin hans útrétt til að reisa við reyrinn brotna.