Börn!

Börn!

Börn geta kallað fram ugg. Þau kallað fram sára angist. Sjáum við fyrir okkur forsíðu blaðanna af brostnum augum barnanna á Gazaströndinni sem þola hörmungar daga og nætur?

„Börn!“

Hvað kemur upp í hugann þegar við heyrum það orð? Hvaða tilfinningar leika eitt andartak um okkur þegar þetta er sagt í eyru okkar: „börn“. Vaknar mynd í hugskotinu af kátum barnskara og við finnum hvernig við eins og brosum í huganum? Rifjum við upp ferska minningu af því þegar salurinn hér var fullur af börnum, já börnum og foreldrum sem nú eru farin inn í safnaðarheimili þar sem barnamessan fer fram? Þar safna þau í veganestisboxið sitt góðri næringu. Þau heyra frásagnir af því hversu mikilvægt það er að hjálpa og styrkja, þau heyra af sigri ljóssins og kærleikans og vonandi mótar það sjálfsmynd þeirra og köllun þegar það tekur á sig form síðar á lífsleiðinni.

Gleði, áhyggjur og angist

Börnin geta kallað fram þessa góðu tilfinningu – gleðina sem vaknar hjá okkur þegar sakleysið er annars vegar og um leið þessi skynjun að við raunverulega skiptum máli. Hvar væru börnin ef ekki væri fyrir okkur? Þau eiga allt sitt undir okkur, þau þiggja og við gefum. Við miðlum til þeirra lífsnauðsynjum, lærdómi, fordæmi og auðvitað öryggi, gleði og innihaldi. Og í einni andrá verðum við í hlutverki þiggjendanna þar sem við upplifum á móti skilyrðislausan kærleikann, finnum tilganginn með störfum okkar og verkum þegar við leiðum hugann að því hvernig við búum í haginn fyrir þau sem enn eru á fyrstu skeiðum ævinnar.

Eða fyllumst við kannske ókyrrð þegar við hugleiðum þau mál? Kemur einhver kennd þar á móti? Horfum við áhyggjufull til framtíðar og spyrjum hvernig börnunum okkar mun reiða af þegar á þau reynir? Verða kjör þeirra lakari okkar kjörum? Þurfa þau að sætta sig við það sem við myndum sjálf ekki sætta okkur við? Og börnin þeirra? Hagsældin sem við hreyktum okkur af og skelltum skollaeyrum við allri gagnrýni á, var aðeins fyrir líðandi stund. Þar var ekki búið í haginn fyrir framtíðina, öðru nær. Og ánægjan var ekki rík að innihaldi, nei ef svo hefði verið hefði saðningin komið á einhverjum tíma, en hún kom aldrei. Menn fengu aldrei nóg og segir það sitt um innihald þess sem sóst var eftir. Hvaða umhverfi hefur þetta háttarlag mótað? Hvernig verður framtíðin, framtíðin okkar og barnanna okkar?

Börn geta kallað fram ugg. Þau kallað fram sára angist. Sjáum við fyrir okkur forsíðu blaðanna af brostnum augum barnanna á Gazaströndinni sem þola hörmungar daga og nætur? Sambærilegar myndir af fullorðnu fólki myndu vissulega vekja með okkur óhug – en þegar börnin eru annars vegar þá snerta myndirnar okkur mun dýpra. Þarna vekja börnin sannarlega ekki gleði. Þau eru þvert á móti spegillinn, dómurinn, prófið sjálft á líf okkar og breytni – já eða aðgerðarleysi. Í þeim efnum setur að okkur óhug. Við annað hvort staðnæmumst við myndirnar, skynjum sársaukann í hjartanu, vanmáttinn og vonbrigðin – eða flettum fljótt áfram, skiptum um stöð eða tökum upp annað hjal.

Prófsteinninn á siðferðið

Rithöfundurinn Milan Kundera segir það prófstein á siðferði hvers samfélags hvernig þar sé komið þar fram við þá sem ekki geta varið sig sjálfir.

