Laugardagar og sunnudagar

Laugardagar og sunnudagar

Við erum enn að verja gröf sem ekkert er í nema spilling, úrelt gildi sem við verðum að losa okkur við. Við verðum að flýja frá þessari gröf, eins og hermennirnir forðum, því framtíðin er ekki þar.
fullname - andlitsmynd Guðrún Karls Helgudóttir
12. apríl 2009
Flokkar

Að liðnum hvíldardegi, þegar lýsti af fyrsta degi vikunnar, komu þær María Magdalena og María hin til að líta á gröfina. Þá varð landskjálfti mikill því engill Drottins sté niður af himni, kom og velti steininum og settist á hann. Hann var sem elding ásýndum og klæðin hvít sem snjór. Varðmennirnir skulfu af hræðslu við hann og urðu sem örendir.

En engillinn mælti við konurnar: „Þið skuluð eigi óttast. Ég veit að þið leitið að Jesú hinum krossfesta. Hann er ekki hér. Hann er upp risinn, eins og hann sagði. Komið og sjáið staðinn þar sem hann lá. Farið í skyndi og segið lærisveinum hans: Hann er upp risinn frá dauðum, hann fer á undan ykkur til Galíleu. Þar munuð þið sjá hann. Þetta hef ég sagt ykkur.“

Og þær fóru í skyndi frá gröfinni, með ótta og mikilli gleði, og hlupu að flytja lærisveinum hans boðin. Matt 28.1-8

Laugardagur

Sá sem ég elska er dáinn! Ég sá hann deyja í gær. Hann var tekinn af lífi. Krossfestur. Ég hef oft verið viðstödd krossfestingar en það hefur aldrei verið neinn sem ég þekki á krossinum. Það hefur aldrei verið neinn á krossinum sem ekki var sekur um alvarlegan glæp...eða hvað? Ég veit svo sem ekki hvað ég á að halda um neitt núna, ég veit ekki hvað mér finnst. Ég er mest dofin. Ég get ekki hugsað um annað en að Hann er dáinn og hann er ekki smurður enn. Ég verð að fara að smyrja hann. Við ákváðum að fara saman vinkonur hans og gera það strax við upprisuna, eftir páskahátíðina. Það ætti að vera óhætt. Annars veit ég ekkert hvar hin úr hópnum eru. Það er svo mikill ótti í lofinu eftir það sem gerðist að flestir eru líklega í felum.

Sunnudagur

Ég veit ekki hvernig ég á eiginlega að segja frá þessu þetta er svo ótrúlegt. Hann er lifandi! Hann er ekki dáinn! Ég veit að fáir munu trúa þessu en þetta er jafn satt og að ég stend hér. Hann er lifandi! Hann var búinn að segja að hann myndi rísa upp á þriðja degi en ég hélt að það væri bara eitthvert líkingamál, að hann ætti við eitthvað annað. Hann talaði svo oft í gátum og dæmisögum. Ég vissi að hann væri eitthvað meira og merkilegri en annað fólk! Ég vissi að það væri eitthvað óraunverulegt við hann, eitthvað stórkostlegt. En þetta... Að hann myndi sigra dauðann! Að hann virkilega og sannarlega er Guð! Hann er sá sem hann sagðist vera!

Ég sá hann sjálf. Ég talaði við hann og hann bað okkur að fara að segja hinum frá þessu. Ég verð að viðurkenna að mig langaði ekkert sérstaklega að fara og tala við hin. Hversvegna ættu þau að hlusta á mig. Ég er jú bara kona. Æi, gat hann ekki bara beðið einhvern annan. Hann setti mig í svolítið erfiða stöðu.

En hvað gat ég gert? Auðvitað varð ég að láta hin vita. En að hann skildi treysta mér fyrir þessu, ómerkilegri manneskjunni. Ég gat ekki skorast undan.

En sporin voru erfið á fund hinna. Fyrst þurfti ég að leita að þeim og þegar ég fann þau þá var svolítið erfitt að koma orðum að þessu. Hvernig átti ég að segja þeim að látinn maður væri lifandi. Þau höfðu flest horft á hann deyja. Ég veit svo sem ekki alveg hvort þau trúðu mér. Þau vissu það sjálfsagt ekki sjálf...

Konurnar

Það var ekki lítið lagt á þá konu/konur sem beðnar voru að flytja fréttirnar. Orð kvenna vógu ekki þung á þessum tímum. Orð kvenna voru ómarktæk fyrir dómstólum. Konur voru óvanar því að vera treyst fyrir svo mikilvægum skilaboðum.

Stundum þegar sagt er frá því að komur hafi fyrst frétt af upprisunni og fengið það verkefni að segja hinum frá þessu, þá finnst mér tónninn svolítið vera þannig að þær væru svona hálfgerðar kjaftakellingar, að þær hlypu af stað og segðu hinum frá þessu af miklum eldmóði og með mörgum orðum.

En ég er alls ekki viss um að það hafi verið þannig. Í raun setur Kristur konurnar í mikinn vanda þegar hann biður þær að fara að flytja hinum fréttirnar. Ég gæti trúað því að jáinu þeirra hafi fylgt blendnar tilfinningar.

Auðvitað hafa þær verið að springa af gleði og fögnuði yfir því sem þær hafa orðið vitni að og þær hafa áræðanlega viljað deila því með öðrum eins og við flest viljum þegar eitthvað stórkostlegt gerist.

