Kraftur bænarinnar

Kraftur bænarinnar

Það virðist djúpur sannleikur fólgin í því að Guð svari bænum. Ef við leggjum huga okkar og hjarta fram, orðum vilja og væntingar, upphátt eða í hljóði, í einrúmi eða með mörgum, þá kemur það hreyfingu á einhver þau öfl í heiminum sem stuðla að góðu.

Messa í Grensáskirkju, prédikun


Biðjum:

Lifandi Guð.

Frá þér ljós og lífið streymir,

líkn og blessun hvert eitt sinn.

Mig þín föðurforsjón geymir,

frelsar, annast, Drottinn minn.

Þú mér vísar lífsins leið,

léttir kross og heftir neyð,

veitir mátt og megn að stríða,

mitt í freisting, hryggð og kvíða. (Sálmur 36:3 P. Jónsson)

Amen.

 

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

 

Lottómiðinn

 

„Ég vinn aldrei í lottóinu“, sagði maður heldur framlágur, en var spurður um hæl: „Kaupir þú oft miða?“ „Nei mjög sjaldan, eiginlega aldrei.“ Var svarið.

 

Ég hef stundum hugsað hvort það sé eins með bænina, þ.e.a.s. þegar fólk býsnast yfir því þegar lífið virðist koma aftan að því, þegar samhengi atburða virðist hverfa og lífið virðist óreiðukennt og háð tilviljunum.

 

Er fólk kannski bara hætt að biðja bænirnar? Biður kannski bara mjög sjaldan, eða eiginlega aldrei.

 

Ekki vil ég líkja bæninni við kaup á lottó-miða, en líkindin kannski þau að hæpið er að ætlast til þess að maður finni bænasvar, ef maður aldrei fer með bænirnar.

 

Bænadagur

 

Þessi sunnudagur kirkjuársins er í almanaki kirkjunnar kallaður „Hinn almenni bænadagur“. Bænin er eitt af hinum svokölluðu náðarmeðölum kirkjunnar, þ.e.a.s. þeim farvegum sem miðlar náð Guðs. Önnur náðarmeðöl eru sakramentin, skírnin og altarisgangan, Biblían og samfélagið í kirkjunni.

 

Að tileinka einn dag bæninni þýðir ekki að allir hinir dagar ársins séu ekki bænadagar, heldur einmitt undirstrikar hinn almenni bænadagur mikilvægi þess að bænin fylgi okkur alla daga ársins, hverja stund lífsins.

 

Hallgrímur Pétursson orti um bænina í einu versi fjórða Passíusálms:

 

Bænin má aldrei bresta þig,

búin er freisting ýmislig.

Þá líf og sál er lúð og þjáð,

lykill er hún að Drottins náð. (Ps. 4)

 

Lykill er hún að Drottins náð, segir séra Hallgrímur.

 

Rauður þráður

 

Sé litið til texta dagsins, guðspjallatextans, sem og lexíunnar úr Gamla testamentinu og pistilsins úr Nýja testamentinu, má þar finna sama rauða þráðinn, þótt aldir skilji að ritunartíma textanna. Höfundarnir eru líka ólíkir, en boðskapurinn sem þeir miðla nánast sá sami.

 

Yndislegur textinn úr spádómsbók Jeremía miðlar þeim boðskap að Guð ætli sé góða hluti með þá sem leita hans. Guð hefur fyrirætlanir til heilla en ekki til óhamingju, að veita vonarríka framtíð.

 

Svo heldur spámaðurinn áfram og segir fyrir munn Drottins, „Þegar þér ákallið mig og komið og biðjið til mín mun ég bænheyra yður. Ef þér leitið mín munuð þér finna mig. Þegar þér leitið mín af öllu hjarta læt ég yður finna mig.“

 

Þessi texti minnir á orð Jesú í fjallræðunni er hann segir: „Biðjið og yður mun gefast. Leitið og þér munuð finna. Knýið á og fyrir yður mun upplokið verða.“

 

Jesús dregur þetta einnig fram í guðspjallatexta dagsins og segir: „Hvað sem þér biðjið föðurinn um í mínu nafni mun hann veita yður. ... . Biðjið og þér munuð öðlast svo að fögnuður yðar verði fullkominn.“

 

Páll postuli hamrar það sama járn og ítrekar þann sama sannleika er hann skrifar Tímateusi fyrra bréf sitt og segir:  „Fyrst af öllu hvet ég til að biðja og ákalla Guð og bera fram fyrirbænir og þakkir fyrir alla menn.“

 

Og boðskapurinn: Guð svarar bænum þínum.