Taka má undir þau orð. Þegar umbun, laun eða ótti stjórnar ekki gjörðum okkar, heldur aðeins það hvernig samviska okkar, kærleikur og umhyggja fyrir náunganum beinir okkur áfram: þá birtist hinn sanni spegill á siðferði okkar og gildismat.Rithöfundurinn Milan Kundera segir það prófstein á siðferði hvers samfélags hvernig þar sé komið þar fram við þá sem ekki geta varið sig sjálfir.

Það er því ekki að undra að börn komi oft við sögu í boðskap Jesú Krists. Þar er jú miðlað úr dýrmætum sjóðum kærleikans. Kristur hampar börnunum hvað eftir annað og ögrar þar vitaskuld þeim hugmyndum sem voru við lýði í umhverfi hans þar sem réttindi barna og barnavernd voru framandleg hugtök. Nei, Kristur sá eitthvað stórkostlegt í börnunum. Hann talaði oft um þau, ekki aðeins sem jafngild hinum fullorðnu, heldur jafnvel eitthvað æðra og merkilegra þeim sem slitið höfðu barnskónum.

Ekki jafningjar heldur fremri

Börnin eru oft talin fremri lærisveinunum sem fylgdu honum eftir og reyndu að meðtaka það sem þeir sáu og heyrðu. Hópurinn stóð ráðþrota frammi fyrir þúsundum sem höfðu safnast saman til að hlýða á boðskapinn úti í eyðimörkinni og allir voru orðnir sársvangir. Þá kom barn með fáeina fiska og brauð og lét í hendur meistarans og í framhaldi af því varð kraftaverkið stóra. Skilaboðin? Barnið lagði fram það sem það átti, gaf það litla sem það hafði til að gefa og það var svo óendanlega miklu meira en ekkert. Það var allt sem þurfti.

Þegar lærisveinarnir körpuðu hver við annan um það hver væri æðstur í ríki Guðs kallaði Kristur á barn sem var þar í grenndinni og sagði þeim, mitt í öllum metingnum, að það yrði æðst í Guðs ríki. Í því væri að finna það hugarfar sem gilti gagnvart Guði. Boðskapurinn? Ekki hreykja ykkur upp gagnvart Guði. Farið hina leiðina. Verið auðmjúk, sönn og einlæg. Viðurkennið vanmátt ykkar og takmörk, kunnið að þiggja eins og barnið kann og miðlið á móti þeim kærleika sem setur engin skilyrði. Eða hvernig mætti sjálfur Guð manninum á hinum fyrstu jólum? Var það ekki sem barn?

Sárindi

Nú lesum við um það þegar þeir ágætu lærisveinar vildu  meina fólki að færa börnin til Jesú. Af hverju skyldu þeir gera það? Jú, vegna þess að rabbíninn átti ekki að ómaka sig við svo slíka einstaklinga, sem börnin eru. Þannig voru  hugmyndirnar. Þau höfðu ekki þroska til þess að meðtaka viskuna. Þau höfðu ekki áhrif til þess að vinna að þeim markmiðum sem boðskapurinn kallaði á. „Menn færðu börn til Jesú að hann snerti þau en lærisveinarnir átöldu þá“.

Viðbrögð Krists birta okkur snarpa innsýn í persónu hans. Orðin sem Milan Kundera sagði um siðferðið og gildismatið koma þar sannarlega upp í hugann. Honum sárnaði. Því siðferði það sem Kristur vill miðla til okkar lýtur að þessu sama: að hlúa að þeim sem á því þurfa að halda, ekki vegna þess að þeir launi okkur til baka. Ekki vegna þess að einhver annar komi til með að borga okkur eða endurgjalda. Nei, bara vegna þess að þetta er göfugt hlutverk okkar og skylda. Það er þetta sem gildismat okkar á að miðla og enduróma. Og Kristi sárnar það að þeir skyldu reyna að varna fólkinu því að færa börnin til hans.

