Forvitni sem lykill að fjölmenningu

Forvitni sem lykill að fjölmenningu

Við sem störfum með ungu fólki verðum að spyrja okkur hvort verið geti að við séum á engan hátt undir það búin að búa einstaklinginn undir að takast á við hið framandi og óskiljanlega. Eða hvernig gengur okkur að samsama okkur fjölhyggjusamfélaginu?

Lestur greinar prestanna Hjalta og Sigrúnar hér á trú.is um kirkju og fjölhyggju vakti hjá mér þörf til að tjá mig eilítið um það efni, svona óbeint að minnsta kosti. Þessi pistill er þó engan veginn viðbrögð við grein þeirra, miklu frekar viðbótarinnlegg. Þannig er að ég hef hin síðustu ár stuðst nokkuð við kenningar dr. Heinz Streib sem er prófessor við Háskólann í Bielefeld í Þýskalandi. Í því samhengi sem Hjalti og Sigrún rita hefur dr. Streib bent á að þörf sé á nýrri tegund samsömunar ásamt því að snúa þurfi framandifælni (e. xenophobia) yfir í forvitni í garð hins framandi. Skoðum það aðeins.

Streib heldur því fram að við sem störfum með ungu fólki séum almennt ekki undir það búin að búa einstaklinginn undir að takast á við hið framandi og óskiljanlega. Ástæðan að baki þessu sé sú að það sem er einum sannleikur sé markað af hans menningarheimi og því reynist öðrum oft erfitt að túlka og skilja þann veruleika. Afleiðingin sé sú að myndin af hinum sem einstaklingurinn dregur upp í huga sér er óskiljanleg, flókin, ruglandi og blandin tilfinningum hins framandi og bjóði upp á misskilning. Þörf sé á nýrri nálgun og þar geti nýtt sjónarhorn, nokkurs konar fyrirbærafræðilegt heimspekisjónarhorn (e. phenomenological philosophical perspective) reynst hjálplegt. Það felur í sér viðsnúning frá því sem fælir og vekur ótta yfir í það sem vekur forvitni þó það sé um leið jafnvel hárbeitt áskorun.

Streib telur að þau hefðbundnu rök að einstaklingurinn þurfi að byggja upp eigin samsömun (e. identity) út frá trúarbrögðum sínum, til dæmis samsömun út frá lútherstrú, til að geta tekist á við fjöltrúarlegan veruleika dugi skammt. Þó svo að slík samsömun byggi á innri sannfæringu skorti að hún sé sett í samhengi. Einstaklingurinn verði að sjá eigin samsömun sem ferli sem stjórnast af opnum hug. Streib vill snúa eldri kenningum við og líta svo á að ferli sem feli í sér upplifun af og þátttöku í fjöltrúarlegu umhverfi geti orðið hluti þeirrar undirstöðu sem samsömun er byggð á.

Tillaga Streibs að nýrri nálgun er fólgin í kenningum um undiröldu trúarviðhorfa eða trúarhætti (e. Religious styles) sem hann skilgreinar svo:

Þátttaka manns (helgisiðir), sálrænn styrkur (tákn) og sá skilningur (frásagnir) á trúarbrögðum sem maður tileinkar sér eru allt aðgreindir þættir trúarhátta sem eiga rætur að rekja til sögu manns og umhverfis. Í gegnum lífið endurspegla þessir trúarhættir reynslu manns af hinum fjölbreyttu birtingarmyndum trúarbragða í samhengi við hvernig maður hagar mannlegum samskiptum.
Streib velur markvisst að tala ekki um þrep eða stig því hann vill undirstrika að ferlið er mótað af undiröldu sem er missterk á hverjum tíma í lífsferli viðkomandi. Hér leggur hann sérstaklega áherslu á að trúarhættirnir mótist af lífsferli og umhverfi einstaklingsins og þá sérílagi fólkinu sem viðkomandi umgengst og því hvernig viðkomandi umgengst það.

Hér greinir Streib fimm undiröldur sem móta trúarhætti viðkomandi og eru á hverjum tíma allar til staðar, aðeins missterkar:

  1. Sú hlutdræga (e. subjective)
  2. Sú sjálflæga (e. instrumental-reciprocal)
  3. Sú gagnkvæma (e. mutual)
  4. Sú einstaklings- og kerfisbundna (e. individuative-systemic)
  5. Sú samræðulega (e. dialogical)
Dr. Heinz Streib: Religious Styles

Og Streib telur að vel sé líklegt að eftir því hversu sterkt viðkomandi öldur séu ráðandi í lífi einstaklings verði hann öfgabókstafstrúar (e. fundamental) eða öðlist fjöltrúarlega færni. Á myndinni hér fyrir ofan gefur að líta þá sýn sem Streib hefur á þessar öldur. Í þessu samhengi bendir dr. Streib á að nálgun einstaklingsins gagnvart þvertrúarlegri samræðu byggi á því hvaða undiralda sé sterk hjá þeim einstaklingi. Þannig sé líklegt að einstaklingur sem býr við sterka hlutdræga undiröldu fylgi trú sinni í blindni og sé hallur undir öfgabókstafstrú, mæti öllu sem kemur frá öðrum trúarbrögðum fullur framandifælni og kunni aðeins að nota þvertrúarlegan vettvang til að halda einræður um ágæti eigin trúarbragða í þeirri viðleitni að fá alla aðra á sömu skoðun.

Fjöltrúarleg færni felist hins vegar í því að byggja upp samræðuölduna þannig að einstaklingurinn ráði við að skipta um sjónarhorn, sjá hið framandi sem áhugaverða áskorun og skilja sjálfan sig sem einstakling sem aðrir geti skilgreint sem þeim framandi.

  • Megininntak þessa pistils hef ég áður birt í bók minni "Samtal við framandi" kafla 1.2.2.
  • Grein dr. Streibs um þetta efni er aðgengileg á vef Háskólans í Bielefeld.