Jesús kominn út úr skápnum

Jesús kominn út úr skápnum

Jesús og lærisveinar hans voru hópur samkynhneigðra karlmanna. Í því ljósi breytist merking þeirrar vináttu sem lýst er svo afdrifaríkt í guðspjöllunum, elskaði lærisveinninn í Jóhannesarguðspjalli var ástmaður Jesú, og vinahópur lærisveinanna samfélag homma sem stóð saman í vináttu og ástum andspænis samfélagi sem gat ekki meðtekið kynhneigð þeirra.

Þann 29. mars síðastliðinn birtist frétt á fréttavef BBC - Middle East um fornleifafund sem eins og segir í fréttinni gætu verið elstu kristu textar sem varðveist hafa, geymdir í 2000 ár í helli í Jórdaníu. Um er að ræða um 70 bækur sem steyptar eru í blý, hver með um 15 síðum og bundnar og innsiglaðar með blýhringjum. Í fréttinni segir að uppruni bókanna sé nokkuð á reiki en sé að valda titringi á milli jórdanskra og ísraelskra yfirvalda. Jórdönsk yfirvöld segja að þarlendur bedúíni hafi fundið bækurnar í helli sem komið hafi í ljós í flóðum einhverntíman á árunum 2005-2007. Bækurnar eru nú í höndum bedúína í Ísrael sem neitar því að hafa smyglað þeim út úr Jórdaníu en segir þær hafa verið í eigu fjölskyldu sinnar í yfir 100 ár. Bækurnar innihalda texta á forn-hebresku sem að mestu leiti er skrifaður á einhverskonar dulmáli. Sterkustu vísbendingar um að hér séu kristnir textar á ferðinni eru samkvæmt Philip Davies, emerítus prófessor við Sheffield háskóla, teikningar af Jerúsalem í bókunum sem innihalda augljós kristin tákn, m.a. T-laga kross sem stendur fyrir framan tóma gröf.

Fréttin breiddist hratt út, enda fréttavefur BBC yfirleitt áræðanlegur, og fréttavefir um allan heim tóku upp fréttina með spekúlasjónum um hverju þessu fundur gæti bætt við þekkingu okkar á píslarsögunni. Á vef morgunblaðsins var fréttin tekin upp samdægurs og þar bætt við að ,,talið [sé] að bækurnar geti breytt skilningi manna á því hvernig Jesús var krossfestur og hvernig hann reis upp frá dauðum.” BBC talaði um opinberunarbók Jóhannesar í lok umfjöllunar sinnar en þar er vísað í innsiglaðar bækur sem geyma leynda dóma.

Fréttir af handritafundum úr frumkristni vekja alltaf athygli og ekki af ástæðulausu því að handritafundir 19. og 20. aldar, sérstaklega í Egyptalandi við hina fornu borg Oxyrhynchus og borgina Nag Hammadi, hafa varanlega breytt þekkingu okkar á frumkristnum hugmyndum. Í þetta sinn bendir þó fátt til annars en að hér sé um fölsun að ræða en slíkar falsanir eru mjög algengar á fornminjamarkaði mið-austurlanda. Fleiri fræðimenn á sviði fornleifa og nýjatestamentisfræði hafa gagnrýnt BBC fyrir óvandaðan fréttaflutning en hafa tekið undir vísbendingar þess eðlis að bækurnar séu ekta. Engar hliðstæður eru um steyptar bækur úr fornöld og listaverkið sem Philip Davies vitnar í inniheldur táknmál krossins sem ekki þekkist í kristinni myndlist fyrr en eftir tíð Konstantínusar keisara á fjórðu öld.

Sú umræða sem frétt BBC hefur hrint af stað í erlendum fjölmiðlum er hinsvegar mjög áhugaverð og sýnir enn og aftur að sagan af Jesú skiptir fólk máli. Ritstjóri breska dagblaðsins The Guardian spurði í leiðaragrein á mánudegi eftir að frétt BBC birtist Hvað vilt þú að hinar nýfundnu bækur segji okkur um söguna af Jesú? Leiðarahöfundur vitnaði í grein sinni í rithöfundinn Kurt Vonnegut (Sláturhús 5) sem lagði til að sagan af Jesú yrði endurskrifuð til að siðferðisboðskapur hennar yrði skýrari. Greinarhöfundar blaðsins tóku áskoruninni og út vikuna birtust svör þeirra um hverju þau myndu vilja bæta við Nýja testamentið. Prófessor í heimspeki við Florida State háskólann í bandaríkjunum, Michael Ruse, reið á vaðið og sagðist vona að hin nýfundnu rit leiði í ljós að Jesús hafi opinberlega lifað samkynhneigðu lífi. Í greininni sem ber heitið Jesús as an openly gay man, lauslega þýtt Jesús kominn út úr skápnum, eru guðspjöllin skoðuð á ný í ljósi þess að Jesús og lærisveinar hans voru hópur samkynhneigðra karlmanna. Í því ljósi breytist merking þeirrar vináttu sem lýst er svo afdrifaríkt í guðspjöllunum, elskaði lærisveinninn í Jóhannesarguðspjalli var ástmaður Jesú, og vinahópur lærisveinanna samfélag homma sem stóð saman í vináttu og ástum andspænis samfélagi sem gat ekki meðtekið kynhneigð þeirra.