Viska og náð

Já, guðspjallið er með þeim merkilegri. Það er vitaskuld lesið við eina stærstu athöfn í kirkjunni, skírnina. Þá er lítið barn fært inn í helgidóminn og það er borið upp að skírnarlauginni. Þetta sýnir afstöðu kirkjunnar til barnanna. Þar eru þau tekin inn í söfnuðinn, þau fá fyrirbæn til framtíðar og hópurinn snýr heim á leið úr kirkjunni svo miklu ríkari en hann var áður en hann gekk inn fyrir dyrnar. Þetta undirstrikar það að við erum öll börn Guðs. Við tökum við náðinni sem gjöf og við þurfum ekkert að láta á mót – ekki frekar en barnið getur gert.

En ef við tökum við þessum boðskap þá er það ekki lengur spurning um hvað við þurfum að gera. Spurningin er hvað viljum við gera. Því við skírnina er barnið orðið hluti af stórkostlegu samfélagi. Nafn þess er nefnt opinberlega í fyrsta skipti af þessu tilefni. Það er ríkulega blessað af fyrirbænum og fjölskyldan fær það verðuga hlutverk að kenna barninu þann lífgefandi boðskap sem Jesús Kristur hafði að miðla um fyrirgefningu, náungakærleika, virðingu fyrir sjálfum sér, náunganum og umhverfinu og síðast en ekki síst: því gildismati sem boðar það að koma vel fram við þá sem minna mega sín.

Að trúa og vera trúað Ekki vegna þess að það fái eitthvað í staðinn. Nei, þetta eru ekki framvirkir samningar eða aðrar misgáfulegar fjárfestingar! Þetta snýst um kærleika, skilyrðislausan kærleika.

Í hvert skipti sem ég tek þátt í slíkri athöfn fyllist ég bjartsýni – ekki ósvipaðri þeirri sem stendur skrifuð hjá spámanninum Jeremía og Konráð las fyrir okkur hér áðan. Því eitt er það sem gengu sem rauður þráður í gegnum heilaga ritningu og það er jákvæð sýn á umhverfið. Samskipti Krist við þá sem í kringum hann voru segja okkur sífellt það sama: aldrei missa trú á systkinum þínum. Hversu afvegaleidd sem þau kunna að vera. Hversu ringluð sem þau kunna að vera. Hversu ung sem þau eru.

Hvergi verður þessi framtíðarsýn skýrari en þegar Kristur talar við börnin og þegar hann blessar börnin með nærveru sinni. Hann sér það dýrmæta í sálu þeirra og veit að þau eru sköpuð í mynd Guðs. Já, „allir sem leiðast af anda Guðs eru Guðs börn.“ (Róm 8.14) Og það er okkur hollt að vita það sem trúum á Jesú Krist að Kristur trúir líka á okkur. Hann hefur óbilandi trú á okkur og tekur börnin að sér í heilagri skírn í því trausti að þau eigi eftir að upplifa það sem köllun sína og tilgang að miðla kærleikanum áfram til umhverfis síns.

Með þeim hætti eigum við að láta orð hans leiða okkur áfram. Sérstaklega þegar við hugleiðum hlutskipti barnsins sem við þurfum svo mjög að hlúa að. Það gerum við til dæmis hér í helgidómnum þegar við fyllum umhverfið af söng og gleði og miðlum um leið þessum dýrmætu sannindum. Það gerum við þegar við sýnum ábyrgð gagnvart umhverfi okkar svo afkomendurnir njóti sköpunarinnar með þeirri hagsæld sem við njótum. Það gerum við þegar við tökum til varnar fyrir okkar minnstu bræður og systur í stríðshrjáðum löndum og tölum þeirri rödd sem hjarta okkar býður.

Barnið er í aðalhlutverki í fagnaðarerindi Biblíunnar því það er þegar allt kemur til alls sá spegill sem segir okkur sannleikann um okkur sjálf: verk okkar og gildismat.