Krossinn – páskarnir

Krossinn – páskarnir

Hann gerði örlög okkar að sínum. Páskarnir leiða í ljós að kærleikur hans er skilyrðislaus og eilífur og verður aldrei sigraður. Kærleikur Guðs verður ekki deyddur, orðinu sem varð hold, verður ekki eytt, engin mannleg snilld og gáfur, ekkert mannlegt atgervi, auður, vald, engin mannleg tækni né heldur trú fær útrýmt því.
fullname - andlitsmynd Karl Sigurbjörnsson
23. mars 2008
Flokkar

Þá er hvíldardagurinn var liðinn keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann. Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni. Þær sögðu sín á milli: „Hver mun velta fyrir okkur steininum frá grafarmunnanum?“ En þegar þær líta upp sjá þær að steininum hafði verið velt frá en hann var mjög stór. Þær stíga inn í gröfina og sjá ungan mann sitja hægra megin, klæddan hvítri skikkju, og þær skelfdust. En hann sagði við þær: „Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér. Sjáið þarna staðinn þar sem þeir lögðu hann. En farið og segið lærisveinum hans og Pétri: Hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann eins og hann sagði yður.“ Mark 16.1-7

Kristur er upprisinn! Kristur er sannarlega upprisinn!

Gleðilega páska.

„Þið leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er ekki hér, hann er upprisinn!“ sagði engillinn við konurnar við gröfina. Þessi orð engilsins enduróma nú um allan heim, fréttin um upprisu hins krossfesta Krists. Fréttin sem kristin trú og kirkja stendur og fellur með. Fréttin, sem enn er uppspretta gleði og vonar.

Við höfum vaknað á helgum páskadagsmorgni til að heyra enn á ný gleðifrétt um upprisu hins krossfesta. Sum okkar mæta nýjum degi með kvíða og áhyggjum. Sorgin sló, áfallið dundi, frétt barst sem skók grundvöll tilveru manns. Annars hafa fréttir undanfarinna daga vart snúist um annað en um fjármál og gengi, um hrun og svarta daga í kauphöllum, um traust og trú sem brást, um væntingar sem urðu að engu, um óvissu og ótta. En frétt páskadagsins er um bjartan morgun sem rís úr öllum vonbrigðasorta, um verðmæti sem aldrei rýrna, um von og trú sem ekki bregst og aldrei svíkur, um kærleika sem útrekur allan ótta. Vegna þess að svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.

Krossinn og píslarsaga Jesú Krists hefur haft meiri og djúpstæðari áhrif á heiminn en nokkur önnur saga, og markar afdrifaríkustu umskipti í sögu mannkyns. Skoðanir eru og hafa alltaf verið skiptar um það hver merking og tilgangur þeirrar sögu eiginlega er. En fáa lætur hún ósnortna. Krossinn má víða sjá og er öflugt tákn, hvort sem það er á gröfum hinna látnu, í trúarlífi einstaklingsins eða siðvenju samfélagsins. Ung skáldkona, Gerður Kristný, er með lítið ljóð í ljóðabók sinni, Höggstaður, sem vísar til merkingar krossins á fremur kaldhæðinn hátt, það heitir, „Dánartilkynning trúlausa mannsins:“

„ Fyrir ofan myndina ekki kyrrlátur kross, heldur rós eins og hann hafi trúað því að eilíft líf biði hans í blómabúð.“

Rósin er sannarlega yndisleg jurt og hugnæmt tákn, en krossinn signir einatt gröf og mynd hins látna, af því að hann er tákn lífs og framtíðar, vonar og kærleika. Krossinn leggur til túlkunarlykil, mynstur og merkingarform til að staðsetja sig með andspænis ráðgátunum stærstu og raunaspurningunum sáru sem mæta hverjum einstaklingi og samfélagi á öllum tímum. Hann er vonartákn vegna þess að hinn krossfesti Jesús reis upp frá dauðum.