Nú veit ég ekki hvort að Michael Ruse er sjálfur samkynhneigður en grein hans er af sama meiði og guðfræði og trúarleg list sem gerir Jesú hluta af hópi sem fer halloka í samfélaginu. Jesús er feministi konum sem berjast fyrir jafnrétti, dökkur á hörund þeim sem þrá útrýmingu kynþáttafordóma og byltingamaður þeim sem þrá réttlátara samfélag. Sú hugmynd að Jesús hafi verið hommi er ekki ný af nálinni en hún er mikilvæg til að opinbera fordóma trúaðra í garð samkynhneigðra. Kristið fólk hefur í hinum vestræna heimi verið helsta hindrun samkynhneigðra í baráttu sinni fyrir viðurkenningu og réttindum. Í bandaríkjunum standa kristnar kirkjur og trúarlegir þrýstihópar í vegi fyrir því að hjónaband samkynhneigðra geti orðið að veruleika og í sinni ljótustu mynd eru haldnar mótmælagöngur þar sem því er haldið á lofti að Guð hati homma. Hér á landi var Þjóðkirkjan á eftir og úr takt við íslensku þjóðina í undirbúningi lagasetningar um ein hjúskaparlög og margra orða sem látin voru falla af forsvarsmönnum kirkjunnar verður minnst sem ljóður á trúverðugleika hennar. ,,Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það? Það er þá til einskis nýtt, menn fleygja því og troða undir fótum.”

Afstaða bókstafshyggjumanna er sú að Biblían taki skýra afstöðu gegn samkynhneigð og af því megi ráða að Guð fordæmi samkynhneigt líferni. Textar í fyrsta kafla Rómverjabréfs eru lesnir þannig að reiði Guðs beinist gegn samkynhneigðum. Þar segir ,,bæði hafa konur breytt eðlilegum mökum í óeðlileg og eins hafa karlar hætt eðlilegum mökum við konur og brunnið í losta hver til annars, karlmenn hafa framið skömm með karlmönnum og tóku svo út á sjálfum sér makleg málagjöld villu sinnar.” Þá eru orð sem Páll notar í upptalningu fyrra Korintubréfs yfir þá sem ekki munu Guðs ríki erfa notuð gegn samkynhneigðum. Í eldri útgáfu íslensku biblíuþýðingarinnar er talað um kynvillinga en í nýrri þýðingu er komist nær merkingu grísku orðanna malakoi og arsenekotai með orðalaginu ,,karlmaður sem lætur nota sig eða notar aðra til ólifnaðar”. Nýjatestamentisfræðingurinn Clarence Glad hefur fjallað ítarlega um þessa texta Páls í íslenskum biblíuþýðingum og merkingu þeirra í samtíðarsögulegu samhengi. Nægir að segja að umfjöllunarefni Páls sé ekki samkynhneigð sem slík heldur byggir hugmyndaheimur hans á lögmálsreglu gyðingdóms sem hann stillir andspænis því sem hann sér sem merki um siðferðishnignun Rómverja.

