Nú er þörf fyrir einingu og samhug

Nú er þörf fyrir einingu og samhug

Bæði ég sem forseti kirkjuþings og milliþinganefnd um þjóðkirkjufrumvarpið viljum leggja okkar lóð á vogarskál þess að betri eining skapist innan þjóðkirkjunnar en verið hefur með því að leggja þetta ágreiningsmál til hliðar
fullname - andlitsmynd Pétur Kristján Hafstein
06. febrúar 2012

Sennilega hefur aldrei verið brýnni þörf fyrir einingu og samhug í þjóðkirkjunni. Eins og kunnugt er hefur frumvarp til nýrra þjóðkirkjulaga verið í undirbúningi um skeið. Einn helsti ásteitingarsteinninn í því frumvarpi er ákvæði þess efnis að prestar og biskupar hætti að vera embættismenn ríkisins samkvæmt lögum en verði þess í stað embættismenn þjóðkirkjunnar. Bæði ég sem forseti kirkjuþings og milliþinganefnd um þjóðkirkjufrumvarpið viljum leggja okkar lóð á vogarskál þess að betri eining skapist innan þjóðkirkjunnar en verið hefur með því að leggja þetta ágreiningsmál til hliðar. Um þetta sagði ég við setningu aukakirkjuþings laugardaginn 4. febrúar síðastliðinn:

„Nú eru átakatímar í þjóðkirkjunni. Fyrir dyrum standa margvíslegar breytingar á skipulagi og stjórnarframkvæmd, meðal annars í frumvarpi að nýjum þjóðkirkjulögum sem nú er til umræðu og kynningar á vettvangi kirkjunnar. Kirkjan er þar að kalla eftir meiri sjálfsákvörðunarrétti og samfara því að sjálfsögðu meiri ábyrgð, ekki síst kirkjuþings. Þjóðkirkjan hefur orðið fyrir þeirri ágjöf að traust til hennar hefur beðið nokkurn hnekki. Það er brýnasta verkefni kirkjunnar um þessar mundir að endurheimta traust og trúnað og ná til þeirra sem af einhverjum ástæðum hafa ekki talið sig lengur eiga samleið með þjóðkirkjunni. Þetta gerist ekki í einni hendingu og ekki með því einu að kjósa nýja biskupa. Hér verður allt kirkjunnar fólk að leggjast á eitt, ekki síst kirkjuþing, sem verður á hverjum tíma að leita allra leiða til að styrkja ásýnd og stöðu þjóðkirkjunnar í samfélaginu, trúverðugleika hennar og heilindi.

Á þeim umbrotatímum, sem framundan eru, verða allir að leggja sitt af mörkum til að efla einingu og samheldni kirkjunnar manna. Ég hef sagt það fullum fetum að skortur á samstöðu og skilningi, á hollustu og umburðarlyndi innan kirkjunnar eigi drjúga sök á því að traust á þjóðkirkjunni hafi farið þverrandi. Ég hef sagt að við ættum að verða við áskorun séra Matthíasar Jochumssonar og senda „út á sextugt djúp sundurlyndisfjandann!” Sumir hafa kosið að túlka þessa hvatningu mína sem tilburði til þöggunar, viðleitni til að drepa í dróma lífræn skoðanaskipti og gagnrýni á það sem betur megi fara í kirkjunni. Ég læt mér það í léttu rúmi liggja en ekkert er þó fjær sanni.

Mér er ljóst að þær tillögur sem fram koma í frumvarpi til nýrra þjóðkirkjulaga þess efnis að biskupar og prestar verði ekki lengur embættismenn ríkisins heldur embættismenn þjóðkirkjunnar hafa mætt mikilli andstöðu af hálfu mjög margra í hópi hinna vígðu þjóna kirkjunnar og valdið óróa og ótta um versnandi hag og stöðu. Ég ber fulla ábyrgð á því að hafa lagt tillögu um þetta fyrir milliþinganefnd um þjóðkirkjufrumvarpið og fengið nefndina til að fylgja henni fram. Ég er að vísu sannfærður um að einmitt þetta muni framtíðin bera í skauti sínu eftir því sem hinni sjálfstæðu íslensku þjóðkirkju vex fiskur um hrygg. Engu að síður tel ég nú óhjákvæmilegt að horfast í augu við það að deilur um slíka breytingu verði að víkja fyrir brýnni hagsmunum þjóðkirkjunnar af samstöðu og samtakamætti við það mikla verkefni að kirkjan nái vopnum sínum og endurheimti glatað traust. Þörfin fyrir einingu og samhug er aldrei brýnni en nú þegar stöðu kirkjunnar sem þjóðkirkju í stjórnarskrá lýðveldisins hefur verið teflt í tvísýnu. Ég hef því í gær lagt fyrir milliþinganefnd um þjóðkirkjufrumvarpið og fengið einróma samþykki við þá tillögu að horfið verði frá þessu ráði við tillögugerð um ný þjóðkirkjulög. Þess í stað verði allt kapp lagt á að ná sem allra víðtækastri samstöðu um þjóðkirkjufrumvarpið að öðru leyti og fylgja því fram til samþykktar á næsta kirkjuþingi í haust og afgreiðslu á Alþingi á komandi vetri.”