Á hverri árs- og ævitíð

Á hverri árs- og ævitíð

Sumum finnst til dæmis erfitt að verða þrítugir og finna æskuna fjarlægjast sig smátt og smátt. Aðrir upplifa sterkar tilfinningar í gegnum tímamót í lífi barnanna sinna, t.d. þegar þau fermast, taka bílprófið eða flytja að heiman. Og það reynir ekki bara á einstaklinginn með nýjum hætti við hverja breytingu í lífinu. Það getur líka reynt á hjónabandið eins og „afinn“ í sjónvarpinu fékk að ganga í gegnum.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Í aldurskrísu

Hann var býsna brjóstumkennanlegur, um leið og hann var skoplegur, „Afinn“ sem Siggi Sigurjóns túlkaði í gamanmyndinni sem Ríkissjónvarpið sýndi okkur að kvöldi nýársdags. Aðalpersóna myndarinnar nálgast eftirlaunaárin og gengur í gegnum heljarmikla aldurskrísu með tilheyrandi beyglum og uppgjöri í samskiptum við fjölskyldu og vinnufélaga. Það er eins og aldurinn hrynji bara skyndilega yfir manninn og hann viti hreint ekki hvernig hann eigi að fóta sig í tilverunni lengur. Samt er hann alls ekki orðinn gamall. Tölfræðin segir okkur að þeir Íslendingar sem eru svo lánsamir að sleppa við alvarleg veikindi eða slys á lífsleiðinni geti vænst þess að ná þó nokkrum aldri.

En hverju aldursskeiði fylgja sínar áskoranir. „Á hverri árs- og ævitíð/ er allt að breytast fyrr og síð“ eins og við sungum hér á undan. Það er ekki bara bernskan og ungdómsárin sem eru tími þroska og stöðugra breytinga, þó að kannski beri mest á þeim þá. Við getum orðið fyrir því að upplifa aldurskrísur á ólíkum tímapunktum ævinnar. Sumum finnst til dæmis erfitt að verða þrítugir og finna æskuna fjarlægjast sig smátt og smátt. Aðrir upplifa sterkar tilfinningar í gegnum tímamót í lífi barnanna sinna, t.d. þegar þau fermast, taka bílprófið eða flytja að heiman. Og það reynir ekki bara á einstaklinginn með nýjum hætti við hverja breytingu í lífinu. Það getur líka reynt á hjónabandið eins og „afinn“ í sjónvarpinu fékk að ganga í gegnum.

Eitt af verkefnum okkar sem manneskjur er að halda sífellt áfram að læra nýja hluti, þroskast og efla skynbragðið á umhverfi okkar. Í ljósi kristinnar trúar er líka eðlilegt að við leitumst við að rækta með okkur þakklæti fyrir það góða sem okkur er gefið í lífinu, kærleika í garð samferðafólksins og auðmýkt gagnvart sköpunarverkinu og höfundi þess. Um leið glímum við vitaskuld við krefjandi spurningar sem vakna andspænis áföllum eða öðrum erfiðleikum á lífsleiðinni.

Kölluð til góðs

Nátengt þessu er svo annað, sammannlegt verkefni, sem er að finna köllun okkar eða hlutverk í lífinu. Það hlutverk er margþætt og getur verið síbreytilegt. Einn liður í því er það starf sem við sinnum okkur til framfærslu. Þar reynum við að áorka einhverju jákvæðu og vera öðrum til góðs. Siðbótarmaðurinn Marteinn Lúther lagði áherslu á að hver einasta kristin manneskja væri kölluð til að þjóna Guði og náunganum í daglegum störfum sínum. Það skipti bara engu hvort maður væri götusópari, kennari, prestur, bóndi, afgreiðslumaður eða annað, enda væri starf götusóparans ekki á neinn hátt minna virði í augum Guðs en til dæmis starf biskupsins. Öll gætum við litið á starf okkar sem köllun og hefðum þá skyldu að rækja það vel, Guði til dýrðar og öðrum manneskjum til blessunar.

En svo er líka önnur köllun sem er ennþá meira virði að rækja. Við höfum hlutverki að gegna gagnvart okkar nánustu: maka, börnum, foreldrum, vinum, systkinum og öðrum sem standa okkur nærri. Þar er líka gott að spyrja sig reglulega, hvort maður sé á réttri leið og geti verið farvegur blessunar í lífi annarra, enda tekur þetta hlutverk líka stöðugum breytingum ævina á enda. „Á hverri árs- og ævitíð/ er allt að breytast fyrr og síð,“ með orðum sálmsins.

Jesús á þroskabraut

Mér verður stundum hugsað til þess, að það hefði verið áhugavert að vita meira um lífshlaup Jesú Krists en það sem fram kemur í Biblíunni, það er að segja öll árin áður en hann hóf starf sitt. En guðspjöllin eru ekki ævisaga Jesú. Þau segja býsna vel frá fæðingu hans og ýmsu sem tengist henni, eins og jólin minna okkur auðvitað á. Og meginefni guðspjallanna eru svo um það bil þrjú starfsár Jesú, boðun hans og kraftaverk á þeim tíma, dauði hans og upprisa. En af öllum æviárum Jesú þar á milli, frá því að hann var kornabarn og þar til hann hóf boðunarstarf sitt um þrítugt, er bara ein frásögn varðveitt í guðspjöllunum. Við lásum hana hér áðan, þessa sögu um Jesú 12 ára gamlan í musterinu í Jerúsalem, eins og aldagömul hefð kirkjunnar mælir fyrir um að sé gert nú rétt eftir jólin.