 

Krafturinn að baki lífinu, lífsorkan sem ég öllu býr, framkraftur tilverunnar, heyrir bænir og svarar þeim.

 

Vefnaðurinn

 

Veröldin virðist öfin úr slíkum efnivið þar sem Guð sjálfur er í þræðinum miðjum. Guð virðist nærri okkur en okkar eigin andardráttur, en um leið fjarri okkur en fjarlægasta stjörnuþoka.

 

Það virðist djúpur sannleikur fólgin í því að Guð svari bænum. Ef við leggjum huga okkar og hjarta fram, orðum vilja og væntingar, upphátt eða í hljóði, í einrúmi eða með mörgum, þá kemur það hreyfingu á einhver þau öfl í heiminum sem stuðla að góðu.

 

Biblían birtir þá reynslu kynslóðanna, að kærleikans kraftur heyrir bænir okkar og svarar þeim. Reynsla kynslóðanna er einmitt á þessum nótum.

 

Maðurinn er líka andleg vera

 

Að biðja bænir er staðfesting þess að við erum andlegar verur. „Maðurinn lifir ekki á brauði einu saman, heldur á hverju því orði sem fram gengur af Guðs munni“ segir Jesús í Matteusarguðspjalli og vitnar þar í 5. Mósebók.

 

Nafnið Adam er hebreska og merkir maður. Inntak hugtaksins Adam felur það í sér að maðurinn sé bæði líkamleg og andlega vera. Hebreskan væntir ekki þessarar tvískiptingar á manninum í andlega og líkamlega veru, allt er það samofið.

 

Svo virðist sem nútíminn vilji greina þarna á milli, að manneskjan geti lifað mannlegu lífi án þess að viðurkenna sínar andlegu hliðar.

 

Ég held að slíkt sé ekki gæfulegt, því það getur stuðlað að miklu óheilbrigði.

 

Bænin og nútíminn

 

Umræða um andlega vanheilsu er fyrirferðarmikil í samfélaginu. Þar er meðal annars fjallað um skólaforðun barna og brottfall nemenda úr framhaldsskólum.

 

Gagnvart andlegu áskorunum nútímans þurfum við að finna andleg úrræði.

Bænin er svar við þeirri áskorun, það hafa kynslóðirnar reynt og það eru kynslóðirnar að miðla okkur í textum Biblíunnar í dag.

 

Heimsfaraldurinn hefur á síðustu tveimur árum haft þar gríðarleg áhrif, aukið á einangrun með vaxandi kvíða hjá sumum. Innrás Rússa í Úkraínu snertir síðan alla heimsbyggðina og óvíst er hver áhrifin verða til framtíðar. Svo virðist aftur vera farið að skjálfa á Reykjanesi.

 

Óvissan og ógnirnar eru álagsþættir sem hafa áhrif á alla menn. Það er vel að úrræða sé leitað á vettvangi stjórnmálanna, þar sem hægt er veita fjármagni í allskyns faglegan stuðning og aðstoð. Einnig felast lausnirnar gjarnan í félagslegum þáttum sem hægt er að vinna á vettvangi skólanna, íþróttahreyfingarinnar, æskulýðs- og annars félagsstarfs. Félagsauðurinn er mikill í samfélaginu og faglegt félagsstarf er ómetanlegt. Allt getur það stuðlað að góðri andlegri heilsu einstaklinga og samfélagsins í heild.

En bænin er leið til að auka birtustigið í okkar eigin lífi, auka birtustigið í okkar andlega lífi. Ég tel að andlegri vanheilsu þurfi einnig að mæta með andlegum úrræðum, sem eru í boði fyrir alla sem vilja þiggja. 

 

Kirkjan er vettvangur slíks. Alla sunnudaga er mögulegt að koma til helgihalds, líkt og hér í dag. Ýmis önnur tilboð á hinu andlega sviði eru síðan einnig í boði, eins og núvitundarstundir, kyrrðarstundir ýmiskonar, kyrrðarbæn og Biblíuleg íhugun.