Mynd hins krossfesta Jesú frá Nasaret stendur mannkyni fyrir hugarsjónum sem áleitin frummynd hugrekkis, fórnfýsi, og andlegrar reisnar andspænis reginöflum ranglætis, haturs og dauða. Krossinn umfaðmar lífið allt og sýnir samstöðu Krists með þeim útskúfuðu og utangarðs, og samlíðan hans með með þeim þjáðu og snauðu, seku, og deyjandi. Fyrirgefandi faðmur hans umlykur líka þá vegvilltu, ranglátu. Krossinn minnir á kröfu Krists um kærleika, fyrirgefningu og miskunnsemi, og á afdráttarlausa fullyrðing hans um að hann lifi og mæti okkur í þeim sem hann kallaði sín minnstu systkin. Síst má sú fullyrðing hans láta okkur í friði. Alls ekki í menningu og samfélagi sem er undirlagt eigingirni og sjálfhverfu, og upptekið af dýrkun græðgi, fýsnar og valda, fast í fíkn og lífsflótta af öllu tagi.

Líf og boðskapur Krists, sem beindi sjónum okkar til fugla himinsins og lilja vallarins og tók börnin sér í faðm, ögrar þeim hugsunarhætti sem áskilur sér skýlausan rétt og kröfu á hendur lífinu og náunganum, mönnum og máttarvöldum, að hafa það gott og njóta lífsins hvað sem það kostar. Slík lífsafstaða og lífsmáti hefur sýnt sig ógna lífi og framtíðarheill heimsins alls.

Loks er krossinn áminning um boðskap hins krossfesta um að við höfum val, að hver og einn getur snúið af óheillabraut og tekið háttaskiptum, við erum ekki ofurseld örlögum og ytri aðstæðum. Við erum frjáls til að iðrast og fyrirgefa, við erum frjáls til að játast lífinu. Þrátt fyrir allt. Þetta segir krossinn, kross Jesú, sem reis upp af dauðum. Enn eru krossar reistir. Heimurinn okkar er læstur í vítahring tortryggni, valdbeitingar og ógnar, blindaður af lögmáli endurgjaldsins. Margvíslegar eru sögur þjáningar og grimmdar, og þeir reikningar verða aldrei gerðir upp, hversu öflugra vopna sem gripið er til. Tortryggnin og hatrið, og langminni á misgjörðir og sekt standa svo djúpum rótum. Hatursöflin hamast, múrar rísa, eldskeyti fljúga og springa. Ódæðismenn vaða uppi og valda hörmungum og dauða. Þetta eru daglegar fréttir frá sagnaslóðum guðspjallanna. Ofstopamenn og haturspostular af öllu tagi eru hylltir sem hetjur. Já, og hvert sem litið er, í gömlu Evrópu, og fyrir botni Miðjarðarhafsins, í Írak, já og víða um heim virðist orðræða haturs og hleypidóma eiga aukinn hljómgrunn. Við þurfum reyndar ekki að skyggnast langt um sviðið til að koma auga á vaxandi tortryggni gegn útlendingum, kynþáttafordóma, Íslamófóbíu, Gyðingahatur, Kristsfælni. Svo verða ýmsir til að fullyrða að trúin sé sökudólgurinn, trúarbrögðin séu það afl sem einatt blási að glæðum haturs og hleypidóma og skuli því rutt út úr upplýstu og menntuðu samfélagi.

Á Golgata var kross reistur sem kristnin fullyrðir að afhjúpi manninn, og mannlegt allt. - Og birtir okkur Guð. Það er því miður alveg áreiðanlegt að trú er í sjálfu sér engin trygging fyrir siðgæði og sönnum dyggðum. Siðlausa og siðblinda menn er eins að finna meðal trúaðra og guðlausra. Allt mannlegt eðli hneigist til sjálfshyggju og eigingirni. Synd og glötun er staðreynd. Það á við um marga sem sagt var um mann: „Hann hafði hreina samvisku af því að hann notaði hana aldrei!“ Reiði og öfund, ágirnd, og eigingirni og aðrir lestir er öllum mönnum sameiginlegt - og öllum mönnum verkefni til að takast á við og yfirvinna. Trúin verður oft handbendi illra hvata, valdasýki og haturs, já, eins og líka stjórnmálin, já, og að ekki sé talað um kynhvötina, maður lifandi! Og vart getur mannlegt samfélag verið án alls þessa. Ástin, umhyggjan og trúin eru iðulega afskræmd og verða handbendi hins illa. En eru þó uppspretta þess sem best er og fegurst í lífinu sem okkur ber að rækta og greiða veg.

