Varist falsspámenn

Varist falsspámenn

Gleðilega hátíð! Ég samfagna sóknarpresti og sóknarnefnd og sóknarbörnum Borgarkirkju yfir vel unnu verki hér. Borgarkirkja hefur hlotið gagngera endurbót og skartar nú sínu fegursta. Þökk sé þeim sem hér hafa lagt hollan hug og hagar hendur að góður verki af svo mikilli alúð og listfengi að unun er á að líta. Og þökk öllum þeim sem á einn eða annan hátt hafa lagt þessu verkefni lið, og þeim sem bera þennan helgidóm og iðkun hans uppi. Guð launi það og blessi allt.

Varist falsspámenn. Þeir koma til yðar í sauðaklæðum, en innra eru þeir gráðugir vargar. Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá. Hvort lesa menn vínber af þyrnum eða fíkjur af þistlum? Þannig ber sérhvert gott tré góða ávöxtu, en slæmt tré vonda. Gott tré getur ekki borið vonda ávöxtu, ekki heldur slæmt tré góða ávöxtu. Hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og í eld kastað. Af ávöxtum þeirra skuluð þér því þekkja þá.

Ekki mun hver sá, sem við mig segir: Herra, herra, ganga inn í himnaríki, heldur sá einn, er gjörir vilja föður míns, sem er á himnum. Margir munu segja við mig á þeim degi: Herra, herra, höfum vér ekki kennt í þínu nafni, rekið út illa anda í þínu nafni og gjört í þínu nafni mörg kraftaverk? Þá mun ég votta þetta: Aldrei þekkti ég yður. Farið frá mér, illgjörðamenn. (Matt.7.15-23)

I

Gleðilega hátíð! Ég samfagna sóknarpresti og sóknarnefnd og sóknarbörnum Borgarkirkju yfir vel unnu verki hér. Borgarkirkja hefur hlotið gagngera endurbót og skartar nú sínu fegursta. Þökk sé þeim sem hér hafa lagt hollan hug og hagar hendur að góður verki af svo mikilli alúð og listfengi að unun er á að líta. Og þökk öllum þeim sem á einn eða annan hátt hafa lagt þessu verkefni lið, og þeim sem bera þennan helgidóm og iðkun hans uppi. Guð launi það og blessi allt.

Það er ekki mikið hátíðabragð í guðspjalli dagsins, heldur alvöruþrungin viðvörun. Orðin eru úr niðurlagi Fjallræðunnar. Þeirrar undursamlegu ræðu sem hefst á sæluboðunum óviðjafnanlegu: Sælir eru fátækir í anda, sælir eru miskunnsamir, sælir eru hjartahreinir, osfrv, þú kannast við það. Í þeirri ræðu talar sá máttur sem skapaði himinn og jörð og gaf þér lífið. Í orðum Jesú finnum við hjartaþelið hlýja sem er að baki allri tilveru. Miskunnsemin sem nam staðar hjá Bartímeusi blinda og bersyndugu konunni, bað fyrir böðlum sínum, kenndi gullnu regluna og sæluboðin - það er Guð sem mælir sitt eilífa umskapandi, endurleysandi ástarorð; Allsherjar Drottinn, mátturinn æðsti, sem þú mátt biðja og ákalla í barnslegri einlægni og trausti „Faðir vor“ „Vertu Guð, faðir, faðir minn ...“ Þess vegna hlustum við líka eftir þegar hann varar við.

Það er mikill áhersluþungi í orðum guðspjallsins: Það er sársauki í rödd hans, eins og móður sem hrópar á barn sitt þegar hún sér það ana í blindni út í ófæruna, hlaupa út á götu eða seilast í átt að brennheitum ofni. Jesús varar við. Það er alvara á ferðum, önnur leið. Fals- spámenn, röng, afvegavillt trú, vís vegur til hruns og glötunar. „Af ávöxtunum munuð þér þekkja þá.“ Á öðrum stað segir Jesús um sjálfan sig: „Ég er sannleikurinn.“ Og „Ef þér eruð stöðugir í orði mínu, eruð þér sannir lærisveinar mínir og munuð þekkja sannleikann og sannleikurinn muna gjöra yður frjálsa.“

II

Spámenn eru víða á ferðum. Ekki skortir þá sem flytja boðskap í nafni æðri máttarvalda, - og valdið æðsta sem skírskotað til er til dæmis almenningsálitið eða tíðarandinn. Allt það sem kennir og boðar að það sé auðveld leið til gæfunnar, að hamingjan sé fólgin í því að líða vel og líta vel út og vera hress og láta sig engu varða náungann, lífið, umhverfið, nema að því marki sem við gætum fengið eitthvað út úr því, grætt á því. Allt sem segir: „Enginn Guð!“ Allt sem segir: „Allt er jafngilt, allt er afstætt, allt er falt og allt til sölu, Ekkert er heilagt, nema réttur hins sterka, og rétturinn að græða.“ -„Fals!“ segir Kristur, blekking, lífsfjandsamleg, eyðandi, jafnvel þótt merkimiðarnir séu glæsilegir og umbúðirnar traustvekjandi. „Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá“ - og ávextirnir eru þegar best lætur plat, en geta líka verið banvænir. Og það er til trú sem leiðir afvega, trú sem birtir torkennilega guðdóma og sið sem leggur ánauðarok á fólk og ber ávexti ánauðarhelsis, ranglætis.

Um daginn var ég staddur í Jórvík á Norður Englandi, og þá varð mér hugsað hingað og til þessarar stundar í Borgarkirkju. Ég gekk um slóðir Egils, í borg sem á dögum hans var miðstöð kristinnar siðmenningar, mennta og lærdóms í Norður Evrópu. Þegar Egill var í haldi Eiríks konungs blóðaxar að berja saman Höfuðlausn, þá barðist hið kristna samfélag, og hin kristna menning í norður Englandi fyrir lífi sínu. Þeir félagar, Egill og Arinbjörn voru þar um slóðir hryðjuverkamenn, sem einskis svifust og engu eirðu.