Páll postuli sá sjálfan sig sem boðbera trúar á hinn upprisna Jesú krist og trúin á hann snýr samkvæmt bréfum hans valdskipulagi og siðferðisviðmiðum samfélagsins á hvolf. Í orðræðu sinni tekur Páll viljandi upp orðnotkun rómverska keisaraveldisins og notar gegn því í boðun hins nýja Guðsríkis. Pistill dagsins, sem tekin er úr þriðja kafla Galatabréfsins, er einn mikilvægasti texti Pálsbréfanna til að skilja boðskap hans. ,,Með því að trúa á Krist Jesú eruð þið öll Guðs börn. Þið öll, sem eruð skírð til samfélags við Krist, hafið íklæðst Kristi. Hér er hvorki Gyðingur né annarrar þjóðar maður, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þið eruð öll eitt í Kristi Jesú. Ef þið eruð í samfélagi við Krist þá eruð þið niðjar Abrahams og erfið það sem honum var heitið.” Innganga í samfélag trúaðra eyðir samkvæmt Páli öllu því sem aðgreinir fólk hið ytra. Með því að íklæðast Kristi verðum við öll eitt, gyðingar og aðrar þjóðir, hinir lægst settu og yfirstéttin, karlar og konur … gangkynhneigðir og samkynhneigðir, tvíkynhneigðir eða transgender.

Kynlíf og kynhneigð Jesú eru ekki viðfangsefni guðspjalla Nýja testamentisins en einn texti veitir mikilvæga vísbendingu um það hvernig Jesús mætir samkynhneigðum. Í Matteusarguðspjalli (Mt 8.5-13) leitar rómverskur hundraðshöfðingi til Jesú og biður hann ,,Drottinn, sveinn minn liggur heima lami, mjög þungt haldinn.“ Eins og kunnugt er bregst Jesús strax við bón hans með orðunum „ég kem og lækna hann“ og hundraðshöfðinginn svarar með orðum sem víða er farið með í messu við brauðsbrotningu: „Drottinn, ég er ekki verður þess að þú gangir inn undir þak mitt. Mæl þú aðeins eitt orð og mun sveinn minn heill verða.” Gríska orðið fyrir svein er í þessari frásögn pais en í almennri notkun var það gæluhugtak fyrir ástmögur, yngri ástmann fullorðins karlmanns. Samkynhneigði hundraðshöfðinginn er í huga Jesú trúarhetja, ,,sannlega segi ég ykkur, þvílíka trú hef ég ekki fundið hjá neinum í Ísrael”. Í stað þess að mæta parinu með fordæmingu mætir Jesús þörf þeirra með sömu virðingu og hann mætir öðrum sem fara halloka í samfélaginu.

Greinaflokkur The Guardian spyr: Hvað vilt þú að hinar nýfundnu bækur segji okkur um söguna af Jesú? Svar mitt er það að ekki þurfi nýfundnar bækur til að skilja söguna af Jesú, heldur ný augu og nýjan lestur. Kristið fólk sem leyfir sér að ala á fordómum í garð samkynhneigðra eða að líta á eigið gangkynhneigða samband sem æðra samböndum homma og lesbía er ekki að fara að fordæmi meistara síns. Barátta samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transgender fólks fyrir viðurkenningu og réttindum er skammt á veg komin í heiminum, þó að mikilvægir áfangasigrar hafi náðst. Ein hjúskaparlög eru mikilvægur áfangi á grýttri braut en sagan kennir okkur að framfarir mannréttinda geta glatast á augabragði.

Grein Michael Muse Jesús kominn út úr skápnum endar með trúarjátningu og í ímynduðum textum blýbókanna er samkvæmt honum von að finna. Í lauslegri þýðingu segir hann í niðurlagi sínu um þá uppgötvun að Jesús hafi verið samkynhneigður: ,,Loks eru mikilvægustu fréttirnar þær að ekkert í hinum nýuppgötvuðu ritum ögrar fagnaðarerindi kristindómsins. Jesús var Kristur, hann dó á krossi fyrir syndir okkar, og veitti okkur fyrir dauða sinn og upprisu hlutdeild í eilífa lífinu. Frumskylda okkar er enn að elska Guð og það gerum við með því að elska náungann eins og okkur sjálf. Kristin trú verður aldrei söm. Kristin trú hefur ekkert breyst.”

Pistill: Gl 3.26-29 Með því að trúa á Krist Jesú eruð þið öll Guðs börn. Þið öll, sem eruð skírð til samfélags við Krist, hafið íklæðst Kristi. Hér er hvorki Gyðingur né annarrar þjóðar maður, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þið eruð öll eitt í Kristi Jesú. Ef þið eruð í samfélagi við Krist þá eruð þið niðjar Abrahams og erfið það sem honum var heitið.

Guðspjall: Lk 12.13-21 Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það? Það er þá til einskis nýtt, menn fleygja því og troða undir fótum. Þér eruð ljós heimsins. Borg, sem á fjalli stendur, fær ekki dulist. Ekki kveikja menn heldur ljós og setja undir mæliker heldur á ljósastiku og þá lýsir það öllum í húsinu. Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar sem er á himnum.