Krossdauði frelsarans afhjúpar manninn. Krossinn hvetur okkur til að líta í eigin barm og spyrja okkur hvar við hefðum staðið í atburðum píslarsögunnar. Það er aðeins einn saklaus í þeirri sögu, og það er ekki ég, það er ekki heldur þú. Trúarbrögðin og guðleysið tóku höndum saman, kirkjan og kóngurinn, fjármálageirinn og fjölmiðlarnir, skynsemin og göfugustu tilfinningar, almenningsálitið og akademían, tóku höndum saman í andstöðunni gegn hinum eina. Krossinn táknar algjört gengishrun þess alls. Hvar hefðum við staðið á deginum þeim?

Við megum vita að Jesús dó á krossinum vegna þess að við erum eins og við erum. - Og Guð er eins og Jesús.

Við eigum öll hlutdeild í reynslu og sögu sem flækir okkur í net sjálfselsku og ótta. Við höfum öll tekið þátt í að fordæma saklausan, að reisa múra og velta steinum fyrir. Ef ekki beinlínis, þá óbeint. Þegar kirkjan játar og trúir að Jesús dó fyrir syndir okkar, lífi og heimi til lífs, þá er verið að segja að við þörfnumst öll hjálpar, hver sem við erum, og að við getum ekki eigin mætti höndlað það sem við innst inni þörfnumst og þráum. Ekkert fær leyst fjötrana, ekkert fær lokið upp augum okkar nema við viðurkennum vanmátt okkar og synd, viðurkennum návist Guðs og náð í hverju því sem að höndum ber, horfumst í augu við fortíðina með hugrekki og raunsæi og erum reiðubúin að standa á fætur og byrja að nýju. Fjöldi manns okkar á meðal fær að reyna og sjá slíka upprisu í lífi sínu, steinum velt frá, fjötra rakna og ný tækifæri gefast, nýjar leiðir ljúkast upp.

Guð er eins og Jesús.

Hann gerði örlög okkar að sínum. Páskarnir leiða í ljós að kærleikur hans er skilyrðislaus og eilífur og verður aldrei sigraður. Kærleikur Guðs verður ekki deyddur, orðinu sem varð hold, verður ekki eytt, engin mannleg snilld og gáfur, ekkert mannlegt atgervi, auður, vald, engin mannleg tækni né heldur trú fær útrýmt því. Og þegar lífsleið lýkur og gröfin blasir við þá megum við vita að þar er hann, frelsarinn krossfesti og upprisni, fyrirgefning hans, líf hans og eilíft ljós. Vegna mín og vegna þín vegna gekk hann í dauðann, okkar vegna reis hann af gröf. Svo að við mættum lifa. „Ég lifi og þér munuð lifa“ hafði hann sagt. Það er vissulega satt. Og eins gott að fara að venja sig við það!

Gleðilega páska! Hið undursamlega við fagnaðarerindið er einmitt að það er aldrei eitthvað sem einu sinni var. Það er aldrei aðeins orð á bók eða frásögn um annað fólk á framandi slóðum á horfinni öld. Það er alltaf eitthvað sem gerist hér og nú og kemur okkur við, og jafnframt alltaf eitthvað sem er framundan, ólýsanleg von og eftirvænting, þrátt fyrir allt. Eitthvað sem við sjáum vísbendingar um allt um kring, aðeins ef við opnum augun. Í brumknöppum vorsins og fuglaklið, í viðmóti fólks sem á vegi verður, í hlýju brosi, góðvild og gleði, í sáttarhuga og hjálparhönd. Páskar eru birta þessa alls, já, eins og ljómi morgunroðans yfir lífið allt, líf og líka hel. Æ, hvað við þörfnumst þess! Við skulum ganga móti nýjum degi í þeirri birtu, gleði, von og trú.

Kristur er upprisinn! Kristur er sannarlega upprisinn! Gleðilega páska!