Á sama tíma og sú ógn steðjaði að norðurálfunni barðist hin kristna Evrópa við sókn Íslam í suðri. Mátti litlu muna að hálfmáninn bæri sigurorð af krossinum þá. En því var afstýrt. Og hér norðurfrá? Við þekkjum þá sögu.

III

Egilssaga, sú stórbrotna saga, er rituð af sjónarhóli kristinnar kirkju, til að sýna fjörbrot hinnar heiðnu menningar, sið hefndanna, lögmáls endurgjaldsins. Blindgata heiðinnar trúar, menningar og siðar sést berlega í snilldarlegri lýsingu Eglu af drukknun Böðvars. Þar mætir vígamaðurinn ofurefli, sem hann er gjörsamlega varnalaus fyrir: heljarhrammi harmsins. Meginstef heiðninnar er afl og kraftur, blóð og mold, máttur og megin, og sæmd og heiður, blóðhefndir. En Egill stendur andspænis því ofurefli sem hann á engin vopn til að vinna á, afli dauðans, já, og afli kærleikans, ástarinnar. Hetjan er varnalaus gagnvart því og vill gefa allt frá sér í algjörri uppgjöf andspænis ofureflinu. Hann vill flýja af hólmi. En Þorgerður, dóttir hans snýr á hann og hvetur hann til að yrkja sig frá sorginni, tjá ást sína og sorg. Sonartorrek.

Þarna verður hún sem táknmynd hins nýja siðar í sögunni. Eiginkona Ólafs pá. Hún var „væn kona og kvenna mest, vitur og heldur skapstór en hversdagsliga kyrrlát,“ segir höfundur Eglu. Hún bendir Agli á hina ágætari leið gegnum sorg og vanmátt lífsins, leið kærleikans. „Sælir eru sorgbitnir, því að þeir munu huggaðir verða.“

Ég held það hafi verið Halldór Laxness sem benti á að það sé vafalaust meira afrek en landafundir víkinganna að Egill skyldi finna leiðina að sínu eigin hjarta. Ég er ekki í vafa um það að mesti sigur í gjörvallri sögu Vesturlanda, hafi verið þegar norræni víkingurinn tók kristni, þegar andi Krists rýmdi burt anda haturs og hefnda, þegar gullna reglan tók við af lögmáli æru og endurgjalds, þegar kristin kirkja skírði heiðna menningu norrænna manna og ummyndaði svo hún bar þann dýrmæta ávöxt sem við hyllum enn og mærum í mannúð og menningu. Það var ekki sjálfsprottið, fyrirhafnarlaust. Það var ávöxtur ræktar og markviss uppeldis í orði Guðs og bæn.

Sonur víkingsins, Þorsteinn Egilsson, reisti hér fyrst kirkju á föðurleyfð sinni, Borg. Hún var helguð heilögum Mikael, erkiengli, sem fremstur stendur í baráttu ljóssins gegn hinum illa vilja og valdi myrkursins. Hér hefur æ síðan verið kristinn helgidómur, bænastaður, sem beint hefur sjónum til birtunnar frá Betlehem. Vé sannleikans og lífsins, hins heila, sanna, iðkun þess og vera er vitnisburður um vilja Guðs, „hið góða, fagra og fullkomna.“ Kynslóð eftir kynslóð á Íslandi hefur helgast Kristi og trúnni á hann og siðaboðskap hans. Og það er hjartað í íslenskri menningu og sið, trúin á Krist og fagnaðarerindi hans.

IV

Hvað nú? Hver er framtíð kristni? Hvað um niðja okkar, börn okkar og afkomendur? Hver verður þeirra trú? Mun Islam leggja álfuna undir sig? Kristni hopar í Evrópu. Fyrir Islam og fyrir guðleysi og tómhyggju. Hvað þarf til að snúa þeirri þróun við? Eða er okkur alveg sama? Ég vona ekki.

Svo getur farið að tilbeiðsla og helgihald kristninnar hverfi, deyi. Það gerist ef við höldum ekki vöku okkar. „Kristin trú og siður er alltaf einni kynslóð frá útrýmingu,“ sagði merkur maður eitt sinn. Það er vafalaust rétt. Ef börnin okkar læra ekki að biðja, ef enginn er til að kenna þeim „faðir vor“ og boðorðin og að elska Guð og biðja. Svo einfalt er það. Ef þeir sem ráða málum okkar átti sig ekki á því að kristin kirkja, kristinn siður, er fjörafl lífs og menningar og athvarf og afl samfélags sem styrkir grundvöll hins góða lífs og heilla þjóð og landi. Ef við bregðumst þá er úti um trú og sið í landi.

Kirkjan má ekki verða minjasafn, vörður við veginn í minningu um veröld sem var, kristinn söfnuður má ekki verða afkimi menningar. Trúin má ekki vera einber hátíðatrú sem að okkur hvarflar annað veifið þegar vel stendur á og þannig viðrar, heldur hversdagstrú, lifandi af á daglegri för. Bæn og iðkun í dagsins önn og yndi. Viðleitni að þekkja Jesú Krist og vera þekktur af honum, að þekkja hann betur og elska í verki og sannleika og fá að heyra af vörum hans við leiðarlok, þetta sem skírnin vitnar um og minnir á: Ég þekki þig. Þú ert minn!

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun á 8. sunnudegi eftir þrenningarhátíð. Flutt að Borg á Mýrum, 21. Júlí 2002.