En þetta var ekki svo einfalt. Það hefur líklega verið afar erfitt fyrir konu, þótt hún hafi verið í innsta hring í kring um Jesú, að þurfa að standa frammi fyrir öllu þessu fólki, öllum þessum karlmönnum og segja svona ótrúlegar fréttir. Ég get ímyndað mér að það hafi til að byrja með verið erfitt fyrir þær að bara ná athygli hinna.

Ekki veit ég hvervegna Jesú valdi að treysta konu eða konum fyrir svo miklu. Kannski var það vegna þess að það voru aðeins konur sem þorðu að koma að gröfinni. Kannski var það vegna þess að þessar konur voru hans nánustu vinir. Ég veit ekki hvort pólitísk réttsýni lá þar að baki. Ég veit ekki ástæðuna. En öllum guðspjöllunum fjórum ber saman um að það var kona eða konur sem fyrst fengu fréttirnar og hlutverkið að láta hina vita, að láta heiminn vita. Ég veit aftur á móti að þetta var ekki auðvelt verkefni sem konurnar fengu. Og að þær skoruðust ekki undan því.

Tómar grafir

Verðirnir sem áttu að verja gröfina flúðu (eða þá að það leið yfir þá af hræðslu, fer eftir því hvaða Guðspjall við lesum).

Það var ekki hægt að grafa Kristindóminn. Það var ekki hægt að grafa Jesú og standa vörð um þá gröf. Og það var alls ekki hægt að verja tóma gröf.

Kristur reis upp og er lifandi. Trúin er svo miklu máttugri, kröftugri en svo að hægt sé að standa vörð um hana eins og hermenn sem verja gröf.

Við verðum því að gæta okkur á því að vera ekki að verja trúna okkar eins og verðirnir áttu að verja gröfina. Trúin okkar er lifandi og við boðum hana vegna þess að við erum stolt af henni. Vegna þess að við erum sannfærð. Ekki vegna þess að við erum að verja gamlan arf sem þegar hefur verið lagður í gröf. Við þurfum það ekki.

Og nú hefur íslenska þjóðin fengið verkefni að vinna sem ég vona að við smá saman þorum öll að segja JÁ við. Þetta verkefni er að reisa landið okkar fallega upp úr þeirri spillingu og siðrofi sem við virðumst hafa fallið í. Því miður þá erum við ekki komin neitt sérstaklega langt í siðbótinni. Það er enn verið að moka skít og það virðist enn vera af nógu að taka.

Spillingin er enn of mikil og margir virðast enn telja hana vera í lagi svo lengi sem ekki kemst upp um hana. Við erum enn að verja gröf sem ekkert er í nema spilling, úrelt gildi sem við verðum að losa okkur við. Við verðum að flýja frá þessari gröf, eins og hermennirnir forðum, því framtíðin er ekki þar.

Hið góða sigrar

Við höfum fengið erfitt verkefni að vinna og spurningin er hvort við höfum sama kjark og konurnar sem komu að gröfinni. Konurnar sem fóru og sögðu frá þessu ótrúlega sem gerst hafði.

Við erum enn að tala um það sem konurnar sögðu frá þennan páskadagsmorgunn. Trú okkar byggir á vitnisburði þessara kvenna.

Hið ótrúlega getur vel gerst.

Ef Kristur gat sigrað dauðann. Ef konurnar gáta staðið frammi fyrir öllum karlmönnunum og sagt frá því. Þá getum við íslenska þjóðin risið upp úr þessari margháttuðu kreppu.

En við getum það ekki af eigin mætti.

Við getum það aðeins með hjálp Guðs.

Við getum það vegna þess að hið góða sigraði hið illa!

Lífið sigraði dauðann.

Guð sigraði og gaf okkur hlutdeild í sigrinum. Hann gaf okkur ekki aðeins persónulegt líf. Hann sýndi okkur að hið góða mun ávalt sigra!

Hættum að verja tómar grafir. Lífið er ekki þar.

Sunnudagur löngu síðar

Ég er 36 ára. Ég á þrjú börn og er tvígift. Maðurinn minn er töluvert eldri en ég og á tvö uppkomin börn.

Ég vinn sem félagsráðgjafi í grunnskóla.

Þegar ég er ekki að vinna þá er ég mest með fjölskyldunni. Við förum í sund, í bíó eða í Húsdýragarðinn. Á kvöldin þykir mér gott að slappa af yfir sjónvarpinu.

Ég á hvorki flatskjá né jeppa. Ég tók reyndar myntkörfulán til þess að geta keypt mér bíl og ég á fullt í fangi með að ráða við að greiða af því núna. Íbúðin mín er á lánum frá Húsnæðismálastofnun og þau hafa hækkað mikið.

Ég er ekki flokksbundin en hef alltaf kosið. Ég býst við að skila auðu í ár.

Við förum ekki í frí til útlanda í sumar því það er orðið svo dýrt og eitthvað verðum við að fækka bíó ferðunum. Ég syng í kirkjukór. Og ég reyni að láta kóræfingarnar ganga fyrir því það eru þær stundir sem gefa mér mest.

Kórinn verður líka til þess að ég mæti stundum í kirkju þangað sem ég sæki andlega næringu.

Kannski er ég María frá Magdala árið 2009.

Dýrð sé Guði föður syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verða mun um aldir alda. Amen.