Kyrrðarbæn er bænaaðferð sem fer fram í þögn. Í henni opnast hugur og hjarta, öll vera okkar, fyrir Guði handan hugsana, orða og tilfinninga. Fyrir tilstilli náðar Guðs opnum við vitund okkar fyrir honum sem við vitum, fyrir trú, að er hið innra með okkur, nær okkur en andardráttur okkar, nær en hugsun okkar, nær en sjálf vitund okkar.

Biblíuleg íhugun er ævagömul aðferð við að biðja yfir textum ritningarinnar. Í Biblíulegri íhugun er hlustað á ritningarversin með hjartanu líkt og við ættum í samtali við Guð þar sem hann legði til umræðuefnið. Með þessari bænaaðferð leyfum við orðinu að móta okkur og verða hluti af okkur sjálfum.

Kyrrðarbænasamtökin á Íslandi eru síðan hreyfing fólks sem iðkar og stundar þessa andlegu iðju, sjálfum sér og samfélaginu til gæfu. Kristin íhugun er regnhlífarhugtak yfir fornar og nýjar íhugunar- og bænaaðferðir innan kristinnar hefðar. Íhugun var ríkur þáttur í andlegri iðkun og uppbyggingu kristinna manna frá upphafi. Frá því á 17. öld tapaðist hún að nokkru leyti úr vitund fólks en á 20. öldinni var farið að vinna að því að endurheimta þennan dýrmæta arf.

 

Kraftur bænarinnar

Í bæninni er fólginn kraftur sem hvergi er hægt að nálgast nema einmitt þar, í samtali og samfélagi við Guð. Í gegnum bænina veitir Guð þeim sem biður verkfæri út í lífsgönguna sem hvergi er hægt að fá nema einmitt þar.


Í bæn Drottins segjum við: „verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni“. Vilji Guðs á einmitt að verða einnig hér, mitt á meðal okkar, ekki einungis á himnum eða í eilífðinni, heldur hér og nú. Bænin er þessi leyndardómur, sem í senn er nær óskiljanlegur, en um leið svo einfaldur að hver sem er getur iðkað bænina, fundið nærveru Guðs í lífi sínu og aukið birtustigið þannig að lífið verður ríkara, betra og fyllra.

 

Kvöldbæn með barni við rúmstokkinn getur lýst inn í fullorðinsárin. Morgunbæn áður en gengið er til daglegrar iðju getur varðað veginn til góðra verka.

 

Að biðja bænir frá eigin hjarta styrkir og eflir trúna. En einnig það að lesa bænabækur og bænavers frá öðrum, sem aðrir hafa fangað. Bæn Frans frá Assisi í þýðingu séra Sigurjóns Guðjónssonar hefur reynst mörgum vel og hljóðar svo:


Drottinn, lát mig vera verkfæri friðar þíns.
Hjálpa mér til að leiða inn kærleika,
þar sem hatur ríkir,
trú, þar sem efinn ræður,
von, þar sem örvæntingin drottnar.

 

Hjálpa mér að fyrirgefa, þar sem
rangsleitni er höfð í frammi,
að skapa eindrægni þar sem sundrung ríkir
að dreifa ljósi þar sem myrkur grúfir
og flytja fögnuð þar sem sorgin býr.

 

Meistari, hjálpa mér að kappkosta ekki
svo mjög að vera huggaður sem að hugga,
ekki svo mjög að vera skilinn sem að skilja,
ekki svo mjög að vera elskaður sem að elska.

 

Því að það er með því að gefa að vér þiggjum
með því að fyrirgefa að oss verður fyrirgefið
með því að týna lífi voru að vér vinnum það.
Það er með því að deyja að vér
upprísum til eilífs lífs.

 

Amen.

 

Megi það vera bæn okkar í dag og alla daga, í Jesú nafni. Amen.

 

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

 

Takið postullegri kveðju: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé og veri með yður öllum. Amen.


Jeremía 29:11-14a

Fyrra Tímóteusarbréf 2:1-6a

Jóhannesarguðspjall 16:23b-30