Sá eða sú sem er um 12 ára aldur er einmitt staddur á ákveðnu umbrotaskeiði í lífi sínu. Unglingsárin og kynþroskinn eru að hefjast og sjálfsmynd og siðferðisvitund eru í stórstígri þróun. Á tímum Jesú var líka litið svo á að piltur á þessum aldri ætti að takast á við þær skyldur sem fylgdu lögmáli gyðinga, á við fullorðinn karlmann.

Það er þó óvenjulegur 12 ára strákur sem við hittum í musterinu í sögunni. Það er barn, sem smám saman hefur vaknað til vitundar um köllun sína – hlutverk sitt í lífinu. Við hittum þar barn, sem er á leið til unglings- og fullorðinsára í sérstökum tengslum við Guð. Þetta barn skynjar Guð á alveg einstakan hátt sem foreldri sitt, eins og sést af því þegar hann svarar Maríu og Jósef: Hvers vegna voruð þið að leita að mér? Vissuð þið ekki að mér ber að vera í húsi föður míns?

Samt er þetta ekki strákur sem telur sig vita eða kunna allt. Hann hlustar á lærifeðurna í musterinu og spyr þá út úr. Það orðalag er hefðbundið fyrir þann sem er að nema af gyðinglegum lærimeisturum. Við skulum því ekki sjá hinn tólf ára gamla Jesú fyrir okkur sem lítinn hrokagikk sem setur ofan í við gömlu mennina. Við skulum frekar sjá fyrir okkur pilt á þroskabraut, pilt sem hlustar og nemur og íhugar, pilt með einstakt hlutverk í lífinu og einstök tengsl við guðdóminn. Hann er ásjóna Guðs á jörðu, en samt glímir hann við það verkefni að efla stöðugt þroska sinn, eins og segir í guðspjallinu: „Hann þroskaðist að visku og vexti og náð hjá Guði og mönnum.“

Hér getur Jesús líka verið okkur fyrirmynd, þegar við tökumst stöðugt á við allt sem fylgir nýrri lífsreynslu og nýjum tímabilum ævinnar og reynum að feta þar braut þroskans.

Gott sem gamlir kveða

Eitt af því sem einkennir vegferð þroskans hlýtur að vera að við séum tilbúin að gefa gaum að þeim sem eru okkur eldri og í það minnsta íhuga þau lífsviðhorf sem þau hafa tileinkað sér í gegnum tíðina. „Oft er það gott sem gamlir kveða“ er stundum sagt.

Trúlega er enginn þjóðhöfðingi á Vesturlöndum eldri en Elísabet II. Englandsdrottning, og gildir þá einu hvort litið er til lífaldurs eða embættisára. Elísabet verður níræð á þessu nýbyrjaða ári og hefur nú setið á stóli drottningar í ein 64 ár. Að vísu öfunda ég ekki Breta af konungdæmi þeirra með tilheyrandi útgjöldum. En á jóladag ár hvert flytur drottningin þegnum sínum sjónvarpsávarp, og að þessu sinni vakti athygli hversu opinskátt hún vék að hinu kristna inntaki jólanna og í því samhengi að gildi þakklætis, vonar og kærleika.

Í ávarpinu sagði hún meðal annars: Það er rétt að veröldin hefur þurft að horfast í augu við myrkar stundir á þessu ári, en Jóhannesarguðspjall geymir vers mikillar vonar ... : „Ljósið skín í myrkrinu, og myrkrið tók ekki á móti því.“

Og svo minnti Elísabet á að þrátt fyrir allt hefði það til dæmis verið þakkarefni á árinu, að 70 ár voru liðin frá því að seinni heimsstyrjöldinni lauk.

Líf og boðskapur Jesú varð síðan drottningunni að umtalsefni er hún sagði:

Þrátt fyrir að vera jaðarsettur og ofsóttur allt sitt skamma líf snerist hinn óbreytanlegi boðskapur Krists hvorki um hefnd né ofbeldi, heldur einfaldlega um að við ættum að elska hvert annað.

Þó að ekki sé auðvelt að fylgja þessum boðskap ættum við ekki að láta hugfallast, heldur fremur að láta hann veita okkur innblástur til að leggja okkur enn frekar fram; að vera þakklát fyrir fólkið sem færir kærleika og hamingju inn í líf okkar, og að leita leiða til að útbreiða þann kærleika til annarra, hvenær og hvar sem við getum.

Þessi hvatningarorð hinnar öldnu drottningar er gott að íhuga nú þegar við göngum inn í nýja árið. Ungi pilturinn sem við mættum á þroskabraut í guðspjalli dagsins átti eftir að færa okkur sístæðan boðskap og opna okkur leiðina í faðm Guðs. Jesús Kristur er sá klettur, sem við getum byggt líf okkar á, þegar við tökumst á við hvert nýtt ár og hvert nýtt aldursskeið, með öllum sínum breytingum og beyglum.

Á hverri árs- og ævitíð / er allt að breytast fyrr og síð. Þótt breytist allt, þó einn er jafn, / um eilífð ber hann Jesú nafn. – Amen.